Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 154/2015 - endurupptaka

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Miðvikudaginn 31. ágúst 2016

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags. 20. maí 2015, kærði B lögfræðingur, f.h. A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga upphafstíma örorkumats Tryggingastofnunar ríkisins frá 25. febrúar 2015.

Úrskurðað var í málinu þann 16. desember 2015 þar sem úrskurðarnefnd almannatrygginga staðfesti upphafstíma örorkumats Tryggingastofnunar. Í kjölfarið kvartaði kærandi til umboðsmanns Alþingis yfir ákvörðun úrskurðarnefndarinnar. Með bréfi, dags. 27. maí 2016, óskaði umboðsmaður Alþingis eftir gögnum frá úrskurðarnefnd almannatrygginga í máli kæranda og með bréfi, dags. 29. júní 2016, óskaði hann eftir svörum nefndarinnar um tiltekin álitaefni.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd almannatrygginga, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Heimild til að framlengja skipunartíma úrskurðarnefndar almannatrygginga í allt að sex mánuði til að ljúka málum sem hún hafði tekið til efnismeðferðar er enn fremur útrunnin, sbr. ákvæði til bráðabirgða II í lögum nr. 85/2015.

Úrskurðarnefnd velferðarmála fór yfir gögnin í máli kæranda í kjölfar fyrirspurnar umboðsmanns Alþingis og ákvað að endurupptaka málið. Kæranda var greint frá þeirri ákvörðun með bréfi, dags. 11. ágúst 2016.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með örorkumati frá 12. mars 2013 var kæranda metinn örorkustyrkur frá 1. febrúar 2013 til 31. janúar 2015. Með umsókn, dags. 25. ágúst 2014, sótti kærandi um örorkulífeyri á ný. Með örorkumati frá 29. september 2014 var kæranda metinn örorkustyrkur frá 1. febrúar 2015 til 30. september 2017. Sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndar almannatrygginga með kæru, dags. 14. október 2014. Með úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga nr. 292/2014, dags. 4. febrúar 2015,  var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins felld úr gildi og fallist á að skilyrði 75% örorku væru uppfyllt. Málinu var vísað aftur til stofnunarinnar til ákvörðunar á tímalengd greiðslu örorkulífeyris. Með örorkumati frá 25. febrúar 2015 var kæranda metinn örorkulífeyrir frá 1. október 2014 til 30. september 2016.

Kæra barst úrskurðarnefnd almannatrygginga þann 22. maí 2015. Úrskurðarnefnd almannatrygginga óskaði eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins með bréfi, dags. 28. maí 2015. Greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins barst með bréfi, dags. 11. júní 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 6. ágúst 2015, var greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins send umboðsmanni kæranda til kynningar. Athugasemdir umboðsmanns kæranda bárust með bréfi mótteknu af úrskurðarnefndinni þann 10. september 2015, og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi, dags. 11. september 2015. Viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins barst með bréfi, dags. 29. september 2015, og var hún send umboðsmanni kæranda til kynningar með bréfi, dags. 30. september 2015. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki formlegar kröfur í málinu en ráða má af kæru að hann krefjist þess að fá greiddan örorkulífeyri og tengdar greiðslur tvö ár aftur í tímann.

Í kæru kemur fram að Tryggingastofnun hafi með ákvörðun sinni, dags. 25. febrúar 2015, ákveðið að greiða kæranda ekki örorkulífeyri tvö ár aftur í tímann líkt og hann eigi rétt á, sbr. 53. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar og álit umboðsmanns Alþingis frá 17. september 2014, í máli nr. 7851/2014. Kærandi telji að atvik í því máli séu sambærileg. Grundvöllur umsóknar um örorkubætur hafi verið meðfætt ástand kæranda og ekki sé tekið mark á slíku við umrædda ákvörðun stofnunarinnar.

Fram hafi komið að Tryggingastofnun ríkisins telji sig bundna af álitinu en stofnunin virðist ekki fara eftir því í máli kæranda. Í öðrum sambærilegum málum hafi Tryggingastofnun tekið ákvarðanir sínar til baka og greitt í samræmi við rétt einstaklinga í samræmi við orðalag 53. gr. almannatryggingalaga.

Eins og fram komi í gögnum málsins sé ástæða læknisfræðilegrar örorku meðfædd hjá kæranda og ekkert hafi komið fram sem bendi til þess að breytingar hafi átt sér stað á ástandi hans. Einnig sé ekkert í ákvörðun Tryggingastofnunar sem bendi til þess að tekin hafi verið afstaða til þess að slíkar breytingar hafi átt sér stað. Verði því ekki séð að sá greinarmunur sem gerður sé á stöðu kæranda frá umsóknardegi og til réttar hans aftur í tímann byggi á forsvaranlegu mati.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð Tryggingastofnunar komi fram að kærandi telji sig eiga rétt á greiðslum tvö ár aftur í tímann og að Tryggingastofnun beri að taka afstöðu til þeirrar kröfu. Kærandi telji að svo virðist sem starfsmaður Tryggingastofnunar hafi ekki áttað sig á því sem lagt hafi verið upp með í kærunni. Ágreiningsmálið sé hvort Tryggingastofnun beri að taka afstöðu til þess að ákvarða bætur til kæranda aftur í tímann. Af gögnum málsins sé ljóst að kærandi uppfylli skilyrði laganna. Einnig sé ljóst að ástand kæranda sé meðfætt. Það ætti að leiða til þess að hann eigi rétt til bóta tvö ár aftur í tímann. Í 53. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar segi:

Allar umsóknir skulu ákvarðaðar svo fljótt sem kostur er á og skulu bætur reiknaðar frá þeim degi sem umsækjandinn hefur uppfyllt skilyrðin til bótanna.“
Bætur, aðrar en slysalífeyrir …,1) skulu aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg eru til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta berast stofnuninni.

Kærandi hafi sótt um örorkulífeyri og hann uppfylli ágreiningslaust skilyrði bótanna frá þeim degi. Þar sem ástand kæranda sé meðfætt beri Tryggingastofnun skylda að greiða bætur tvö ár aftur í tímann frá þeim degi, þ.e.a.s. hann eigi rétt á greiðslum tvö ár aftur í tímann frá umsóknardegi.

Varðandi leiðréttingu Tryggingastofnunar ríkisins, þá sé ánægjulegt að Tryggingastofnun hafi leiðrétt ákvörðun sína að því leyti að miðað sé við réttan mánuð greiðslna frá umsóknardegi. Einn mánuður í breytingu sé þó alls ekki leiðrétting í samræmi við kröfuna í málinu og lagaskyldu Tryggingastofnunar ríkisins.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kært sé örorkumat stofnunarinnar.

Við örorkumat lífeyristrygginga þann 29. september 2014 hafi legið fyrir læknisvottorð C, dags. 25. ágúst 2014, svör kæranda við spurningalista, dags. 25. ágúst 2014, skoðunarskýrsla, dags. 23. september 2014, og umsókn kæranda, dags. 25. ágúst 2014, auk eldri gagna.

Fram komi að kærandi hafi greinst með Asperger heilkenni og að hann hafi sögu um geðlægð. Honum hafi verið metinn örorkustyrkur undanfarið. Þar sem hugsanlegt hafi þótt að færniskerðing hans hafi aukist, hafi verið fengin ný skoðun með tilliti til staðals.

Að mati Tryggingastofnunar hafi skilyrði staðals um hæsta örorkustig ekki verið uppfyllt en kærandi hafi skotið máli sínu til úrskurðarnefndar almannatrygginga, sem fallist hafi á það í úrskurði sínum í kærumáli nr. 292/2014, að skilyrði 75% örorku hafi verið uppfyllt en vísað málinu til Tryggingastofnunar til ákvörðunar á tímalengd greiðslu örorkulífeyris.

Eðlilegast hafi þótt að miða við fyrsta dag næsta mánaðar eftir að umsókn hafi borist og meta til tveggja ára. Þannig hafi tímabilið átt að vera frá 1. september 2014 til 30. september 2016, en fyrir mistök hafi tímabilið aðeins verið frá 1. október 2014. Það verði leiðrétt.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins komi fram að gögn kæranda sem borist hafi breyti ekki fyrri ákvörðun stofnunarinnar.

Í úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga í máli nr. 292/2014 þar sem úrskurðarnefndin hafi talið skilyrði 75% örorkulífeyris uppfyllt, hafi málinu verið vísað aftur til Tryggingastofnunar til ákvörðunar á tímalengd greiðslu örorkulífeyris. Í framhaldi af því hafi stofnunin breytt hinu kærða örorkumati sínu frá 29. september 2014 til samræmis við niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar og einnig síðara örorkumati frá 25. febrúar 2015. Kærandi fái því örorkulífeyri frá upphafstíma hins kærða örorkumats.

Tryggingastofnun veki athygli á því að heimild til að ákvarða bætur tvö ár aftur í tímann eigi eingöngu við hafi skilyrði verið uppfyllt allan þann tíma og það sé ekki sjálfgefið að þótt ástand kæranda sé meðfætt að skilyrði örorkulífeyris hafi verið uppfyllt við fyrri tímamörk.

Fyrir örorkumatið frá 29. september 2014 hafi kærandi fengið greiddan örorkustyrk fyrir tímabilið 1. febrúar 2013 til 31. ágúst 2014 á grundvelli örorkumats frá 12. mars 2013. Niðurstaða þess örorkumats hafi ekki verið kærð til úrskurðarnefndarinnar og úrskurður nr. 292/2014 gefi ekki tilefni til breytinga á því örorkumati.

IV.  Niðurstaða

Kæra í máli þessu varðar upphafstíma örorkumats Tryggingastofnunar ríkisins frá 25. febrúar 2015. Kærandi óskar eftir greiðslum örorkulífeyris tvö ár aftur í tímann frá því að umsókn hans barst stofnuninni.

Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er skylt að sækja um allar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins. Örorkubætur reiknast frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur er fyrir hendi samkvæmt 1. mgr. 53. gr. laganna. Samkvæmt 2. mgr. nefndrar 53. gr., sbr. nú 4. mgr., skulu bætur aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn og önnur gögn, sem nauðsynleg eru til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta, berast Tryggingastofnun.

Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laganna metur Tryggingastofnun örorku þeirra sem sækja um örorkubætur samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Örorkustaðallinn er byggður upp af stöðluðum spurningum sem varða líkamlega og andlega færni viðkomandi. Almennt er leitað eftir svörum og mati umsækjanda sjálfs á þeim spurningum sem í staðlinum eru. Enn fremur liggur fyrir skoðunarskýrsla læknis sem á grundvelli skoðunar og viðtals við umsækjanda fyllir út staðalinn. Umsækjandi fær stig eftir færni sinni. Til að metin verði 75% örorka þarf að ná fimmtán stigum í líkamlega hluta staðalsins eða tíu stigum í andlega hlutanum eða sex stigum í báðum hlutum. Í undantekningartilvikum er samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat hægt að meta viðkomandi án staðals en svo var ekki í tilviki kæranda.

Við mat á því hvort kærandi hafi uppfyllt skilyrði örorku aftur í tímann, sbr. 2. mgr. 53. gr. laga nr. 100/2007, sbr. nú 4. mgr. 53. gr., horfir úrskurðarnefndin til þess hvers eðlis sjúkdómur eða fötlun viðkomandi er. Margs konar líkamleg fötlun er þess eðlis að hún kemur fram strax við fæðingu eða til dæmis við slys þannig að viðkomandi uppfyllir ótvírætt skilyrði örorku. Í öðrum tilvikum eru veikindi eða fötlun þess eðlis að hún er hægt versnandi eða breytileg frá einum tíma til annars, svo sem  ýmis andleg veikindi og hrörnunarsjúkdómar.

Þá horfir nefndin til þess hvort og hvenær ítarlegt læknisvottorð, byggt á skoðun á viðkomandi, liggur fyrir sem jafna má til örorkumats í þeim skilningi að hægt sé að svara þeim spurningum sem spurt er um í örorkumatsstaðli með góðri vissu.

Kærandi var talinn uppfylla læknisfræðileg skilyrði örorkulífeyris með örorkumati þann 25. febrúar 2015. Örorkumatið er byggt á úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga nr. 292/2014, dags. 4. febrúar 2015. Ágreiningur í máli þessu lýtur að upphafstíma örorkumats Tryggingastofnunar ríkisins frá 25. febrúar 2015. Gildistími örorkumatsins var ákvarðaður frá 1. október 2014 en samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun var gildistímanum breytt og upphafstíminn er nú 1. september 2014. Bæturnar voru því reiknaðar frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að umsókn kæranda um örorkulífeyri, dags. 25. ágúst 2014, barst Tryggingastofnun. Kærandi telur hins vegar að hann eigi rétt á bótum tvö ár aftur í tímann samkvæmt 2. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar þar sem ástand hans hafi verið meðfætt.

Í málinu liggur fyrir læknisvottorð C, dags. 25. ágúst 2014, auk álits D geðlæknis, dags. 24. nóvember 2014.

Í læknisvottorði C, dags. 25. ágúst 2014, sem fylgdi umsókn kæranda um örorkulífeyri þann 25. ágúst 2014, kemur fram að hann telji kæranda óvinnufæran. Í læknisvottorðinu kemur meðal annars fram:

„Greindur með Asperger heilkenni með ADOS (Autismdiagnostic Observation Schedule ) af E, sálfræðingi og F, sálfræðingi, X. Hann hefur átt í miklum vandkvæðum með þetta meðfætt heilkenni. Honum hefur gengið illa í félagslegum samskiptum og hefur átt erfitt með langtíma tengsl. Skert innsæi og varðandi tilfinningar. Hefur starfað sem [...]. Hefur orðið að hætta. Auk þess sem hann hefur verið [...] og unnið við [...]. Mjög brotin atvinnusaga. Hann hefur verið í VIRK og þeir hafa verið að reyna að endurhæfa hann.

Nú kemur hann hingað og segir og að ráðgjafi frá TR hafi beðið um endurhæfingarvottorð, en ég sé að það er til og á að virka til 15. janúar 2015, en hann fullyrðir að ráðgjafinn hafi beðið um þetta vottorð, þess vegna er það ritað.

Hann á að baki eina innlögn á geðdeild vegna bráðasjálfsvígshættu X-X. Tengt erfiðum félagslegum aðstæðum. Býr með foreldrum og tekst ekki að fá fasta vinnu.

Þá segir meðal annars svo í áliti D, dags. 24. nóvember 2014:

„Í gögnum frá Tryggingastofnun kemur fram að A hefur verið greindur með Asperger syndrome og með leyfi A fékk undirritaður leyfi til að tala við F sálfræðing sem gerði þá greiningu ásamt E sálfræðingi og luku þau athugun sinni þann X.

Undirritaður átti fund með F hinn X og þá var farið nákvæmlega yfir skýrslu F um A og þar kemur meðal annars fram að A er yngstur X systkina. Á systur sem er X árum eldri og bróður X árum eldri. Systir hans er [...]. Bróðir hans er [...] og vinnur við [...].

Því er lýst að meðganga A hafi verið eðlileg, hann hafi verið heilsuhraustur fyrstu æviárin. Foreldrar lýsa honum þannig að á leikskólaaldri hafi hann verið sjálfum sér nægur, kröfulítill á athygli og frumkvæðislítill í samskiptum. Í leikskóla var hann lítill í sér og óframfærinn og var mikið undir vendarvæng bróður síns. A eignaðist ekki fasta leikfélaga og gat unað sér mikið einn.

A gekk í grunnskóla í G. Lýsir ástar/haturssambandi við skólann og félagana. A gekk vel í námi og hann hefur alla tíð verið góður námsmaður. Hann kveðst hafa orðið fyrir einelti í skóla og hafa verið mikið út af fyrir sig, lítið tengst öðrum, verið mikið heima fyrir og las sér til ánægju.

A dvaldi um X ára skeið með fjölskyldu sinni í H og lauk grunnskólanámi í J.

A lauk stúdentsprófi á réttum tíma. BA prófi í [...] við Háskóla Íslands og síðan mastersnámi við K og tveimur árum síðar lauk hann [...] frá Háskóla Íslands. Þess utan hefur A stundað nám sem gefur réttindi sem [...].

Í matsskýrslu F kemur fram að A vann í X [...] á jafnmörgum árum og fékk hvergi endurráðingu. Hann flosnaði upp úr vinnu sinni við [...] og frá árinu X hefur hann starfað sem [...], en ekki fengið næg verkefni og er skráður atvinnulaus.

Ástæður þess að A flosnaði upp úr vinnu voru fyrst og fremst þær að hann átti í verulegum samskiptaerfiðleikum við fólk og mikinn samskiptavanda. A er tekjulítill og einangrar sig í íbúð sinni og hefur samband við sína nánustu.

A hefur ekki tekist að mynda langvarandi tilfinningasambönd sem gætu leitt til sambúðar eða stofnunar fjölskyldu og er leiður út af því. Hann hefur ekki átt við áfengis- eða annan fíknivanda að stríða og ekki komist í kast við lögin.

F lagði fyrir A matstækið: ADOS IV Hegðunarathugun/Viðtal:

Það er staðlað matstæki sem byggir á beinni athugun á hegðun þar sem grunur leikur á röskun á einhverfurófi. Skalanum er skipt niður í nokkur atriði.

Mál og tjáskipti:

Hér fær A 3 stig (greiningarmörk fyrir einhverfu eru 3 stig, fyrir röskun á einhverfurófi 3 [sic] stig).

Félagsleg samskipti:

Hér telja einkennin til 8 stiga (greiningarmörk fyrir einhverfu eru 6 stig, fyrir röskun á einhverfurófi 4 stig)

Niðurstaða ADOS:

Í heild telja einkennin til 11 stiga (greiningarmörk fyrir einhverfu eru 10 stig, fyrir röskun á einhverfurófi 7 stig).

Ályktun og ráðgjöf

Samkvæmt klínísku mati uppfyllir A skilmerki þess að vera með einhverfu, en vegna greindar sinnar og hæfileika til náms hefur hann verið talinn uppfylla skilmerki Asperger heilkennis.

A tók þennan úrskurð töluvert inn á sig, varð þunglyndur og var lagður inn vegna þunglyndiseinkenna í nokkra daga vorið X. Hann hefur af og til síðan tekið þunglyndislyf, síðast Fluoxitin og er enn að taka það lyf.

Matsskali TR

Undirritaður lagði fyrir A örorkumatsstaðal Tryggingastofnunar. Ljóst er að sá staðall hentar ekki ýkja vel í erfiðleikum sem þeim sem A á við að stríða.

Undirritaður lét A eingöngu fylla út andlegan hluta skalans og eru talin upp hér á eftir þau einkenni þar sem A skorar stig. Niðurstöður annarra spurninga eru ekki skráðar.

       […]

Samtals skorar A 13 stig á þessum skala, en til þess að uppfylla 75% örorkuskilyrði Tryggingastofnunar þarf viðkomandi ekki að fá nema 10 stig eða meira.

Niðurstaða

Undirritaður hefur rætt við A, fundað með F, skoðað nákvæmlega gögn málsins, sérstaklega sálfræðiathugun sem gerð var í X og niðurstaða undirritaðs er að engin vafi sé á því að A uppfylli skilyrði Tryggingastofnunar fyrir meira en 75%.“

Þá kemur fram í skýrslu L, dags. 23. september 2014, að kærandi sé með frávik, greint sem Asperger heilkenni á fullorðinsárum. Hann spjari sig ekki vel á vinnumarkaði. Nokkur andleg færniskerðing sé samkvæmt staðli. Spurningunni „hve lengi telur þú að færni umsækjanda hafi verið svipuð og nú er?“ svarar L með „Í mörg ár.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, tekur sjálfstæða afstöðu til krafna kæranda á grundvelli fyrirliggjandi gagna sem nefndin telur nægileg. Í gögnum málsins kemur fram að kærandi hafi verið greindur með Asperger heilkenni þann X. Í læknisvottorði C, dags. 25. ágúst 2014, kemur fram að kærandi hafi átt í miklum vandkvæðum með þetta meðfædda heilkenni. Þá kemur fram í skoðunarskýrslu það mat læknis að færni kæranda hafi verið svipuð í mörg ár. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst með hliðsjón af eðli færniskerðingar kæranda og þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu að skilyrði örorku hafi verið uppfyllt talsvert áður en honum hafi verið metinn örorkulífeyrir frá 1. september 2014. Ekkert í gögnum málsins gefur til kynna að færni kæranda hafi versnað á síðustu árum. Frekar má af gögnunum ráða að færni kæranda hafi verið svipuð um árabil eða að minnsta kosti frá því hann lauk námi og hóf störf á vinnumarkaði upp úr síðustu aldamótum.

Örorkulífeyrir reiknast frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að skilyrði bótanna eru uppfyllt en ekki er heimilt að ákvarða bætur lengra en tvö ár aftur í tímann frá því að umsókn og nauðsynleg gögn berast Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt þágildandi 2. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar. Að öllu framangreindu virtu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að skilyrði 75% örorku hafi verið uppfyllt að minnsta kosti tveimur árum áður en umsókn og nauðsynleg gögn bárust Tryggingastofnun ríkisins og raunar hafi svo verið mörgum árum fyrr. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur því rétt að miða upphafstíma örorkumats kæranda við 1. september 2012, þ.e. fyrsta dag næsta mánaðar eftir að bótaréttur var fyrir hendi, samkvæmt þágildandi 2. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar, sbr. 1. mgr. sömu greinar.

Með vísan til þess, sem rakið hefur verið hér að framan, er synjun Tryggingastofnunar ríkisins um að breyta upphafstíma örorkumats stofnunarinnar frá 25. febrúar 2015 felld úr gildi. Upphafstími örorkumatsins skal vera 1. september 2012.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, í máli A, um upphafstíma örorkumats stofnunarinnar frá 25. febrúar 2015 er felld úr gildi. Upphafstími matsins er ákvarðaður frá 1. september 2012.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta