Hoppa yfir valmynd

Nr. 452/2018 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 25. október 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 452/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18080022

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 20. ágúst 2018 kærði […], fd. […], ríkisborgari Úkraínu (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 14. ágúst 2018, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að honum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 7. febrúar 2017. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 26. september 2017 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, þann 14. ágúst 2018, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 20. ágúst 2018. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 4. september 2018.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu vegna stjórnmálaskoðana sinna. Kærandi sé meðlimur í Kommúnistaflokknum í heimaríki.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi greint frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að hann sé fæddur og uppalinn í borginni Zaporozje í Úkraínu og hafi búið þar áður en hann hafi flúið land. Kærandi sé meðlimur í Kommúnistaflokknum í heimaríki og hafi verið virkur í starfi flokksins og gegnt trúnaðarstörfum fyrir flokkinn, m.a. gjaldkerastöðu. Þá hafi kærandi látið skoðanir sínar í ljós skriflega á opinberum vettvangi. Ofsóknir á hendur meðlimum flokksins hafi hafist í kjölfarið af uppþotum í Maidan í Kiev árið 2014. Flokkurinn hafi óskað eftir leyfi til að standa að mótmælum hinn 1. maí 2015. Við því hafi verið lagt bann og í raun sé starfsemi flokksins bönnuð með öllu. Þar sem flokknum hafi verið neitað um að efna til eigin mótmæla hafi meðlimir hans fjölmennt á mótmæli annars hóps sem hafi mótmælt stríði í landinu. Þá hafi fulltrúi Frelsisflokksins verið á staðnum og fylgst með kommúnistunum. Slagsmál hafi brotist út milli hópanna með þeim afleiðingum að kommúnistar hafi verið beittir ofbeldi og fánar teknir af þeim. Fáni kæranda hafi verið tekinn af honum með valdi og hafi hann þá tekið þátt í slagsmálunum. Loks hafi lögreglumenn hafið að handtaka kommúnistana, færa þá í bíla og á lögreglustöð. Kærandi hafi dvalið á lögreglustöðinni til klukkan tíu um kvöldið og verið gert að mæta fyrir dóm þann 15. maí 2015. Kærandi hafi mætt fyrir dóm þar sem einn af lögreglumönnunum hafi verið að ræða við dómarann. Lögreglumaðurinn hafi tjáð kæranda að gegn játningu fengi hann aðeins sekt en ekki fangelsisdóm. Kærandi hafi því næst verið hnepptur í gæsluvarðhald ásamt öðrum flokksmeðlimi og hafi þeir verið beittir ofbeldi af lögreglumönnum. Að kvöldi 17. maí 2015 hafi kæranda verið sleppt. Hann hafi þá leitað til bráðamóttöku vegna áverkanna sem hann hafi hlotið í varðhaldi. Kærandi hafi lagt fram kæru vegna ólöglegrar handtöku og lögregluofbeldis án árangurs. Þá hafi kærandi tekið þátt í fleiri mótmælum, m.a. 17. mars 2016, þar sem öryggissveit hafi ráðist á mótmælendur. Að þeim mótmælum loknum hafi lögreglumenn stöðvað kæranda, leitað á honum og fundið muni tengda Kommúnistaflokknum. Í kjölfarið hafi kærandi verið handtekinn og færður á lögreglustöð þar sem honum hafi verið tjáð að honum yrði sleppt gegn greiðslu. Kærandi hafi neitað að greiða lögreglunni og hafi því verið settur í fangaklefa þar sem hann hafi aftur verið beittur ofbeldi af lögreglu. Einnig hafi hann verið rændur eigum sínum og neitað um mat og drykk. Kærandi hafi reynt að leggja fram kvörtun vegna framferðis lögreglunnar án árangurs.

Kærandi sé eigandi fjögurra sölubása og hafi frá árinu 2016 ítrekað lent í uppákomum, þ. á m. ítrekuðum athugunum af hálfu skattayfirvalda og annarra eftirlitsaðila auk þess sem skemmdarverk og rán hafi verið framin. Að kvöldi 10. september 2016 hafi verið ráðist á kæranda á leið heim, hann verið færður inn í íbúð sína, bundinn og barinn þar til hann hafi misst meðvitund auk þess sem skemmdir hafi verið unnar á íbúð hans. Kærandi hafi dvalið á spítala í níu daga í kjölfarið. Kærandi hafi reynt að kæra en lögreglan hafi neitað að rannsaka málið. Kærandi hafi komist að því frá einstaklingi sem hann þekki og starfi hjá lögreglunni að stjórnvöld hafi staðið að árásinni og hann ætti því enga möguleika á vernd. 

Þann 4. október 2016 hafi kærandi yfirgefið Zaporozje og flutt til Berdjansk þar sem hann hafi leigt hús. Þaðan hafi hann sent lögreglu bréf sem hafi ekki verið svarað en þann 15. október 2016 hafi hann aftur orðið fyrir árás. Kærandi hafi verið umkringdur þremur mönnum skammt frá heimili sínu sem hafi kveðist vera frá Frelsisflokknum. Mennirnir hafi ráðist á kæranda og tjáð honum að honum skyldi refsað fyrir að hafa sent bréfið og hafi tjáð honum að hann væri hvergi öruggur. Kærandi hafi sent lögregluyfirvöldum í Kiev bréf og lýst atburðunum. Kærandi hafi farið aftur til Zaporozje á meðan hann hafi beðið eftir viðbrögðum við bréfinu en svar hafi borist þann 19. nóvember 2016 þess efnis að málið yrði ekki rannsakað og honum bent á að hafa samband við lögreglu í sínu umdæmi. Þann 7. janúar 2017 hafi kærandi aftur orðið fyrir árás á heimili sínu af hálfu þriggja manna er hafi kveðist tengjast Frelsisflokknum. Mennirnir hafi gengið í skrokk á kæranda og sagt honum að yfirgefa Úkraínu. Um svipað leyti hafi kærandi orðið fyrir ítrekuðu áreiti símleiðis, dyrabjöllu hans hafi verið hringt allan sólarhringinn og honum veitt eftirför sem hafi að mati kæranda verið í því skyni að hræða hann. Þann 30. janúar 2017 hafi kærandi flúið til Moskvu og þaðan til Íslands. Í síðasta viðtali hjá Útlendingastofnun hafi kærandi greint frá því að eftir komuna til Íslands hafi úkraínskir einstaklingar á vegum þarlendra öryggissveita haft í hótunum við hann og reynt að fá hann með sér úr landi vegna þeirra atburða sem hafi átt sér stað í heimaríki.

Kærandi gerir í greinargerð athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar í máli hans, einkum það mat stofnunarinnar að hann hafi ekki gegnt trúnaðarstörfum fyrir Kommúnistaflokkinn í heimaríki og eigi þ.a.l. ekki á hættu ofsóknir af hálfu yfirvalda. Þá gerir kærandi athugasemd við mat Útlendingastofnunar á möguleikum kæranda á vernd lögreglu og annarra yfirvalda.

Kærandi fjallar í greinargerð sinni um ástand mannréttindamála í Úkraínu. Þar kemur fram að spilling sé útbreidd á öllum stigum stjórnkerfisins og að meðlimir Kommúnistaflokksins verði fyrir ofsóknum. Kærandi vísar til skýrslna sem hann telur styðja mál sitt.

Kærandi byggir á því að hann sæti ofsóknum vegna stjórnmálaskoðana og vísar m.a. til þess að e-liður 38. gr. laga um útlendinga eigi við í máli hans þar sem hann hafi tjáð skoðanir sínar opinberlega, ekki farið leynt með aðild sína að Kommúnistaflokknum og stjórnvöldum sé kunnugt um trúnaðarstörf hans fyrir flokkinn. Frásögn kæranda bendi til þess að stuðningur hans og störf hans fyrir flokkinn séu ástæða ofsókna yfirvalda á hendur honum og bendi heimildir til þess að úkraínsk yfirvöld stundi kerfisbundnar ofsóknir gegn meðlimum Kommúnistaflokksins. Bann úkraínskra stjórnvalda á starfsemi Kommúnistaflokksins sé eitt og sér alvarlegt brot á grundvallarmannréttindum. Á því sé byggt að þær ofsóknir sem kærandi hafi orðið fyrir af hálfu úkraínskra yfirvalda feli í sér alvarlegt brot á grundvallarmannréttindum hans, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Vegna þeirra ofsókna sem kærandi hafi orðið fyrir óttist hann að verða fyrir frekari ofsóknum verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis. Með vísan til frásagnar kæranda og heimilda um ástand mannréttindamála í Úkraínu telji hann sannað að ótti hans við ofsóknir vegna stjórnmálaskoðana sé ástæðuríkur. Samkvæmt framangreindu sé kærandi flóttamaður í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og beri því að veita honum alþjóðlega vernd á Íslandi. Þá bryti endursending kæranda einnig gegn grundvallarreglu þjóðarréttar um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Þá vísar kærandi til 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar, 2. og 3. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, 3. gr. samnings gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu og 33. gr. Flóttamannasamningsins. Þá er í greinargerð fjallað um hverjir geti verið valdir af ofsóknum og sé það mat kæranda að hann eigi á hættu ofsóknir af hálfu ríkisins, sbr. a-lið 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Til vara krefst kærandi þess að honum verð veitt vernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og er saga ákvæðisins rakin. Ákvæðið taki mið af tilskipun Evrópusambandsins nr. 2004/83/EB um lágmarksskilyrði til að ríkisborgarar þriðju landa eða ríkisfangslausir einstaklingar teljist flóttamenn eða menn sem að öðru leyti þarfnist alþjóðlegrar verndar og um inntak slíkrar verndar.

Til þrautavara er þess krafist að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið heimili að veita slíkt leyfi ef útlendingur geti sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. vegna erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki. Í athugasemdum við 74. gr. laga um útlendinga í frumvarpi því sem varð að lögunum segi að með almennum aðstæðum sé m.a. vísað til þeirra aðstöðu að yfirvöld veiti þegnum sínum ekki vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Líkt og áður hafi verið lýst hafi kærandi ítrekað sætt meðferð sem geti talist ómannúðleg og vanvirðandi af hálfu opinberra aðila. Kærandi hafi verið þolandi viðvarandi mannréttinda- og ofbeldisbrota sem yfirvöld veiti honum ekki vernd gegn. Samkvæmt framangreindu uppfylli hann því skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað úkraínsku ökuskírteini. Að þessu virtu var það mat Útlendingastofnunar að kærandi hefði leitt líkur að því hver hann sé án þess að auðkenni hann teldist upplýst. Var því leyst úr auðkenni kæranda á grundvelli trúverðugleikamats og var það niðurstaða Útlendingastofnunar að ekkert í málinu gæfi tilefni til að draga þjóðerni kæranda í efa og var byggt á því við úrlausn málsins að kærandi sé frá Úkraínu. Hefur kærunefnd ekki forsendur til annars en að taka undir þetta mat Útlendingastofnunar og verður því lagt til grundvallar að kærandi sé úkraínskur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Úkraínu m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • 2017 Country Reports on Human Rights Practices – Ukraine (U.S. Department of State, 20. apríl 2018);
  • Ukraine 2017/2018 (Amnesty International, 3. september 2018);
  • Ukraine: The new law on police and its effectiveness; recourse and state protection available to private citizens who have been the victims of criminal actions of police officers in Kiev (2014-January 2015) (Immigration and Refugee Board of Canada, 14. janúar 2016);
  • Association Implementation Report on Ukraine (European Commission, 14. nóvember 2017);
  • Country Information and Guidance – Ukraine: Background Information, including actors of protection and internal relocation (UK Home Office, ágúst 2016);
  • Report by Nils Muižnieks Commissioner for Human Rights of the Council of Europe Following his visit to Ukraine from 21 to 25 March 2016 (Council of Europe, 11. júlí 2016);
  • Temanotat Ukraina. Domstolene – korrupsjon og manglende uavhengighet (Landinfo, 6. júlí 2015);
  • International Protection Considerations related to developments in Ukraine – Update III (UNHCR, 24. september 2015);
  • Ukraine: UNHCR Operational Update, September 2016 (UNHCR, 21. september 2016);
  • Ukraina: Korrupsjonsbekjempelse og beskytelse for varslere (LandInfo, 21. febrúar 2018);
  • Ukraina: Internflyktningen (LandInfo, 19. desember 2017) og
  • Freedom in the World 2018 – Ukraine (Freedom House, 19. janúar 2018).

Úkraína er lýðræðisríki með um 44 milljónir íbúa og eru mannréttindi almennt talin virt af úkraínskum stjórnvöldum á þeim svæðum sem lúta stjórn þeirra. Úkraína gerðist aðili að Evrópuráðinu árið 1995 og fullgilti mannréttindasáttmála Evrópu árið 1997. Landið gerðist aðili að flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna 10. júní 2002, alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi 12. nóvember 1973 og samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu þann 24. febrúar 1987. Meirihluti íbúa landsins eru af úkraínskum uppruna eða um 78 % en um 17 % íbúa eru af rússneskum uppruna og 5 % eru af hinum ýmsu þjóðarbrotum. Úkraína er á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki, að undanskildum héruðunum Donetsk, Luhansk og Krím.

Í ofangreindum gögnum kemur m.a. fram að í lok árs 2013 hafi mótmæli hafist í Kænugarði og öðrum borgum Úkraínu. Upphaflega hafi verið um friðsöm mótmæli að ræða en síðar hafi átt sér stað átök fylkinga óeirðalögreglu og mótmælenda sem hafi leitt til mannfalls. Í kjölfar ofangreindra mótmæla og innlimunar Rússa á Krímskaga í mars 2014 hafi brotist út átök á milli hersveita aðskilnaðarsinna og Úkraínuhers í austurhluta Úkraínu. Í gögnunum greinir að fulltrúar frá Úkraínu, Rússlandi og aðskilnaðarsinnum hafi undirritað samkomulag um vopnahlé í september 2014, en að átök eigi sér enn stað á víð og dreif á svæðinu milli stjórnarhers og aðskilnaðarsinna, sem studdir séu af yfirvöldum í Rússlandi. Þrátt fyrir að átökin séu að mestu einangruð við héruðin Donetsk og Luhansk í austurhluta Úkraínu hafi önnur svæði einnig orðið fyrir árásum og séu áhrif stríðsins margskonar. Samkvæmt ofangreindum gögnum sé vegalaust fólk innan landsins u.þ.b. 1,7 milljón manns. Lög um vegalaust fólk innan ríkisins hafi tekið gildi í október 2014 og hafi skráningar á fólkinu hafist skömmu eftir gildistöku þeirra. Vegalaust fólk innan ríkisins standi frammi fyrir áskorunum á borð við fátækt og atvinnuleysi. Hins vegar hafi kannanir sýnt fram á að hópurinn hafi jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu og aðrir íbúar landsins. 

Þá kemur fram í gögnum að spilling sé viðvarandi vandamál í Úkraínu og birtist helst innan löggæslu- og dómskerfisins. Samkvæmt skýrslu frá desember 2017 séu margar stofnanir sem starfi við að rannsaka og ákæra í spillingarmálum. Samtökin The National Anti Corruption Bureu (NABU) rannsaki spillingu hjá yfirvöldum á meðan lögreglan annist rannsókn spillingarmála á lægri stigum löggæslu. Í skýrslunni komi fram að NABU rannsaki spillingu með skilvirkum hætti en rannsókn lögreglunnar hafi ekki verið mjög árangursrík. Þá veigri margir íbúar landsins sér við því að tilkynna spillingu innan stjórnkerfisins vegna skorts á viðeigandi úrræðum til að veita þeim stuðning og vernd.

Í skýrslu Freedom House frá þessu ári kemur fram að í Úkraínu ríki frelsi til að setja á fót stjórnmálaflokka með þeirri undantekningu að árið 2015 hafi starfsemi Kommúnistaflokksins verið bönnuð. Þá séu í gildi lög sem geri refsivert að sýna tákn kommúnisma og nasista. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2016 kemur fram að Sameinuðu þjóðirnar hafi greint mynstur áreitis í garð meðlima Kommúnistaflokksins. Þá kemur fram í ofangreindum gögnum, m.a. skýrslu Amnesty International frá september 2018 og skýrslu Freedom House, að fundarfrelsi sé takmarkað í Úkraínu en aðgerðir vegna slíkra takmarkana beinist aðallega gegn aðgerðarsinnum, fjölmiðlafólki og frjálsum félagasamtökum sem berjist gegn spillingu í ríkinu.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a.   ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c.   aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi ber fyrir sig að hafa orðið fyrir ofsóknum af hálfu úkraínskra stjórnvalda vegna aðildar sinnar að Kommúnistaflokknum þar í landi. Í viðtali hjá Útlendingastofnun og í greinargerð kveðst kærandi vera meðlimur í Kommúnistaflokknum og hafa verið virkur í störfum fyrir flokkinn. Kærandi hafi m.a. gegnt gjaldkerastöðu í flokknum. Kærandi hafi orðið fyrir ítrekuðum árásum og hafi ekki fengið vernd yfirvalda þrátt fyrir að hafa leitast eftir slíkri aðstoð. Þá hafi kærandi orðið fyrir ofbeldi af hálfu lögreglu þegar hann hafi verið í varðhaldi vegna þátttöku sinnar í mótmælum gegn yfirvöldum. Þá greindi kærandi frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun dags. 14. ágúst 2018 að hann óttaðist að verða sendur í fangelsi í heimaríki vegna tengsla sinna við Kommúnistaflokkinn. Í sama viðtali greindi kærandi frá því að útsendari frá Úkraínu, kona að nafni […], hafi nálgast hann hérlendis og hótað honum. Kærandi kvaðst ekki hafa þekkt umrædda konu fyrir heldur hafi þau komist í samband í gegnum veraldarvefinn.

Kærandi lagði fram við meðferð málsins afrit af úkraínsku ökuskírteini hans, staðfestingu á sjúkrakostnaðartryggingu hjá Sjóvá-Almennum tryggingum og yfirlýsingu frá húseiganda um leyfi til búsetu í húsnæði hér á landi. Kærandi hefur hins vegar ekki lagt fram gögn sem renna stoðum undir aðild hans að Kommúnistaflokknum eða störf hans fyrir flokkinn. Þá hefur kærandi heldur ekki lagt fram gögn sem leggja grunn að staðhæfingu hans um að hann hafi orðið fyrir eða eigi á hættu að verða fyrir ofsóknum af hálfu yfirvalda vegna starfa sinna fyrir Kommúnistaflokkinn þrátt fyrir að hafa verið leiðbeint í viðtali hjá Útlendingastofnun um að leggja fram slík gögn, þ. á m. skjöl sem kærandi kvaðst eiga í heimaríki. Þá hefur kærandi ekki sýnt fram á að hann hafi leitað til lögreglu vegna þeirra ofsókna sem hann hefur lýst né lagt fram gögn um áverkana sem hann kveðst hafa orðið fyrir í framangreindum árásum. Auk þess hefur kærandi ekki lagt fram gögn sem renna stoðum undir frásögn hans varðandi hótanir sem hann kveðst hafa orðið fyrir af útsendara öryggisveita Úkraínu hér á landi eða tengsl umræddrar konu við úkraínsk stjórnvöld. Enn fremur hefur kærandi ekki leitað til lögreglu vegna umræddra atvika hér á landi. Kærunefnd telur að flótta kæranda hafi ekki borið það brátt að að ósanngjarnt sé að gera þá kröfu að hann afli trúverðugra gagna sem leggi grunn að málsástæðum hans.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að hann óttaðist að verða settur í fangelsi við komu til heimaríkis. Kærandi hefur hvorki lagt fram gögn né borið fyrir sig atburði sem leiða að því líkur að hann eigi slíkt á hættu í heimaríki. Í þeim gögnum sem kærunefnd hefur skoðað um Úkraínu er ekkert sem gefur til kynna að einstaklingar séu settir í fangelsi án dóms og laga.

Gögn sem kærunefnd hefur yfirfarið bera með sér að háttsettir embættismenn innan Kommúnistaflokksins hafi átt undir högg að sækja en af nýjustu skýrslum mannréttindasamtaka um Úkraínu má ekki ráða að kerfisbundnar ofsóknir eigi sér stað gegn meðlimum flokksins heldur beiti ríkið sér aðallega gegn fundafrelsi einstaklinga sem berjist gegn spillingu. Kærandi hefur ekki borið fyrir sig að hafa tekið þátt í slíkri baráttu heldur kveðst hann hafa orðið fyrir ofsóknum fyrir þær sakir einar að vera meðlimur Kommúnistaflokksins sem sé bannaður í heimaríki hans. Jafnframt kemur fram í viðtali við kæranda hjá Útlendingastofnun að hann hafi ekki verið í forystu flokksins heldur tekið virkan þátt í störfum hans og verið gjaldkeri undirflokks flokksins. Það er því mat kærunefndar að kærandi hafi ekki leitt að því líkur að hann eigi á hættu ofsóknir stjórnvalda fyrir að hafa stutt Kommúnistaflokkinn og fyrir þátttöku í mótmælum. Verður því ekki lagt til grundvallar að kærandi hafi orðið fyrir eða eigi á hættu ofsóknir af hálfu stjórnvalda í heimaríki.

Gögn um heimaríki kæranda benda til þess að til staðar sé kerfi sem kærandi geti leitað til telji hann að lögregla bregðist ekki rétt við leiti hann til þeirra eða ef hann telur sig hafa verið beittan órétti af lögreglu. Borgarar geti kvartað beint til lögreglu og dómstóla. Vegna spillingar í landinu hefur þetta kerfi þó sætt gagnrýni sérstaklega þegar um sé að ræða einstaklinga sem séu andsnúnir stjórnvöldum. Þó benda gögn til þess að innanríkisráðuneyti landsins hafi hafið mál gegn fjölda lögreglumanna vegna brota þeirra í starfi og þá hafi aðrir verið beittir agaviðurlögum eða reknir úr störfum sínum hjá lögregluembættum.

Kærunefnd telur ekki ástæðu til að útiloka að kærandi sé stuðningsmaður Kommúnistaflokksins í heimaríki sínu og að hann kunni að hafa orðið fyrir áreiti af hálfu ótilgreindra einstaklinga. Það er þó mat kærunefndar að ekki hafi verið sýnt fram á að stjórnvöld í Úkraínu geti ekki eða vilji ekki veita honum vernd, m.a. með því að ákæra eða refsa fyrir þær athafnir sem feli í sér ofsóknir, sbr. 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Kærandi hefur því raunhæfan möguleika á því að leita sér ásjár stjórnvalda þar í landi, ef hann telur sig þurfa á aðstoð þeirra að halda.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. og 4. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. jafnframt 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. og 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal stjórnvald sem kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laganna eigi ekki við um útlending að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að orðalag 1. mgr. 74. gr. kveði ekki með skýrum hætti á um veitingu dvalarleyfis má skilja af athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016, fyrirsögn greinarinnar og af 6. mgr. 37. gr. laganna að það hafi þó verið ætlunin með ákvæðinu. Kærunefnd telur því rétt að túlka ákvæðið sem heimild til veitingar dvalarleyfis þegar skilyrði þess eru uppfyllt.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Kærandi ber fyrir sig erfiðar almennar aðstæður í heimaríki og lýsir því að hafa sætt slæmri meðferð af hálfu opinberra aðila og að yfirvöld hafi ekki viljað veita honum vernd. Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að ákvæði 1. mgr. 74. gr. vísi einnig til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti þegnum sínum ekki vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Með vísan til umfjöllunar um aðstæður í heimaríki telur kærunefnd að aðstæður kæranda séu ekki slíkar að unnt sé að veita kæranda dvalarleyfi á þeim grundvelli. 

Fjallað hefur verið um aðstæður kæranda í heimaríki en hann kvaðst jafnframt í viðtali hjá Útlendingastofnun vera við góða líkamlega og andlega heilsu. Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða að því tilskildu að skorið hafi verið úr um að útlendingur uppfylli ekki skilyrði skv. 37. og 39. gr. sömu laga. Samkvæmt d-lið 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga á slíkt þó ekki við um útlending sem á sjálfur þátt í því að niðurstaða hafi ekki fengist innan tímarmarka.

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 7. febrúar 2017 og liggur því fyrir að mál hans hefur verið í meðferð hjá íslenskum stjórnvöldum lengur en 18 mánuði, n.t.t. 20 mánuði. Birta átti niðurstöðu í máli kæranda hjá Útlendingastofnun þann 14. febrúar 2018. Ekki tókst að birta fyrir kæranda þar sem hann hafði farið til Noregs og sótt þar um alþjóðlega vernd. Kærandi kom síðan aftur hingað til lands á grundvelli b-liðar 18. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 og var boðaður í annað viðtal þann 14. ágúst 2018. Niðurstaða í máli hans lá fyrir sama dag og var honum birt ákvörðun Útlendingastofnunar þann 14. ágúst 2018. Í viðtali þann 14. ágúst greindi kærandi frá því að hann hafi sjálfviljugur yfirgefið landið. Kærandi bar því sjálfur ábyrgð á töfum málsins og uppfyllir því ekki skilyrði 2. mgr. 74. gr. um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Verður kæranda því ekki veitt dvalarleyfi á þeim grundvelli.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Athugasemdir við málsmeðferð Útlendingastofnunar

Kærandi gerir athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar í máli hans, einkum það mat stofnunarinnar að hann hafi ekki gegnt trúnaðarstörfum fyrir Kommúnistaflokkinn í heimaríki og eigi þ.a.l. ekki á hættu ofsóknir af hálfu yfirvalda. Þá gerir kærandi athugasemd við mat Útlendingastofnunar á möguleikum kæranda á vernd lögreglu og annarra yfirvalda. Má af greinargerð ráða að kærandi telji að Útlendingastofnun hafi brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.

Rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem eru nauðsynleg svo mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds en gerir hvorki kröfu um að aflað sé allra upplýsinga sem varpað gætu ljósi á málið né að stjórnvald afli ófáanlegra gagna. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga.

Að mati kærunefndar hefur ekkert komið fram í málinu sem bendir til þess að skort hafi á að nauðsynlegar upplýsingar lægju fyrir um ástandið í heimaríki kæranda, við ákvörðunartöku hjá Útlendingastofnun. Þá hafi Útlendingastofnun boðað kæranda í viðtal þann 14. ágúst 2018 í því skyni að gefa honum færi á að greina frekar frá aðstæðum sínum. Í því sambandi er tekið fram að kærunefnd hefur yfirfarið þau gögn sem aflað var við rekstur málsins, svo og skýrslur opinberra stofnana, og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun. Það er því mat kærunefndar að málsmeðferð Útlendingastofnunar í máli kæranda hafi verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands 7. febrúar 2017 og sótti um alþjóðlega vernd sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi er við ágæta heilsu og kemur frá öruggu héraði ríkis sem hefur verið talið að mestu leyti öruggt. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 7 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests er heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 7 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 7 days to leave the country voluntarily.

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

 

Árni Helgason                                                                   Þorbjörg Inga Jónsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta