Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 536/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 536/2021

Miðvikudaginn 26. janúar 2022

A

v/B

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 13. október 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 5. október 2021 á umsókn kæranda um uppbót til bifreiðakaupa vegna dóttur sinnar B.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 17. ágúst 2021, sótti kærandi um uppbót/styrk til kaupa á bifreið vegna dóttur sinnar. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 5. október 2021, var umsókn kæranda synjað.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 13. október 2021. Með bréfi, dags. 25. október 2021, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 24. nóvember 2021, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 25. nóvember 2021. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi hafi sótt um bifreiðarstyrk frá Tryggingastofnun vegna fötlunar dóttur sinnar. Kærandi skilji ekki af hverju hún hafi fengið synjun á hreyfihömlunarmati.

Dóttir kæranda sé X ára með einhverfu og þroska- og hreyfihömlun. Stúlkan sé mjög laus í liðum, verði mjög fljótt þreytt og verkjuð í fótum, hún hafi ekki orku til að ganga og þurfi stuðning við gang eftir örstutta stund.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé afgreiðsla Tryggingastofnunar, dags. 5. október 2021, á umsókn um uppbót/styrk til bifreiðakaupa samkvæmt 3. og 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða.

Í greinargerð Tryggingastofnunar er vakin athygli á því að ný reglugerð, nr. 905/2021 um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða, hafi nú tekið gildi. Í samræmi við lagaskilareglur hafi umsókn kæranda verið afgreidd miðað við þær reglur sem í gildi hafi verið þegar umsókn hafi borist, en rétt sé að taka fram að engar efnislegar breytingar hafa orðið á þeim atriðum sem hér um ræði og hefði reglugerðin tekið ívilnandi breytingum hefði kærandi fengið að njóta þeirra. Greinargerð þessi miðist því við þá reglugerð sem í gildi hafi verið þegar sótt hafi verið um og taka tilvísanir reglugerðarinnar mið af því.

Málavextir séu þeir að kærandi hafi sótt um uppbót/styrk samkvæmt 3. og 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009 vegna kaupa á bifreið með umsókn, dags. 17. ágúst 2021. Með bréfi, dags. 5. október 2021, hafi Tryggingastofnun synjað umsókninni.

Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega sé nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt sé að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar.

Samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð sé Tryggingastofnun heimilt að veita styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg sé vegna þess að líkamsstarfsemi sé hömluð eða líkamshluta vanti.

Í 1. gr. reglugerðar nr. 170/2009 sé skilgreint hvað felist í hugtakinu hreyfihömlun samkvæmt reglugerðinni. Þar segi að með líkamlegri hreyfihömlun sé átt við sjúkdóm eða fötlun sem skerði verulega færni til að komast ferða sinna þannig að göngugeta sé að jafnaði minni en 400 metrar á jafnsléttu. Þar sé fyrst og fremst um að ræða samkvæmt 3. mgr.:

1. lömun eða skertan hreyfanleika í ganglimum af völdum sjúkdóms eða fötlunar,

2. mæði vegna hjarta- eða lungasjúkdóma,

3. annað sambærilegt.“

Í 1.–3. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 170/2009 komi meðal annars fram að heimilt sé að greiða elli- og örorkulífeyrisþega og örorkustyrkþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega sé nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt sé að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar, en 2. og 3. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar hljóði svo:

Uppbót er eingöngu heimilt að veita þegar eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:

1. Hinn hreyfihamlaði hefur sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður. Þetta á þó ekki við þegar um er að ræða hreyfihamlaða einstaklinga í sjálfstæðri búsetu, sbr. 6. mgr. 1. gr., sem hafa persónulega aðstoðarmenn samkvæmt samningi við sveitarfélag viðkomandi, t.d. samning um notendastýrða persónulega aðstoð, beingreiðslusamning eða sambærilegan samning.

2. Nauðsyn á bifreið vegna hreyfihömlunar er ótvíræð og mat á hreyfihömlun liggi fyrir.

Við mat á umsóknum skal fyrst og fremst líta á bifreiðina sem hjálpartæki hreyfi­hamlaðra og hvort umsækjandi þurfi bifreið til að komast ferða sinna, s.s. til vinnu, í skóla, sækja reglubundna endurhæfingu eða læknismeðferð.

Strangari kröfur séu gerðar til þeirra sem hljóti styrk samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar, sbr. 3. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð. Í þeim tilvikum sé skilyrði að umsækjandi sé verulega hreyfihamlaður og noti til dæmis tvær hækjur og/eða sé bundinn hjólastól að staðaldri. Markmiðið sé að koma til móts við þá sem séu verr settir en þeir sem fái uppbót og þurfi meira rými vegna fötlunar sinnar. Til þess að fá þann styrk þurfi umsækjandi því meðal annars að sýna fram á að hreyfihömlun hans sé svo veruleg og að hjálpartækjaþörf hans sé slík að hann þurfi að miða bifreiðakaup sín við þessi hjálpartæki og þurfi því stærri bíl en einstaklingur sem uppfylli skilyrði 3. gr. Skilyrði 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar hljóði svo:

Styrkur skal vera kr. 1.440.000 og skal eingöngu veittur þegar eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:

1. Hinn hreyfihamlaði hefur sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður. Þetta á þó ekki við þegar um er að ræða hreyfihamlaða einstaklinga í sjálfstæðri búsetu, sbr. 6. mgr. 1. gr., sem hafa persónulega aðstoðarmenn samkvæmt samningi við sveitarfélag viðkomandi, t.d. samning um notendastýrða persónulega aðstoð, beingreiðslusamning eða sambærilegan samning.

2. Nauðsyn á bifreið vegna hreyfihömlunar er ótvíræð og mat á hreyfihömlun liggur fyrir.

3. Einstaklingur er verulega hreyfihamlaður og er t.d. bundinn hjólastól og/eða notar tvær hækjur að staðaldri.

4. Mat á ökuhæfni liggur fyrir.

5. Hinn hreyfihamlaði er sjúkratryggður hér á landi, sbr. 10. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar.

Rétt sé að vekja sérstaka athygli á því að í 4. mgr. 4. gr. komi einnig fram að skilyrði sé að mat liggi fyrir um þörf á bifreið með hliðsjón af notkun hjálpartækja.

Við mat á hreyfihömlun vegna ákvörðunar, dags. 5. október 2021, hafi legið fyrir læknisvottorð, dags. 28. september 2021. Í vottorðinu komi fram að kærandi hafi komið í þverfaglegt mat á Greiningar- og ráðgjafarstöð haustið 2021. Niðurstöður hafi bent til miðlungs þroskahömlunar, einhverfu og hreyfiþroskaröskunar. Kærandi hafi verið sein til gangs og hafi alla tíð átt erfitt með samhæfingu og jafnvægi. Við skoðun hreyfi hún sig almennt lipurlega en sé með aukinn liðleika um liðamót og grunnvöðvaspenna sé lág. Einnig hafi komið fram frávik í samhæfingu og jafnvægi við taugaskoðun. Umönnun kæranda sé krefjandi fyrir aðstandendur.

Í vottorðinu komi fram að göngugeta sé að jafnaði ekki minni en 400 metrar á jafnsléttu og að hún verði að öllum líkindum óbreytt næstu tvö árin. 

Þar sem göngugeta sé metin meira en 400 metrar á jafnsléttu, feli það í sér að ekki sé um hreyfihömlun að ræða hvað varði göngugetu. Skilyrði uppbótar/styrks vegna kaupa á bifreið hafi því ekki verið uppfyllt og hafi umsókninni því verið synjað.

Tryggingastofnun hafi farið ítarlega yfir málið og hafi metið stöðuna þannig að kærandi teljist ekki hreyfihömluð í skilningi 10. gr laga um félagslega aðstoð og reglugerðar nr. 170/2009. Skilgreining hreyfihömlunar sé óbreytt í nýrri reglugerð nr. 905/2021.

Sú hreyfihömlun, sem reglugerð nr. 170/2009 sé ætlað að mæta, sé skilgreind í 1. gr. reglugerðarinnar eins og fram hafi komið. Ljóst sé að með hreyfihömlun sé átt við sjúkdóm eða fötlun sem skerði verulega færni til að komast ferða sinna þannig að göngugeta sé að jafnaði minni en 400 metrar á jafnsléttu. Einnig sé ljóst að með því sé fyrst og fremst átt við lömun eða skertan hreyfanleika í ganglimum af völdum sjúkdóms eða fötlunar, mæði vegna hjarta- eða lungnasjúkdóma eða annars sambærilegs. Þessari skilgreiningu hafi verið bætt við reglugerðina árið 2009 en hún hafði áður meðal annars mótast í framkvæmd hjá úrskurðarnefnd. Hún sé óbreytt í nýrri reglugerð nr. 905/2021.

Rétt sé að taka fram að þegar rætt sé um annað sambærilegt í c. lið 3. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar sé átt við líkamlega hreyfihömlun sem hafi áhrif á göngugetu. Það sé sá hópur sem lög- og reglugerðargjafinn hafi ætlað að veita uppbætur og styrki til kaupa á bifreiðum, en ekki öðrum einstaklingum sem segja megi að séu umferðarhamlaðir á annan hátt. Sú túlkun og framkvæmd sé í samræmi við það sem tíðkast í nágrannalöndum okkar. Megi meðal annars sjá þetta í skýrslu starfshóps velferðarráðuneytisins um stuðningskerfi til að auðvelda för hreyfihamlaðs fólks, en þar sé sérstaklega farið í þetta atriði á bls. 21 og 22. Skýrslan hafi verið birt á vef velferðarráðuneytisins þann 19. desember 2014 og megi finna hana þar.

Í tilfelli kæranda sé ekki efast um að sjúkdómur hennar hafi veruleg áhrif á hana, en að svo stöddu verði ekki fallist á að hún teljist hreyfihömluð í skilningi reglugerðar nr. 170/2009.

Stofnunin telji að miðað við fyrirliggjandi gögn sé ljóst að afgreiðsla málsins hafi að fullu og öllu verið í samræmi við lög um almannatryggingar og reglugerðir nr. 170/2009 og nr. 905/2021. Afgreiðsla málsins sé einnig í samræmi við fyrri fordæmi úrskurðarnefndar, þar á meðal niðurstöðu nefndarinnar í málum nr. 163/2019 og 414/2019. Tryggingastofnun telji því ekki ástæðu til að breyta fyrri ákvörðun sinni.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um uppbót/styrk til bifreiðakaupa.

Lagaheimild fyrir veitingu uppbótar/styrks til kaupa á bifreið er að finna í 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í nefndri 10. gr. segir meðal annars svo:

„Heimilt er að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Heimilt er að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.

[...]

Heimilt er að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta. Heimilt er að veita styrk á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. Ráðherra setur reglugerð um greiðslur samkvæmt ákvæði þessu, m.a. um sex mánaða búsetuskilyrði.“

Með stoð í 3. málsl. 3. mgr. nefndrar 10. gr. laga um félagslega aðstoð setti ráðherra reglugerð nr. 905/2021 um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða sem tók gildi 1. september 2021. Þar sem umsókn kæranda barst Tryggingastofnun í gildistíð eldri reglugerðar nr. 170/2009, sem var felld úr gildi með reglugerð 905/2021, mun úrskurðarnefndin í úrskurði sínum líta til reglugerðar nr. 170/2009. Í 3. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar segir að með líkamlegri hreyfihömlun sé átt við sjúkdóm eða fötlun sem skerði verulega færni til að komast ferða sinna þannig að göngugeta sé að jafnaði minni en 400 metrar á jafnsléttu. Þar sé fyrst og fremst um að ræða:

„a. lömun eða skertan hreyfanleika í ganglimum af völdum sjúkdóms eða fötlunar,

b. mæði vegna hjarta- eða lungnasjúkdóma,

c. annað sambærilegt.“

Um uppbót og styrk vegna kaupa á bifreið er nánar fjallað í 3. gr. og 4. gr. reglugerðarinnar. Þar kemur fram að það sé skilyrði fyrir veitingu uppbótar og styrks til bifreiðakaupa að bifreið sé nauðsynleg vegna hreyfihömlunar, sbr. 2. tölul. 2. mgr. 3. gr. og 2. tölul. 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar.

Með umsókn kæranda fylgdi læknisvottorð C, dags. 28. september 2021, og þar segir:

„B kom í þverfaglegt mat á Greiningar- og ráðgjafarstöð haustið 2021. Niðurstöður bentu til miðlungs þroskahömlunar, einhverfu og hreyfiþroskaröskunar. B var sein til að ganga og hefur alla tíð átt erfitt með samhæfingu og jafnvægi. Við skoðun hreyfir hún sig almennt lipurlega en er með aukinn liðleika um liðamót og grunnvöðvaspenna er lág hja B. Einnig komu fram frávik í samhæfinu og jafnvægi við taugaskoðun. Umönnun hennar er krefjandi fyrir aðstandendur.“

Þá kemur fram í vottorðinu að göngugeta stúlkunnar sé að jafnaði meiri en 400 metrar og að öllum líkindum verði sú göngugeta óbreytt næstu tvö árin. Í vottorðinu er ekki greint frá notkun hjálpartækja.

Í máli þessu snýst ágreiningur um hvort kærandi uppfylli skilyrði 10. gr. laga um félagslega aðstoð fyrir veitingu uppbótar/styrks til bifreiðakaupa. Samkvæmt 1. og 2. mgr. ákvæðisins er það skilyrði fyrir veitingu uppbótar að bótaþega sé nauðsyn að hafa bifreið vegna hreyfihömlunar. Samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins er það skilyrði fyrir veitingu styrks að bifreið sé nauðsynleg vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða líkamshluta vanti.

Hugtakið hreyfihömlun er ekki skilgreint í lögum um félagslega aðstoð en löggjafinn hefur veitt ráðherra heimild til að útfæra umrætt lagaákvæði í reglugerð. Í 3. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 170/2009 er hreyfihömlun skilgreind þannig að um hreyfihömlun sé að ræða þegar hömlun skerðir verulega færni viðkomandi til að komast ferða sinna þannig að göngugeta sé að jafnaði minni en 400 metrar á jafnsléttu. Þá eru nefnd dæmi um hvað geti valdið slíkri færniskerðingu. Af ákvæði 10. gr. laganna verður ráðið að tilgangur ákvæðisins sé að koma til móts við þá einstaklinga sem eiga erfitt með að hreyfa sig á milli staða vegna skertrar göngugetu. Úrskurðarnefnd velferðarmála gerir ekki athugasemd við að skilgreining á hreyfihömlun í 3. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 170/2009 taki mið af því hvernig göngugeta umsækjanda sé að jafnaði. Af gögnum málsins verður ráðið að dóttir kæranda eigi erfitt með samhæfingu og jafnvægi en göngugeta hennar er aftur á móti ekki minni en 400 metrar á jafnsléttu samkvæmt fyrrgreindu læknisvottorði C. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, verður því ekki ráðið af gögnum málsins að ástand dóttur kæranda falli undir skilgreiningu á líkamlegri hreyfihömlun í skilningi 3. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 170/2009. Kærandi uppfyllir því hvorki skilyrði fyrir veitingu uppbótar né styrks til bifreiðakaupa.

Að því virtu, sem að framan hefur verið rakið, er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 5. október 2021 á umsókn kæranda um uppbót/styrk til bifreiðakaupa.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn A, um uppbót/styrk til bifreiðakaupa vegna B, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta