Hoppa yfir valmynd

Nr. 53/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 25. mars 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 53/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19010016

 

Kæra […] á

drætti á afgreiðslu máls hans hjá Útlendingastofnun

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 15. janúar 2019 kærði […], fd. […], ríkisborgari Marokkó (hér eftir nefndur kærandi), drátt á afgreiðslu umsóknar sinnar um dvalarleyfi hjá Útlendingastofnun.

Fyrrgreind kæra er lögð fram á grundvelli 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.            Málsástæður og rök kæranda

Kærandi sótti um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara, sbr. 70. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, þann 6. september 2018. Kærandi tekur fram í kæru sinni að hann og maki hans séu búin að bíða eftir niðurstöðu Útlendingastofnunar á dvalarleyfisumsókn hans í að verða fimm mánuði. Hafi maki hans ítrekað hringt og farið í afgreiðslu stofnunarinnar án þess að fá neinar skýringar á afgreiðslutöfum en einu svörin sem þau fái sé að mál kæranda sé ekki komið til vinnslu hjá stofnuninni. Tekur kærandi fram að hann og maki hans hafi ekki hitt hvort annað í þrjá mánuði. Telur kærandi að úrvinnsla Útlendingastofnunar í máli hans sé gagnrýniverð og að brotið sé á mannréttindum þeirra hjóna með töfum á afgreiðslu umsóknar hans.

III.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Eins og að framan greinir hefur aðili máls þessa til meðferðar umsókn um dvalarleyfi hjá Útlendingastofnun en slíkar ákvarðanir eru kæranlegar til kærunefndar útlendingamála, sbr. 7. gr. laga um útlendinga. Kæran er byggð á 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga þar sem fram kemur að þegar afgreiðsla máls dragist óhæfilega sé heimilt að kæra það til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til.

Í lögum um útlendinga nr. 80/2016 og reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, er ekki kveðið á um almennan lögbundinn frest fyrir Útlendingastofnun til þess að afgreiða umsóknir um dvalarleyfi. Um málshraða við meðferð umsókna um dvalarleyfi gildir því almenn málshraðaregla stjórnsýsluréttar, sbr. 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, en þar segir að ákvarðanir í málum skuli teknar svo fljótt sem unnt er. Í reglunni fellst meðal annars að stjórnvald má ekki draga afgreiðslu máls nema slíkt sé nauðsynlegt eða réttlætanlegt. Við mat á því hvort tafir eru nauðsynlegar eða réttlætanlegar hefur m.a. verið litið til þess að þótt mönnun og álag á stjórnvöldum kunni að koma til skoðunar þegar metið er hvað sé eðlilegur afgreiðslutími verður að gera þá kröfu að stjórnvöld skipuleggi meðferð mála með þeim hætti að ekki verði ónauðsynlegur eða óréttlættur dráttur á meðferð þeirra. Þá hefur í framkvæmd verið litið til þess að meira þurfi til að réttlæta tafir á meðferð mála sem varða mikilvæg fjárhags- og einkamálefni fólks. Við mat á því hvað telst hæfilegur afgreiðslutími umsókna um dvalarleyfi vegna hjúskapar telur kærunefnd því að líta verði til þess að umsóknin getur varðað grundvallarhagsmuni einstaklinga, þ.m.t. rétt manna til friðhelgi einkalífs og fjölskyldu, sbr. 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar. Þá telur kærunefnd að líta þurfi til þess að meðferð slíkra umsókna krefst að jafnaði nokkurrar gagnaöflunar. Þar á meðal er í 1. mgr. 110. gr. laga um útlendinga gert ráð fyrir að lögregla geti komið að rannsókn máls ef grunur leikur á að til hjúskapar hafi verið stofnað í þeim tilgangi einum að afla dvalarleyfis, sbr. jafnframt 8. mgr. 70. gr. laganna.

Samkvæmt gögnum málsins lagði kærandi inn umsókn þann 6. september 2018 hjá Útlendingastofnun um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar við íslenskan ríkisborgara, sbr. 70. gr. laga um útlendinga. Í tölvupósti Útlendingastofnunar til kærunefndar, dags. 16. janúar 2019, kemur m.a. fram að umsókn kæranda hafi stöðuna „skráð“ hjá Útlendingastofnun sem þýði að ekki sé byrjað að vinna hana. Í tölvupósti Útlendingastofnunar til kærunefndar, dags. 19. febrúar 2019 kemur fram að umsókn kæranda hafi verið tekin til vinnslu þann 14. febrúar sl. Samkvæmt framansögðu er ljóst að umsókn kæranda lá óhreyfð hjá Útlendingastofnun í rúma sex mánuði eða frá 6. september 2018 til 14. febrúar 2019. Af skýringum Útlendingastofnunar og upplýsingum á heimasíðu stofnunarinnar má ráða að fjöldi umsókna og álag á starfsfólki sé ástæða þess að umsókn kæranda var ekki tekin til meðferðar hjá stofnuninni fyrr en rúmum sex mánuðum eftir að umsóknin barst. Þá verður ráðið af gögnunum að umsókn kæranda hafi að því leyti fengið sambærilega meðferð og aðrar umsóknir um dvalarleyfi sem bárust stofnuninni á sama tíma.

Í ljósi þeirra hagmuna sem eru í húfi fyrir kæranda er það mat kærunefndar að gera verið ríkar kröfur til þess að tafir á meðferð umsóknar um dvalarleyfi vegna hjúskapar verði réttlættar. Að mati kærunefndar verða þær miklu tafir sem felast í því að umsókn kæranda lá óhreyfð hjá Útlendingastofnun í rúma sex mánuði eftir að hún barst stofnuninni ekki réttlættar með því einu að vísa til málafjölda og álags á starfsmenn. Þá telur kærunefnd að líta verði til þess að sú gagnaöflun sem kann að þurfa að fara fram eftir frumskoðun á umsókn kæranda um dvalarleyfi vegna hjúskapar gæti verið á hendi annarra en Útlendingastofnunar, þ.e.a.s. lögreglu eða aðila sjálfs. Er það því niðurstaða nefndarinnar að framangreindar tafir, sem leiða af þeirri tilhögun að taka umsókn ekki til frumskoðunar m.t.t. frekari gagnaöflunar fyrr en rúmum sex mánuðum eftir að hún barst, séu ekki í samræmi við málshraðareglu stjórnsýslulaga.

Samkvæmt framansögðu er það mat kærunefndar að þær tafir sem urðu á meðferð Útlendingastofnunar á umsókn kæranda, dags. 6. september 2018, sé ekki í samræmi við 9. gr. stjórnsýslulaga.

 


 

Úrskurðarorð

 

Málsmeðferð Útlendingastofnunar í máli kæranda er ekki í samræmi við 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

The Directorate of Immigration’s processing of the case is not in accordance with Article 9 of the Administrative Procedures Act no. 37/1993.

 

 

Anna Tryggvadóttir

 

                                                    Gunnar Páll Baldvinsson                                                                      Anna Valbjörg Ólafsdóttir



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta