Nr. 91/2015 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 9. júlí 2015 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 91/2015
Í stjórnsýslumáli nr. KNU15060012
Beiðni um frestun réttaáhrifa í máli […]
Málsatvik
Þann 29. maí 2015 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 12. júní 2014, um að synja […], fd. […9, ríkisborgara Albaníu (hér eftir nefndur kærandi), um hæli á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga nr. 96/2002. Við birtingu úrskurðar kærunefndarinnar, þann 9. júní 2015, lagði kærandi fram beiðni um frestun réttaráhrifa á grundvelli 33. gr. útlendingalaga nr. 96/2002. Þann 18. júní sl. barst kærunefnd útlendingamála rökstuðningur fyrir þeirri beiðni.
Málsástæður kæranda
Í greinargerð kæranda vegna kröfu um frestun réttaráhrifa kemur fram að kærandi vilji krefjast ógildingar á úrskurði kærunefndar útlendingamála fyrir dómstólum þar sem að hann telji að stjórnvöld hafi ekki rannsakað aðstæður hans nægilega vel. Stjórnvöld
hafi þannig brotið reglur landsréttar og þjóðaréttar.
Þá greinir að ekkert í máli þessu mæli gegn frestun réttaráhrifa þar sem ekki sé annar aðili að máli sem eigi andstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli með frestun réttaráhrifa hvað úrskurðurinn er íþyngjandi fyrir kæranda og geti valdið varanlegu tjóni fyrir hann ef áhrifum verði ekki frestað.
Krafa kæranda styðjist við rétt til þess að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur fyrir óháðum dómstóli sem tryggður sé í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og alþjóðasamningi Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi.
Ennfremur er á því byggt að kærandi hafi lögvarinna hagsmuna að gæta og hafi skýlausan rétt til að vera staddur hér á landi á meðan mál hans er borið undir dómstóla. Vísað er í dóm Hæstaréttar nr. 499/2005 þessu til stuðnings.
Lagarammi
Krafa kæranda um frestun réttaráhrifa er byggð á ákvæði 6. mgr. 33. gr. útlendingalaga nr. 96/2002. Í 33. gr. útlendingalaga er áréttuð sú meginregla íslensks réttar að kæra eða málshöfðun fresti ekki réttaráhrifum. Heimild kærunefndar útlendingamála til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar er því háð því að ástæða sé talin til þess. Í athugasemdum við 12. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 64/2014, þar sem ákvæði 33. gr. útlendingalaga var breytt, var áréttuð meginreglan um að málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið fresti ekki framkvæmd hennar en hins vegar sé heimilt að fallast á frestun réttaráhrifa sé ástæða til þess.
Niðurstaða
Kærunefndin hefur fallist á frestun réttaráhrifa á úrskurði sínum í máli sonar kæranda á meðan sonurinn leitar réttar síns fyrir dómstólum hér á landi. Kærandi er mikilvægur þátttakandi í meðferð sonar síns hér á landi en einnig er sonur kæranda háður umönnun föður síns í daglegu lífi. Þykir því rétt að fresta réttaráhrifum á úrskurði nefndarinnar í máli kæranda á meðan að mál hans er til meðferðar hjá dómstólum.
Úrskurðarorð
Krafa kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar útlendingamála frá 29. maí 2015 er samþykkt.
The appellant’s request for stay of implementation of a decision of the Immigration and Asylum Appeals Board dated 29 May 2015 is granted.
Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður
Anna Valbjörg Ólafsdóttir Pétur Dam Leifsson