Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 266/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 266/2023

Miðvikudaginn 20. september 2023

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 25. maí 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 23. maí 2023 um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta hans vegna ársins 2022.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta vegna ársins 2022 var sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 212.097 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kæranda var tilkynnt um framangreinda ofgreiðslu og innheimtu með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 23. maí 2023.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 25. maí 2023. Með bréfi, dags. 19. júlí 2023, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 31. júlí 2023, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 2. ágúst 2023. Athugasemdir bárust ekki. Með tölvupósti 8. september 2023 óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins um misræmi á milli greiðsluáætlunar 2023 og raungreiðslna kæranda. Með tölvupósti samdægurs barst svar frá Tryggingastofnun ríkisins.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru er farið fram á að svonefnd ofgreiðsla verði endurskoðuð og felld niður. Það sé ósamræmi í áætluðum tekjum og í raunútborgun sem sýni sig best ef tekið sé mið af greiðsluáætlun annars vegar og mánaðarlegri útgreiðslu hins vegar sem sé miklu lægri en til hafi staðið.

Tryggingastofnun segi að kærandi hafa fengið meira greitt frá lífeyrissjóði en hann hafi átt rétt á. Þegar örorkulífeyrisréttindi kæranda hjá Lífeyrissjóði B hafi verið könnuð hafi aðrir sjóðir sem kærandi hafi átt réttindi hjá ekki verið komnir með sínar tölur inn í formið. Á þessum sama tíma hafi Tryggingastofnun farið fram á tekjuáætlun sem kærandi hafi ekki haft hugmynd um hverjar yrðu, enda í fyrsta skipti sem hann hafi þurft að standa í slíku.

Starfsmaður Tryggingastofnunar hafi aðstoðað kæranda og útbúið tekjuáætlun miðað við þær upplýsingar sem hafi verið komnar frá lífeyrissjóðnum, sem hafi verið tekið gott og gilt. Síðar hafi borist réttindi kæranda hjá öðrum lífeyrissjóðum sem hafi hækkað heildargreiðslur til hans á mánuði. Tryggingastofnun ætli nú að hirða réttindi af kæranda og fullyrði stofnunin í bréfi eftir þessa hækkun að kærandi hafi verið að fá meira en hann hafi átt rétt á sem sé einfaldlega ekki rétt og ekki honum að kenna eins og greint hafi verið frá.

Farið sé fram á að þessi fjárhæð verði alfarið felld niður þar sem ekki hafi verið búið að reikna með öllum hans réttindum hjá lífeyrissjóðum þar sem sumir hverjir hafi dregið lappirnar að senda inn upplýsingar um réttindi kæranda svo úr yrði heildræn sýn á réttindi hans í framtíðinni.

Umboðsmanni Alþingis verði sent afrit af þessu bréfi og óskað sé eftir áliti frá honum og hann beðinn um að það verði farið ofan í saumana á þessu ósanngjarna máli.

Í framhaldinu hafi kæranda verið gert að endurgreiða skattinum rúmlega 300.000 kr. og ástæðan sé sú að ekki hafi verið tekinn skattur af séreignarsparnaði hans sem sé að koma mjög illa í bakið á honum og maka hans. Eiginkona kæranda njóti ellilífeyris og auðvitað megi nefna að í hennar tilfelli, þó upphæðin sé ekki stór, beri henni að greiða til baka til Tryggingastofnurnar 17.000 kr. sem sé víst ofgreiðsla. Allt komi þetta illa við þau fjárhagslega.

Kærunefndin sé beðin um að taka allt framangreint til greina þar sem einu tekjur kæranda séu frá lífeyrissjóði og Tryggingastofnun. Öll frávik frá greiddum mánaðarlaunum þeirra hjóna komi mjög illa við þau fjárhagslega og nú séu þau eftir sem áður á leigumarkaðnum, komin á efri árin og leigan hafi hækkað um 60.000 kr. Þegar allt þetta safnist saman þá sé kærandi tæplega borgunarmaður fyrir þessum skuldum sem þeim hjónum sé skikkað til að greiða til baka af lágum mánaðartekjum. Sökum alvarlegra veikinda sé kærandi sé ekki lengur á vinnumarkaði eða frá febrúar 2022, hann sé nýkominn af fimm vikna verkjameðferð á Reykjalundi sem hafi skilaði litlu, hann sé hjartasjúklingur með vefja- og slitgigt.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna ársins 2022.

Um útreikning endurhæfingarlífeyris hafi verið fjallað í III. kafla þágildandi laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, sbr. 3. mgr. 7. gr. og 13. gr. þágildandi laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi verið kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun skyldi standa að útreikningi bóta.

Samkvæmt 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi Tryggingastofnun borið að líta til tekna við útreikning bóta, meðal annars endurhæfingarlífeyris, sbr. 3. mgr. 7. gr. núgildandi laga um félagslega aðstoð og 33. gr. núgildandi laga um almannatryggingar. Í 2. mgr. sömu greinar hafi komið fram að til tekna samkvæmt III. kafla laganna teldust tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki teldist til tekna og frádráttarliða samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum, sbr. 30. gr. núgildandi laga um almannatryggingar.

Samkvæmt 5. mgr. 18. gr., 1. mgr. 21. gr. og 4. mgr. 22. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi endurhæfingarlífeyrir og tengdar greiðslur lækkað um tiltekið hlutfall af tekjum lífeyrisþegans, sbr. 16. gr., uns lífeyririnn falli niður, sbr. 26., 28. og 29. gr. núgildandi laga um almannatryggingar.

Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða einstaklingi sem fái örorkulífeyri samkvæmt lögum um almannatryggingar sérstaka uppbót á lífeyri vegna framfærslu ef sýnt þyki að hann geti ekki framfleytt sér án þess. Við mat á því hvort lífeyrisþegi geti framfleytt sér án sérstakrar uppbótar skuli miða við að heildartekjur hans séu undir tiltekinni fjárhæð á mánuði.

Í 5. mgr. 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi sagt að til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar skyldi leggja áætlaðar tekjur greiðsluþegans á bótagreiðsluárinu. Þá hafi sagt að áætlun um tekjuupplýsingar skyldi byggjast meðal annars á nýjustu upplýsingum frá greiðsluþega, sbr. 39. gr. laganna þar sem hafi sagt að greiðsluþega væri skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem gætu haft áhrif á bætur eða greiðslur.

Í 3. mgr. 33. gr. laga um almannatryggingar komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, þá skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009. Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem fram komi í skattframtölum.

Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafi verið ofgreiddar fari um það samkvæmt 34. gr. laga um almannatryggingar. Þar komi fram sú skylda Tryggingastofnunar til að innheimta ofgreiddar bætur. Sú meginregla sé ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Málavextir séu þeir að kærandi hafi fengið endurhæfingarlífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun frá 1. október til 31. desember 2022.

Á grundvelli upplýsinga frá kæranda hafi verið áætlaðar lífeyrissjóðstekjur að fjárhæð 480.000 kr. og fjármagnstekjur að fjárhæð 8 kr. á tímabilinu frá 1. október til 31. desember 2022. Kærandi hafi fengið greiddar tekjutengdar greiðslur á grundvelli tekjuáætlunarinnar þessa þrjá mánuði. Þegar endanlegar upplýsingar um tekjur á árinu 2022 hafi legið fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum hafi komið í ljós að kærandi hafði fengið lífeyrissjóðstekjur að fjárhæð 1.052.188 kr., aðrar tekjur að fjárhæð 28.406 kr. og fjármagnstekjur að fjárhæð 165 kr. á framangreindu tímabili. Tekjur kæranda hafi því verið vanáætlaðar á áðurnefndri tekjuáætlun og hafi hann því fengið ofgreiddar tekjutengdar greiðslur á árinu 2022.

Ágreiningur málsins varði eðli tekjutengdra réttinda hjá Tryggingastofnun. Kærandi geri athugasemd við það að stofnunin endurkrefji hann um ofgreidd réttindi vegna vanáætlunar tekna í tekjuáætlun þegar hann hafi ekki getað veitt nákvæmar upplýsingar um það hverjar tekjur hans yrðu.

Í 2. mgr. 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar sagði að til tekna samkvæmt III. kafla laganna teldust tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki teldist til tekna og tiltekinna frádráttarliða í 30. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga eða takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum. Í þessu ákvæði hafi því verið tilgreint við hvaða tekjur Tryggingastofnun skyldi miða útreikning og endurreikning bóta og jafnframt hafi verið tilgreindar þær undantekningar sem stofnuninni hafi borið að hafa hliðsjón af við þá framkvæmd. Til grundvallar bótaútreikningi hafi því verið lagðar áætlaðar tekjur bótagreiðsluársins í samræmi við 5. mgr. 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar. Tekjurnar hafi verið áætlaðar á grundvelli upplýsinga frá kæranda í samræmi við sama ákvæði. Tryggingastofnun hafi upplýst kæranda um forsendur bótaútreikningsins, minnt á skyldu hans til þess að tilkynna stofnunni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem gætu haft áhrif á greiðslur til og hafi gefið honum kost á að koma að athugasemdum með bréfi, dags. 17. október 2022, sbr. 9. mgr. 16. gr. þágildandi laga.

Þegar endanlegar upplýsingar um tekjur greiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda sé Tryggingastofnun skylt að endurreikna fjárhæðir greiðslna á grundvelli endanlegra upplýsinga um tekjur greiðsluþega á árinu sem liggi fyrir, sbr. 2. mgr. 33. gr. núgildandi laga um almannatryggingar. Hafi Tryggingastofnun ofgreitt bætur til greiðsluþega sé stofnuninni skylt að endurkrefja það sem ofgreitt hafi verið í samræmi við 34. gr. laganna. Meginreglan sé því sú að ef tekjur sem lagðar séu til grundvallar endurreikningi reynist hærri en tekjuáætlun hafi gert ráð fyrir og ofgreiðsla stafi af því að bótaþegi hafi ekki tilkynnt Tryggingastofnun um tekjuaukninguna eða aðrar breyttar aðstæður þá skuli sú ofgreiðsla endurkrafin. Skipti þá ekki máli hvort greiðsluþegi hafi getað séð fyrir þessa tekjuaukningu eða breyttar aðstæður.

Stofnunin vilji benda kæranda á að þrátt fyrir að endurreikningur leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar sé heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður séu fyrir hendi. Skuli þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann hafi verið í góðri trú um greiðslurétt sinn. Hægt sé að sækja um niðurfellingu ofgreiðslukröfu á „Mínum síðum“ á tr.is.

Kærð ákvörðun sé í samræmi við lög og reglur sem gilda um uppgjör og endurreikning tekjutengdra bóta. Tryggingastofnun fari því fram á að kærð ákvörðun verði staðfest.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2022.

Kærandi fékk greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins frá 1. október til 31. desember 2022. Í þágildandi 3. mgr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð segir að um endurhæfingarlífeyri gildi þágildandi ákvæði a-liðar 4. mgr. og 5. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar.

Samkvæmt þágildandi 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.

Í þágildandi 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að til tekna samkvæmt III. kafla skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, með tilteknum undantekningum. Á grundvelli 3. mgr. 33. gr. laga um almannatryggingar ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Ef í ljós kemur við endurreikning að bætur hafi verið ofgreiddar ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt þágildandi 34. gr. laga um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

Á grundvelli 2. mgr. 9. gr. þágildandi laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð er heimilt að greiða lífeyrisþega sérstaka uppbót á lífeyri vegna framfærslu ef sýnt þykir að hann geti ekki framfleytt sér án hennar.

Í þágildandi 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar kemur fram að til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar skuli leggja 1/12 af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins og að bótagreiðsluár sé almanaksár, en sé um nýja umsókn að ræða skuli bótaréttur reiknaður út frá þeim tekjum umsækjanda sem aflað er frá þeim tíma sem bótaréttur stofnaðist. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 598/2009 skal Tryggingastofnun við endurreikning bóta til þeirra sem fengu greiðslur hluta úr bótagreiðsluári, byggja á upplýsingum úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda þegar um er að ræða tekjur sem eru staðgreiðsluskyldar samkvæmt lögum nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda. Eingöngu ber að líta til tekna þeirra mánaða sem bótaréttur var fyrir hendi í. 

Við úrlausn þessa máls hefur úrskurðarnefnd velferðarmála hliðsjón af þeim lagaákvæðum sem tilgreind hafa verið hér að framan.

Kærandi lagði fram tekjuáætlun vegna október til og með desember 2022. Samkvæmt gögnum málsins sendi Tryggingastofnun kæranda staðfestingu á tekjuáætlun, dags. 17. október 2022, þar sem gert var ráð fyrir 480.000 kr. frá lífeyrissjóði á tímabilinu 1. október til 31. desember 2022. Kærandi gerði ekki athugasemdir við áætlunina og voru því greiðslur reiknaðar út frá framangreindum forsendum.

Eins og áður hefur komið fram naut kærandi greiðslna endurhæfingarlífeyris frá 1. október til 31. desember 2022. Í samræmi við framangreint ákvæði a-liðar 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 598/2009 hafa allar tekjur kæranda í þeim mánuðum áhrif á réttindi kæranda. Samkvæmt upplýsingum skattyfirvalda vegna tekjuársins 2022 reyndust tekjur kæranda á framangreindu tímabili vera 1.052.188 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 165 kr. í vexti og verðbætur sameiginlegar með maka. Niðurstaða endurreiknings Tryggingastofnunar á tekjutengdum bótagreiðslum vegna ársins 2022, dags. 23. maí 2023, var sú að sökum tekna hefði kærandi fengið ofgreiddar bætur samtals að fjárhæð 212.097 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu.

Samkvæmt framangreindu reyndust lífeyrissjóðstekjur kæranda vegna tímabilsins 1. október til 31. desember 2022 hafi verið hærri en gert hafði verið ráð fyrir í tekjuáætlunum og leiddu til ofgreiðslu. Ágreiningur málsins varðar meðhöndlun Tryggingastofnunar á lífeyrissjóðstekjum kæranda. Lífeyrissjóðstekjur er tekjustofn sem hefur áhrif á bótarétt samkvæmt lögum um almannatryggingar, sbr. þágildandi 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar og 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt.

Kærandi byggir á því að hann hafi ekki getað vitað hvaða tekjur hann myndi fá frá öllum lífeyrissjóðum hans á árinu 2022.

Úrskurðarnefndin horfir til þess að umræddar tekjur kæranda á árinu 2022 voru greiddar eftir töku endurhæfingarlífeyris. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 598/2009 skal Tryggingastofnun við endurreikning bóta til þeirra, sem fengu greiðslur hluta úr bótagreiðsluári, byggja á upplýsingum úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda þegar um er að ræða tekjur sem eru staðgreiðsluskyldar samkvæmt lögum nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda. Eingöngu ber að líta til tekna þeirra mánaða sem bótaréttur var fyrir hendi í. Þá er Tryggingastofnun ekki heimilt að horfa fram hjá tekjum sem birtast á framtali bótaþega, enda kveður 3. mgr. 33. laga um almannatryggingar skýrt á um að eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skuli stofnunin endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna samkvæmt þessari grein. Þó svo að kæranda hafi ekki getað vitað um fyrirhugaðar tekjur frá lífeyrissjóðum breytir það ekki framangreindri lagaskyldu Tryggingastofnunar ríkisins að endurreikningur skuli byggjast á upplýsingum í skattframtali.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur rétt benda kæranda á að hann getur freistað þess að leggja fram beiðni um niðurfellingu ofgreiddra bóta til Tryggingastofnunar á grundvelli undanþáguákvæðis 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags. Þar kemur fram að heimilt sé að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður séu fyrir hendi. Þá skuli einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna greiðsluþega og þess hvort hann hafi verið í góðri trú um greiðslurétt sinn.

Í kæru eru jafnframt gerðar athugasemdir við misræmi á milli greiðsluáætlunar vegna ársins 2023 og þeirra raungreiðslna sem kærandi hefur fengið frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu. Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins er ástæða þessa misræmis sú að í mars 2023 hafi stofnunin leiðrétt tekjuáætlun kæranda í samræmi við staðgreiðslu, nánar tiltekið voru lífeyrissjóðstekjur kæranda hærri en gert hafði verið ráð fyrir í tekjuáætlun ársins. Þetta skýri framangreint misræmi sem kærandi vísar til.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun um endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum ársins 2022.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum A, á árinu 2022, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta