Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 12/2004

Mánudaginn, 20. september 2004

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

  

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir, hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 11. mars 2004 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 3. mars 2004.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dags. 3. desember 2003 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Þann 28. febrúar 2000 flutti ég til B-lands með það fyrir augum að hefja nám við H-skóla eftirfarandi haust. Ástæðan fyrir því að ég flutti svona tímanlega til B-lands var sú að ég hafði hugsað mér að vinna um sumarið í B-landi til að læra tungumálið betur og koma mér fyrir áður en námið hófst. Ég hafði að auki fengið ábendingu frá vinum að það gæti orðið erfitt fyrir námsmann að útvega sér húsnæði í E-borg, sem var einnig ástæða fyrir því að ég flutti tímanlega erlendis. Ég hóf störf 1. apríl 2000 við F og lauk störfum í lok júlí 2000 til að hefja undirbúning að náminu og var sá undirbúningur að hluta planlagður af skólanum (svokallað intro) (sjá meðfylgjandi aukaskjal; „G-skjal“).

Þann 10/10 2003 sótti ég um fæðingarstyrk námsmanna vegna fæðingar dóttur minnar, sem var á þeim tímapunkti áætluð 3. nóvember 2003. Ég fékk synjun við þessari beiðni. Rökin fyrir úrskurðinum var að ég hefði ekki flutt til B-lands með það fyrir augum að hefja nám, heldur til þess að vinna fyrir mér. Eins og áður hefur verið sagt er þetta ekki tilfellið, heldur flutti ég til B-lands með það fyrir augum að hefja nám. Til að færa rök fyrir þessu sendi ég aukaskjal „D-skjal“ þar sem kemur fram að ég hafi allan tímann ætlað mér að flytja til baka til Íslands að námi loknu. Til að sýna fram á að áætlun mín hafi ávallt verið að flytja til B-lands vegna náms, færi ég það einnig sem rök fyrir máli mínu að til að komast í nám í B-landi þurfa íslenskir ríkisborgarar að sækja um námið fyrir 15. mars ár hvert. Þetta var einnig tilfellið árið 2000, þannig að ég sótti um að komst inn í H-skóla fyrir þann tíma, sem mér finnst sýna nægilega vel fram á að ég flutti lögheimili utan vegna náms, en ekki til að fara á B-lenskan vinnumarkað.

Eftir að ég fékk synjun frá Tryggingastofnun athugaði ég hver réttindi mín væru í B-landi og komst að raun um að þau væru engin, sjá meðfylgjandi aukaskjal; „I-skjal“ Þar kemur fram að til að geta fengið greiðslu til foreldris utan vinnumarkaðar þarf maður að þiggja svokallaðan J-styrk eða vera meðlimur af svokölluðum K. Ég er hvorugt, eins og kemur fram af skjalinu og hef því ekki rétt á þessari greiðslu.

Samkvæmt 18. gr. ffl. Eiga foreldrar sem eru utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi rétt á fæðingarstyrk og að jafnaði er skilyrði að foreldri eigi lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafi átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir fæðingardag.

Í 1. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar segir: „Rétt til fæðingarstyrks á foreldri sem er utan vinnumarkaðs, í minna en 25% starfi eða í námi að því tilskildu að foreldrið hafi átt lögheimili hér á landi við fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og síðustu 12 mánuðina þar á undan. Skilyrði um lögheimili er í samræmi við það búsetuskilyrði sem sett er fyrir rétti til að teljast tryggður samkvæmt lögum um almannatryggingar.“

Í 13. gr. reglugerðarinnar segir: „Tryggingastofnun ríkisins er, þrátt fyrir skilyrði 12. gr. heimilt á grundvelli umsóknar að greiða fæðingarstyrk til foreldris sem hefur flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis, enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning.

Skilyrði samkvæmt ákvæði þessu er að fyrir liggi yfirlýsing frá almannatryggingum í búsetulandi um að foreldri eigi ekki rétt á greiðslum vegna fæðingar, ættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur í því ríki. Ef fyrir hendi er réttur úr almannatryggingum í búsetulandi sem er lakari en sá réttur sem námsmaður á rétt til hér á landi er Tryggingastofnun ríkisins heimilt, þrátt fyrir skilyrði 2. mgr. að greiða mismun sem því nemur.“

Með grunn í 18. gr. ffl., 1. mgr. 12. gr. ffl. og 13. gr. ffl. óska ég eftir höfnun á synjun Tryggingastofnunar ríkisins og greiðslu á fæðingarstyrk sem foreldri utan vinnumarkaðar. Ég vona að málið fái skjóta afgreiðslu vegna slakrar fjárhagsstöðu okkar.“

 

Með bréfi, dags. 1. apríl 2004, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 3. maí 2004. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er synjun á fæðingarstyrk námsmanna skv. 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) á grundvelli undanþáguákvæðis 13. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000.

Kærandi, sem hefur samkvæmt þjóðskrá Hagstofu Ísland verið með lögheimili í B-landi frá 28. febrúar 2000, sótti með umsókn, dags. 10. október 2003, um fæðingarstyrk námsmanna vegna áætlaðrar fæðingar barns 1. nóvember 2003. Með umsókn hans fylgdu afrit út mæðraskýrslu og staðfesting frá H-skóla um námsframvindu kæranda frá hausti 2000 til vors 2003. Eftir tölvupóstssamskipti milli kæranda og lífeyristryggingasviðs bárust frá kæranda þann 1. desember 2003, staðfesting H-skóla, dags. 28. nóvember 2003, þess efnis að kærandi hefði hafið nám við skólann í september 2000, staðfesting frá lánasjóði íslenskra námsmanna og staðfesting frá E, dags. 26. nóvember 2003, þess efnis að kærandi ætti ekki rétt á greiðslum í fæðingarorlofi í B-landi.

Í áðurnefndum tölvupóstssamskiptum kæranda og lífeyristryggingasviðs kom m.a. fram að kærandi hafi flutt til B-lands árið 2000 og starfað þar í u.þ.b. 4-5 mánuði á L.

Kæranda var með bréfi, dags. 3. desember 2003, synjað um greiðslu fæðingarstyrks námsmanna á grundvelli þess að kærandi hafi verið í starfi í B-landi í fjóra til fimm mánuði áður en nám hans hófst og verði því ekki litið svo á að hann hafi flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. ffl. eiga foreldrar í fullu námi rétt á fæðingarstyrk. Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. er það að jafnaði skilyrði fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi að foreldri eigi lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafi átt lögheimili hér síðustu 12 mánuði fyrir fæðingardag. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 14. gr. áðurnefndrar reglugerðar nr. 909/2000, en þar kemur fram að fullt nám í skilningi ffl. teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almanna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Enn fremur að heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 12. gr. eða undanþáguákvæði 13. gr. reglugerðarinnar.

Í hinu svonefnda undanþáguákvæði 13. gr. reglugerðarinnar segir í 1. mgr. að Tryggingastofnun ríkisins sé, þrátt fyrir lögheimilisskilyrði 12. gr., heimilt á grundvelli umsóknar að greiða fæðingarstyrk til foreldris sem hafi flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis, enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning. Í 2. mgr. er sett það skilyrði að fyrir liggi yfirlýsing frá almannatryggingum í búsetulandi um að foreldri eigi ekki rétt á greiðslum vegna fæðingar barns í því ríki. Þá er í 3. mgr. kveðið á um að ef fyrir hendi sé réttur úr almannatryggingum í búsetulandi sem sé lakari en sá réttur sem námsmaður eigi rétt á hér á landi sé Tryggingastofnun ríkisins heimilt, þrátt fyrir skilyrði 2. mgr., að greiða mismun sem því nemur.

Í 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 909/2000 segir að skilyrði um lögheimili sé í samræmi við það búsetuskilyrði sem sett er fyrir rétti til að teljast tryggður samkvæmt lögum um almannatryggingar. Í I. kafla A. laga um almannatryggingar nr. 117/1993 (atl.) er kveðið á um hverjir skuli tryggðir skv. lögunum. Þar segir í 9. gr. a. að sá sem sé búsettur hér á landi teljist tryggður að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna, nema annað leiði af milliríkjasamningum og að með búsetu sé átt við lögheimili í skilningi lögheimilislaga. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. c atl., sbr. 1. gr. laga nr. 74/2002, er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að ákveða samkvæmt umsókn að einstaklingur sem tryggður er samkvæmt lögunum sé áfram tryggður þótt hann uppfylli ekki skilyrði 9. gr. a, enda dveljist hann erlendis vegna náms og sé ekki tryggður í almannatryggingum námslandsins. Sama gildir um maka hans sem var tryggður hér á landi við upphaf námsins og börn námsmannsins undir 18 ára aldri sem með honum dveljast. Í 9. gr. d atl., sbr. 1. gr. laga nr. 59/1998, segir að ráðherra setji reglugerð um einstök atriði varðandi framkvæmd ákvæðanna, m.a. um skráningu Tryggingastofnunar ríkisins á tryggingaréttindum einstaklinga og hvað telja skuli viðurkennt nám erlendis.

Í 2. mgr. 15. gr. reglugerðar um framkvæmd almannatrygginga og skráningu í tryggingaskrá nr. 463/1999 er að finna svohljóðandi skilgreiningu á því hver sé námsmaður: „Með námsmanni í þessari reglugerð er átt við einstakling, annan en launþega eða sjálfstætt starfandi einstakling, sem er við nám eða starfsþjálfun er lýkur með útgáfu vottorðs um menntun sem viðurkennt er af yfirvöldum“. Þessi skilgreining á því hver geti notið réttinda sem námsmaður og það skilyrði að viðkomandi einstaklingur sé ekki launþegi eða sjálfstætt starfandi einstaklingur er í samræmi við þá meginreglu 13. gr. reglugerðar (EBE) nr. 1408/71 um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra sem flytjast milli aðildarríkja, að einstaklingur sé tryggður í því landi sem hann er ráðinn til starfa í.

Kærandi flutti, eins og áður er getið, lögheimili sitt til B-lands í lok febrúar 2000 og hóf störf þar að eigin sögn 1. apríl. Varð hann þar með tryggður í almannatryggingum þar í landi. Þegar hann hóf síðan nám í B-landi í september 2000 fullnægði hann þannig ekki skilyrðum 9. gr. c. atl. fyrir því að heimilt væri að ákveða að hann væri áfram tryggður hér á landi. Þar af leiðandi uppfyllir hann ekki heldur það skilyrði 13. gr. reglugerðar nr. 909/2000 að hafa flutt lögheimili sitt vegna náms.

Verði ekki á það fallist að kærandi þegar af framangreindum ástæðum ekki uppfyllt skilyrði 13. gr. reglugerðar nr. 909/2000 skal á það bent að í gögnum málsins er hvorki að finna umsóknir né önnur gögn því til staðfestingar að tilgangur lögheimilisflutnings kæranda í febrúar 2000 hafi verið tímabundinn flutningur vegna þess náms sem kærandi hóf í september 2000. Af þeim sökum telur lífeyristryggingasvið jafnframt að ekki sé unnt að fallast á uppfyllt sé skilyrði 13. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um undanþágu frá lögheimilisskilyrðinu.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 11. maí 2004, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki. Einnig var með bréfi dags. 23. júní 2004 óskað eftir nánari upplýsingum og staðfestingu á því að kærandi hafi flutt til B-lands vegna fyrirhugaðs náms. Frekari upplýsingar bárust ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eiga foreldrar í fullu námi rétt til fæðingarstyrks. Samkvæmt 7. mgr. 19. gr. ffl. er ráðherra heimilt að kveða í reglugerð nánar á um framkvæmd ákvæðisins og í 35. gr. ffl. er félagsmálaráðherra heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd laganna. Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks sem sett er samkvæmt heimild í 35. gr. ffl. er kveðið á um að fullt nám teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Heimilt er að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 12. gr. eða undanþáguákvæði 13. gr. reglugerðarinnar.

Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. framangreindrar reglugerðar er réttur námsmanns til fæðingarstyrks bundinn því skilyrði að foreldri hafi átt lögheimili hér við fæðingu barns og síðustu 12 mánuðina þar á undan. Í 1. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins sé, þrátt fyrir 12. gr., heimilt á grundvelli umsóknar að greiða fæðingarstyrk til foreldris sem hefur flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis, enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning.

Samkvæmt gögnum málsins flutti kærandi lögheimili sitt til B-lands 28. febrúar 2000. Hann hóf störf við F 1. apríl sama ár. Um haustið 2000 hóf hann síðan nám við H-skóla.

Í gögnum málsins liggur ekki fyrir staðfesting á því hvenær kærandi sótt um námsvist við H-skóla eða fyrirætlunum hans að öðru leyti áður en hann flutti lögheimili sitt og hóf störf í B-landi.

Með hliðsjón af því þykir ekki nægjanlega staðfest að tilgangurinn með flutningi lögheimilis kæranda til B-lands hafi verið nám hans í H-skóla. Hann uppfyllir því ekki skilyrði 13. gr. reglugerðarinnar um undanþágu frá lögheimilisskilyrði 12. gr.

Með hliðsjón af framangreindu, er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um synjun á greiðslu fæðingarstyrks námsmanns, staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta