Hoppa yfir valmynd

997/2021. Úrskurður frá 13. apríl 2021.

Úrskurður

Hinn 13. apríl 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 997/2021 í máli ÚNU 20080021.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 25. ágúst 2020, kærði A synjun Herjólfs ohf. á beiðni hans um upplýsingar um gámaflutninga með Herjólfi ohf. tímabilið 1. janúar 2020 til 31. júlí 2020 auk upplýsinga um fyrir hverja var flutt. Nánar tiltekið fór kærandi fram á upplýsingar um hvernig flutningum var skipt niður á flutningsaðilana Kubb, Samskip, Eimskip og Fiskfrakt.

Kærandi óskaði eftir umræddum upplýsingum með bréfi, dags. 14. ágúst 2020. Í svari Herjólfs ohf. til kæranda, dags. 19. ágúst 2020, kemur fram að með vísan til viðskiptahagsmuna muni félagið ekki upplýsa um einstök efnisatriði er varði viðskipti félagsins við þriðja aðila, hvorki verð, magn né annað er varði viðskiptasamband milli aðila.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi upplýsingar um þau verð sem tiltekin fyrirtæki greiði fyrir gámaflutninga með Herjólfi ohf. Þá er vísað til þess að farmskrá félagsins sé opinbert gagn. Í kæru er þess farið á leit við úrskurðarnefnd um upplýsingamál að nefndin úrskurði um skyldu Herjólfs ohf. til að afhenda upplýsingar um fjölda fluttra gáma auk upplýsinga um hvernig flutningum var skipt niður á fyrrnefnda flutningsaðila.

Eins og þetta mál er vaxið taldi úrskurðarnefndin óþarft að beita heimild 2. mgr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 til að veita Herjólfi ohf. kost á að láta nefndinni í té rökstutt álit á málinu. Þá þykir óþarft að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.

Niðurstaða

Í málinu er deilt um afgreiðslu Herjólfs ohf. á beiðni um upplýsingar um gámaflutninga á tímabilinu 1. janúar 2020 til 31. júlí 2020 auk upplýsinga um fyrir hverja var flutt. Nánar tiltekið fór kærandi fram á upplýsingar um hvernig flutningum var skipt niður á flutningsaðilana Kubb, Samskip, Eimskip og Fiskfrakt.

Upplýsingalög taka samkvæmt 2. mgr. 2. gr. til aðila sem teljast að 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera, ríkisins eða sveitarfélaga. Herjólfur ohf. er í eigu Vestmanneyjabæjar og fellur þar af leiðandi undir gildissvið laganna.

Í 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga er tekið fram að skylt sé, ef þess sé óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.-10. gr. Sama gildir þegar óskað er aðgangs að tilteknum fyrirliggjandi gögnum.

Þá leiðir af ákvæðum upplýsingalaga að stjórnvöldum ber að afmarka beiðni um upplýsingar við gögn í vörslum sínum, sbr. 15. gr. upplýsingalaga, og taka afstöðu til réttar beiðanda til aðgangs að þeim með rökstuddri ákvörðun. Þessi skylda nær bæði til þess að meta rétt beiðanda til aðgangs að hluta, sbr. 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, og að framkvæma mat á ólíkum hagsmunum sem vega þarf saman við beitingu á undantekningarákvæðum laganna.

Synjun Herjólfs ohf. er reist á því að viðskiptahagsmunir standi því í vegi að heimilt sé að afhenda umbeðnar upplýsingar. Ákvörðunin er að öðru leyti ekki rökstudd með vísan til ákvæða upplýsingalaga og verður ekki séð að lagt hafi verið mat á umbeðin gögn með tilliti til þess hvort þau séu þess eðlis að takmarka beri aðgang að þeim á grundvelli upplýsingalaga, eftir atvikum 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga, þar sem segir að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum er varða mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.

Í athugasemdum greinargerðar er fylgdi frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum segir m.a.:

„Ákvæði 9. gr. frumvarpsins felur í sér nokkurs konar vísireglu um það hvenær rétt sé að halda leyndum upplýsingum um einkahagsmuni. Stjórnvaldi, eða öðrum aðila sem ákvörðun tekur á grundvelli laganna, er með öðrum orðum ætlað að vega og meta umbeðin gögn með tilliti til þess hvort upplýsingar sem þau hafa að geyma séu þess eðlis að rétt sé að undanþiggja þær aðgangi almennings. Við það mat verður að taka mið af því hvort upplýsingarnar séu samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna.“

Í athugasemdum við ákvæðið segir jafnframt:

„Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni. Hér skiptir miklu að lagt sé mat á tilvik hverju sinni með hliðsjón af hagsmunum þess lögaðila sem upplýsingar varða. Við matið þarf almennt að vega saman hagsmuni viðkomandi lögaðila af því að upplýsingum sé haldið leyndum gagnvart þeim mikilvægu hagsmunum að upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuna séu aðgengilegar almenningi. Þegar lögaðilar gera samninga við opinbera aðila, þar sem ráðstafað er opinberum hagsmunum, getur þetta sjónarmið haft mikið vægi við ákvörðun um aðgang að upplýsingum.“

Við beitingu ákvæðis 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga gera lögin ráð fyrir að metið sé í hverju og einu tilviki hvort viðkomandi upplýsingar varði svo mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni viðkomandi fyrirtækja eða annarra lögaðila að ætla megi að þær séu til þess fallnar að valda þeim tjóni, verði þær gerðar opinberar. Við framkvæmd slíks mats verður að líta til þess hversu mikið tjónið geti orðið og hversu líklegt það er að tjón muni verða ef aðgangur er veittur að upplýsingunum. Enn fremur verður að líta til eðlis upplýsinganna, framsetningar þeirra og aldurs, svo og hvaða þýðingu þær hafi fyrir þann lögaðila sem um ræðir á þeim tíma er matið fer fram.

Eins og fyrr segir verður ekki séð að tekin hafi verið rökstudd afstaða til gangabeiðninnar, sbr. 15. gr. upplýsingalaga. Þannig verður hvorki ráðið af ákvörðun Herjólfs ohf. né gögnum málsins að öðru leyti að lagt hafi verið mat á umbeðin gögn með tilliti til þess hvort þau séu þess eðlis að takmarka beri aðgang að þeim á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga eða eftir atvikum annarra ákvæða í upplýsingalögum.

Að mati úrskurðarnefndarinnar skortir því á að tekin hafi verið rökstudd afstaða til gagnabeiðni kæranda, líkt og upplýsingalög gera ráð fyrir. Þar af leiðandi verður að telja að beiðni kæranda hafi ekki fengið þá efnislegu meðferð á lægra stjórnsýslustigi sem úrskurðarnefndinni sé fært að endurskoða. Hin kærða ákvörðun er þannig haldin efnislegum annmörkum sem eru að mati nefndarinnar svo verulegir að ekki verður hjá því komist að fella hana úr gildi og leggja fyrir Herjólf ohf. að taka málið til nýrrar og lögmætrar meðferðar.

Samkvæmt öllu framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi og leggja fyrir Herjólf ohf. að taka beiðni kæranda til nýrrar meðferðar.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Herjólfs ohf., dags. 19. ágúst 2020, um að synja kæranda um aðgang að umbeðnum gögnum, er felld úr gildi og lagt fyrir Herjólf ohf. að taka málið til nýrrar meðferðar.


Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Símon Sigvaldason Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta