Mál nr. 160/2010
Grein
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 1. apríl 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 160/2010.
1.
Málsatvik og kæruefni
Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða hefur borist kæra A með bréfi, dags. 26. ágúst 2010. Af kærunni verður ráðið að kærandi sé ósátt við að missa atvinnuleysisbætur ef hún stundi jafnframt nám. Úrskurðarnefndin óskaði eftir öllum gögnum málsins hjá Vinnumálastofnun og gaf stofnuninni kost á að tjá sig um málið með bréfi, dags. 27. ágúst 2010. Í bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 18. janúar 2011, kemur fram að ekki sé ljóst hvaða ákvörðun Vinnumálastofnunar sé tilefni kæru til úrskurðarnefndar, en engin formleg ákvörðun hafi verið tekin í máli kæranda varðandi námssamning á þeim tíma sem kæra barst nefndinni. Einnig kemur fram af hálfu Vinnumálastofnunar að í samskiptasögu kæranda megi sjá að þann 24. ágúst 2010 hafi hún komið á þjónustuskrifstofu stofnunarinnar og spurst fyrir um námssamninga. Kæranda hafi verið leiðbeint um verklagsreglur Vinnumálastofnunar varðandi framhaldsskólanám samhliða atvinnuleysisbótum. Vinnumálastofnun telur að vísa beri frá kærunni þar sem málið sæti ekki kæru skv. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
2.
Niðurstaða
Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, er hlutverk úrskurðarnefndar atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerða að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna. Kæra kæranda barst úrskurðarnefndinni í kjölfar leiðbeininga sem hún fékk hjá þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar en ekki lá fyrir ákvörðun stofnunarinnar í málinu. Það er því ljóst að í máli þessu er ekki til staðar ágreiningsefni í skilningi 2. mgr. 11. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.
Úrskurðarorð
Kæru A er vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson