Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 321/2016

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 10. nóvember 2016 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 321/2016

í stjórnsýslumáli nr. KNU16080014

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru, sem barst kærunefnd útlendingamála þann 24. ágúst 2016, kærði […] (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 18. ágúst 2016, um að synja kæranda um endurnýjun dvalarleyfis vegna náms.

Kærandi gerir þá kröfu að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og kæranda veitt dvalarleyfi hér á landi. Þá gerir kærandi kröfu um að réttaráhrifum ákvörðunar stofnunarinnar verði frestað.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 30. gr. laga nr. 96/2002, um útlendinga, og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Umsækjandi sótti í fyrsta skipti um dvalarleyfi hér á landi á grundvelli vistráðningar með umsókn sem móttekin var hjá Útlendingastofnun 23. maí 2012 og fékk veitt leyfi frá 28. ágúst 2012 til 28. ágúst 2013. Umsækjandi sótti í annað skipti um dvalarleyfi hér á landi á grundvelli náms með umsókn sem móttekin var hjá stofnuninni 29. maí 2015 og fékk veitt leyfi frá 27. júlí 2015 með gildistíma til 15. febrúar 2016. Umsækjandi fékk veitt atvinnuleyfi 23. september 2015. Umsækjandi fékk endurnýjun á námsmannaleyfi og atvinnuleyfi með gildistíma til 15. júlí 2016. Umsækjandi sótti um aðra endurnýjun 14. júní 2016 og var þeirri umsókn hafnað af stofnuninni með ákvörðun, dags. 18. ágúst 2016. Kærandi kærði þá ákvörðun til kærunefndar útlendingamála þann 24. ágúst 2016. Greinargerð og gögn frá kæranda bárust kærunefnd samtímis kæru. Með tölvupósti þann 1. september 2016 óskaði kærunefnd eftir athugasemdum stofnunarinnar vegna kærunnar ef einhverjar væru auk afrits af gögnum málsins. Gögn málsins bárust kærunefnd þann 9. september 2016 en Útlendingastofnun gerði ekki athugasemdir við kæruna.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Ákvörðun Útlendingastofnunar byggir á því að kærandi uppfylli ekki skilyrði b-liðar 1. mgr. 12. gr. e útlendingalaga, sbr. 4. mgr. 12. gr. laganna, þar sem kærandi hafi ekki lokið a.m.k. 75% af fullu námi og þannig ekki sýnt fram á viðunandi námsárangur til endurnýjunar dvalarleyfis vegna náms. Kærandi hafi aðeins lokið 10 ECTS einingum á síðustu önn og 30 einingum á haustönn 2015. Fullt nám sé 30 einingar á önn. Kærandi hafi því lokið 40 einingum á síðasta skólaári eða 67 % af fullu námi og fullnægi því ekki framangreindum skilyrðum laga um útlendinga. Á þeim grundvelli synjaði stofnunin umsókn kæranda um endurnýjun dvalarleyfis vegna náms. Þá var kæranda gert að yfirgefa landið þegar tíma hennar til að dvelja hér á landi á grundvelli áritunarfrelsis ljúki, sem sé 13. október 2016.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi gerir þá kröfu að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og kæranda veitt dvalarleyfi hér á landi.

Kærandi byggir kröfu sína um frestun réttaráhrifa á ákvörðun stofnunarinnar á því að henni verði vísað úr landi þann 13. október 2016 og sé málsmeðferðartími kærunefndar útlendingamála að jafnaði fjórir mánuðir. Því séu líkur á því að hún muni ekki fá niðurstöðu í málinu, nema réttaráhrifum verði frestað, fyrr en eftir að henni hafi verið vísað úr landi.

Kærandi greinir frá því í greinargerð að henni hafi verið synjað um endurnýjun dvalarleyfis þar sem hún hafi ekki klárað tilskilinn fjölda ECTS-eininga á síðasta skólaári. Það skólaár hafi hún verið að læra íslensku sem annað tungumál. Hún vilji læra […], en það sé aðeins kennt á íslensku, þ.e. nám til BS-gráðu. Kærandi kveðst ekki sérlegur áhugamaður um mál- og hljóðfræði, en hafi verið að læra tungumálið til þess að geta lagt stund á […]síðar, það fag sem hún sé nú að læra í Háskóla Íslands. Kærandi kveðst hafa byrjað í nýju námi í […] í haust og hafi borgað staðfestingargjald vegna þess.

Kærandi greinir frá því að ákvörðun Útlendingastofnunnar hafi byggt á því að klára verði 75% námsframvindu af 60 ECTS-einingum, á hverju skólaári. Kærandi kveðst hafa haft 67% námsframvindu á síðasta skólaári. Þá hafi hún verið í öðru námi en nú. Beiðni hennar byggi því ekki á framhaldi af því námi. Kærandi vonast til þess að litið verði á umsókn sína um dvalarleyfi sem nýja umsókn, sem byggi ekki á námi síðasta árs, þar sem það hafi í eðli sínu verið aðfararnám svo hún gæti lagt stund á BS-nám í […] við Háskóla Íslands.

Kærandi telur að um sé að ræða nýtt nám í skilningi 1. mgr. 12. gr. e laga um útlendinga. Kærandi heldur því fram að fara skuli með nýtt nám, sem nýjan námsferil, sem þurfi að meta sjálfstætt, en ekki sem endurnýjun á dvalarleyfi vegna náms, sbr. 4. mgr. 12. gr. e, þar sem krafist sé ákveðinnar námsframvindu.

Ef ekki verði fallist á framangreindar kröfur, krefst kærandi þess að henni verði veitt undanþága frá 4. mgr. 12. gr. e, með hliðsjón af sérstökum aðstæðum, þar sem hún hafi aðeins stundað nám í íslensku sem annað tungumál, til að valda málinu nægilega til að stunda nám í […] við Háskóla Íslands.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Mál þetta lýtur að því hvort Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja umsókn kæranda frá 14. júní 2016 um endurnýjun dvalarleyfis á grundvelli náms hér á landi skv. 12. gr. e laga um útlendinga.

Um kæru þessa gilda lög um útlendinga nr. 96/2002 og reglugerð um útlendinga nr. 53/2003, ásamt áorðnum breytingum. Í 11. gr. útlendingalaga koma fram grunnskilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis. Samkvæmt ákvæðinu má veita útlendingi dvalarleyfi hér á landi í samræmi við ákvæði 12. – 12. gr. e eða 13. gr. laganna að fenginni umsókn og að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Í greinargerð gerir kærandi þá kröfu að réttaráhrifum ákvörðunar Útlendingastofnunar verði frestað. Samkvæmt 1. mgr. 31. gr. laga um útlendinga frestar kæra í máli kæranda framkvæmd ákvörðunar. Kemur krafa kæranda því ekki til frekari skoðunar í máli þessu.

Í 4. mgr. 12. gr. e laga um útlendinga kemur fram að dvalarleyfi vegna náms samkvæmt ákvæðinu skuli að jafnaði ekki veitt til lengri tíma en sex mánaða í senn. Heimilt er að endurnýja dvalarleyfi vegna náms á námstíma ef útlendingur fullnægir áfram skilyrðum 1. og 2. mgr. 12. gr. e og getur sýnt fram á viðunandi námsárangur. Námsárangur telst samkvæmt ákvæðinu fullnægjandi hafi útlendingur lokið a.m.k. 75% af fullu námi. Við fyrstu endurnýjun dvalarleyfis telst námsárangur viðunandi hafi útlendingur lokið a.m.k. 50% af fullu námi. Samkvæmt 2. mgr. 12. gr. e laga um útlendinga telst fullt nám vera 100% samfellt nám á háskólastigi, iðnnám eða það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Þá teljast einstök námskeið ekki til náms.

Kærandi stundaði nám í íslensku sem annað mál við Háskóla Íslands skólaárið 2015-2016. Samkvæmt námsferilsyfirliti kæranda lauk hún 30 ECTS einingum á haustönn 2015 og var því með 100% námsframvindu. Kærandi lauk 10 einingum á vorönn 2016 eða 33,3% námsframvindu. Þegar námsárangur kæranda á síðastliðnu skólaári er lagður saman var kærandi með um 67% námsárangur af fullu námi. Kærandi er skráð í […]á núverandi skólaári. Á þeim grundvelli krefst kærandi þess að litið verði á umsókn sína sem nýja umsókn um dvalarleyfi á grundvelli náms og að litið verði framhjá fyrri námsárangri.

Í 12. gr. e laga um útlendinga er fjallað um skilyrði veitingar dvalarleyfis vegna náms. Að uppfylltum skilyrðum þess að útlendingur sé í fullu námi á því stigi sem þar er fjallað er veiting leyfisins ekki háð því hvaða námsleið er valin. Kærunefnd fellst því ekki á með kæranda að hægt sé að líta á umsókn á grundvelli nýrrar námsleiðar sem nýja umsókn um dvalarleyfi vegna náms í skilningi greinarinnar. Kærunefnd lítur því svo á að þar sem kærandi dvaldist hér á landi á grundvelli dvalarleyfis vegna náms þegar hún sótti á ný um slíkt leyfi 14. júní 2016 felist í umsókn hennar ósk um endurnýjun á dvalarleyfi vegna náms skv. 4. mgr. 12. gr. e laganna. Kærandi þarf því að sýna fram á a.m.k. 75% námsárangur í fyrra námi, en ekki er að lögum heimilt að víkja frá þessu skilyrði. Þar sem námsárangur kæranda er ekki fullnægjandi að þessu leyti er það niðurstaða kærunefndar að hún uppfylli ekki skilyrði til útgáfu dvalarleyfis vegna náms, sbr. 12. gr. e laga um útlendinga.

Með vísan til alls framangreinds verður ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður

Anna Tryggvadóttir Pétur Dam Leifsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta