Mál nr. 18/2020 - Úrskurður
Úrskurður kærunefndar jafnréttismála
A
gegn
Samgöngustofu
Ráðning í starf. Stjórnvald. Sönnunarregla. Ekki fallist á brot.
A kærði ákvörðun S um að ráða karl í stöðu fagstjóra náms og skírteinismála sjófarenda hjá stofnuninni. Að mati nefndarinnar hafði ekki verið sýnt fram á að kæranda hafi verið mismunað á grundvelli kyns við ráðningu í starfið. Var því ekki fallist á að S hefði gerst brotleg við lög nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
- Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 21. apríl 2021 er tekið fyrir mál nr. 18/2020 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
- Með kæru, dagsettri 30. september 2020, kærði A ákvörðun Samgöngustofu um að ráða karl í stöðu fagstjóra náms og skírteinismála sjófarenda. Kærandi telur að með ráðningunni hafi Samgöngustofa brotið gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
- Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dagsettu 1. október 2020. Greinargerð kærða barst með bréfi, dagsettu 29. október 2020, og var hún kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 3. nóvember 2020. Athugasemdir bárust ekki.
- Með bréfi, dagsettu 27. nóvember 2020, óskaði kærunefndin eftir frekari skýringum frá kærða sem bárust með bréfi hans, dagsettu 11. desember 2020. Skýringarnar voru sendar kæranda til kynningar með bréfi sama dag. Með bréfi, dagsettu 12. febrúar 2021, óskaði kærunefndin eftir frekari upplýsingum frá kærða. Upplýsingarnar bárust kærunefnd 1. mars 2021 og voru þær í framhaldinu sendar kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 10. mars 2021. Athugasemdir kæranda bárust 17. mars 2021 og voru sendar kærða til kynningar degi síðar.
- Þess ber að geta að lög nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla voru felld úr gildi með nýjum lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna sem tóku gildi 6. janúar 2021 ásamt lögum nr. 151/2020 um stjórnsýslu jafnréttismála. Í samræmi við bráðabirgðaákvæði í lögum nr. 151/2020 féll niður umboð skipaðra nefndarmanna í kærunefnd jafnréttismála og skipaði ráðherra nýja nefndarmenn í nefndina samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar 12. janúar 2021. Þar sem atvik í máli þessu áttu sér stað í tíð eldri laga gilda lög nr. 10/2008 um efnislegan ágreining fyrir nefndinni en um málsmeðferðina fer samkvæmt lögum nr. 151/2020.
MÁLAVEXTIR
- Kærði auglýsti 12. mars 2020 lausa til umsóknar stöðu fagstjóra náms og skírteinamála sjófarenda á stjórnsýslu- og þróunarsviði stofnunarinnar. Í auglýsingunni kom fram að helstu verkefni fagstjóra vörðuðu faglega umsjón og útgáfu á skírteinum einstaklinga, viðurkenningu á námskeiðum/námskrám hjá þjálfunarfyrirtækjum/skólum, viðvarandi eftirlit með þjálfunarfyrirtækjum/skólum, upplýsingamiðlun til hagsmunaaðila, þátttöku í innleiðingarverkefnum og þróun og viðhaldi gæðamála, þátttöku í alþjóðlegu samstarfi um nám og skírteinamál einstaklinga, yfirferð og samþykki á öryggismönnun skipa og faglega umsjón með lögskráningum sjómanna. Í auglýsingunni komu fram eftirfarandi menntunar- og hæfnikröfur: Háskólamenntun sem nýtist í starfi, skipstjórnar- og/eða vélstjórnarréttindi eða sambærileg reynsla æskileg, þekking á íslenskum og alþjóðlegum siglingamálum, frumkvæði, sjálfstæði og fagmennska í starfi ásamt skipulagningu og ögun í verkum, mjög góð samskiptahæfni, mjög góð kunnátta í íslensku og ensku í ræðu og riti, góð almenn tölvukunnátta og þekking á gæða- og/eða öryggisstjórnunarkerfum væri kostur.
- Alls bárust 34 umsóknir um starfið frá 10 konum og 24 körlum. Sex af umsækjendunum var boðið í viðtal, einni konu og fimm körlum. Að loknum viðtölum var ákveðið að boða tvo af körlunum til seinna viðtals. Að þeim loknum var öðrum þeirra boðið starfið sem hann þáði.
SJÓNARMIÐ KÆRANDA
- Kærandi heldur því fram að með ráðningu í starfið hafi kærði brotið gegn 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008. Hafi hún verið látin gjalda kynferðis síns við ráðningu í starfið þar sem reynsluminni og minna menntaður karl hafi verið tekinn fram yfir hana.
- Bendir kærandi í fyrsta lagi á að í auglýsingu um starfið hafi verið gerð krafa um háskólamenntun sem nýtist í starfi. Kærandi hafi lokið BS-gráðu frá Háskóla Íslands í landfræði og jarðfræði, MS-gráðu frá Háskóla Íslands í umhverfis- og auðlindastjórnun, tveimur árum í doktorsnámi í fiskveiðistjórnun frá Gautaborgarháskóla, skipstjórnarréttindum frá Tækniskólanum (STCW II-45m) og viðbótardiplóma í kennsluréttindum frá Háskóla Íslands. Sá sem var ráðinn hafi haft færri háskólagráður en hún.
- Í öðru lagi hafi verið tekið fram að skipstjórnar- og/eða vélstjórnarréttindi eða sambærileg reynsla væri æskileg. Kærandi hafi lokið þriggja ára námi í skip- og vélstjórn og sé með fullgild skipstjórnarréttindi á farþegaskip, allt að 500 BT (STCW-II-45m) og vélavarðarréttindi fyrir skip minni en 24 m með 750 kW vélarstærð. Miðað við upplýsingar frá kærða hafi sá sem ráðinn var hvorki tilskilin réttindi né sambærilega reynslu og kærandi að þessu leyti.
- Í þriðja lagi hafi verið gerð krafa um þekkingu á íslenskum og alþjóðlegum siglingamálum. Hafi kærandi í meira en áratug að mestu fengist við kennslu, rannsóknir og skipstjórn. Hún hafi sinnt mjög krefjandi starfi fyrir Háskólasetur Vestfjarða sem fagstjóri alþjóðlegs meistaranáms í haf- og strandsvæðastjórnun. Kærandi gerir athugasemdir við það að sá sem hafi fengið starfið hafi verið talinn hæfari í þessum þætti. Ekkert hafi legið fyrir um mat kærða á þessum þætti eða samanburð milli kæranda og þess sem starfið hlaut. Ekkert í menntun hans hafi gefið til kynna að hann stæði kæranda framar. Raunar kunni nám kæranda jafnvel að mæla með því að setja hana skör hærra að þessu leyti þar sem meistaraprófsritgerð hennar hafi fjallað um sjálfbæra nýtingu haf- og strandsvæða.
- Þá hafi verið gerð krafa um frumkvæði, sjálfstæði og fagmennsku í starfi ásamt skipulagningu og ögun og að auki um mjög góða samskiptahæfni. Kæranda hafi verið falin krefjandi störf sem hafi reynt á fagleg og nákvæm vinnubrögð, sem og afburðasamskiptahæfni. Hún hafi mikla kennslureynslu þar sem hún hafi unnið síðastliðin 17 ár við kennslu í háskólum og menntaskólum og sé enn viðriðin kennslu. Nánar tiltekið kenni hún skipstjórnargreinar, sbr. umhverfisfræði, sjórétt og siglingatækni, hjá Tækniskólanum og sé í fagnefnd skólans um innleiðingu nýrra og endurbættra kennsluhátta í skip- og vélstjórn.
- Hvað varði kröfu um mjög góða kunnáttu í íslensku og ensku í ræðu og riti þá hafi kærandi íslensku að móðurmáli og tali reiprennandi ensku og skrifi hana nánast lýtalaust. Auk þess tali hún þýsku og sænsku reiprennandi og sé vel skrifandi á þessi tungumál.
- Kærandi hafi góða almenna tölvukunnáttu. Erfitt sé að leggja mat á hvað liggi að baki slíku hæfniviðmiði. Kærandi hafi innleitt gæðakerfi í skólastarfi og gert innri úttekt á slíkum kerfum í námi á háskólastigi.
- Loks hafi verið tekið fram að þekking á gæða- og/eða öryggisstjórnunarkerfum væri kostur. Kærandi hafi tekið fram í umsóknargögnum sínum að hún hefði unnið að innlendum og alþjóðlegum úttektum og rannsóknum, aðallega á sviði fiskveiðistjórnunar, og að hægt væri að fá frekari upplýsingar um þessi verkefni, en kærði hafi ekki leitast eftir því.
- Í umsóknargögnum hafi komið fram að kærandi hefði fjölbreytta starfsreynslu, bæði af siglingum og gæðamálum, sem nýtist beint í starfi fagstjóra sé miðað við starfslýsingu auglýsingarinnar. Ekki verði séð að starfsreynsla lögfræðings sem deildarstjóra hjá samgönguráðuneyti eða sem forstöðumaður lögfræðisviðs nýtist beint í umræddu starfi. Í auglýsingunni hafi ekki verið óskað eftir lögfræðiþekkingu. Kærandi hafi jafn mikla eða meiri reynslu sem nýtist í starf fagstjóra. Verkefni fagstjóra séu meðal annars fagleg umsjón og útgáfa á skírteinum einstaklinga, og viðurkenning á námskeiðum og námskrám þjálfunarfyrirtækja og skóla, sem og eftirlit með þeim. Kærandi hafi komið að kennslu og faglegri umsjón í haftengdum menntunarmálum og búi yfir menntun á því sviði.
- Að öllu framangreindu virtu sé ljóst að mati kæranda að hæfni hennar hafi verið mjög vanmetin og að hún hefði átt að vera metin mjög hæf hvað varðaði menntunar- og hæfnikröfur í starfið. Hún hafi lokið fleiri háskólagráðum og hafi fjölbreyttari starfsreynslu sem nýtist beint í starfinu en sá sem hafi verið ráðinn. Auk þess hafi hún, ólíkt þeim sem ráðinn hafi verið, þau starfsréttindi sem hafi verið talin upp sem æskileg. Kærandi hafi umtalsverða þekkingu á íslenskum og alþjóðlegum siglingamálum og gæða- og/eða öryggisstjórnunarkerfum. Henni hafi hvorki verið gefið tækifæri til að þreyta verkefni né sýna fram á þekkingu sína. Einnig hafi kærði ekki leitast eftir því að fá frekari upplýsingar um þátttöku hennar í innleiðingarverkefnum og þróun og innleiðingu gæðamála. Í umsóknargögnum hafi hún lýst því yfir að hún hefði reynslu af gerð innri gæðaúttekta og hæfniviðmiða í skólastarfi og að hún hefði lokið námskeiði í innri gæðaúttektum fyrir stofnanir og fyrirtæki hjá Háskóla Íslands. Bendir kærandi á að ekki hafi farið fram prófun á tungumálakunnáttu og því liggi ekki fyrir samanburður á tungumálahæfni hennar og þess sem ráðinn hafi verið.
- Eftir standi þá aðeins huglægir þættir í hæfniviðmiðum auglýsingarinnar, svo sem frumkvæði, sjálfstæði og fagmennska í starfi ásamt skipulagningu og ögun í verkum og mjög góð samskiptahæfni. Heildstæður samanburður hafi ekki farið fram af hálfu kærða á kæranda og þeim sem starfið hlaut jafnvel þótt huglægir þættir hafi bent til þess að hún stæði framar en hann. Bendir kærandi á að mörg ákvæði jafnréttislaga hafi beinlínis þann tilgang að bæta stöðu kvenna á vinnumarkaði sérstaklega. Þannig sé í lögunum lögð sú skylda á atvinnurekendur að vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Í þessu felist meðal annars sú skylda að gæta þess að ekki sé gengið fram hjá hæfum konum við ráðningar í störf.
- Að mati kæranda verði ekki séð að umrædd ráðning hafi verið reist á málefnalegum og forsvaranlegum grundvelli heldur hafi kærandi verið látin gjalda kynferðis síns með því að minna menntaður karlmaður með takmarkaða starfsreynslu af siglinga- og gæðamálum hafi verið ráðinn í starfið.
- Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 sé atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Kærandi telji að með framangreindu hafi hún leitt sterkar líkur að því að við ráðninguna hafi henni verið mismunað á grundvelli kyns, sbr. 4. mgr. 26. gr. laganna. Ekki verði séð að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðun kærða um ráðningu í starfið.
SJÓNARMIÐ KÆRÐA
- Kærði bendir á að í ráðningarferlinu hafi eins og í tilviki annarra ráðninga hjá kærða farið fram heildstæður samanburður á öllum umsækjendum þar sem litið var til allra þátta sem taldir voru skipta máli við ákvörðunartökuna um að veita hæfasta umsækjandanum starfið. Allar umsóknirnar voru yfirfarnar af fleiri en einum aðila sem mátu hvern og einn umsækjanda út frá þeim kröfum sem gerðar voru í auglýsingu og starfslýsingu. Kröfurnar hafi verið settar upp í excel-skjal þar sem hverjum og einum umsækjanda hafi verið gefin stig. Að þessu mati loknu hafi sex umsækjendum verið boðið í viðtal, einni konu og fimm körlum. Deildarstjóri náms og skírteinadeildar kærða og fagstjóri mannauðs- og launamála tóku viðtölin. Viðtölin voru undirbúin með spurningum og matsþáttum sem skiptu máli við ráðninguna.
- Í fyrra viðtali var lögð áhersla á að fá upplýsingar um menntun og starfsreynslu umsækjenda. Farið var yfir að vægi verkefna væri mismikið og að viðurkenning á námskeiðum/námskrám hjá skólum væri ekki stærsti hluti starfsins en stærstu verkefnin sem væru framundan væru undirbúningur og innleiðing á laga- og reglugerðarbreytingum ásamt prófunum og þróun á nýju lögskráningar- og skipaskrárkerfi. Mat á umsóknum og útgáfa skírteina sjófarenda í samræmi við lög og reglugerðir og fagleg umsjón með lögskráningum sjómanna væru stærstu viðvarandi verkefni starfsins.
- Eftir fyrri viðtölin funduðu deildarstjóri og fagstjóri mannauðs- og launamála og fóru yfir umsóknir og mat á umsækjendum. Sjónarmið við val í síðara viðtal byggðu á mati á umsóknargögnum, fyrra viðtali, upplýsingum á matsblöðum og minnispunktum. Var ákveðið að bjóða tveimur af sex til síðara viðtals. Litið var til þess hvernig hæfni og starfsreynsla viðkomandi félli að kröfum auglýsingar og verkefnum starfsins auk persónueinkenna. Allir sex umsækjendur sem komu í fyrra viðtal uppfylltu þær kröfur sem gerðar voru en þeir sem boðaðir voru til síðara viðtals höfðu að auki umtalsverða reynslu af störfum innan stjórnsýslunnar sem var metin mjög mikilvæg. Byggðu upplýsingar á matsblöðum á mati deildarstjóra og fagstjóra mannauðs- og launamála á framkomu og upplýsingum úr fyrra viðtali og huglægu mati á því hversu vel samspil menntunar, reynslu og annarra persónueinkenna féll að verkefnum starfsins og starfshópnum. Eftir fund deildarstjóra og fagstjóra náms og skírteinadeildar voru niðurstöður teknar saman í tölvupósti og sendar á framkvæmdastjóra sviðsins, deildarstjóra, mannauðsstjóra og fagstjóra mannauðs- og launamála. Að síðari viðtölum loknum var einnig fundað og niðurstöður skráðar og sendar í tölvupósti til forstjóra og áðurnefndra aðila þar sem gerð var rökstudd tillaga um ráðningu hæfasta umsækjandans í starfið. Var það niðurstaðan að starfsreynsla og menntun þess sem var ráðinn félli best að þeim kröfum sem gerðar voru til starfsins.
- Kærði bendir á að reynslan af því að auglýsa sérhæfð fagstörf innan stofnunarinnar hafi sýnt að þar starfi fólk sem búi oft yfir mikilli og verðmætri þekkingu og starfsreynslu en hafi jafnframt mjög ólíkan bakgrunn í menntun og starfsreynslu. Það sé því snúið að setja fram á einfaldan hátt skýrt afmarkaða hæfnikröfu með því að tilgreina ákveðið nám eða ákveðna reynslu, enda geti fjölmargar samsetningar reynst vel í þessum sérhæfðu störfum. Það að búa yfir áralangri starfsreynslu á því fagsviði sem auglýst var hafi haft áhrif á mat á menntun og starfsreynslu. Þannig geti talist málefnalegt að horfa til slíkrar starfsreynslu og meta hana framar fjölda námsgráða. Starfsreynsla þess sem var ráðinn hafi þótt falla beint að starfslýsingunni og sú staðreynd að hann hafði áður starfað í sambærilegum eða sömu verkefnum hafi jafnframt haft áhrif á þetta heildarmat. Þannig hafi starfsferill hans verið talinn falla mjög vel að hinu auglýsta starfi.
- Þá uppfyllti hann kröfu um háskólamenntun sem nýtist í starfi. Ekki hafi verið gerð krafa um frekari menntun. Hann hafi lokið embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands, framhaldsnámi í Evrópu- og þjóðarrétti frá Oslóarháskóla og öðlast réttindi til að vera héraðsdómslögmaður auk þess að hafa lokið stjórnendanámi frá Háskólanum í Reykjavík. Í seinni tíð hafi hann bætt við sig menntun leiðsögumanns með sérhæfingu á ensku og norsku frá Endurmenntun Háskóla Íslands og auknum ökuréttindum.
- Hæfnikrafa um þekkingu á íslenskum og alþjóðlegum siglingamálum hafi vegið þyngst af matsþáttum varðandi hæfni í starfið. Lýsing á helstu verkefnum og heiti starfsins gefi til kynna að átt sé við þekkingu sem varði aðallega nám og skírteinamál sjófarenda.
- Störf og reynsla þess sem fékk starfið og sem skipti mestu máli varðandi matið var þekking á siglingamálum á breiðu sviði ásamt þekkingu á námi og skírteinamálum sjófarenda. Hann starfaði sem deildarstjóri hjá samgönguráðuneytinu um margra ára skeið auk nokkurra mánaða hjá erlendum samgönguráðuneytum. Þá starfaði hann í Danmörku og á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands á skrifstofu siglingamála í Namibíu um eins árs skeið. Einnig hafi hann setið í ýmsum nefndum sem tengjast siglingamálum sjófarenda og leitt reglugerðarvinnu og gerð lagafrumvarpa á þessu sviði. Hann var forstöðumaður lögfræðisviðs og síðar forstöðumaður stjórnsýslusviðs Siglingastofnunar um 12 ára skeið, en á þessum tíma hafi meðal annars skírteinamál sjófarenda og fleiri skírteini auk alþjóðamála og fleiri siglingatengd verkefni verið undir hans stjórn. Hann hafi leitt svörun stofnunarinnar í úttekt EMSA (Siglingaöryggisstofnun Evrópu) á þessu tímabili. Þá hafi hann leitt vinnu við flutning á útgáfu skírteina sjófarenda frá sýslumanni til Siglingastofnunar sem síðar hafi orðið lögskráningarkerfi sjófarenda. Hann hafi þannig búið yfir beinni starfsreynslu af hinu auglýsta starfi og þeim verkefnum sem fagstjóra sé ætlað að sinna.
- Að auki hafi hann tekið þátt í ýmiss konar erlendu samstarfi tengdu siglinga- og skírteinamálum sjófarenda. Hann hafi setið ýmsa fundi, vinnuhópa og þing varðandi málaflokkinn. Sem dæmi megi nefna fundi í ráðherraráði ESB (samgönguráðherrar) í sendinefnd Danmerkur árið 1995, Alþjóðasiglingamálastofnuninni í London (IMO), Siglingaöryggisstofnun Evrópu í Lissabon (EMSA), siglingaöryggisnefnd Evrópu (COSS), vinnuhóp í samgöngum (WGT), norræna fundi sjóréttarlögfræðinga, setu á fundum siglingamálastjóra á Norðurlöndum og fundum siglingamálastjóra Evrópusambandsríkja og EES-ríkja auk setu á þingi norrænna skipstjóra- og vélstjórafélaga sem fulltrúi Íslands. Þá hafi hann setið í ýmsum nefndum sem tengjast skírteinamálum einstaklinga. Hafi hann til að mynda verið formaður undanþágunefndar til starfa á skipum um fimm ára skeið, formaður verkefnisstjórnar langtímaáætlunar í öryggismálum sjómanna um þriggja ára skeið, setið í nefnd um frumvarp til laga um áhafnir íslenskra flutningaskipa, farþegaskipa, farþegabáta og skemmtibáta, formaður starfshóps vegna innleiðingar á tilskipun ESB 94/58 um lágmarksþjálfun sjómanna og STCW-alþjóðasamþykktinni um tveggja ára skeið, formaður nefndar til að gera tillögur um tvískráningu íslenskra fiskiskipa, formaður nefndar um endurskoðun á lögum nr. 43/1987 um lögskráningu sjómanna. Hann hafi einnig reynslu af gerð námsefnis og kennslu tengt siglingamálum. Í því sambandi megi nefna ritstjórnarstörf við bók um siglingafræði og rúmlega sjö ára reynslu af stundakennslu við Stýrimannaskólann í Reykjavík og Vélskóla Íslands (síðar Fjöltækniskóla Íslands, nú Tækniskólann, skóla atvinnulífsins).
- Hann hafi því í senn yfirgripsmikla og sérhæfða þekkingu á námi og skírteinamálum sjófarenda og á lögskráningum og mönnun skipa, sem eru þau málefni sem starfið snúi að.
- Bendir kærði á að ferilskrár og fyrri störf gefi yfirleitt góða vísbendingu um tungumálafærni. Sá sem ráðinn hafi verið búi yfir góðri kunnáttu í íslensku og ensku, auk norsku. Þannig uppfylli hann bæði kröfur og kosti um tungumálafærni. Almennt uppfylli flest háskólamenntað og starfsreynt fólk þessa þætti. Hið sama eigi við um almenna tölvukunnáttu. Fólk með háskólapróf og reynslu af skrifstofuvinnu eða sérhæfðum störfum búi almennt yfir almennri tölvukunnáttu. Einungis þegar ráðið sé í störf við kerfisrekstur eða hugbúnaðarvinnu, svo sem forritun, vegi slíkur þáttur þyngra en aðrir.
- Jákvæð persónueinkenni á borð við frumkvæði, sjálfstæði og fagmennsku í starfi, skipulagning og ögun ásamt góðri samskiptahæfni séu þættir sem erfitt sé að meta á annan hátt en með huglægu mati. Þetta sé metið í viðtölum og með samtali við meðmælendur.
- Þannig hafi mat kærða á starfsreynslu og þekkingu þess sem starfið hafi hlotið, sem hafi leitt til þess að hann hafi verið metinn hæfastur, verið byggt á menntun, þekkingu og starfsreynslu. Hann hafi verið talinn hafa mesta reynslu og þekkingu allra umsækjenda á íslenskum og alþjóðlegum siglingamálum, sérstaklega á sviði mönnunar, lögskráninga og skírteina einstaklinga sem og öðrum helstu þáttum sem starfið krefjist. Þessi reynsla hafi vegið þungt við framangreint mat og hann þótt falla best að hinu auglýsta starfi.
- Að öllu framantöldu virtu telji kærði að rétt hafi verið staðið að ráðningu í starfið og að ákvæði laga nr. 10/2008 hafi ekki verið brotin. Um málefnalega ákvörðun hafi verið að ræða eins og að framan hafi verið rökstutt. Menntun, reynsla og þekking samkvæmt kröfum auglýsingar um starfið hafi orðið til þess að karlinn hafi verið metinn hæfastur og hafi honum því verið boðið starfið.
NIÐURSTAÐA
- Mál þetta snýst um það hvort kærði hafi brotið gegn ákvæðum 26. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sbr. núgildandi 19. gr. laga nr. 150/2020, við ráðningu í starf fagstjóra náms og skírteinamála sjófarenda á stjórnsýslu- og þróunarsviði stofnunarinnar.
- Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008 er markmið laganna að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 151/2020 um stjórnsýslu jafnréttismála gilda lögin um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál tekur til, m.a. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, og um störf kærunefndar jafnréttismála. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna tekur kærunefnd jafnréttismála til meðferðar kærur sem til hennar er beint samkvæmt framansögðu og kveður upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laganna hafi verið brotin.
- Í 1. mgr. 26. gr. laganna er tekið fram að atvinnurekendum sé óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Samkvæmt sönnunarreglu í 4. mgr. 26. gr. kemur það í hlut umsækjanda sem telur á sér brotið að leiða líkur að því að honum hafi verið mismunað á grundvelli kyns. Takist sú sönnun ber atvinnurekandanum að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Af framangreindu er ljóst að það kemur í hlut kæranda að færa fram staðreyndir eða önnur gögn og upplýsingar sem leiða líkur að því að kyn hafi haft áhrif á ráðningu í starfið sem um ræðir í málinu hjá kærða.
- Í matsreglu 5. mgr. 26. gr. laganna er tekið fram að við mat á því hvort ákvæði 4. mgr. 26. gr. hafi verið brotið skuli taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Árétta ber að framangreint verður ekki talið fela í sér sjálfstæða heimild fyrir nefndina til að byggja á öðrum sjónarmiðum en kærði hefur sjálfur lagt til grundvallar og ekki heldur heimild til að endurmeta innbyrðis vægi þessara sjónarmiða með sjálfstæðum hætti, svo lengi sem þau voru málefnaleg og innan þess svigrúms sem kærði hefur, sbr. til hliðsjónar athugasemdir við 19. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 150/2020. Þá fellur það ekki undir valdsvið kærunefndarinnar að endurskoða mat kærða á því hvaða umsækjandi fellur best að þeim sjónarmiðum sem lögð var áhersla á við ráðninguna nema draga megi þá ályktun af gögnum málsins að matið hafi ekki verið forsvaranlegt.
- Í auglýsingunni um starfið kom fram að helstu verkefni fagstjóra vörðuðu faglega umsjón og útgáfu á skírteinum einstaklinga, viðurkenningu á námskeiðum/námskrám hjá þjálfunarfyrirtækjum/skólum, viðvarandi eftirlit með þjálfunarfyrirtækjum/skólum, upplýsingamiðlun til hagsmunaaðila, þátttöku í innleiðingarverkefnum og þróun og viðhaldi gæðamála, þátttöku í alþjóðlegu samstarfi um nám og skírteinamál einstaklinga, yfirferð og samþykki á öryggismönnun skipa og faglega umsjón með lögskráningu sjómanna.
- Gerð var krafa um háskólamenntun sem nýttist í starfi en skipstjórnar- og/eða vélstjórnarréttindi eða sambærileg reynsla talin æskileg. Þá var gerð krafa um þekkingu á íslenskum og alþjóðlegum siglingamálum, frumkvæði, sjálfstæði og fagmennsku í starfi ásamt skipulagningu og ögun í verkum. Að auki var gerð krafa um mjög góða samskiptahæfni, mjög góða kunnáttu í íslensku og ensku í ræðu og riti og góða almenna tölvukunnáttu en þekking á gæða- og/eða öryggisstjórnunarkerfum væri kostur.
- Í málinu liggur fyrir sú afstaða kærða að mat á umsóknum og útgáfa skírteina sjófarenda í samræmi við lög og reglugerðir og fagleg umsjón með lögskráningum sjómanna væru stærstu viðvarandi verkefni starfsins sem verið var að ráða í. Þá væri stærsta verkefnið framundan undirbúningur og innleiðing á laga- og reglugerðarbreytingum ásamt prófunum og þróun á nýju lögskráningar- og skipaskrárkerfi.
- Að mati kærða uppfylltu allir sex umsækjendurnir sem komu í fyrra viðtal þær kröfur sem gerðar voru til starfsins, bæði er varðaði menntun og starfsreynslu. Kærunefndin bendir á að þar sem ekki er mælt fyrir um þessa þætti í lögum er það kærða að ákveða kröfur þessar í ljósi þeirra þarfa sem hann telur nauðsynlegar til starfrækslu þeirra verkefna sem um ræðir með hagsmuni stofnunarinnar að leiðarljósi. Að mati kærunefndar verður ekki séð að niðurstaða kærða að þessu leyti hafi verið ómálefnaleg. Í því sambandi bendir kærunefndin á að í auglýsingu var ekki áskilið að umsækjandi hefði skipstjórnar- og/eða vélstjórnarréttindi þótt þau eða sambærileg reynsla hafi verið talin æskileg. Er því ekkert sem bendir til þess að ómálefnaleg sjónarmið hafi ráðið því að umsækjendur, sem ekki voru með slík réttindi, hafi verið taldir uppfylla þær kröfur sem gerðar voru til starfsins.
- Af gögnum málsins má ráða að það sem réð vali þeirra tveggja sem boðaðir voru í síðara viðtal hafi verið umtalsverð reynsla af störfum innan stjórnsýslunnar sem metin var mjög mikilvæg í ljósi þeirra verkefna sem félli undir starfslýsinguna. Benti kærði á að það lægi í hlutarins eðli að fagstjóri hjá opinberri stjórnsýslustofnun sem fer með eftirlit og útgáfu skírteina yrði að vera vel að sér og þekkja það umhverfi. Verður ekki betur séð en að framangreint sjónarmið hafi verið málefnalegt jafnvel þótt slíkt hafi leitt til þess að umsækjendur með fleiri prófgráður eða annars konar reynslu eins og í tilviki kæranda hafi ekki uppfyllt þetta skilyrði. Þá verður ekki betur séð en að val kærða á þeim tveimur umsækjendum sem valdir voru í síðara viðtal hafi fallið vel að þeim sjónarmiðum sem kærði hafi lagt áherslu á og ekkert sem bendir til að valið hafi ekki verið forsvaranlegt.
- Kærði hefur gert grein fyrir því að sú hæfnikrafa sem hafi vegið þyngst af matsþáttunum hafi verið þekking á íslenskum og alþjóðlegum siglingamálum. Þótti starfsreynsla þess sem var ráðinn falla beint að starfslýsingunni auk þess sem hann hefði áður starfað í sambærilegum eða sömu verkefnum. Það sjónarmið sem réð því að hann var valinn umfram aðra umsækjendur var því þekking hans og fyrri reynsla á stjórnsýslu- og lagaumhverfi starfsins og flestum þeim verkefnum sem féllu undir það. Að mati kærunefndar verður ekki betur séð en að mat kærða hafi að þessu leyti verið forsvaranlegt og málefnalegt.
- Með vísan til alls framangreinds verður að mati kærunefndar ekki betur séð en að mat kærða á þeim sjónarmiðum sem hann lagði til grundvallar við val á umsækjendum í síðari viðtöl og mat hans við val á hæfasta umsækjandanum hafi verið málefnalegt og forsvaranlegt og innan þess svigrúms sem hann hafði. Þá er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að málsmeðferð kærða hafi að öðru leyti verið ómálefnaleg eða farið gegn lögum nr. 10/2008.
- Með vísan til framangreinds verður ekki talið að sýnt hafi verið fram á að kæranda hafi verið mismunað á grundvelli kyns við ráðningu í stöðu fagstjóra. Samkvæmt því verður ekki fallist á að kærði hafi gerst brotlegur við lög nr. 10/2008.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Kærði, Samgöngustofa, braut ekki gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ráðningu í stöðu fagstjóra náms og skírteinismála sjófarenda á stjórnsýslu og þróunarsviði stofnunarinnar.
Kristín Benediktsdóttir
Andri Árnason
Anna Tryggvadóttir