Hoppa yfir valmynd

Nr. 381/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 11. nóvember 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 381/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20100007

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 6. október 2020 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 24. september 2020, um að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar.Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að henni verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 71. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kjörforeldri kæranda sótti um dvalarleyfi f.h. kæranda þann 26. mars 2020. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 24. september sl., var umsókninni synjað. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála þann 6. október sl. og þann 20. október sl. barst greinargerð frá kæranda. Þá bárust frekari athugasemdir frá kæranda þann 10. nóvember sl.

Í greinargerð óskar kærandi eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga er meginreglan sú að stjórnsýslukæra frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Æðra stjórnvaldi er þó heimilt fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar meðan kæra er til meðferðar þar sem ástæður mæla með því, sbr. 2. mgr. 29. gr. laganna. Með vísan til þess að kærandi er ekki stödd hér á landi og hefur aldrei verið með dvalarleyfi hér á landi fær kærunefnd ekki séð að kærandi hafi hagsmuni af því að fá réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar frestað.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar er vísað til ákvæðis 69. gr. laga um útlendinga. Ljóst væri að kjörfaðir kæranda hefði dvalist hér á landi á grundvelli dvalarleyfis skv. 72. gr. laga um útlendinga, en dvalarleyfi á þeim grundvelli veiti ekki rétt til fjölskyldusameiningar. Því væru skilyrði 1. mgr. 69. gr. laganna ekki uppfyllt í málinu. Var umsókninni því synjað.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð byggir kærandi á því að ákvörðun Útlendingastofnunar sé að því marki brennd að þar sé ekki fjallað um undanþáguheimild 5. mgr. 71. gr. laga um útlendinga, en kærandi byggi dvalarleyfisumsókn sína á 71. gr. laganna. Af þeim sökum hafi ekki verið framkvæmt mat á því hvort uppfyllt séu skilyrði til að beita undanþáguheimildinni. Jafnframt er byggt á að því tilfinnanlegri eða meira íþyngjandi sem stjórnvaldsákvörðun er, þeim mun strangari kröfur verði að gera til rannsóknar á þeim tilvikum er leiði til niðurstöðurnar. Við úrlausn málsins hafi Útlendingastofnun borið að leggja mat á það hvort viðhlítandi upplýsingar og gögn lægju fyrir þannig að unnt væri að meta rétt kæranda til dvalarleyfis hér á landi m.t.t. 5. mgr. 71. gr. laga um útlendinga. Að túlka slíka heimild þröngt fari bersýnilega gegn vilja löggjafans um að tryggja samvistir fjölskyldna og hagsmuni barna við þær aðstæður sem um ræði. Kærandi byggir á því að rannsóknarskylda Útlendingastofnunar sé ekki uppfyllt í máli hennar enda sé látið duga að vísa í hin ýmsu ákvæði laga um útlendinga án þess að leggja sérstakt mat á þá hagsmuni sem séu undir og sé ágallinn slíkur að ógilda beri hina kærðu ákvörðun. Þá byggir kærandi á því að hin kærða ákvörðun samrýmist ekki 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga um efni rökstuðnings.

Í tölvupósti frá lögmanni kæranda ,dags. 10. nóvember 2020, er að finna almenna umfjöllun um stöðu kvenna í heimaríki kæranda, [...]. Þar kemur fram að konur í [...] eigi undir högg að sækja og verði fyrir ofbeldi og ýmiss konar mismunun. Þá sé [...]. Séu því almennar aðstæður kæranda slæmar og mikilvægt að hún fái dvalarleyfi hér á landi.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 69. gr. laga um útlendinga er kveðið á um skilyrði dvalarleyfis vegna fjölskyldusameiningar. Samkvæmt 1. mgr. 69. gr. laganna getur nánasti aðstandandi íslensks eða annars norræns ríkisborgara sem er með fasta búsetu hér á landi eða útlendings sem dvelst hér á landi á grundvelli dvalarleyfis skv. 61., 63., 70., 73., 74. og 78. gr. eða ótímabundins dvalarleyfis skv. 58. gr. með umsókn fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar að fullnægðum skilyrðum 55. gr. og VIII. kafla. Til nánustu aðstandenda teljast maki, sambúðarmaki, börn viðkomandi yngri en 18 ára í forsjá hans og á framfæri og foreldrar 67 ára og eldri. Sama gildir um maka, sambúðarmaka og börn þeirra sem stunda framhaldsnám á háskólastigi, doktorsnám og rannsóknir hér á landi á grundvelli 65. gr.

Í 1. mgr. 71. gr. laga um útlendinga segir að heimilt sé að veita barni yngra en 18 ára dvalarleyfi ef foreldri þess hefur dvalarleyfi á grundvelli 58., 61., 63., 70., 73., 74. eða 78. gr. laganna. Kærunefnd telur að ákvæði 1. mgr. 69. gr. og 1. mgr. 71. gr. verði ekki skýrð á annan veg en að þar séu tæmandi talin þau dvalarleyfi sem veita rétt til fjölskyldusameiningar. Samkvæmt gögnum málsins er kjörforeldri kæranda, sem er bróðir hennar, með dvalarleyfi hér á landi á grundvelli 72. gr. laga um útlendinga. Liggur því fyrir að kærandi uppfyllir ekki skilyrði 1. mgr. 71. gr. laga um útlendinga.

Í 5. mgr. 71. gr. laga um útlendinga segir að heimilt sé að víkja frá skilyrðum ákvæðisins ef sérstaklega stendur á enda krefjist hagsmunir barnsins þess. Eigi þetta t.d. við í tilvikum þar sem barnaverndarnefnd hefur tekið yfir forsjá barns eða ef barn er í varanlegu fóstri. Í ákvörðun Útlendingastofnunar er hvorki vísað til framangreinds ákvæðis né tekin rökstudd afstaða til þess m.t.t. aðstæðna kæranda og þess hagsmunamats sem þarf að fara fram með hliðsjón af því að tryggja öryggi, velferð og félagslegan þroska hennar.

Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að ákvörðun Útlendingastofnunar sé haldin slíkum annmarka að ekki verði bætt úr honum á kærustigi enda er meginmarkið stjórnsýslukæru að tryggja réttaröryggi borgaranna á þann hátt að þeir fái skoðun á máli sínu á tveimur stjórnsýslustigum. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar því felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellant’s case.

 

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                      Hilmar Magnússon


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta