Nr. 73/2025 Úrskurður
Hinn 30. janúar 2025 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 73/2025
í stjórnsýslumálum nr. KNU24070038 og KNU24070039
Kæra [...] og [...]
á ákvörðunum lögreglustjórans á Suðurnesjum
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Hinn 2. júlí 2024 kærðu [...], fd. [...] (hér eftir J), og [...], fd. [...] (hér eftir C), báðir ríkisborgarar Hondúras (hér eftir kærendur), ákvarðanir lögreglustjórans á Suðurnesjum, dags. 17. júní 2024, um frávísun frá Íslandi.
Kærendur krefjast þess að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.
Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og bárust kærurnar fyrir lok kærufrests.
Lagagrundvöllur
Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ákvæði laga um landamæri nr. 136/2022, reglugerð um för yfir landamæri nr. 866/2017, reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins 2016/399 um för yfir landamæri (Schengen-landamærareglurnar), stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærendur komu til Íslands með flugi frá Madríd, Spáni, 17. júní 2024. Með ákvörðunum lögreglustjórans á Suðurnesjum, dags. 17. júní 2024, var kærendum vísað frá landinu.
Í hinum kærðu ákvörðunum kemur fram að kærendum hafi verið frávísað frá Íslandi á grundvelli c- og d-liða 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Ákvarðanirnar sjálfar greindu ekki með nánari hætti frá efni þeirra að undanskildum tilvísunum til lagaákvæða, og stafliða í stöðluðu ákvörðunarformi, sbr. V viðauka við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 399/2016 um för fólks yfir landamæri (Schengen-landamærareglurnar). Í frumskýrslum lögreglu, dags. 21. júní 2024, vegna J og dags. 4. júlí 2024, vegna C, kemur fram að við fyrstu afskipti tollayfirvalda á Keflavíkurflugvelli hafi J og C kveðist vera bræður og að þeir væru komnir til landsins til að vinna. J væri giftur og ætti barn í heimaríki og kvaðst vinna í byggingarvinnu og landbúnaði. C væri ekki í föstu starfi í heimaríki en þegar tækifæri gæfist ynni hann sem smiður, pípari og við annað sem byðist. Fram kemur að þeir hefðu ekki efni á farmiðakaupum til og frá landinu, en J hafði samtals um 130.000 kr. í þremur mismunandi gjaldmiðlum, til framfærslu beggja bræðra. Fram kom að þeir ættu vin hér á landi (hér eftir A), sem ræki hvort tveggja byggingafyrirtæki og hótel á Norðurlandi, og væri hann staddur á Keflavíkurflugvelli til þess að sækja kærendur. Fram kemur að lögregla hafi rætt við A sem hafi haldið því staðfastlega fram að kærendur væru ekki komnir til landsins til þess að vinna.
Hafi afskipti tollayfirvalda og lögreglu af kærendum borið með sér að síðari frásagnir um tilgang komu væru ótrúverðugar, og lagði lögregla til grundvallar að þeir væru komnir til landsins til þess að vinna án þess að hafa viðunandi heimild. Þá hafi kærendur ekki sýnt fram á næga fjármuni til 90 daga dvalar hér á landi, sbr. d-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga.
Kærendur kærðu ákvarðanir lögreglustjórans á Suðurnesjum til kærunefndar útlendingamála 2. júlí 2024. Í samræmi við 3. mgr. 13. gr. laga um útlendinga og 1. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga var kærendum skipaður talsmaður með bréfum Útlendingastofnunar, dags. 15. júlí 2024. Sama dag lagði talsmaður fram greinargerðir fyrir hönd kærenda. Með tölvubréfi kærunefndar, dags. 18. desember 2024, óskaði nefndin eftir frekari gögnum og skýringum frá lögreglu vegna málsins, m.a. með hliðsjón af athugasemdum kærenda. Lögregla lagði fram frekari gögn vegna málsins 15. janúar 2025.
III. Málsástæður og rök kærenda
Í greinargerðum kærenda er vísað til kröfugerðar, kæruheimildar og atvika málsins. Í greinargerðum er m.a. fundið að aðkomu lögmanns í málinu, sem kveðst hafa verið í Taílandi þegar atvik málsins áttu sér stað. Kærendur bera fyrir sig að hafa ekki fengið færi á að afla sér ráðgjafar lögmanns fyrir undirritun skjala og kemur fram að þeir hafi verið sviptir farsímum sínum og ekki fengið að hringja í lögmann án undirritun skjala um frávísun. Lögmaður kærenda kveðst hafa reynt að hringja í lögreglu en ekki náð sambandi þangað og beðið A, um að hafa samband við lögreglu á Keflavíkurflugvelli með það að markmiði að lögregla hefði samband við lögmanninn. Þá kveðst hann hafa sent tölvubréf á almennt póstfang embættisins en ekki vitað hvort tímastimpill tölvubréfsins ætti við íslenskan eða taílenskan tíma.
Kærendur gera athugasemdir við málsatvikalýsingu lögreglu varðandi tiltekin atriði og mótmæla því að hafa nokkru sinni sagst vera á Íslandi til þess að stunda atvinnu og telja að um sé að ræða misskilning tollvarða sem hafi verið leiðréttur af hálfu kærenda og A, í samtölum þeirra við lögreglu. Kærendur hafna því einnig að hafa óskað eftir því að lögregla legði út fjármuni fyrir flugmiðakaupum þeirra, þeir hafi ekki viljað yfirgefa landið og ekki viljað að flugmiði yrði keyptur. Vísa kærendur einnig til aðkomu lögmanns varðandi þann þátt málsins. Þar að auki mótmæla kærendur þeirri aðferð sem notuð var til þess að þvinga þá til undirritun skjala um skuld við ríkissjóð, að þeirra sögn, og lýsa þeir sig óbundna af umræddum undirskriftum.
Um málsástæður vísa kærendur í fyrstu til skerts aðgengi að lögmanni við meðferð málsins og bera því m.a. við að hafa verið sviptir aðgengi að farsíma. Þar að auki bera kærendur fyrir sig að fullt samræmi hafi verið í frásögnum þeirra gagnvart lögreglu, sem og frásögn A, sem kveðst vera gestgjafi bræðranna hér á landi. Á hinn bóginn liggja ekki fyrir nein haldbær gögn um hvað kom fram í samtali kærenda við tollverði. Að mati kærenda hafi lögregla ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni skv. 10. gr. stjórnsýslulaga þar sem engin gögn né frekari upplýsingar liggi fyrir sem styðji við þá skýringu að kærendur hafi ætlað sér að stunda atvinnu hér á landi. Í því samhengi vísa kærendur til þess að ekkert komi fram um samhengi orðanna né á hvaða tungumáli umrætt samtal við tollverði hafi farið fram. Kærendur bera fyrir sig skertan og nánast engan skilning á ensku og þörf fyrir túlkaþjónustu í samtölum við lögreglu. Þá hafi lögregla getað rannsakað málið með betri hætti sem hefði getað tekið af öll tvímæli um hvort kærendur væru komnir til landsins til að vinna hjá einhverju fyrirtækja í eigu A. Lögregla virðist t.a.m. ekki hafa haft samband við staðarlögreglu á starfssvæðum fyrirtækjanna eða Vinnumálastofnun til þess að afla umsagna um hvort grunur væru um brot á lögum um atvinnuréttinda útlendinga. Um það atriði vísa kærendur enn fremur til meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins. Enn fremur vísa kærendur til þess að lögregla hafði allt að sjö daga til þess að rannsaka málið með fullnægjandi hætti, sbr. 1. og 2. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Frávísun er íþyngjandi úrræði og hafna kærendur því að almannahagsmunum hefði verið stefnt í hættu með því að heimila þeim komu til landsins. Þá hafi jafnframt komið fram að A hafi ætlað að sjá kærendum fyrir húsnæði, fæði og framfærslu að öðru leyti á meðan á heimsókn þeirra stæði. Vísa kærendur til þess að andmælaréttur þeirra hafi takmarkast við upplýsingar sem fram komu í viðtölum og bera fyrir sig að lögregla hafi hafnað að veita lögmanni aðkomu að málinu sem kynni að hafa áhrif á meðferð og niðurstöðu málsins.
Kærendur hafna því að hafa komið til landsins til að stunda atvinnu. Kveðast þeir hafa kynnst A þegar hann hafi stundað skiptinám í heimaríki kærenda á yngri árum. Kærendur hafi tvívegis heimsótt A á undanförnum árum og ekkert bendi til þess að þeir hafi stundað atvinnu í þeim heimsóknum. Þvert á móti séu allar skýringar og lýsingar á tilefni heimsóknarinnar, svo sem varðandi kunningsskap, fyrirkomulag og kostun, í samræmi við frásagnir kærenda og A. Kærendur bera fyrir sig að hafa aldrei tjáð starfsmönnum tollgæslu eða öðrum að tilgangur komu til landsins væri að vinna. Lýsa kærendur því sem svo að skýringar tollgæslu og lögreglu séu ýmist tilbúningur eða misskilningur. Kærendur benda á að þeir tali og skilji ekki nema örfá orð í enskri tungu og geti ekki átt í efnislegum samskiptum öðruvísi en á spænsku. Þá fái það engu breytt að A, sem lýst er sem gestgjafa kærenda, stundi atvinnurekstur, enda komi tæpast til greina að gestir hans skuli sjálfkrafa vera grunaðir um atvinnuþátttöku í andstöðu við lög.
Varðandi þann þátt málsins er lýtur að framfærslu hafna kærendur skýringu lögreglu. Þeir bera fyrir sig að ekki sé unnt að styðja svo íþyngjandi ákvörðun með vísan til þeirra fjármuna sem getið er í málsatvikalýsingu lögreglu. Þeir hafi lýst því með skýrum hætti að þeir hygðust dvelja á heimili A sem myndi sjá kærendum fyrir því sem þeir þyrftu á að halda hér á landi. Enginn vafi ríkti um þetta atriði og engar vísbendingar um að kærendur hafið verið fjárhagslega ósjálfbjarga í fyrri ferðum til Íslands. Hvort framfærsla gestgjafa sé gildur grundvöllur bera kærendur fyrir sig að líta verði til skilyrða sem fram koma við útgáfu vegabréfsáritana, sbr. c-lið 3. mgr. 20. gr. laga um útlendinga. Í slíkum tilvikum geti umsækjendur um vegabréfsáritun m.a. fært sönnur á framfærslur með bankainnstæðu en einnig með ábyrgðaryfirlýsingu gestgjafa. Í tilviki kærenda liggi fyrir að A, gestgjafi þeirra, hafi greitt ferðakostnað og myndi kosta til framfærslu þeirra. Að mati kærenda standi engin rök til þess að túlka aðstæður þeirra sem ekki þurfi vegabréfsáritun með öðrum hætti. Þá bendi ekkert til þess að ástæða sé til að vefengja yfirlýsingu A um tilkostnað vegna ferðar kærenda. Kærendur bera auk þess fyrir sig að engar forsendur séu til þess að bera á sér reiðufé til allt að 90 daga dvalar.
IV. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Kærendur eru ríkisborgarar Hondúras og þurfa ekki vegabréfsáritun til landgöngu, séu þeir handhafar vegabréfa með lífkennum, sbr. viðauka 9 við reglugerð um vegabréfsáritanir nr. 795/2022, og mega dvelja hér á landi í 90 daga á hverju 180 daga tímabili.
Ákvarðanir lögreglustjórans á Suðurnesjum um frávísun kærenda byggja á c- og d-liðum 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. reglugerð um för yfir landamæri nr. 866/2017. Samkvæmt 1. mgr. 106. gr. a. laga um útlendinga tekur lögreglustjóri ákvörðun um frávísun við komu til landsins. Útlendingastofnun tekur ákvörðun um frávísun eftir komu til landsins og aðrar ákvarðanir samkvæmt XII. kafla laganna.
Í c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga kemur fram að heimilt sé að vísa útlendingi frá landi við komu til landsins eða allt að sjö sólarhringum frá komu þegar hann hefur ekki tilskilið leyfi til dvalar eða vinnu eða getur ekki leitt líkur að þeim tilgangi sem gefinn er upp fyrir dvölinni. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að gildandi lögum um útlendinga segir m.a. að ákvæði c-liðar mæli fyrir um að heimilt sé að vísa útlendingi frá landi ef hann geti ekki leitt líkur að þeim tilgangi sem gefinn sé upp fyrir dvölinni. Sé ákvæðið efnislega samhljóða c-lið 1. mgr. 5. gr. reglugerðar (EB) nr. 562/2006 um för fólks yfir landamæri (Schengen-landamærareglurnar). Þá er í greinargerðinni vísað til 5. gr. reglugerðar um för yfir landamæri nr. 866/2017.
Með reglugerð nr. 866/2017 um för yfir landamæri voru innleidd ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 2016/399 um setningu sambandsreglna um för fólks yfir landamæri (e. Schengen Borders Code) og tók reglugerðin við af áðurnefndri reglugerð nr. 562/2006. Í 5. gr. reglugerðar nr. 866/2017 er mælt fyrir um skilyrði fyrir komu útlendinga til landsins sem hvorki eru EES- né EFTA borgarar. Kemur þar fram að útlendingur sem hvorki er EES- né EFTA-borgari, sem hyggst dvelja á Schengen-svæðinu, þ.m.t. Íslandi, í allt að 90 daga á 180 daga tímabili verði, auk þeirra skilyrða sem koma fram í 106. gr. laga um útlendinga, að uppfylla þau skilyrði sem fram koma í a-e-liðum ákvæðisins. Eru skilyrðin eftirfarandi: Að framvísa gildum, lögmætum og ófölsuðum ferðaskilríkjum eða öðru kennivottorði sem heimilar honum för yfir landamæri, sbr. viðauka 3. Ferðaskilríki skal vera gefið út á sl. 10 árum til þess að það teljist gilt og gildistími ferðaskilríkis vera í a.m.k. þrjá mánuði umfram brottfarardag, sbr. a-lið. Hafa gilda vegabréfsáritun sé hann ekki undanþeginn áritunarskyldu, nema hann hafi gilt dvalarleyfi eða gilda vegabréfsáritun til langs tíma, sbr. viðeigandi viðauka í reglugerð um vegabréfsáritanir, sbr. b-lið. Má ekki vera skráður í Schengen-upplýsingakerfið í þeim tilgangi að meina honum komu til landsins, sbr. c-lið. Má ekki vera talinn ógna þjóðaröryggi, allsherjarreglu, almannaheilsu eða alþjóðasamskiptum ríkisins eða annars Schengen-ríkis, sbr. d-lið. Loks þarf viðkomandi að geta fært rök fyrir tilgangi og skilyrðum fyrirhugaðrar dvalar, og hafa nægt fé sér til framfærslu, á meðan dvöl stendur og vegna ferðar til upprunalands eða gegnumferðar til þriðja lands, eða vera í aðstöðu til að útvega sér slíkt fé á lögmætan hátt, sbr. e-lið.
Til sönnunar á að framangreindum skilyrðum 5. gr. reglugerðarinnar fyrir komu sé fullnægt sé landamæraverði m.a. heimilt að krefja útlending samkvæmt 1. mgr. um eftirfarandi gögn vegna ferðalaga af persónulegum ástæðum: Gögn sem sýna fram á tryggt húsnæði, t.d. boðsbréf frá gestgjafa eða önnur gögn sem sýna fram á hvar viðkomandi hyggst búa, gögn sem staðfesta ferðaáætlun, staðfesting bókunar á skipulagðri ferð eða önnur gögn sem varpa ljósi á fyrirhugaða ferðaáætlun og gögn varðandi heimferð, s.s. farmiða.
Samkvæmt hinum kærðu ákvörðunum var kærendum gert að sæta frávísun á grundvelli c-liðar 1.mgr. 106. gr. laga um útlendinga undir þeim formerkjum að þeir hefðu ekki lagt fram gögn sem leiddu líkum að tilgangi og skilyrðum fyrirhugaðrar dvalar. Ákvörðununum sjálfum fylgja ekki athugasemdir eða frekari skýringar því til stuðnings. Í frumskýrslum lögreglu er einkum vísað til framburðar vegna afskipta tollgæslu af kærendum. Í tollskýrslu, dags. 7. janúar 2025 og frumskýrslu lögreglu kemur fram að kærendur hafi greint tollvörðum frá því að þeir væru smiðir og myndu starfa fyrir smíðafyrirtæki á Íslandi, sem rekið væri af A, sem kærendur lýstu sem gestgjafa sínum. Til hliðsjónar hafi lögregla einnig litið til þess að kærendur hafi ætlað sér að dvelja í 90 daga fjarri fjölskyldum sínum og hafi ekki haft yfir miklum fjármunum að ráða. Að mati lögreglu hafi sú frásögn að þeir væru hér sem ferðamenn verið ótrúverðug enda hafi þeir ekki sýnt með neinum hætti fram á ferðaplan eða hvað þeir ætluðu að gera hér á landi.
Á kærustigi hafa kærendur m.a. borið fyrir sig slæma enskukunnáttu og telja misskilnings gæta um þau atvik sem lögregla vísar til við tollskoðun, m.a. þar sem skort hafi á upplýsingar um viðeigandi túlkun. Við frekari skoðun á varðstofu hafi kærendur neitað því að vera á Íslandi til þess að stunda atvinnu, og vísað til þess að vera að heimsækja vin sinn A, sem jafnframt væri gestgjafi þeirra. Í frumskýrslum lögreglu kemur einnig fram að lögregla hafi talað við A sem hafi gert grein fyrir tengslum sínum við kærendur, og upplýst um starfsemi sína og lýst því yfir að lögreglu væri velkomið að skoða fyrirtæki hans með nánari hætti til þess að ganga úr skugga um að þar færi ekki fram atvinnustarfsemi í andstöðu við lög.
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum og framburði í málunum er ljóst að kærendur hafa komið til landsins a.m.k. tvívegis áður og dvalið í allt að þrjá mánuði í senn. Ekkert kemur fram í lögregluskýrslum eða öðrum fylgigögnum um afskipti lögreglu vegna fyrri dvalar, svo sem varðandi heimild til landgöngu, gruns um afbrotahegðun eða atvinnuþátttöku án viðhlítandi heimildar. Þá er ekkert í málinu sem tengist A eða fyrirtækjarekstri hans sem gefur tilefni til þess að ætla að kærendur muni stunda atvinnu á Íslandi án heimildar. Lögregla ræddi við A sem svaraði spurningum lögreglu um atvinnurekstur, tengsl við kærendur og fyrri dvöl þeirra. Fram kemur í gögnum málsins að kærendur hafi ekki notið aðstoðar túlks við tollskoðun en líkt og þegar hefur komið fram vó sá framburður þungt við úrlausn málsins hjá lögreglu. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að lögregla hafi ekki leitast við að skýra betur eða afla frekari upplýsinga frá kærendum sjálfum um meinta ólögmæta atvinnuþátttöku í skýrslutöku. Lögregla hafi reynt að afla upplýsinga um störf kærenda í heimaríki og fjármagn sem þeir höfðu meðferðis en ekki leitast eftir frekari upplýsingaöflun um fyrirhugaða dvöl kærenda á Íslandi að öðru leyti, svo sem varðandi ferðaáætlun eða bókun á afþreyingu. Kærendur hafa staðfastlega neitað þeim grun lögreglu að þeir muni stunda atvinnu án heimildar á kærustigi. Í því samhengi athugast að frávísun er íþyngjandi úrræði fyrir einstakling og verður að túlka þann vafa sem uppi er í málinu kærendum í hag enda liggur fyrir að kærendur hafi ekki notið aðstoðar túlks, með hliðsjón af fullyrðingum um takmarkaða enskukunnáttu, auk þess sem lögregla kannaði þennan þátt málsins ekki nánar í sínum skýrslutökum.
Kærendur hafa dvalið hér á landi áður í álíka langan tíma, ekki dvalið umfram heimild og ekki liggur neitt fyrir um að þeir hafi þá unnið ólöglega hér á landi. Styður það trúverðugleika frásagnar kærenda. Þá verður talið að lögregla hafi haft nægar upplýsingar um A og engar upplýsingar séu meðal gagna málsins um hans fyrirtækjarekstur sem geri framburð kærenda og A tortryggilegan. Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndar að ekki hafi verið færðar sönnur á að skilyrði c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga hafi verið fyrir hendi þegar lögregla tók ákvarðanir um frávísun kærenda.
Samkvæmt d-lið 1.mgr. 106. gr. laga um útlendinga er heimilt að frávísa útlendingi ef hann getur ekki sýnt fram á að hann hafi eða eigi tryggð nægileg fjárráð til dvalar hér á landi og til heimferðar. Fram kemur í athugasemdum við ákvæðið að meta þurfi hverju sinni hvenær útlendingur telst hafa nægileg fjárráð til framfærslu og til heimferðar. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 866/2017 um för yfir landamæri skal við mat á því hvort útlendingur teljist hafa nægileg fjárráð m.a. tekið mið af lengd og tilgangi dvalar. Mat á fjárráðum megi byggja á reiðufé, ferðatékkum og greiðslukortum sem útlendingur sé handhafi að.
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum í málinu hafði J undir höndum reiðufé í þremur gjaldmiðlum, sem námu um 130.000 krónum að samtölu, sem J kvað vera fyrir báða kærendur. Aðspurður kvaðst C ekki hafa neina fjármuni á sér en taldi J hafa 700 Bandaríkjadali meðferðis, sem ætlaðir væru þeim báðum. Með hliðsjón af framangreindum tilvísunum til reiðufjár, ferðatékka og greiðslukorta sem útlendingur sé handhafi að er ljóst að umrædd viðmið grundvallast á þeirri meginreglu að einstaklingar beri ábyrgð á eigin framfærslu. Í málatilbúnaði kærenda á kærustigi kemur fram að gestgjafi kærenda, A, hafi ætlað að sjá þeim fyrir gistingu og fæði, ásamt flugi til og frá Íslandi. Því til stuðnings vísuðu kærendur til lagaskilyrða fyrir útgáfu vegabréfsáritunar, sem heimili m.a. framfærslu þriðja manns.
Kærendur njóta vegabréfsáritanafrelsis til ferðalaga hingað til lands og eiga því skilyrði reglna um útgáfu vegabréfsáritana ekki við í máli þeirra. Í c-lið 3. mgr. 5. gr. reglugerðar um för yfir landamæri er kveðið á um að til sönnunar á að skilyrðum 5. gr. reglugerðarinnar fyrir komu sé fullnægt sé landamæraverði m.a. heimilt að krefja útlending um boðsbréf frá gestgjafa, gögn sem staðfesta ferðaáætlun, staðfesting bókunar á skipulagðri ferð eða önnur gögn sem varpa ljósi á fyrirhugaða ferðaáætlun. Ekki verður séð af gögnum málsins að kærendur hafi verið inntir eftir skriflegu borðsbréfi frá gestgjafa, ferðaáætlun eða öðrum gögnum sem sýndu fram á fyrirætlanir kærenda hér á landi á meðan á þriggja mánaða dvöl þeirra stæði. Af lögregluskýrslum er ljóst að kærendur gerðu lögreglu grein fyrir því hvar þeir hygðust gista og hver væri gestgjafi þeirra. Þeir ættu sér áralanga sögu vinsakapar og hefðu kærendur áður komið og dvalið hjá A. Þá hafi kærendur gert lögreglu grein fyrir gestgjafa þeirra, A, og átti lögregla í samskiptum við viðkomandi á Keflavíkurflugvelli. Ekki verður séð af lögregluskýrslum um þau samskipti að lögregla hafi rannsakað nánar málatilbúnað kærenda um gistingu og annað uppihald af hálfu A, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Líkt og þegar hefur komið fram er ákvörðun um frávísun íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun og verður að túlka þann vafa sem er fyrir hendi kærendum í hag vegna skorts á rannsókn lögreglu um aðkomu A að uppihaldi kærenda. Er því óhjákvæmilegt að fella hina kærðu ákvörðun um frávísun kærenda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga úr gildi.
Að öllu framangreindu virtu eru ákvarðanir lögreglustjórans á Suðurnesjum um frávísun kærenda, sbr. c- og d-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, felldar úr gildi.
Athugasemdir við störf lögreglu
Í málatilbúnaði sínum vísuðu kærendur m.a. til annmarka vegna réttaraðstoðar. Samkvæmt gögnum málsins nutu kærendur báðir aðstoðar túlks á síðari stigum málsmeðferðar hjá lögreglu og var þeim bent á heimild sína til þess að afla sér aðstoðar og ráðgjafar lögmanns, en báðir undirrituðu þeir ákvarðanir þar sem fram kom að þeir hefðu fengið leiðbeiningar um slíkan rétt en hafi ekki kosið að nýta hann fyrr en eftir að hafa verið birtar ákvarðanir um frávísun. Kærunefnd hefur nú yfirfarið hinar kærðu ákvarðanir, fylgigögn málanna og málsmeðferð lögreglustjórans á Suðurnesjum að öðru leyti og telur ekki ástæðu til að gera athugasemdir við þessa þætti í málsmeðferð lögreglunnar í málum kærenda. Vegna athugasemda kærenda varðandi farmiðakaup og skuldaviðurkenningar er bent á að ákvarðanir um frávísanir er heimilt að framkvæma þegar í stað, sbr. 1. mgr. 103. gr. laga um útlendinga en um kostnað fer eftir ákvæðum 107. gr. laga um útlendinga. Eftir sem áður er kærendum heimilt að bera umkvartanir um störf lögreglu undir nefnd um eftirlit með lögreglu eða héraðssaksóknara eftir ákvæðum VII. kafla lögreglulaga nr. 90/1996, telji þeir ástæðu til.
Úrskurðarorð
Ákvarðanir lögreglustjórans á Suðurnesjum eru felldar úr gildi.
The decisions of the Police Commissioner of Suðurnes District are vacated.
Valgerður María Sigurðardóttir Jóna Aðalheiður Pálmadóttir