Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 338/2016

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 6. október 2016 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 338/2016

í stjórnsýslumáli nr. KNU16050048

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru, dags. 24. maí 2016, kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 6. apríl 2016, um að synja honum um hæli á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga, nr. 96/2002, um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt réttarstaða flóttamanns hér á landi skv. 1. mgr. 44. gr. laga um útlendinga, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna. Til vara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 12. gr. f sömu laga. Til þrautavara er þess krafist að ákvörðun Útlendingastofnunar verði ógilt og stofnuninni verði gert að taka mál kæranda til meðferðar á ný.

Fyrrgreind ákvörðun eru kærð á grundvelli 1. mgr. 30. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um hæli hér á landi þann 12. nóvember 2015 hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Hann kom í viðtal hjá Útlendingastofnun þann 31. mars 2016 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags 6. apríl s.á., synjaði Útlendingastofnun umsókn kæranda um hæli ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 24. maí 2016 auk þess sem óskað var eftir því að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar yrði frestað. Með bréfi, dags. 25. maí 2016, féllst kærunefnd útlendingamála á kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa. Greinargerð kæranda barst kærunefnd þann 22. júní 2016. Þann 15. september sl. kom kærandi fyrir kærunefnd útlendingamála og gerði grein fyrir máli sínu, sbr. 5. mgr. 3. gr. b laga um útlendinga. Viðstaddir voru talsmaður kæranda og túlkur.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Hjá Útlendingastofnun byggði kærandi kröfu sína um hæli hér á landi á því að hann geti ekki verið í heimaríki sínu vegna þess að hann sé ofsóttur af fyrrum tengdafjölskyldu sinni, hann eigi enga ættingja lengur í [...] og að hann sé af kynþætti [...].

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekki lagt fram neitt sem sé til þess fallið

að sanna á honum deili. Það væri mat stofnunarinnar að kærandi hafi ekki sannað hver hann væri með fullnægjandi hætti og yrði því leyst úr auðkenni hans á grundvelli mats á trúverðugleika.

Fjallað er um aðstæður og stöðu mannréttinda í [...] í hinni kærðu ákvörðun. Það kemur meðal annars fram að heimildir hermi að mannréttindi borgaranna séu að meginstefnu virt þar í landi og að ríkið sé nokkuð þróaðra og frjálslyndara [...]. Þá er fjallað um einstaklinga af uppruna [...]. Meðal annars kemur fram að um [...] og að skýrslur beri með sér að meirihluti [...] sé af [...] uppruna. Ljóst sé af gögnum að ágreiningur hafi verið milli [...] telji stjórnvöld virði að vettugi vandamál þeirra.

Þá kemur fram að þegar kærandi kom til landsins hafi verið tekið afrit af vegabréfi og dvalarleyfisskírteini hans en kærandi kveðist nú hafa hent skilríkjum sínum. Afrit af skilríkjum hans hafi verið send til vegabréfarannsóknardeildar flugstöðvardeildar Lögreglustjórans á Suðurnesjum til greiningar. Deildin taldi ekkert benda til þess að um fölsuð skírteini væru að ræða en gerði fyrirvara við skoðunina á grundvelli þess að um afrit væri að ræða. Útlendingastofnun taldi því enn leika vafa á því hver kærandi væri en ekki væri tilefni til þess að draga þjóðerni hans í efa. Væri því lagt til grundvallar að kærandi væri frá [...]. Við úrlausn málsins yrði því byggt á frásögn kæranda eins og hún lægi fyrir með þeim fyrirvara að hann geti leitað til lögreglunnar í [...] yrði hann fyrir þeim hótunum sem hann hafi greint frá.

Það var mat Útlendingastofnunar að kærandi væri ekki í sérstaklega viðkvæmri stöðu þannig að áhrif hefði á niðurstöðu í máli hans.

Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að ekki verði séð af fyrirliggjandi heimildum að lögregluyfirvöld í [...] sinni ekki kvörtunum borgara sem hafi orðið fyrir hótunum. Heimildir um [...] beri með sér að þó að spilling sé vandamál hjá stjórnvöldum þá bregðist lögreglan almennt við málum sem beint sé til hennar og að [...] stjórnvöld hafi almennt skilvirka stjórn yfir löggæslu í landinu. Ekki verði séð af frásögn kæranda að fyrrum tengdafjölskylda hans stjórni [...] ríkinu eða svæðum innan þess. Þá bendi heldur ekkert til þess að yfirvöld eða lögregla séu óviljug eða ófær um að rannsaka afbrot, sækja glæpamenn til saka og veita borgurunum viðeigandi aðstoð þegar lög séu brotin jafnvel þótt viðkomandi tilheyri ákveðnum kynþætti sem sé í minnihluta. Ekkert í málinu gefi tilefni til þess að ætla að kærandi muni ekki, vegna ástæða sem varða hann sérstaklega, njóta aðstoðar yfirvalda í [...], reyni fyrrum tengdafólk hans að gera honum mein. Það sé mat Útlendingastofnunar að kærandi geti leitað til [...] stjórnvalda telji hann sig í hættu vegna fyrrum tengdafjölskyldu sinnar.

Kærandi hafi ekki greint frá neinu sem hann hefði orðið fyrir sem talist gæti til ofsókna á hendur honum vegna þess að hann sé [...]. Heimildir beri með sér að sú mismunun sem [...] kunni að sæta í [...] nái almennt ekki því marki að teljast ofsóknir eða ómannúðleg eða vanvirðandi meðferð.

Ljóst sé að í [...] sé til staðar kerfi sem þeir geti leitað til sem telji á sér brotið. Það verði að ætla að kærandi eigi raunhæfa möguleika á að leita aðstoðar [...] yfirvalda og eftir atvikum lögreglu eða dómstóla. Þá sé einnig ljóst að kærandi eigi ekki á hættu mismunun sem jafnað verði til ofsókna í skilningi 1. mgr. 44. gr. laga um útlendinga. Að ofangreindu virtu væri það niðurstaða Útlendingastofnunar að kærandi eigi ekki á hættu ofsóknir eða meðferð sem jafnað verði til ofsókna í heimalandi sínu. Beri því að synja kæranda um hæli skv. 1. mgr. 44. gr. laga um útlendinga.

Þá kemur fram í hinni kærðu ákvörðun að af þeim upplýsingum sem liggi fyrir um [...] og af frásögn kæranda að dæma sé ljóst að hann eigi ekki á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur til [...]. Þá sé ljóst að kærandi geti leitað ásjár yfirvalda í heimaríki sínu vegna erfiðleika sinna. Því væri það niðurstaða

Útlendingastofnunar að kærandi eigi ekki á hættu illa meðferð skv. 2. mgr. 44. gr. laga um útlendinga og væri því synjað um hæli skv. 2. mgr. 44. gr. laga um útlendinga.

Varðandi kröfu um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga um útlendinga segir í ákvörðun Útlendingastofnunar að það sé mat stofnunarinnar að [...] stjórnvöld og lögregla séu í stakk búin til þess að veita kæranda þá aðstoð sem hann þarfnist. Það verði ekki séð að kærandi eigi rétt á dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða vegna þeirra ástæðna sem nefndar eru í ákvæðinu eða annarra atvika sem ekki má með réttu gera honum að bera ábyrgð á. Því bæri að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 12. gr. f laga um útlendinga. Þá var kæranda jafnframt synjað um hæli vegna sérstakra tengsla við Ísland skv. sama ákvæði. Þá væri það mat Útlendingastofnunar, í ljósi þess sem hafi komið fram, að endursending kæranda til [...] brjóti ekki gegn 45. gr. laga um útlendinga.

Að lokum var kæranda vísað frá landinu á grundvelli a-liðar 1. mgr. 18. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 56. gr. reglugerðar nr. 53/2003 um útlendinga. Með tilliti til atvika málsins ákvað stofnunin að kæra myndi ekki fresta framkvæmd ákvörðunar með vísan til a-liðar 1. mgr. 32. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að í viðtali hjá Útlendingastofnun hafi kærandi greint frá því að hann hafi sótt um hæli í Noregi, Svíþjóð og Þýskalandi en þau ríki hafi ætlað að endursenda hann til Spánar þar sem hann hafi dvalarleyfi. Hann hafi fæðst í [...], farið til Spánar árið 1991 en verið endursendur til [...]. Hann hafi komið aftur til Spánar árið 2003 eða 2004 og búið þar frá þeim tíma. Foreldrar hans og systkini séu búsett í [...] á Spáni. Kærandi óttist foreldra stúlku sem hann hafi átt í ástarsambandi við í sex eða sjö ár. Hún sé spænsk og foreldrar hennar hafi ekki verið sáttir við að hún hafi verið í tygjum við [...] . Þau hafi hótað honum lífláti og kærandi óttist um líf sitt, foreldra sinna og systkina. Kærandi hafi ekki þorað að leita til lögreglu af ótta við að fjölskylda stúlkunnar muni frétta af því og láti verða af hótunum sínum. Kærandi hafi ekki búið í [...] að neinu ráði frá því að hann var barn. Hann hafi því lítil sem engin tengsl við heimaland sitt, hann viti lítið um landið og hann hafi aldrei stundað þar atvinnu. Kærandi eigi enga fjölskyldu í [...]. Hann tilheyri [...]. [...] sé [...] og að [...] hafi andúð á [...]. Kærandi telji að hann muni verða fyrir mismunun og jafnvel fangelsun af þeirri ástæðu.

Í greinargerð kæranda eru gerðar athugasemdir við efni og rökstuðning hinnar kærðu ákvörðunar. Þar séu að finna rangfærslur og fullyrðingar sem byggist á misskilningi og vanþekkingu á efnisatriðum málsins. Gerð sé athugasemd við að í ákvörðuninni komi fram að kærandi hafi búið í húsnæði í [...] ásamt fjölskyldu sinni áður en þau hafi flutt til Spánar. Þetta sé ekki rétt. Faðir kæranda hafi búið þar í 33 ár, ekki liggi fyrir hversu lengi kærandi hafi sjálfur búið í [...] en þar hafi hann búið hjá fjölskyldumeðlimi. Öll hans nánasta fjölskylda sé búsett á Spáni. Ekki hafi verið spurt nánar út í þennan fjölskyldumeðlim og ekki liggi fyrir hvort kærandi geti leitað á náðir ættingja í [...].

Þá er í greinargerð kæranda fjallað um ástand mannréttindamála í [...] og vísað til alþjóðlegra skýrslna þar um. Þar komi m.a. fram að fyrirferðamestu vandamál tengd mannréttindum í landinu tengist spillingu, skorti á möguleikum borgaranna til að gera breytingar á ákvæðum stjórnarskrárinnar sem festi einræði í sessi og skorti á því að öryggissveitir ríkisins virði grundvallaratriði réttarríkisins. Kærandi haldi því fram að hann muni verða fyrir mismunun í [...] vegna uppruna síns sem [...]. Stjórnvöld hafi sýnt litla viðleitni til að innleiða lög sem geri [...]. Fátækt sé mikil meðal [...] og ólæsi mikið. Af alþjóðlegum skýrslum um [...] megi ráða að efnahagsástandið í landinu sé bágborið og líkur séu á að kærandi verði bæði atvinnu- og húsnæðislaus verði hann endursendur til [...]. Hann hafi lítil sem engin tengsl við landið.

Kærandi vísar til ákvæða laga um útlendinga og a-liðar 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 máli sínu til stuðnings. Samkvæmt handbók um réttarstöðu flóttamanna sé ekki til að dreifa almennri viðurkenndri skilgreiningu á hugtakinu „ofsóknir“ en ákveðnar ályktanir megi þó draga af efni ákvæðis 33. gr. flóttamannasamningsins. Kæranda hafi borist líflátshótanir frá foreldrum unnustu sinnar vegna uppruna hans. Helsta ástæða flótta hans sé vantraust á vilja og getu stjórnvalda til þess að veita honum vernd gagnvart þeim sem hafi ofsótt hann. Ekki sé raunhæft að kærandi geti leitað ásjár yfirvalda í [...] þegar heimildir bendi til þess að spilling og mismunun séu landlægt vandamál sem veikt réttar- og löggæslukerfi [...] sé á engan hátt í stakk búið til að takast á við eða veita þegnum sínum viðeigandi vernd. Taka verði tillit til þess að kærandi hafi lítil tengsl við heimaland.

Í greinargerð kæranda kemur fram að Útlendingastofnun sé við meðferð málsins bundin af rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í hinni kærðu ákvörðun sé almennt fjallað um aðstæður í [...] og fullyrt að ljóst sé að kærandi eigi ekki á hættu að sæta meðferð sem gangi gegn ákvæði 45. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Ekki verði séð á hvaða grunni stofnunin byggir umrædda fullyrðingu en heimildum beri saman um að mannréttindi séu ekki virt með fullnægjandi hætti í landinu. Þá verði ekki séð að leitað hafi verið eftir upplýsingum um fjölskylduna sem ofsótt hafi kæranda. Því hafi ekki farið fram einstaklingsbundið og sjálfstætt mat á aðstæðum kæranda í málinu. Einungis hafi verið stuðst við almennar upplýsingar um [...] og sneytt hafi verið framhjá mikilvægum staðreyndum sem varða spillingu, ofsóknir og mismunun sem sé mikið vandamál í landinu. Þá hafi ekki verið fjallað um möguleika hans til að koma undir sig fótum í [...] í ljósi lítilla tengsla hans við landið. Í viðtali hjá stofnuninni hafi ekki komið fram hversu lengi kærandi hafi búið í [...] eða hvort hann hafi gilt dvalarleyfi á Spáni. Við meðferð málsins hafi því verið brotið gróflega gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga og því beri að ógilda ákvörðunina og fela stofnuninni að taka málið til meðferðar að nýju.

Til vara sé þess krafist að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga um útlendinga og er vísað til athugasemda greinargerðar með ákvæðinu. Kærandi hafi takmörkuð tengsl við heimaríki sitt og hafi búið stærstan hluta lífs síns á Spáni. Það yrði kæranda mjög þungbært að þurfa að flytjast til [...] þar sem hann hafi litla þekkingu á daglegu lífi og lítil tengsl við landið. Kærandi telji að stjórnvöld í [...] muni mismuna honum vegna uppruna hans. Ljóst sé að staða mannréttindamála þar í landi sé veik en leiða megi líkur að því að staða kæranda verði enn veikari vegna vanþekkingar hans á [...] . Hann hafi nánast alla sína tíð búið á Spáni þar sem aðrar venjur og siðir tíðkist. Kæranda yrði þungbært að þurfa að flytjast til [...] þar sem hann hafi að engu að hverfa. Þá sé í ljósi leiðbeiningarreglna Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna ekki hægt að ætlast til þess að kærandi geti flutt sig um set innan [...] og verið öruggur.

VI. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagarammi

Í máli þessu gilda ákvæði laga nr. 96/2002 um útlendinga með síðari breytingum, reglugerð nr. 53/2003 um útlendinga með áorðnum breytingum, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekki lagt fram nein gögn sem séu fallin til

þess að sanna á honum deili og hann hafi því ekki sannað með fullnægjandi hætti hver hann er. Við meðferð máls kæranda hjá kærunefnd útlendingamála hefur kærandi heldur ekki lagt fram frekari gögn sem sanna á honum deili. Kærunefnd telur því óvíst hver hann sé en telur ekki ástæðu til þess að draga þjóðerni hans í efa. Því verður lagt til grundvallar að kærandi sé ríkisborgari [...].

Mat á því hvort kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu

Við meðferð máls er litið til þess hvort kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem geti haft áhrif á niðurstöðu máls hans. Með því getur verið átt við hvort kærandi hafi mátt þola pyndingar, hvort kærandi sé barn eða hvort umsókn hans varði börn hans, hvort kynhneigð eða kynferði kæranda geti haft áhrif eða hvort kærandi geti verið ríkisfangslaus. Mat á stöðu kæranda fer ávallt fram og eru þau atriði sem koma til skoðunar ekki tæmandi.

Með tilliti til framburðar kæranda og gagna málsins er það mat kærunefndar að hann sé ekki í sérstaklega viðkvæmri stöðu þannig að það hafi áhrif á niðurstöðu í máli hans.

Landaupplýsingar

[...] er [...] með um [...] íbúa, þar sem [...] fer með yfirstjórn landsins. [...] voru samþykktar breytingar á stjórnarskrá landsins sem fela í sér aukið [...] landsins. Stjórnarskráin bannar mismunun á grundvelli kynþáttar, kyns, fötlunar, tungumáls, félagslegrar stöðu, trúar, menningu, svæðisbundins uppruna og annarra persónulegra aðstæðum. [...] .

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í [...] m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

[...] Í ofangreindum gögnum kemur meðal annars fram að mikil spilling fyrirfinnist í allri stjórnsýslu landsins. Þá sé virðingarleysi gagnvart landslögum mikil hjá öryggissveitum landsins. Réttarkerfið eigi að vera sjálfstætt en í málum sem snerta öryggi ríkisins eða stjórnarfar þess eða önnur pólitísk mál kunni stjórnvöld að hafa óeðlileg áhrif á niðurstöðu mála. Í landinu hafi embætti umboðsmanns [...] m.a. sinnt sáttameðferð í einkamálum og hafi sinnt rannsóknum vegna kvartana sem beint hafi verið til hans um brot á grundvallarréttindum borgaranna. Ferðafrelsi sé tryggt í stjórnarskrá landsins og stjórnvöld virði almennt þann rétt [...] Samkvæmt ofangreindum skýrslum telja yfir helmingur [...] þjóðarinnar sig eiga uppruna sinn að rekja, a.m.k. að hluta, til [...] . Íbúar margra fátækustu svæða ríkisins eru margir hverjir [...] og er ólæsi á þeim svæðum mikið, eða um 80%. Þá er grunnþjónusta á fjalllendum og vanþróuðum svæðum ríkisins ekki umfangsmikil. Samkvæmt skýrslunum telja [...] að [...] stjórnvöld hafi virt vandamál þeirra að vettugi og hafa menningarhópar [...] fullyrt að þeir séu fljótir að glata hefðum sínum og tungumáli til [...] og [...] hefða og venja. Hins vegar er ljóst af þeim skýrslum sem kærunefnd hefur kynnt sér að [...] stjórnvöld hafa ráðist í ýmsar aðgerðir til þess að bæta stöðu [...] í landinu. Tungumál [...] er til að mynda nú samkvæmt stjórnarskrá ríkisins opinbert tungumál í ríkinu ásamt arabísku sem sé ráðandi tungumál í landinu. [...] ríkið sjái [...] fyrir sjónvarpsefni á þremur mállýskum [...] tungumálsins, bjóði upp á tungumálakennslu í um þriðjungi skóla ríkisins og hafi komið á fót áætlun til þess að bregðast við skorti á menntuðum kennurum í faginu.

Ákvæði 1. mgr. 44. gr. laga um útlendinga

Til að teljast flóttamaður hér á landi þarf kærandi að sýna fram á að aðstæður hans séu slíkar að þær falli undir 1. eða 2. mgr. 44. gr. laga um útlendinga. Krafa kæranda byggir á því að hann eigi á hættu ofsóknir af hendi fjölskyldu fyrrverandi kærustu sinnar sem búsett sé á Spáni. Þá kveðst kærandi tilheyra minnihlutahópi [...] í [...] og því muni hann verða fyrir mismunun og jafnvel fangelsun af þeirri ástæðu.

Í 1. mgr. 44. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og viðauka við samninginn frá 31. janúar 1967. Um skilyrði þess að teljast flóttamaður er frekar mælt í 44. gr. a.

Almennt ber að telja ótta umsækjanda ástæðuríkan ef hann getur á nægilega skýran hátt sýnt fram á að áframhaldandi dvöl í heimalandi sé honum óbærileg af ástæðum sem tilgreindar eru í ákvæðinu, eða yrði óbærileg af sömu ástæðum ef hann sneri aftur. Þessi sjónarmið þurfa jafnframt ekki endilega að byggjast á persónulegri reynslu umsækjanda, heldur geta ofsóknir sem vinir hans eða ættingjar eða aðrir sem tilheyra sama þjóðfélagshópi hafa orðið fyrir, gefið til kynna að ótti hans við að verða fyrr eða síðar fórnarlamb ofsókna sé ástæðuríkur.

Í 44. gr. a laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir, á hvaða grundvelli slíkar ofsóknir geta byggt og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Til þess að um sé að ræða ofsóknir skv. 1. mgr. 44. gr. verður að vera um að ræða athafnir sem í eðli sínu, eða vegna þess að þær eru endurteknar, fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samansafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 3. mgr. 44. gr. a eru taldir upp þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þar segir að:

Þeir sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eru:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess, og

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið þessarar málsgreinar, þar með talið alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 44. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Þótt fallist sé á að einstaklingur í þessari aðstöðu skuli njóta vafans upp að ákveðnu marki, verður kærandi a.m.k. að sýna fram á að líkur séu á að hans bíði ofsóknir í heimalandi. Samkvæmt meginreglum um túlkun flóttamannahugtaksins, sem fram koma í handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, er m.a. miðað við það að viðkomandi þurfi almennt að sýna fram á að gildar ástæður liggi til grundvallar ótta við ofsóknir og að hugarástand flóttamannsins skipti ekki eitt máli heldur verði yfirlýsing hans einnig að fá stuðning í hlutlægum og staðreynanlegum aðstæðum, sbr. Handbók um réttarstöðu flóttamanna. Um málsmeðferð og skilyrði samkvæmt

flóttamannasamningnum frá 1951 og bókun frá 1967 um réttarstöðu flóttamanna (Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, Reykjavík 2008).

Kærandi byggir á því að hann eigi á hættu ofsóknir af hálfu fjölskyldu fyrrverandi kærustu sinnar, en fjölskyldan sé búsett á Spáni. Þá er í greinargerð kæranda á því byggt að hann eigi jafnframt á hættu að verða fyrir mismunun í [...] vegna þess að hann sé [...].

Kærandi hefur við meðferð málsins greint með almennum hætti frá því að hann telji sig ekki eiga afturkvæmt til [...] vegna þess að hann sé [...]. Hann hefur aftur á móti ekki greint frá einstökum atriðum sem hann hefur orðið fyrir eða óttast að hann verði fyrir sem talist gætu ofsóknir á hendur honum eða mismunun á grundvelli þess að hann sé [...]. Ekkert í gögnum málsins bendir heldur til þess að [...] eigi almennt á hættu ofsóknir í [...]. Þá telur kærunefnd ljóst að sú mismunun sem [...] kunna að sæta í [...] nái ekki því marki að teljast ofsóknir. Það er mat kærunefndar að kærandi hafi ekki ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 44. gr. laga um útlendinga, af þeim ástæðum sem hann byggir mál sitt á. Ljóst sé að sú fjölskylda sem kærandi kveðst óttast er búsett á Spáni og það er ekkert sem bendir til þess að hann hafi ástæðu til þess að óttast ofsóknir eða áreiti af þeirra hálfu í [...].

Með vísan til alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi eigi ekki á hættu ofsóknir eða meðferð sem jafnað verði til ofsókna í heimalandi sínu, sbr. 1. mgr. 44. gr. a laga um útlendinga, vegna þeirra ástæðna sem hann ber fyrir sig. Kæranda er því synjað um hæli skv. 1. mgr. 44. gr. laga um útlendinga.

Ákvæði 2. mgr. 44. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 44. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að flóttamaður samkvæmt útlendingalögum telst einnig útlendingur sem telst ekki flóttamaður samkvæmt ákvæði A-liðar 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna ef raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur til heimalands.

Í ljósi þess sem að framan er rakið telur kærunefndin að aðstæður kæranda í heimalandi hans séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 44. gr. laganna. Þá telur kærunefndin ekkert fram komið sem bendir til þess að hætt sé við því að kærandi muni sæti ómannúðlegri og/eða vanvirðandi meðferð við heimkomuna, sbr. 2. mgr. 44. og 1. mgr. 45 gr. laganna.

Ákvæði 12. gr. f laga um útlendinga

Samkvæmt 12. gr. f er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi, þótt skilyrðum sé annars ekki fullnægt, ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess eða vegna sérstakra tengsla útlendingsins við landið. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að veita má dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum, eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til eða vegna annarra atvika sem ekki má með réttu gera honum að bera ábyrgð á. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun. . Kærunefnd telur með vísan til orðalags ákvæðisins um „rík mannúðarsjónarmið“ og „ríka þörf á vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 12. gr. f laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Kærunefndin hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga og teljist því ekki flóttamaður. Eins og að framan greinir hefur kærandi lýst aðstæðum sínum á Spáni sem erfiðum auk þess sem ráða má af gögnum málsins að hann hafi ekki mikil tengsl við heimaríki sitt [...]. Hann hefur lýst almennu heilsufari sínu sem góðu en að hann sé stundum með martraðir. Þegar framburður kæranda er virtur í heild sinni ásamt gögnum málsins er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi heldur ekki sýnt fram á ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 12. gr. f útlendingalaga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í [...] séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 12. gr. f útlendingalaga.

Jafnframt telur kærunefndin kæranda ekki uppfylla skilyrði 12. gr. f útlendingalaga um sérstök tengsl við landið. Eins og fram kemur í gögnum málsins hefur kærandi aðeins dvalið á Íslandi í skamman tíma.

Rannsókn og rökstuðningur Útlendingastofnunar

Í greinargerð kæranda er því haldið fram að við meðferð málsins hjá stofnuninni hafi verið brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og því beri kærunefnd að ógilda ákvörðunina og fela stofnuninni að taka málið til meðferðar að nýju. Á því er aðallega byggt að ekki hafi farið fram einstaklingsbundið og sjálfstætt mat á aðstæðum kæranda í málinu. Einungis hafi verið stuðst við almennar upplýsingar um [...] og sneytt hafi verið framhjá staðreyndum um spillingu, ofsóknir og mismunun sem sé vandamál í ríkinu. Þá hafi ekki verið fjallað um möguleika hans til þess að koma undir sig fótum í [...] vegna lítilla tengsla hans við landið.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald sjá til þess, að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og afla í því skyni nauðsynlegra upplýsinga. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í málinu. Um frekari afmörkun á hversu ítarlega beri að rannsaka mál, ber m.a. að líta til þess hversu mikilvægt það er. Því tilfinnanlegri eða meira íþyngjandi sem stjórnvaldsákvörðun er, þeim mun strangari kröfur verður að gera til rannsóknar á þeim atvikum sem leiða til niðurstöðunnar. Markmið rannsóknarreglunnar er að tryggja að stjórnvaldsákvarðanir verði bæði löglegar og réttar. Í þeim tilvikum þegar ákvörðun stjórnvalds byggist á mati verður að afla þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru svo hægt sé að beita þeim sjónarmiðum sem ætlun er að byggja stjórnvaldsákvörðun á. Að auki ef deilt er um málsatvik sem hafa verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins ber stjórnvöldum að leggja áherslu á að rannsaka þann þátt þess.

Kærunefnd fellst ekki á með kæranda að slíkur ágalli hafi verið á rannsókn málsins að ógilda beri ákvörðun Útlendingastofnunar. Ljóst er að stofnunin kynnti sér aðstæður í [...], þar á meðal sérstaklega aðstæður [...] þar í landi, og vísaði til þeirra gagna sem stofnunin studdi ákvörðun sína við án þess að allt efni gagnanna hafi verið tíundað í ákvörðuninni. Þá fær kærunefnd ekki séð að það hafi þýðingu fyrir úrlausn málsins að rannsaka frekar heimild hans til dvalar á Spáni. Kærunefnd telur því ekki ástæðu til að gera athugasemd við rannsókn Útlendingastofnunar. Þá telur kærunefnd að í hinni kærðu ákvörðun sé jafnframt tekin nægileg afstaða til þeirra málsástæðna sem kærandi byggði umsókn sína um hæli á. Þó fallast megi á með kæranda að umfjöllun í ákvörðun Útlendingastofnunar um búsetu hans í [...] sé ekki fyllilega nákvæm telur kærunefnd ekki forsendur til að gera athugasemd við rökstuðning Útlendingastofnunar. Að framangreindu virtu er kröfu kæranda um að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og stofnuninni falið að taka umsókn kæranda til nýrrar meðferðar því hafnað.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 33. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá því að beiðni um það er synjað. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því ákvörðun var tekin.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður

Anna Tryggvadóttir Pétur Dam Leifsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta