Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 5/2019 Úrskurður 20. febrúar 2019

Mál nr. 5/2019                      Eiginnafn:     Zoe (kvk.)

 

Hinn 20. febrúar 2019 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í málinu sem hefur fengið málsnúmerið 5/2019.

Til þess að heimilt sé að samþykkja nýtt eiginnafn þurfa öll skilyrði 5. gr. laga, nr. 45/1996, um mannanöfn að vera uppfyllt. Skilyrðin eru:

  1. Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli.
  2. Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi.
  3. Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.
  4. Stúlku skal gefa kvenmannsnafn og dreng skal gefa karlmannsnafn.
  5. Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.

 

Eins og fram kom að ofan fjallaði mannanafnanefnd um nafnið Zoe á fundi 8. janúar 2016 (mál 86/2015) og komst að þeirri niðurstöðu að nafnið bryti í bág við almennar ritreglur íslensks máls þar sem bókstafurinn z væri ekki notaður í íslenskri stafsetningu. Um ritreglurnar var á þeim tíma miðað við auglýsingu menntamálaráðuneytisins, nr. 132/1974, með síðari breytingum. Í 2. kafla hennar („Um z og afnám hennar“) er ákvæði (e. liður 3. gr.) sem hljóðar svo: „Í sérnöfnum, erlendum að uppruna, má rita z, t.d. Zóphanías, Zakarías, Zimsen o.s.frv.“ Mannanafnanefnd túlkaði þetta ákvæði svo að um z í nöfnum gilti hið sama og um önnur frávik frá almennum íslenskum ritreglum, þ.e. að hægt væri að samþykkja nöfn með z ef þau hefðu unnið sér hefð í íslensku máli. Nefndin taldi að ákvæðið um z í sérnöfnum hefði verið sett inn í ritreglur til þess að árétta að ekki þyrfti að breyta rithætti nafna sem þegar hefðu unnið sér hefð. Í úrskurði mannanafnanefndar frá 8. janúar 2016 var komist að þeirri niðurstöðu að nafnið Zoe hefði ekki unnið sér hefð í íslensku og því væri ekki hægt að samþykkja það.

Í áðurnefndum dómi Hæstaréttar hafnaði hann ofangreindri túlkun mannanafnanefndar á ákvæði e. liðar 3. gr. auglýsingarinnar. Hæstiréttur taldi að í skilningi 5. gr. mannanafnalaga hefði verið „í fullu samræmi við almennar ritreglur íslensks máls að nota bókstafinn „z“ við ritun sérhvers eiginnafns af erlendum uppruna, sem hlotið hefði eða hljóta myndi á lögmæltan hátt viðurkenningu sem íslenskt nafn, enda [hefði] framangreint ákvæði í e. lið 3. gr. auglýsingar nr. 132/1974 ekki [verið] bundið við nöfn, sem svo var ástatt um við birtingu hennar.“ Þegar nafn er fært á mannanafnaskrá felst í því viðurkenning þess sem íslensks nafns. Þessi orð Hæstaréttar fela í sér, að á meðan auglýsingin um ritreglur frá 1974 var í gildi, hefði ritun með z ekki átt að koma í veg fyrir viðurkenningu nafns sem íslensks ef það uppfyllti að öðru leyti skilyrði mannanafnalaga.

Rétt er að taka fram að með auglýsingu mennta- og menningarmálaráðuneytisins um íslenskar ritreglur, nr. 695/2016, frá 6. júní 2016, féll úr gildi auglýsing um íslenska stafsetningu, nr. 132/1974, með síðari breytingum. Í þessum úrskurði verður hins vegar miðað við eldri ritreglurnar enda giltu þær þegar mannanafnanefnd úrskurðaði í máli 86/2015 þann 8. janúar 2016, en núverandi beiðni kemur í kjölfar þess að Hæstiréttur felldi þann úrskurð úr gildi eins og fyrr segir.

Í þessu máli reynir í fyrsta lagi á skilyrði nr. 2 hér að framan. Ef nafnið Zoe er borið fram eftir stafanna hljóðan brýtur framburðurinn í bág við íslenskt málkerfi þar sem einhljóðið e getur ekki staðið á eftir o í íslenskum orðum.

Einnig reynir þá á skilyrði nr. 1 hér að framan. Almennt enda kvenmannsnöfn í íslensku ekki á -e. Til eru undantekningar frá þessu eins og nöfnin Salóme og Dóróthe. Þessi nöfn eru endingarlaus í eignarfalli en teljast hafa unnið sér hefð í íslensku og eru þess vegna á mannanafnaskrá. Ekki er hefð fyrir því í íslensku að eignarfallsendingunni -ar sé bætt við stofn sem endar á -e.

Ef gert er ráð fyrir að framburður nafnsins sé [sɔu.i] („sóí“) reynir á skilyrði nr. 3 hér á undan því að rithátturinn (Z)oe fyrir „(s)óí“ getur ekki talist í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls. Einungis er hægt að fallast á slíkan rithátt ef fyrir honum telst vera hefð.

Hugtakið hefð í mannanafnalögum varðar einkum erlend nöfn frá síðari öldum sem ekki hafa aðlagast ritreglum íslensks máls. Þau eru stundum nefnd ung tökunöfn og koma fyrst fram í íslensku máli árið 1703 þegar manntal á Íslandi var tekið fyrsta sinni. Túlkun mannanafnanefndar á hugtakinu hefð í 5. og 6. gr. laga, nr. 45/1996, styðst við eftirfarandi vinnulagsreglur sem nefndin setti sér á fundi 15. janúar 2015 og eru byggðar á greinargerð með frumvarpi að mannanafnalögum og eldri vinnulagsreglum:

1. Ungt tökunafn telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli ef það fullnægir einhverju eftirfarandi skilyrða:

 

  1. Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum;
  2. Það er nú borið af 10–14 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri;
  3. Það er nú borið af 5–9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri;
  4. Það er nú borið af 1–4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1910 eða 1920;
  5. Það er ekki borið af neinum Íslendingi nú en kemur a.m.k. fyrir í tveimur manntölum frá 1703–1920.

 

2. Með Íslendingum er átt við þá sem öðlast hafa íslenskan ríkisborgararétt án umsóknar og eiga eða hafa átt lögheimili á Íslandi.

 

3. Tökunafn getur verið hefðað, þó að það komi ekki fyrir í manntölum, ef það hefur unnið sér menningarhelgi. Nafn telst hafa unnið sér menningarhelgi komi það fyrir í alkunnum ritum, frumsömdum og þýddum, í nafnmynd sem ekki brýtur í bág við íslenskt málkerfi.

 

Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands bera sjö konur, sem uppfylla skilyrði vinnulagsreglnanna varðandi hefð, nafnið Zoe í þjóðskrá. Sú elsta er fædd árið 1975. Nafnið kemur ekki fyrir í manntölum frá 1703–1920. Auk þess hefur mannanafnanefnd upplýsingar um að íslensk kona, sem fæddist á Íslandi árið 1929, var skírð Zoe.

Í c-lið 1. tölul. vinnulagsreglnanna kemur fram að nafn telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli ef það er nú borið af 5–9 Íslendingum og hinn elsti hefur náð a.m.k. 60 ára aldri. Vinnulagsreglur þessar eru mannanafnanefnd til viðmiðunar við mat á hefð nafna. Í því ljósi er rétt að líta til þess að átta einstaklingar, sem fullnægja vinnulagsreglunum, hafa borið eiginnafnið Zoe og einn þeirra, þótt nú sé látinn, væri að minnsta kosti 60 ára að aldri. Með hliðsjón af þessu telur mannanafnanefnd að nafnið Zoe (kvk.) geti talist hafa unnið sér hefð í íslensku.

 

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Zoe (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta