Nr. 683/2017 - Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 14. desember 2017 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 683/2017
í stjórnsýslumáli nr. KNU17070054
Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 25. júlí 2017 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 14. júlí 2017, um að synja henni um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.
Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Til vara er þess krafist að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. sömu laga.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 17. október 2016. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun þann 23. mars 2017 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 14. júlí 2017, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 25. júlí 2017. Kærunefnd barst greinargerð kæranda ásamt fylgigögnum þann 10. ágúst 2017. Kærunefnd útlendingamála lét þýða fylgigögnin yfir á ensku og bárust gögnin úr þýðingu þann 2. október 2017. Þann 1. nóvember barst kærunefnd sálfræðimat kæranda, dags. sama dag.
Í greinargerð óskaði kærandi eftir að fá að koma fyrir nefndina og tjá sig um efni málsins. Kærunefnd bauð kæranda að koma fyrir nefndina en eftir samráð við talsmann var talið að ekki væri ástæða til viðtals.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Við meðferð máls kæranda hjá Útlendingastofnun byggði hún umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hún sé í hættu í heimaríki sínu vegna fyrrum tengdafjölskyldu hennar sem kenni henni um andlát fyrrum ástmanns kæranda. Þá eigi hún ekkert bakland í heimalandi sínu þar sem fjölskylda hennar hafi afneitað henni vegna ástarsambands hennar. Líf einstæðra kvenna í landinu með ekkert bakland sé erfitt.
Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og henni skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. og 78. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.
Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi tilheyri þjóðernishópnum [...] og [...]. Kærandi hafi greint frá því að ástæða flótta hennar sé ástarsamband sem hún átti við karlmann sem hafi verið [...]. [...]. Í máli kæranda hafi komið fram að ástarsambönd milli aðila sem [...] séu litin hornauga í samfélaginu. Að sögn kæranda hafi hún haldið sambandinu leyndu frá fjölskyldu sinni af ótta við afleiðingarnar. Foreldrar hennar hafi hins vegar komist að sannleikanum þegar systir hennar hafi séð til þeirra og sett kæranda afarkosti að slíta sambandinu eða vera ekki lengur hluti af fjölskyldunni. Kærandi kvað þetta hafa verið í febrúarmánuði 2016 en hún hafi ekki viljað slíta sambandinu. Foreldrar hennar hafi í kjölfarið beitt hana ítrekuðu andlegu og líkamlegu ofbeldi.
Að sögn kæranda hafi kærasti hennar greint foreldrum sínum frá sambandinu og nokkrum dögum síðar hafi tengdaforeldrarnir ásamt öðrum einstaklingum [...] birst á heimili foreldra hennar. Hafi þessir aðilar hótað kæranda öllu illu og sagt að annað hvort skildi hún binda endi á sambandið eða [...]. Kærandi hafi neitað og þá hafi maður úr hópnum beitt hana líkamlegu ofbeldi, beint byssuhlaupi að höfði hennar og hótað henni lífláti. Í kjölfarið hafi fréttir af sambandinu spurst út í samfélagið.
Nokkrum dögum síðar hafi [...] komið á heimili foreldra kæranda, ásamt nokkrum [...]. Að sögn kæranda hafi þeir lagt hart að henni að slíta sambandinu og bent henni á að [...]. Þeir hafi hótað kæranda því að ef hún sliti ekki sambandinu myndi kærasti hennar lenda í miklum vandræðum.
Kærandi hafi greint frá því að henni hafi verið ókleift að leita til lögreglu. Lögreglan sé afar spillt, auk þess sem tengdafjölskylda hennar væri efnuð og með sterk tengsl við yfirvöld. Hún myndi hvorki fá aðstoð né mæta skilningi á stöðu sinni. Hún kvaðst hafa orðið afar óttaslegin þegar hún hafi áttað sig á því að hún gæti ekki leitað neitt með vandamál sín og að hún ætti ekkert bakland. Hafi hún í kjölfarið orðið fyrir áreiti, einelti, andlegu og líkamlegu ofbeldi. [...]. Aðspurð hverjir hafi verið að verki kvað kærandi það hafa verið alls konar fólk úr samfélaginu, [...]. Kærandi greindi frá því að hún og kærasti hennar hafi í framhaldinu ákveðið að hlaupast á brott [...] þar sem kærasti hennar hafi átt kunningja.
Kærandi kveður þau hafa dvalið þar um þriggja mánaða skeið. [...]. Kærandi hafi hringt í foreldra sína en þeir hafi svarað því til að hún væri ekki lengur dóttir þeirra, í þeirra augum væri hún dauð. Næst hafi kærandi hringt í tengdafjölskyldu sína, en þau hafi kennt henni um andlát kærastans. Henni hafi verið sagt að hún skyldi halda sig á svæðinu því tengdafjölskyldan myndi koma og drepa hana. Kærandi hafi þá haft samband við vinkonu sína og farið með henni til [...]. Foreldrar vinkonu hennar hafi hins vegar ekki verið henni sérlega góð og því hafi hún ekki séð sér annan kost en að flýja landið. Vinkona kæranda hafi komist í samband við smyglara, en ætlunin hafi verið að komast til Ítalíu. Kærandi hafi síðan farið úr landi ásamt öðrum manni í júní á síðasta ári en fyrsti viðkomustaðurinn hafi verið Tyrkland. Þaðan hafi henni síðan verið ekið til Grikklands með flutningabíl.
Kærandi telji að farið verði með hana undir eins til lögreglunnar [...] verði henni gert að snúa aftur til heimalandsins. Hún telji að þar verði hún yfirheyrð þar sem hún sé t.a.m. ekki með vegabréf. Kærandi hafi heyrt um starfsaðferðir [...] og að þær muni reynast henni erfiðar. Af hálfu kæranda er því haldið fram að upplýsingar um komu hennar verði tilkynntar á öllum lögreglustöðvum og þá muni fyrrverandi tengdafjölskylda hennar fá fregnir af því. Þar með yrðu dagar hennar taldir. Kærandi telji að allt geti gerst hjá lögreglunni þar sem hún hafi ekkert bakland. Henni verði mögulega nauðgað, hún pyntuð, seld í vændi eða tekin af lífi.
Kærandi kveðist óttast fyrrverandi tengdafjölskyldu sína mest. Þar fyrir utan geti hún ekki leitað til lögreglu eða fjölskyldu sinnar sem hafi snúið við henni baki. Líf hennar sem einstæð, ógift kona [...] verði því afar erfitt. Slíkar konur séu oft beittar alvarlegu kynferðislegu ofbeldi og áreiti. Þá sé heimilisofbeldi algengt í landinu og staða ógiftra kvenna á vinnumarkaði mjög erfið.
Kærandi hafi greint talsmanni sínum frá því að hafa verið beitt kynferðislegu ofbeldi þegar hún hafi verið í hælismeðferð í Grikklandi en starfsmanni Útlendingastofnunar hafi verið gerð grein fyrir því í hléi sem gert hafi verið á viðtali kæranda hjá Útlendingastofnun. Kærandi hafi ekki verið spurð út í það þegar viðtalinu hafi verið framhaldið en í ákvörðun stofnunarinnar kemur fram að tekið hafi verið mið af því við mat á því hvort kærandi væri í sérstaklega viðkvæmri stöðu að hún hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi.
Í greinargerð kæranda er ástand mannréttindamála í heimalandi hennar rakið. [...].
Kærandi byggir aðalkröfu sína á því að hún telji sig uppfylla skilyrði 1. mgr. 37. gr. um ofsóknir vegna trúarbragða þar sem kærandi sé ofsótt af trúarástæðum af fyrrverandi tengdafjölskyldu sinni vegna ástarsambands sem hún átti í við kærasta sinn heitinn. Þau kenni kæranda jafnframt um andlát sonarins og hafi fjölskyldan hótað því að ná til hennar og drepa. Kærandi bendi á 4. mgr. 4. gr. tilskipunar 2011/95/ESB þar sem fram komi að sú staðreynd að kærandi hafi þegar orðið fyrir ofsóknum eða alvarlegum skaða, eða beinum hótunum um slíkar ofsóknir eða alvarlegan skaða, sé alvarleg vísbending um að viðkomandi hafi ástæðuríkan ótta við að verða ofsóttur eða eigi raunverulega hættu á að verða fyrir alvarlegum skaða, nema það séu góðar ástæður til að ætla að slíkar ofsóknir eða alvarlegur skaði verði ekki endurtekinn. Í leiðbeiningarreglum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna kemur fram að einstaklingar kunni að vera ofsóttir vegna hjúskapar eða sambands við einstakling af öðrum trúarbrögðum en þeirra eigin. Þegar yfirvöld séu hins vegar ekki fær eða óviljug að vernda umsækjanda sökum kyns skuli ekki líta á slíkt sem deilu einkaaðila, heldur sem gilda ástæðu til þess að hljóta stöðu flóttamanns.
Að mati kæranda stafi ofsóknir í garð hennar einnig af stöðu hennar sem konu í heimalandinu. Kærandi byggi þannig jafnframt á því að hún uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. og d-liðar 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga um aðild að tilteknum þjóðfélagshópi á grundvelli kynbundinna ofsókna. Líkt og að framan greini þvertók kærandi fyrir að binda endi á samband sitt við fyrrverandi kærasta sinn þegar fjölskyldur þeirra beggja hafi beitt hana hótunum og ofbeldi. Þá neitaði hún einnig að taka upp [...]. Að hluta til megi rekja grundvöll ofsókna í garð kæranda til þess að hún hafi ekki viljað fylgja þeirri félags-, trúar- og menningarlegu hegðun sem ætlast var til af henni í samfélaginu. Í skýrslu þings Evrópuráðsins um þýðingu kynbundinna ofsókna í tengslum við mat á umsókn um alþjóðlega vernd segi einmitt að konur geti orðið fyrir ofsóknum á þessum grundvelli. Í skýrslunni komi fram að ofsóknir á hendur konum séu oft annars eðlis en ofsóknir sem karlmenn verði fyrir. Konur og stúlkur eigi frekar á hættu að verða fyrir kynbundnum ofsóknum og ofbeldi sem geti t.d. falið í sér kynferðisofbeldi, þvinguð hjónabönd og mansal. Þá komi fram að ekki sé hugtaksskilyrði að kynbundnar ofsóknir stafi frá aðilum tengdum ríkinu og að þær geti allt eins stafað frá einstaklingum ótengdum ríkinu. Kynbundnar ofsóknir séu hins vegar á ábyrgð ríkisins í þeim tilfellum sem það láti það hjá líða að grípa til aðgerða til verndar slíkum ofsóknum.
Fyrrum tengdafjölskylda hennar, [...], kenni henni um andlát fyrrverandi kærasta hennar. Að sögn kæranda sé fjölskyldan efnuð og með sterk tengsl við yfirvöld. Telji kærandi sig af þeim sökum ekki geta leitað til lögreglu eða annarra yfirvalda. Kærandi árétti að refsileysi í landinu sé mjög algengt þegar konur og stúlkur verði fyrir ofbeldi og skipti þá ekki máli hvort gerendur séu opinberir aðilar eða almennir borgarar.
Kærandi lagði fram fylgiskjöl með greinargerð sinni sem kærandi kveðst hafa aflað eftir birtingu ákvörðunar Útlendingastofnunar. Í fyrsta lagi hafi verið um að ræða bréf frá [...]. Í bréfinu komi fram að hann hafi farið til deildar innan lögreglunnar sem fáist við landamæraeftirlit. Tilgangurinn með bréfinu hafi verið að koma í veg fyrir að kærandi færi úr landi og fá heimild frá dómstólum til þess að banna eða ógilda vegabréf hennar og handtaka hana. Aðspurð hvernig kærandi hafi komist yfir bréfið greindi kærandi frá því að þegar ákvörðun Útlendingastofnunar hafi legið fyrir hafi kærandi sett sig í samband við vinkonu sína í [...] og beðið hana um að reyna að útvega kæranda nýtt vegabréf þar sem kærandi sé án vegabréfs og óttist mjög afleiðingar þess að vera send til heimalands án vegabréfs. Að sögn kæranda hafi vinkona hennar greint henni frá því að [...] hafi komið heim til hennar og hótað henni og eiginmanni hennar, [...]. Vinkona hennar hafi hins vegar þekkt konu hvers eiginmaður hafi starfað fyrir eða haft tengsl við yfirvöld. Hafi vinkona kæranda gefið þessum einstaklingi upp nafn kæranda sem hafi í krafti þessara tengsla haft aðgang að eða komist yfir umrætt bréf lögreglunnar til [...]. Í öðru lagi hafi verið um að ræða skýrslu [...] hjá lögreglu. Hann hafi greint frá því að tiltekinn dag hafi sex einstaklingar komið að heimili hans og hótað honum og eiginkonu hans, beitt hann líkamlegu ofbeldi og ítrekað spurt um kæranda. Tilgangur skýrslunnar hjá lögreglu hafi verið að upplýsa um atvikið og fá vernd frá lögreglunni í framtíðinni vegna þessara hótana. Að lokum sé um að ræða þrjár ljósmyndir sem að sögn kæranda sýni [...] ásamt valdamiklum mönnum við hin ýmsu tilefni, m.a. með [...].
Kærandi byggi á því að framburður hennar hafi verið stöðugur og greinargóður. Hann styðji við þær landaupplýsingar sem reifaðar hafi verið. Með því að senda kæranda til [...] sé að hennar mati brotið gegn grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement.
Kærandi byggi varakröfu sína á því hún uppfylli skilyrði þess að vera veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og þess sem hafi verið rakið um aðalkröfu hennar. Þrautavarakrafa kæranda byggi á því að henni verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. sömu laga. Kærandi vísi í lögskýringargögn máli sínu til stuðnings og fyrri umfjöllun um stöðu hennar í landinu. Þá sé líf einstæðrar, ógiftrar konu á hennar aldri mjög erfitt í heimalandinu þar sem konur í þeirri stöðu séu oft beittar alvarlegu kynferðislegu ofbeldi og áreiti. Fram hafi komið að kærandi hafi aldrei verið í launaðri vinnu en að hennar sögn sé almenna viðhorfið í [...]. Loks hefur kærandi greint frá því að hafa verið nauðgað þegar hún hafi verið í hælismeðferð í Grikklandi og teljist því, með hliðsjón af öllu framangreindu, vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Kærandi kveðst vera fullviss um að fregnir af nauðguninni myndu berast til [...] og hafi þær afleiðingar að [...].
Að lokum bendi kærandi á að ekki sé krafist í alþjóðlegri löggjöf að einstaklingur sem sæti ofsóknum hafi útilokað alla möguleika í heimalandi sínu áður en hann sæki um alþjóðlega vernd í öðru landi, þ.e. slík umsókn þurfi ekki að vera lokaúrræði. Mat á innri flutningi þurfi að vera einstaklingsbundið og tekið skuli tillit til ýmissa þátta. Í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins segi að innri flutningur sé í tilviki sumra kvenna ekki of harkaleg ráðstöfun, en í ljósi [...] sé slík ráðstöfun líkast til eingöngu möguleg þegar konur hafi aðgang að fullnægjandi stuðningi frá fjölskyldu sinni eða öðrum úr samfélagi sínu og geti séð fyrir sjálfum sér. Kærandi vísi einnig í leiðbeiningareglur Sameinuðu þjóðanna þar sem fram kemur að [...]. Í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins komi fram að [...]. Með hliðsjón af atvikum í máli kæranda telji hún því að innri flutningur sé hvorki raunhæfur né sanngjarn, en bæði skilyrðin þurfi að uppfylla til þess að slík ráðstöfun komi til greina.
Í sálfræðimati kæranda, dags. 1. nóvember 2017, er frásögn kæranda af lífshlaupi hennar rakin sem og framgangur meðferðar hjá sálfræðingi síðan í byrjun ágúst. Í niðurstöðum matsins kemur fram að það sé klínískt mat sálfræðings kæranda að kærandi [...].
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Lagagrundvöllur
Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
Auðkenni
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað grísku hælisskírteini númer 76233, útgefið 5. júlí 2016 með gildistíma til 5. janúar 2017. Með tilliti til trúverðugleika frásagnar kæranda taldi Útlendingastofnun að rétt væri að leggja til grundvallar að kærandi sé sannarlega frá [...] og sé sú sem hún segist vera. Telur kærunefndin einnig rétt að leggja til grundvallar að kærandi sé [...] ríkisborgari.
Landaupplýsingar
Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í [...] m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:
[...]
Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Til að teljast flóttamaður hér á landi þarf kærandi að sýna fram á að aðstæður hans séu slíkar að þær falli undir 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna, eða 2. mgr. 37. gr. sömu laga. Kærandi ber fyrir sig að vera ofsótt vegna trúarbragða sinna og aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi. Hún geti ekki leitað til lögreglunnar vegna spillingar og hættu á að sæta pyndingum eða annarri ómannúðlegri meðferð við komuna til landsins vegna kyns hennar og af því hún eigi ekki vegabréf.
Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:
Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.
Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:
Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.
Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.
Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:
a. ríkið,
b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,
c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.
Almennt ber að telja ótta umsækjanda um alþjóðlega vernd ástæðuríkan ef hann getur á nægilega skýran hátt sýnt fram á að áframhaldandi dvöl í heimaríki sé honum óbærileg af ástæðum sem tilgreindar eru í 1. mgr. 37. gr. eða yrði óbærileg af sömu ástæðum ef hann sneri aftur. Hugtakið „ástæðuríkur ótti við ofsóknir“ inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn a.m.k. að sýna fram á að ákveðnar líkur séu á að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.
Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).
Kærandi hefur borið fyrir sig að hún muni sæta ofsóknum af hálfu fyrrverandi tengdafjölskyldu sinnar sem sé valdamikil og hafi tengsl við yfirvöld. Tengdafjölskylda hennar aðhyllist [...] en hún sé sjálf [...]. Fjölskyldan hafi hótað henni að hún yrði að skipta um trú eða slíta sambandinu við fyrrverandi kærasta hennar. Hann hafi látist [...] eftir að þau hafi hlaupist á brott saman og kennir fjölskylda hans kæranda um dauða sonarins. Kærandi hefur jafnframt borið fyrir sig að hún óttist aðgerðir lögreglu snúi hún til baka, sérstaklega [...], þar sem hún eigi ekki vegabréf og að lögreglan sé mjög spillt. Þá hafi hún ekkert bakland í heimaríki þar sem fjölskylda hennar sjálfrar hafi snúið við henni baki.
Frásögn kæranda hjá Útlendingastofnun á sér að miklu leyti stoð í alþjóðlegum skýrslum um átök milli trúarhópa og um stöðu kvenna í landinu. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér hafa talsverðar framfarir orðið á stjórnarfari í [...] og unnið hefur verið að því að uppræta spillingu á meðal lögreglu og öryggissveita. Engu að síður eru dæmi um að [...]. Þá verður ekki lesið af gögnum málsins að kærandi óttist ofsóknir af hendi annarra aðila á vegum stjórnvalda eða aðila sem ráða yfir verulegu landsvæði innan ríkisins. Kærunefnd telur því að kæranda hafi ekki tekist á nægilega skýran hátt að sýna fram á að hún hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir af hálfu slíkra aðila í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.
Þá telur kærunefnd, með hliðsjón af gögnum málsins og aðstæðum kæranda, að ekki hafi verið sýnt fram á að stjórnvöld í [...] geti ekki eða vilji ekki veita henni viðeigandi vernd gegn þeirri hættu sem hún telur að sér stafi frá fyrrverandi tengdafjölskyldu sinni, m.a. með því að ákæra eða refsa fyrir þær athafnir sem feli í sér ofsóknir, sbr. c-lið 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Kærandi hefur því raunhæfan möguleika á því að leita sér ásjár stjórnvalda þar í landi, ef hún telur sig þurfa á aðstoð þeirra að halda.
Með vísan til alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.
Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.
Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).
Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hennar þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.
Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga
Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.
Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal stjórnvald sem kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laganna eigi ekki við um útlending að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að orðalag 1. mgr. 74. gr. kveði ekki með skýrum hætti á um veitingu dvalarleyfis má skilja af athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016, fyrirsögn greinarinnar og af 6. mgr. 37. gr. laganna að það hafi þó verið ætlunin með ákvæðinu. Kærunefnd telur því rétt að túlka ákvæðið sem heimild til veitingar dvalarleyfis þegar skilyrði þess eru uppfyllt.
Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.
Kærandi hefur borið fyrir sig að hún muni eiga erfitt uppdráttar í heimalandi sínu þar sem hún eigi ekkert bakland. Hún felli sig ekki við kynhlutverk sem sé hefðbundið í heimaríki sínu og eigi því á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Þá komi fram í mati sálfræðings á andlegu ástandi kæranda að kærandi [...].
Í þeim skýrslum og gögnum sem kærunefnd hefur farið yfir við vinnslu máls kæranda kemur fram að fjölskyldur kvenna spili stórt hlutverk í framfærslu og getu þeirra til að komast af í samfélaginu. Að sögn kæranda hefur fjölskylda hennar snúið baki við henni og neitar henni um aðstoð og muni kærandi því ekkert bakland hafa í heimaríki sínu. Ekki verður annað lesið af ákvörðun Útlendingastofnunar en að kærandi hafi verið trúverðug um þennan þátt og er kærunefnd ekki í aðstöðu til að komast að annarri niðurstöðu.
Því sé ljóst að kærandi muni standa höllum fæti félagslega við komuna til landsins sem einstæð kona án atvinnu, húsnæðis og fjölskyldu. Mismunun á grundvelli kynferðis á vinnumarkaði sé landlægt vandamál, atvinnuleysi á meðal kvenna sé hátt og kynbundinn launamunur mikill. Einnig sé [...]. Almennt séu aðstæður kvenna sem eigi ekkert bakland því ekki góðar enda spilar bakland þeirra stórt hlutverk í afkomuhorfum þeirra. Aðstæður kæranda eru einnig sérstakar, bæði hvað varðar félagslega stöðu hennar og heilsu, en [...]. Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi sýnt fram á félagslegar aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hún teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Með vísan til framangreinds er ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi og lagt er fyrir stofnunina að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Úrskurðarorð
Sá hluti ákvörðunar Útlendingastofnunar um að synja umsókn kæranda um alþjóðlega vernd skv. 37. gr. laga um útlendinga er staðfestur. Felldur er úr gildi sá hluti ákvörðunar Útlendingastofnunar sem snýr að dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og frávísun. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda dvalarleyfi vegna mannúðarsjónarmiða á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
The decision of the Directorate of Immigration regarding the appellant’s application for international protection under Article 37 of the Act on Foreigners no. 80/2016 is affirmed. The Directorate’s decision regarding residence permit on humanitarian grounds and denial of entry is vacated. The Directorate is instructed to issue the appellant a residence permit on humanitarian grounds based on Article 74, paragraph 1, of the Act on Foreigners.
Hjörtur Bragi Sverrisson
Erna Kristín Blöndal Pétur Dam Leifsson