Hoppa yfir valmynd

Nr. 368/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 18. september 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 368/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18060037

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 21. júní 2018 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. júní 2018, um brottvísun og endurkomubann til Íslands í tvö ár.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar, þar sem ákvarðað var að honum skyldi vísað brott frá Íslandi og bönnuð endurkoma til Íslands í tvö ár, verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi kveðst hafa komið hingað til lands í októbermánuði árið 2016. Með bréfi Útlendingastofnunar til kæranda, dags. 22. maí 2018, sem var birt fyrir honum þann sama dag, var kæranda tilkynnt um hugsanlega brottvísun og endurkomubann vegna ólögmætrar dvalar hér á landi. Með bréfinu var kæranda veittur sjö daga frestur til að leggja fram greinargerð eða til að yfirgefa landið sjálfviljugur. Fram kom að málið yrði fellt niður yfirgæfi hann landið innan frests. Í bréfinu var óskað eftir því að kærandi legði fram gögn er sýndu fram á för hans úr landi. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að Útlendingastofnun hafi hvorki borist greinargerð frá kæranda né staðfesting á því að hann hafi yfirgefið landið.

Með hinni kærðu ákvörðun, dags. 8. júní 2018, var kæranda vísað brott frá landinu og ákveðið endurkomubann til tveggja ára. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 8. júní 2018 sem kærði hana til kærunefndar útlendingamála þann 21. júní sl. Kærunefnd hefur borist greinargerð kæranda, dags. 12. júlí 2018.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til upplýsinga frá lögreglu en samkvæmt þeim kvaðst kærandi hafa komið hingað til lands í október 2017. Kærandi hafi framvísað dvalarleyfisskírteini útgefnu af [...] yfirvöldum með gildistíma frá 5. apríl 2016 til 5. apríl 2017. Við birtingu tilkynningar um hugsanlega brottvísun og endurkomubann þann 22. maí 2018 kvaðst kærandi hins vegar hafa komið hingað til lands í október 2016. Vísaði Útlendingastofnun til þess að kærandi, sem væri ríkisborgari [...], væri áritunarskyldur hér á landi en væri staddur hér á landi án áritunar og því í ólögmætri dvöl. Væri heimilt að brottvísa kæranda á grundvelli a-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga og ákveða honum endurkomubann, sbr. 2. mgr. 101. gr. sömu laga. Að mati Útlendingastofnunar hefði ekkert komið fram í málinu sem benti til þess að sú ákvörðun að brottvísa kæranda gæti talist ósanngjörn ráðstöfun gagnvart honum eða nánustu aðstandendum hans, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Með ákvörðuninni var kæranda vísað brott frá landinu og ákveðið endurkomubann til tveggja ára.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir kröfur sínar á því að við töku ákvörðunar sinnar hafi Útlendingastofnun hvorki fylgt ákvæðum laga um útlendinga né stjórnsýslulaga nr. 37/1993, m.a. rannsóknarreglu 10. gr. og meðalhófsreglu 12. gr. laganna. Kveðst kærandi hafa komið hingað til lands frá [...] í október 2016 og að hann hafi ekki talið sig þurfa vegabréfsáritun til landsins þar sem [...] væri í Evrópusambandinu. Honum væri því heimilt að ferðast og leita að atvinnu innan evrópska efnahagssvæðisins án þess að þurfa vegabréfsáritun. Kærandi hafi þannig verið í góðri trú um að dvöl hans hér á landi væri lögleg þar til lögregla hafi haft afskipti af honum og tjáð honum að hann væri ekki í lögmætri dvöl hér á landi.

Fram kemur að kærandi hafi dvalið hér á landi í hartnær tvö ár og á þeim tíma myndað sterk tengsl við landið í gegnum vini sem hann hafi eignast hér á landi. Hann hafi ekki komið til heimaríkis síns í fjölda ára og hafi engin tengsl við fjölskyldu þar í landi. Þá sé dvalarleyfi hans í [...] útrunnið. Kærandi hafi ekki á neinn stað að leita annan en hér á landi þar sem hann hafi fengið að dvelja hjá vinum sínum, en kærandi eigi enga ættingja eða vini í Evrópu sem hann geti leitað ásjár hjá. Kærandi sé einstaklingur í mjög viðkvæmri stöðu og að hagsmunum hans sé ekki best borgið með því að honum sé vísað brott frá Íslandi út í óvissu.

Í greinargerð vísar kærandi til 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga, en samkvæmt ákvæðinu skal ekki ákveða brottvísun ef hún felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Við ákvörðun um brottvísun verði að fara fram mat á heildaraðstæðum með hliðsjón af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga. Eins og áður greini hafi kærandi verið í góðri trú um að hann hafi verið í lögmætri dvöl hér á landi þar sem hann hafi komið hingað frá aðildarríki Evrópusambandsins. Byggir kærandi á því að þar sem Útlendingastofnun hafi ekki kannað raunverulega afstöðu kæranda áður en ákvörðun hafi verið tekin í máli hans hafi stofnunin farið gegn 12. gr. stjórnsýslulaga enda feli brottvísun, með hliðsjón af málsatvikum, í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum.

Aukinheldur vísar kærandi til þess að Útlendingastofnun hafi við töku hinnar kærðu ákvörðunar látið hjá líða að kanna með viðhlítandi hætti þær aðstæður sem raunverulega voru uppi þegar kærandi neyddist til að yfirgefa heimaland sitt og síðar [...]. Kærandi vísar í þessu samhengi til 10. og 12. gr. stjórnsýslulaga, 68. gr. stjórnarskrár Íslands, 42. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og ákvæða mannréttindasáttmála Evrópu sbr. lög nr. 62/1994. Þá hafi Útlendingastofnun ekki gengið úr skugga um að þær aðstæður sem bíði kæranda við brottvísun frá Íslandi séu öruggar í skilningi 68. gr. stjórnarskrárinnar, 42. gr. laga um útlendinga, 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna og 7. gr. alþjóðasamnings um stjórnmálaleg og borgaraleg réttindi.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í máli þessu er til úrlausnar hvort vísa beri kæranda á brott frá Íslandi, sbr. a-lið 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Jafnframt er til úrlausnar hvort rétt sé að ákvarða kæranda endurkomubann til landsins í tvö ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. sömu laga.

Í 1. mgr. 20. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að útlendingur þurfi að hafa vegabréfsáritun til að mega koma til landsins nema annað sé ákveðið í reglum sem ráðherra setur. Í 2. mgr. segir að útlendingur sem hefur dvalarleyfi gefið út af ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu sé undanþeginn áritunarskyldu. Sama gildi um útlending sem hafi bráðabirgðadvalarleyfi gefið út af þátttökuríki í samstarfinu, enda hafi hann auk þess ferðaskilríki gefin út af sama ríki. Í 3. mgr. er loks kveðið á um að vegabréfsáritun, gefin út af ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu, gildi til komu og dvalar hér á landi þann tíma sem tilgreindur sé ef það komi fram í árituninni. Samkvæmt 1. mgr. 49. gr. laganna er útlendingi sem þarf vegabréfsáritun til landgöngu ekki heimilt að dveljast hér á landi lengur en áritunin segir til um nema sérstakt leyfi komi til. Í 1. mgr. 50. gr. laganna er kveðið á um að útlendingur sem hyggist dvelja hér á landi lengur en honum sé heimilt skv. 49. gr. þurfi að hafa dvalarleyfi.

Í reglugerð nr. 1160/2010 um vegabréfsáritanir eru talin upp lönd hvers ríkisborgarar þurfa vegabréfsáritun til að dvelja á Íslandi. Af viðauka 9 við reglugerðina leiðir meðal annars að ríkisborgarar [...] þurfa slíka áritun til að uppfylla skilyrði 49. gr. laga um útlendinga ef dvalarleyfi liggur ekki fyrir af öðrum ástæðum.

Á grundvelli a-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga er heimilt að vísa útlendingi úr landi sem er án dvalarleyfis ef hann dvelst ólöglega í landinu. Í 102. gr. er kveðið á um vernd gegn frávísun og brottvísun og takmarkanir á ákvörðun um brottvísun. Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. skal brottvísun ekki ákveða ef hún, með hliðsjón af málsatvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans.

Eins og fram hefur komið kveðst kærandi hafa komið hingað til lands í október 2016. Fram er komið að þegar kærandi kom hingað til lands hafði hann dvalarleyfi í [...] sem gilti til 5. apríl 2017. Var honum því heimilt að dvelja hér á landi í 90 daga frá komu til landsins, sbr. 2. mgr. 20. gr. og 1. mgr. 49. gr. laga um útlendinga. Kærandi mun ekki hafa aflað sér vegabréfsáritunar til að dvelja hér á landi. Var dvöl kæranda hér á landi því ólögmæt 90 dögum eftir komu hans til landsins.

Eins og að framan greinir telur kærandi að 1. mgr. 102. gr. laga um útlendinga standi því í vegi að honum verði vísað á brott frá landinu en samkvæmt ákvæðinu skal ekki ákveða brottvísun ef hún með hliðsjón af málsatvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landi, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Kærandi vísar í þessu samhengi til þess að hann hafi myndað sterk tengsl við landið, hafi engin tengsl við fjölskyldumeðlimi í heimalandi sínu og dvalarleyfi hans í [...] sé útrunnið. Kærandi sé í viðkvæmri stöðu enda hafi ekki í nein önnur hús að venda en hjá vinum sínum hér á landi. Þá telur kærandi að Útlendingastofnun hafi ekki kannað afstöðu hans áður en ákvörðun var tekin í máli hans.

Að mati kærunefndar leiðir vanþekking kæranda á reglum um heimild til dvalar hér á landi ekki til þess að ákvörðun um brottvísun feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Atvik málsins gefa að öðru leyti ekki tilefni til að ætla að brottvísun kæranda geti falið í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Í því sambandi áréttar kærunefnd að kærandi hefur ekki heimild til dvalar hér á landi og hefur fengið nægt ráðrúm til að yfirgefa landið. Kærandi á ekki fjölskyldu hér á landi og telst það ekki ósanngjarnt gagnvart kæranda að honum sé vísað til heimalands síns þótt hann eigi ekki fjölskyldu þar í landi.

Kærandi heldur því fram ekki sé heimilt að vísa honum brott frá landinu fyrr en gengið hafi verið úr skugga um að brottvísunin feli ekki í sér ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð gagnvart honum. Í 42. gr. laga kemur fram grundvallarreglan um bann við því að vísa fólki brott eða endursenda þangað sem líf þess eða frelsi kann að vera í hættu. Þar segir m.a. að ekki sé heimilt samkvæmt lögunum að senda útlending eða ríkisfangslausan einstaklings til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Í kjölfar umsóknar samkvæmt III. kafla laga um útlendinga getur einstaklingi verið veitt alþjóðleg vernd. Slík vernd er grundvöllur dvalarleyfis skv. 73. gr. laga um útlendinga.

Kærandi hefur ekki haldið því fram að líf hans eða frelsi kunni að vera í hættu við endursendingu til heimaríkis en kærandi hefur í samræmi við 13. gr. laga um útlendinga notað aðstoðar lögmanns. Að öðru leyti hafa ekki komið fram gögn við meðferð málsins sem benda til þess að kærandi eigi slíkt á hættu. Er því ekki tilefni til frekari rannsóknar eða umfjöllunar um þennan þátt málsins. Telji kærandi að hann hafi ástæðuríkan ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og geti ekki eða vilji ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd heimaríkis eða ef hann telur raunhæfa ástæðu er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka verði hann sendur aftur til heimalands síns, bendir kærunefnd á að hann á þess kost að sækja um alþjóðlega vernd hjá Útlendingastofnun eða lögreglu.

Samkvæmt framansögðu verður staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun kæranda með vísan til a-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga.

Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga. Endurkomubannið getur verið varanlegt eða tímabundið en skal að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár. Að mati kærunefndar gefa atvik málsins ekki tilefni til að víkja frá fyrirmælum ákvæðisins um lágmarkslengd endurkomubanns og verður ákvörðun Útlendingastofnunar um tveggja ára endurkomubann staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Anna Tryggvadóttir

Gunnar Páll Baldvinsson Anna Valbjörg Ólafsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta