Hoppa yfir valmynd

Nr. 114/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 114/2018

Fimmtudaginn 14. júní 2018

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.

Með kæru, dags. 21. mars 2018, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður bótarétt hennar í tvo mánuði og innheimta ofgreiddar bætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun þann 2. október 2017 og var umsóknin samþykkt. Samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta var kærandi skráð í 50% hlutastarf. Með bréfi, dags. 8. janúar 2018, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda að stofnuninni hefðu borist upplýsingar um að kærandi hefði verið stödd erlendis í desember 2017 samhliða því að taka við greiðslu atvinnuleysisbóta og án þess að hafa tilkynnt um það til stofnunarinnar. Kæranda var veittur sjö daga frestur til að skila inn skýringum og farseðlum. Umbeðnar skýringar og gögn bárust ekki frá kæranda. Með bréfi, dags. 17. janúar 2018, var kæranda tilkynnt að umsókn hennar um atvinnuleysisbætur væri hafnað þar sem umbeðin gögn hefðu ekki borist. Þann 18. janúar 2018 bárust skýringar frá kæranda ásamt flugfarseðlum vegna ferðar til B á tímabilinu 17. til 21. desember 2017. Með bréfi, dags. 25. janúar 2018, var kæranda tilkynnt sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar þar sem nauðsynleg gögn hefðu ekki borist. Kærandi var einnig krafin um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar að fjárhæð 35.622 kr. fyrir tímabilið 17. til 21. desember 2017. Tekið var fram að ef farseðlar eða skýringar bærust vegna dvalar í C um mánaðarmótin nóvember/desember 2017 yrði mál hennar tekið fyrir að nýju. Skýringar og farseðlar vegna þeirrar ferðar bárust Vinnumálastofnun 23. og 25. janúar 2018 og kom þar fram að kærandi hefði dvalið erlendis á tímabilinu 1. til 7. desember 2017. Með bréfi, dags. 8. febrúar 2018, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hennar yrði felldur niður frá og með 5. febrúar 2018 í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sökum þess að hún hefði ekki tilkynnt Vinnumálastofnun fyrirfram um dvöl sína erlendis. Kærandi var einnig krafin um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 að fjárhæð 51.206 kr. að meðtöldu 15% álagi, fyrir tímabilið 1. til 7. desember 2017.

Við samkeyrslu gagnagrunna Vinnumálastofnunar og Ríkisskattstjóra í mars 2018 kom í ljós að kærandi hafði fengið tekjur í nóvember 2017 samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta og án þess að tilkynna um greiðsluna til stofnunarinnar. Með bréfi, dags. 6. mars 2018, óskaði Vinnumálastofnun eftir upplýsingum frá kæranda vegna þeirra tekna. Mál kæranda var tekið fyrir á fundi Vinnumálastofnunar 20. mars 2018 og tekin ákvörðun um að hún hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 185.961 kr. Heildarskuld kæranda næmi því 225.592 kr. Kæranda var tilkynnt um ofgreiddar atvinnuleysisbætur með bréfi, dags. 21. mars 2018.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 21. mars 2018. Með bréfi, dags. 22. mars 2018, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 4. apríl 2018. Með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun Vinnumálastofnunar verði hnekkt og vísar til þess að stofnunin hafi ekki sinnt leiðbeiningaskyldu gagnvart sér. Taka eigi tillit til meðalhófsreglu þar sem enginn gjörningur hafi átt sér stað í auðgunarskyni né hafi kærandi farið fram á eitthvað sem hún ætti ekki rétt á að sækja um. Taka skuli tillit til þess að villandi þjónusta, ósamræmi í upplýsingagjöf og ósamræmd vinnubrögð greiðslustofu séu að valda kæranda skaða. Kærandi hafi ekki vísvitandi reynt að blekkja á neinn hátt en auðvelt sé að nálgast öll gögn þar sem hún sé opinber starfsmaður. Greiðslustofa hljóti að bera ábyrgð á eigin misfærslum. Kærandi tekur fram að hún hafi ekki sent farseðla til Vinnumálastofnunar vegna vanþekkingar en í báðum tilvikum sé um ræða nokkra daga ferðir til útlanda. Kærandi vísar til þess að hún hafi átt rétt á þriggja mánaða tekjutengdri uppbót og ávallt sé hægt að nálgast upplýsingar hjá Ríkisskattstjóra.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að tilgangur laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt, tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Með lögunum sé verið að tryggja stöðu og öryggi fólks í atvinnuleysi og því sé gert ráð fyrir að hinir tryggðu séu í virkri atvinnuleit þann tíma. Atvinnuleysistryggingar veiti hinum tryggðu fjárhagslegt úrræði í tímabundnu atvinnuleysi. Í 13. gr. laganna séu talin upp almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Í c-lið ákvæðisins komi meðal annars fram að það sé skilyrði fyrir greiðslum að atvinnuleitandi sé búsettur og staddur hér á landi til að teljast tryggður samkvæmt lögunum. Í 3. mgr. 9. gr. laganna sé tekið fram að sá sem teljist tryggður á grundvelli laganna skuli upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunni að verða á högum hans á þeim tíma er hann fái greiddar atvinnuleysistryggingar eða annað það sem kunni að hafa áhrif á rétt viðkomandi. Í 2. mgr. 14. gr. laganna sé einnig mælt fyrir um upplýsingaskyldu umsækjanda, en þar segi að atvinnuleitanda beri án ástæðulauss dráttar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum.

Í 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 sé kveðið á um viðurlög við brotum á upplýsingaskyldu hins tryggða. Óumdeilt sé að kærandi hafi verið stödd erlendis á tímabilunum 1. til 7. desember 2017 og 17. til 21. desember 2017, á sama tíma og hún hafi verið skráð atvinnulaus hjá Vinnumálastofnun. Stofnuninni hafi ekki borist tilkynning fyrir fram um utanlandsferðir kæranda, líkt og skylt sé samkvæmt 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. laganna. Af þeim sökum hafi kærandi ekki uppfyllt skilyrði laga nr. 54/2006 á þessum tímabilum og því fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir þann tíma. Í skýringarbréfum sínum 18. janúar 2018 komi fram að kærandi hafi ekki vitað að henni hefði verið skylt að tilkynna um slíkar utanlandsferðir. Þá komi fram í skýringum kæranda 23. og 25. janúar 2018 að ferð hennar til C hefði verið boðsferð vegna starfa maka. Ljóst sé að réttindi og skyldur atvinnuleitenda samkvæmt lögum nr. 54/2006 stofnist frá og með umsóknardegi, enda séu atvinnuleysisbætur greiddar frá og með umsóknardegi, sbr. 29. gr. laganna. Á því tímabili sem atvinnuleitandi fái greiddar atvinnuleysisbætur beri honum að tilkynna Vinnumálastofnun um allar breytingar á högum sínum, sbr. 3. mgr. 9. gr. laganna, þar á meðal ferðir sínar utanlands.

Vinnumálastofnun tekur fram að þegar rafrænni umsókn um greiðslu atvinnuleysisbóta sé skilað séu umsækjendum kynnt margvísleg atriði er varði réttindi og skyldur, þar með talið að tilkynna beri um ferðir til útlanda. Þá þurfi umsækjendur að samþykkja að þeir hafi lesið og skilið þær upplýsingar sem fram komi í umsókn um réttindi og skyldur þeirra. Kæranda hafi verið sendur tölvupóstur þann 3. október 2017 vegna umsóknar hennar um atvinnuleysisbætur þar sem henni hafi verið bent á að ef farið væri til útlanda þyrfti að tilkynna það fyrir fram og skila afriti af flugfarseðlum til stofnunarinnar því til staðfestingar. Þá séu víðtækar og ítarlegar upplýsingar um réttindi og skyldur atvinnuleitanda á heimasíðu Vinnumálastofnunar en þar komi skýrt fram að atvinnuleitanda beri að veita nákvæmar upplýsingar um hagi sína.

Vinnumálastofnun vísar til þess að í málinu liggi fyrir að kærandi hafi látið hjá líða að tilkynna um utanlandsferðir sínar líkt og henni hafi borið. Óumdeilt sé að kærandi hafi fengið upplýsingar um réttindi sín og skyldur, þar með talið varðandi ótilkynntar ferðir til útlanda. Að öllu framangreindu virtu hafi það verið mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar um atvik er höfðu bein áhrif á rétt hennar til greiðslu atvinnuleysisbóta. Því hafi kæranda borið að sæta tveggja mánaða biðtíma frá og með 5. febrúar 2018 í samræmi við ákvæði 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006. Þá hafi kæranda einnig borið að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir fyrrgreind tímabil sem hún hafi verið stödd erlendis. Stofnuninni sé skylt að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta og innheimta þær sem hafi verið ofgreiddar í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006. Skuld kæranda verði skuldajafnað við síðari tilkomnar atvinnuleysisbætur í samræmi við 3. mgr. 39. gr. laganna.

Í málinu liggi fyrir að kærandi hafi fengið greiðslur frá D samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta vegna hlutastarfs en hún hafi verið skráð í 50% hlutastarf. Tekjuáætlun hafi hljóðað upp á 246.000 kr. á mánuði vegna þess starfs og útreikningur atvinnuleysisbóta miðaður við þá fjárhæð. Tekjur kæranda vegna starfsins hafi hins vegar verið umtalsvert hærri en tekjuáætlun hafi gert ráð fyrir eða 340.527 kr. Sökum þess að kærandi hefði vanáætlað tekjur sínar í tekjuáætlun hjá Vinnumálastofnun hafi það leitt til ofgreiðslu til kæranda og því þörf á að skerða bætur hennar afturvirkt í samræmi við 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006. Þar sem greiðslurnar hafi verið skertar afturvirkt hafi myndast skuld hjá stofnuninni sem kæranda beri að endurgreiða í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laganna.

Rík upplýsingaskylda hvíli á þeim sem fái greiddar atvinnuleysisbætur um að sjá til þess að stofnunin hafi réttar upplýsingar um hagi viðkomandi, sér í lagi þær upplýsingar sem geti ákvarðað rétt aðila til atvinnuleysistrygginga, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. laganna. Af þessum ákvæðum sé ljóst að hinum tryggða beri að tilkynna fyrir fram um tekjur til stofnunarinnar. Á vefsíðu Vinnumálastofnunar sé að finna greinargóðar leiðbeiningar um tilkynningu um tekjur sem og í þeim skilmálum sem kærandi hafi samþykkt með umsókn um atvinnuleysisbætur í október 2017. Ljóst sé að kærandi hafi lagt fram tekjuáætlun vegna hlutastarfs síns til stofnunarinnar en sú tekjuáætlun hafi verið umtalsvert lægri en raunverulegar tekjur hennar. Í kæru til nefndarinnar tilgreini kærandi að upplýsingar um laun hennar hefðu verið aðgengilegar Vinnumálastofnun hjá embætti Ríkisskattstjóra. Vinnumálastofnun árétti að upplýsingar um tekjur einstaklinga liggi ekki fyrir í tekjuskrá Ríkisskattstjóra fyrr en nokkru eftir að tekna sé aflað og þá eftir útgreiðslu atvinnuleysisbóta fyrir sama tímabil. Af þeim sökum sé ekki hægt að líta á slíka skráningu sem ígildi tilkynningar atvinnuleitanda, sem lögum samkvæmt beri að tilkynna um tekjur fyrir fram svo unnt sé að taka tillit til þeirra við útreikning og greiðslu atvinnuleysisbóta. Í málinu liggi fyrir að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysistryggingar. Í mars 2018 hafi skuld kæranda við Vinnumálastofnun numið 225.592 kr. sem henni beri að endurgreiða í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006. Skuldin verði innheimt samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laganna, þ.e. með skuldajöfnuði við 25% af síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum kæranda. Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að réttilega hafi verið staðið að ákvörðun stofnunarinnar um biðtíma og endurgreiðslu atvinnuleysisbóta og að staðfesta beri ákvarðanir stofnunarinnar í máli kæranda.

IV.  Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður bótarétt kæranda í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar og innheimta ofgreiddar bætur samkvæmt 2. og 3. mgr. 39. gr. laganna.

Ákvæði 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 er svohljóðandi:

„Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur … látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Ákvæðið ber meðal annars að túlka með hliðsjón af ákvæði c-liðar 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 þar sem fram kemur að launamaður sé tryggður samkvæmt lögunum sé hann búsettur og staddur hér á landi. Í máli þessu liggur fyrir að kærandi var stödd erlendis á tímabilunum 1. til 7. desember 2017 og 17. til 21. desember 2017 á sama tíma og hún fékk greiddar atvinnuleysisbætur. Af hálfu kæranda hefur komið fram að hún hafi ekki haft vitneskju um að hún þyrfti að tilkynna Vinnumálastofnun um ferðir sínar.

Úrskurðarnefndin tekur fram að á því tímabili sem atvinnuleitandi fær greiddar atvinnuleysisbætur ber honum að tilkynna Vinnumálastofnun um allar breytingar á högum sínum, sbr. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 54/2006, þar á meðal ferðir sínar til útlanda. Líkt og Vinnumálastofnun hefur vísað til er umsækjendum um atvinnuleysisbætur kynnt margvísleg atriði er varða réttindi og skyldur þegar rafrænni umsókn er skilað, þar með talið að tilkynna beri um ferðir erlendis, og umsækjendur þurfa að samþykkja að hafa lesið og skilið þær upplýsingar sem fram koma í umsókn um réttindi og skyldur. Úrskurðarnefndin bendir einnig á að kærandi fékk þær upplýsingar í tölvupósti 3. október 2017 að tilkynna þyrfti fyrir fram um ferðir erlendis og skila bæri afriti af flugfarseðlum til stofnunarinnar því til staðfestingar. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefndin að kærandi hefði mátt vita, eða að minnsta kosti haft tilefni til þess að afla sér frekari upplýsinga um skyldur sínar þar með að henni bæri að tilkynna Vinnumálastofnun sérstaklega um ferðir til útlanda. Í ljósi upplýsingaskyldu 3. mgr. 9. gr. laga nr. 54/2006 verður fallist á með Vinnumálastofnun að kærandi hafi brotið gegn skyldum sínum gagnvart stofnuninni er hún tilkynnti ekki um ferðir sínar til útlanda. Að því virtu bar Vinnumálastofnun að láta kæranda sæta viðurlögum samkvæmt 1. mgr. 59. gr. laganna. Með vísan til framangreinds er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður bótarétt kæranda í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar staðfest.

Mál þetta lýtur einnig að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að endurkrefja kæranda um ofgreiddar bætur vegna tímabilanna sem hún var erlendis og vegna tekna fyrir hlutastarf. Í 35. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um tilhögun greiðslna atvinnuleysisbóta. Þar segir að atvinnuleysisbætur skuli greiddar fyrsta virka dag hvers mánaðar og þær skuli greiddar eftir á fyrir undanfarandi mánuð eða hluta úr mánuði þannig að miðist við fyrsta til síðasta dags viðkomandi mánaðar. Í 36. gr. laga nr. 54/2006 er fjallað um frádrátt frá atvinnuleysisbótum vegna tekna. Í 1. mgr. 36. gr. segir meðal annars að þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða og atvinnuleysisbætur hans eru hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skuli skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru. Hið sama gildi um tekjur hins tryggða fyrir tilfallandi vinnu, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar og elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum.

Óumdeilt er að kærandi fékk tekjur fyrir tilfallandi vinnu samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta og að þær tekjur voru hærri en tekjuáætlun hjá Vinnumálastofnun gerði ráð fyrir. Í 39. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum. Þar segir í 2. mgr. að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann hafi átt rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 segir meðal annars svo í skýringum við ákvæðið:

„Efni ákvæðisins felur í sér möguleika á leiðréttingu á fjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta eftir að þær hafa verið keyrðar saman við álagningu skattyfirvalda að því er varðar það viðmiðunartímabil sem lagt er til að verði haft til hliðsjónar við útreikningana. Er því gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun hafi heimildir til að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbótanna til samræmis við álagningu skattyfirvalda. Er gert ráð fyrir að leiðréttingin geti átt sér stað nokkru eftir að bæturnar hafa verið greiddar eða þegar endanleg álagning skattyfirvalda liggur fyrir. Á sama hátt er jafnframt gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun geti leiðrétt fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta. Slíkt getur átt við þegar upplýsingar þær er liggja grunnatvinnuleysisbótum til grundvallar hafa verið rangar eða hinn tryggði ekki tilkynnt til Vinnumálastofnunar um að hann sé ekki lengur í atvinnuleit.

Þannig er gert ráð fyrir að hinn tryggði endurgreiði Atvinnuleysistryggingasjóði þær fjárhæðir sem ofgreiddar eru í þeim tilvikum er hann fékk hærri greiðslur úr sjóðnum en honum bar. Á þetta við um öll tilvik sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið ofgreitt úr Atvinnuleysistryggingasjóði.“

Samkvæmt framangreindu er ljóst að endurkröfuheimild Vinnumálastofnunar er bundin við það að einstaklingur hafi fengið greiddar hærri atvinnuleysisbætur en hann átti rétt á sem og fengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Þar sem tekjur kæranda voru hærri en tekjuáætlun gerði ráð fyrir fékk hún greiddar hærri atvinnuleysisbætur en hún átti rétt á. Þegar kærandi var erlendis á tímabilunum 1. til 7. desember 2017 og 17. til 21. desember 2017 uppfyllti hún ekki skilyrði c-liðar 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 um að vera búsett og stödd hér á landi. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. laganna er fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Aftur á móti skal fella niður 15% álag færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Líkt og áður greinir tilkynnti kærandi ekki Vinnumálastofnun fyrir fram um ferðir sína til útlanda og hefur hún því ekki fært viðhlítandi rök fyrir því að fella skuli niður álagið. Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður bótarétt A, í tvo mánuði og innheimta ofgreiddar bætur er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta