Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 38/2011

Föstudagurinn 11. janúar 2013

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Einar Páll Tamimi formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Kristrún Heimisdóttir.

Þann 5. júlí 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 24. júní 2011, þar sem umsókn þeirra um eignaráðstöfun samkvæmt lögum um tímabundið úrræði einstaklinga sem eiga tvær fasteignir til heimilisnota, nr. 103/2010, var hafnað.

Með bréfi, dags. 12. júlí 2011, óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara, og barst hún með bréfi, dags. 25. júlí 2011.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi, dags. 2. ágúst 2011, með ítrekun, dags. 9. september 2011, og var kærendum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar frekari athugasemdir bárust frá kærendum.

 

I. Málsatvik

Þann 16. júní 2011 lá fyrir umsókn kærenda um tímabundið úrræði fyrir eigendur tveggja fasteigna samkvæmt lögum nr. 103/2010. Þar kemur fram að kærendur keyptu fasteign sína að C götu nr. 6 í sveitarfélaginu D á árinu 1998 og hafa búið þar síðan. Árið 2006 festu þau kaup á fasteign að E götu nr. 11 í sveitarfélaginu F í þeim tilgangi að koma húsaskjóli yfir dóttur sína sem var einstæð móðir með eitt barn. Kærendur eru bæði 50% þinglýstir eigendur fasteignanna.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara, sem tilkynnt var með bréfi, dags. 24. júní 2011, var umsókn kærenda um eignaráðstöfun samkvæmt lögum nr. 103/2010 hafnað með vísan til 1. tölul. 2. mgr. 3. gr. laga nr 103/2010. Nánar tiltekið uppfyllti umsókn þeirra ekki skilyrði 2. gr. laganna um að báðar eignirnar hafi verið ætlaðar til heimilisnota.

 

II. Sjónarmið kærenda

Í greinargerð kærenda kemur fram að fasteignin að E götu nr. 11 í sveitarfélaginu F hafi verið keypt í þeim tilgangi að koma húsaskjóli yfir dóttur þeirra sem var einstæð móðir með eitt barn. Átti dóttirin í erfiðleikum með að fá húsnæði á leigu og hafði ekki fjárhagslega getu til þess að kaupa íbúð. Töldu því kærendur að eini valmöguleikinn væri að hjálpa henni.

Kærendur segja að E götu nr. 11 standi ekki undir sér fjárhagslega og erfitt sé að fá leigutekjur sem standi undir kostnaði. Tilraunir til þess að selja fasteignina hafi ekki borið árangur. Kærendur segja tekjur sínar ekki heldur duga fyrir rekstri íbúðarhúsnæðis í C götu nr. 6 eins og staðan sé hjá þeim í dag. Benda kærendur á minnkandi tekjur sínar vegna heilsubrests hjá A.

Kærendur eru ósátt við synjun á umsókn sinni og telja að ekki hafi verið tekið tillit til greiðsluerfiðleika þeirra. Kærendur óska eftir því að tillit sé tekið til aðstæðna þeirra og þess greiðsluvanda sem þau standa frammi fyrir.

Kærendur gera athugasemd við ráðgjöf hjá umboðsmanni skuldara. Eftir ráðgjöf hafi þau talið nær öruggt að umsókninni yrði ekki synjað og hafi því synjunin verið mikið áfall. Telja þau að ráðgjöfin hafi verið röng.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram einstaklingur sem greiði fasteignaveðkröfur af tveimur fasteignum, vegna kaupa á fasteign sem ætluð hafi verið til að halda heimili í, geti óskað eftir að ráðstafa annarri eigninni til veðhafa. Miðað sé við það að hann hafi fest kaup á eign á tímabilinu 1. janúar 2006 til 1. nóvember 2008 og átt aðra á sama tíma sem hann hafi ekki selt, enda hafi þær báðar verið óslitið í hans eigu. Þá er jafnframt sett það skilyrði að sá sem óski eignaráðstöfunar sé þinglýstur eigandi beggja fasteigna, hafi forræði á fé sínu, hafi skráð lögheimili í annarri fasteigninni og haldi heimili sitt þar. Þá er enn fremur skilyrði að samanlögð uppreiknuð veðstaða beggja fasteignanna nemi að lágmarki 75% af samanlögðu markaðsvirði þeirra.

Við mat á því hvort veita skuli einstaklinum heimild til að ráðstafa annarri af tveimur fasteignum sínum til veðhafa beri umboðsmanni skuldara að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geti í veg fyrir að eignaráðstöfun verði samþykkt, sbr. 1.–6. tölul. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 103/2010.

Kærendur hafi greint svo frá að þau hafi fest kaup að E götu nr. 11, sveitarfélaginu F, í þeim tilgangi að koma húsaskjóli yfir dóttur sína sem sé einstæð móðir með eitt barn. Í 1. tölul. 2. mgr. 3. gr. laganna kemur meðal annars fram að hafna beri umsókn ef skilyrðum 2. gr. laganna er ekki fullnægt. Samkvæmt 3. mgr. 2. gr. laganna er það gert að skilyrði að sú fasteign þar sem skuldari hafi ekki skráð lögheimili og haldi heimili sitt í, verði annað hvort að hafa áður verið heimili skuldara og hann haft þar skráð lögheimili eða skuldari hafi fest kaup á fasteigninni með það í huga að halda heimili sitt þar. Í greinargerð kærenda komi fram að þau hafi keypt fasteignina fyrir dóttur sína. Ekki verði því ráðið af greinargerð kærenda að þau hafi fest kaup á fasteigninni að E götu nr. 11 með það í huga að halda þar heimili. Með vísan til þess að önnur fasteign kærenda hafi því aldrei verið ætluð til heimilisnota var það niðurstaða umboðsmanns skuldara að umsókn þeirra hafi ekki uppfyllt skilyrði laganna og var umsókn þeirra því hafnað.

 

IV. Niðurstaða

Mál þetta snýr að því hvort kærendur uppfylli skilyrði laga nr. 103/2010, um tímabundið úrræði einstaklinga sem eiga tvær fasteignir til heimilisnota, fyrir heimild til þess að ráðstafa annarri eigninni til veðhafa.

Í 2. mgr. 2. gr. laganna koma fram þau skilyrði sem uppfylla þarf en samkvæmt ákvæðinu skal skuldari hafa skráð lögheimili í annarri fasteigninni og halda heimili sitt þar. Sú fasteign sem skuldari hefur ekki lögheimili í verður annaðhvort að hafa áður verið heimili skuldara og hann haft þar skráð lögheimili eða skuldari verður að hafa fest kaup á henni með það í huga að halda heimili sitt þar. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 103/2010 segir:

 „Úrræði því sem kveðið er á um í frumvarpinu er fyrst og fremst ætlað að vera söluúrræði til að gera einstaklingum sem keypt höfðu fasteign til heimilisnota, en ekki selt fyrri eign þegar efnahagshrunið varð, kleift að losa sig við aðra eignina með því að ráðstafa henni til veðhafa á ætluðu markaðsvirði fasteignarinnar og telst slík ráðstöfun fullnaðargreiðsla af hálfu skuldara til þeirra veðhafa sem eigninni er ráðstafað til. [...] Meginskilyrði þess að eignaráðstöfun af þessu tagi, en svo er lagt til að úrræði þetta verði nefnt ef frumvarpið verður að lögum, verði veitt er að báðar fasteignirnar hafi verið nýttar eða ætlaðar til nýtingar sem heimili og að sömu aðilar hafi haft óslitið eignarhald þeirra síðan hrunið varð.“

Í máli þessu liggur fyrir að kærendur eru með skráð lögheimili að C götu nr. 6, sveitarfélaginu D. Þau hafa ekki haft skráð lögheimili að E götu nr. 11, sveitarfélaginu F, og óumdeilt er að þau festu kaup á þeirri fasteign til þess að hjálpa dóttur sinni en ekki með það í huga að halda heimili sitt þar.

Í ljósi þessa er það niðurstaða kærunefndar greiðsluaðlögunarmála að kærandi uppfylli ekki skilyrði 2. mgr. 2. gr. laga nr. 103/2010 og er ákvörðun umboðsmanns skuldara því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja um heimild til að leita eignarráðstöfunar er staðfest.

 

Einar Páll Tamimi

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Kristrún Heimisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta