Hoppa yfir valmynd

540/2014. Úrskurður frá 8. október 2014

Úrskurður

Hinn 8. október 2014 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 540/2014, í máli ÚNU 14070003.

Kæra

Þann 10. júlí 2014 barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæra frá [A], dags. 7. s.m., vegna þess að Fjármálaeftirlitið (FME) hefði ekki svarað beiðni hans um gögn. Í kærunni segir m.a.: 

„Þegar þessi kæra er dagsett og send úrskurðarnefnd um upplýsingamál, er sá frestur sem FME hafði áskilið sér samkvæmt framangreindri tilkynningu klárlega útrunninn. Kærandi lítur svo á að þar með sé FME orðið brotlegt við 1. mgr. 17. gr. laga nr. 140/2012 um upplýsingamál, og er það tilefni kæru þessarar.“

Meðferð máls

Þann 22. júlí 2014 sendi úrskurðarnefnd um upplýsingamál bréf til FME, kynnti kæruna og vakti athygli á því að samkvæmt 1. mgr. 17. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 bæri því að taka ákvörðun um aðgang að gögnunum svo fljótt sem verða mætti. 

Svar barst frá FME hinn 6. ágúst, og kom þar fram að beiðninni hefði þegar verið svarað. Þar segir m.a.:

„Vísað er til erindis úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. ÚNU14070003/021-10-1 þar sem m.a. er óskað þess að ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um afhendingu eða synjun gagnabeiðni [A] sé birt nefndinni eigi síðar en kl. 16 í dag. Meðfylgjandi er umrædd ákvörðun, en erindinu var svarað þann 4. júlí sl. Að því er varðar beiðni nefndarinnar um að fá gögnin afhent sem kæran lýtur að þá vísast til nýlegs úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 531/2014. Í því máli voru umrædd gögn afhent.“ 

Þá var óskað eftir fresti til að veita frekari svör og var hann veittur til 20. ágúst. Þá sendi úrskurðarnefndin nýtt bréf til kæranda, dags. 11. ágúst. Þar segir m.a.:

„Úrskurðarnefnd um upplýsingamál móttók hinn 10. júlí 2014 kæru yðar yfir að hafa ekki fengið efnislegt svar frá Fjármálaeftirlitinu við gagnabeiðni. Nú hefur úrskurðarnefnd um upplýsingamál hins vegar borist afrit af bréfi Fjármálaeftirlitsins til yðar, dags. 4. júlí sl., þar sem beiðninni er svarað. Ef þér fellið yður ekki við efni svarsins er þess óskað að þér gerið nefndinni grein fyrir því sérstaklega. Hafi það ekki verið gert fyrir 20. þ.m. má vænta þess að málið verði fellt niður. Að lokum er athygli vakin á því að hinn 24. júlí sl. var kveðinn upp úrskurður um umrædd gögn. Hann má nálgast á vef nefndarinnar […]“

Úrskurðarnefndinni barst bréf frá kæranda, dags. 20. ágúst. Þar segir m.a.:

„Þann 10. júní síðastliðinn beindi undirritaður („kærandi“) beiðni til Fjármálaeftirlitsins („FME“) þar sem óskað var eftir aðgangi að tilteknum gögnum í vörslu FME sem þar eru nánar tilgreind. […] Þann 7. júlí sl. hafði ofangreindri beiðni ekki verið og svarað, og beindi því undirritaður kæru til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, þar sem FME hafði þá að mati kæranda brotið gegn 1. mgr. 17. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Þann 8. júlí eða degi síðar en kærunni var beint til nefndarinnar barst kæranda bréf frá FME dags. 4. júlí sem innihélt svar um afgreiðslu FME á umræddri beiðni kæranda um aðgang að tilteknum gögnum. Kom þar fram sú ákvörðun FME að synja kæranda um aðgang að þeim gögnum sem beiðnin sneri að. […] Kæranda hefur nú borist erindi frá úrskurðarnefndinni dags. 11.8.2014 þar sem kemur m.a. fram að nefndinni hafi borist umrætt svar frá FME. Kærandi fagnar því svosem að loksins hafi svar borist við gagnabeiðninni. Aftur á móti telur kærandi að beiðni hans hafi ekki verið svarað innan þeirra tímamarka sem leiða megi af þeim lögum sem gildi um þá afgreiðslu sem um ræðir, og því ferli sem farið hafi af stað við áðurnefndan áskilnað FME um framlengdan svarfrest. […]

Fyrir liggur að þau gögn sem kærandi bað um aðgang að eru til staðar hjá FME, sem sést af því að í svari við beiðni um aðgang að þeim koma fram efnislegar upplýsingar um innihald þeirra. Jafnframt liggur fyrir að beiðni kæranda var sett fram á löglegan hátt. Hinsvegar virðist afgreiðsla á beiðninni ekki hafa verið í samræmi við lög, hvorki af hálfu FME né þegar úrskurðarnefndin veitti lengri frest til afgreiðslu á beiðninni. Eina mögulega niðurstaða málsins sem samræmist lögum er því sú að veita verði kæranda aðgang að hinum umbeðnu gögnum. Aðalkrafa kæranda er að úrskurðarnefnd um upplýsingamál kveði upp úrskurð þess efnis svo fljótt sem verða vill.“

Úrskurðarnefndin sendi nýtt bréf til FME, dags. 25. ágúst, þar sem segir m.a. að nefndinni hafi borist nýtt bréf frá kæranda sem litið væri á sem kæru vegna synjunarinnar og FME gefinn kostur á að koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Svar barst frá FME með bréfi, dags. 2. september. Þar segir m.a.:

„Fjármálaeftirlitið afgreiddi beiðni kæranda um gögn með bréfi, dags. 4. júlí 2014, sem barst [A] þann 8. júlí eins og greinir í kæru hans til úrskurðarnefndarinnar. Afgreiðsla Fjármálaeftirlitsins fól í sér synjun um afhendingu gagna og því var kæranda bent á kæruheimild í 20. gr. upplýsingalaga og að bera þyrfti synjunina undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál innan 30 daga frá því að tilkynnt var um ákvörðunina, sbr. 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga. Umrætt bréf Fjármálaeftirlitsins var sent úrskurðarnefndinni með tölvupósti þann 5. ágúst sl. Með vísan til þess að kærandi móttók ákvörðun Fjármálaeftirlitsins þann 8. júlí 2014 en kærði synjunina ekki fyrr en þann 20. ágúst 2014 telur Fjármálaeftirlitið að vísa beri málinu frá þar sem kæran barst að liðnum kærufresti.“

Úrskurðarnefndin sendi nýtt bréf til kæranda, dags. 8. september, þar sem honum var gefinn kostur á að tjá sig um frávísunarkröfu FME. Hann svaraði með bréfi, dags. 15. september, og hafnaði kröfunni alfarið.

Niðurstaða

Mál þetta varðar tvær kærur. Sú fyrri er dags. 7. júlí og lýtur að því að Fjármálaeftirlitið hafi ekki svarað beiðni kæranda um gögn. Nú liggur fyrir að beiðninni hafði verið svarað með ákvörðun, dags. 4. júlí, sem barst honum hinn 8. s.m. Með vísan til þessa liggur ekki fyrir að kæran eigi við rök að styðjast og er henni því vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Seinni kæran er dagsett 20. ágúst 2014, þ.e. rúmum 6 vikum eftir að hin kærða ákvörðun barst kæranda. Í 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er svohljóðandi ákvæði: „Mál skv. 1. mgr. 20. gr. skal borið skriflega undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál innan 30 daga frá því að þeim sem fór fram á aðgang að gögnum var tilkynnt um ákvörðun.“ Í athugasemdum við þetta ákvæði í þeirri greinargerð sem fylgdi því frumvarpi er varð að upplýsingalögum nr. 140/2012 segir: „Í 1. mgr. er tilskilið að kæra til nefndarinnar skuli vera skrifleg og jafnframt er ákveðinn 30 daga kærufrestur. Þessi frestur er mun styttri en sá þriggja mánaða frestur sem mælt er fyrir um í stjórnsýslulögum. Þykir það sjálfsagt vegna þess að yfirleitt er það hagur þess sem upplýsinga óskar að fá eins skjóta úrlausn og kostur er.“ 

Þegar af þeirri ástæðu að sá frestur, sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, var liðinn þegar kæran barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál eru ekki efni til frekari umfjöllunar um hana. Verður því að vísa henni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarorð

Vísað er frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál kærum [A], dags.7. júlí og 20. ágúst 2014, á hendur Fjármálaeftirlitinu.

Hafsteinn Þór Hauksson, formaður

Sigurveig Jónsdóttir                                 


Friðgeir Björnsson

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta