Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 149/2022 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 149/2022

Miðvikudaginn 15. júní 2022

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 13. mars 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála launamiða Tryggingastofnunar ríkisins til Skattsins, dags. 23. febrúar 2022.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk greiddar tekjutengdar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 2021. Tryggingastofnun sendi launamiða vegna tekna kæranda til Skattsins með bréfi, dags. 23. febrúar 2022.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 13. mars 2022. Með bréfi, dags. 25. apríl 2022, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 13. maí 2022, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 20. maí 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að Tryggingastofnun ríkisins hafi gefið upp rangar upplýsingar um tekjur kæranda, þ.e. 1.581.987 kr., en hún hafi fengið greiddar 1.034.297 kr. Samkvæmt Tryggingastofnun hafi hún greitt 600.362 kr. í skatt. Samkvæmt þeim tölum sem gefnar hafi verið upp á skattskýrslu hafi kærandi fengið greiddar 749.762 kr. en hefði átt að fá 981.625 kr. Tryggingastofnun hafi svo rukkað kæranda aukalega um 162.756 kr. Samkvæmt því sem stofnunin hafi gefið upp vanti 231.863 kr. Þessi vitleysa sé vegna þess að stofnunin hafi borgað kæranda of mikið og hafi svo sagst þurfa að borga henni lágmarksbætur þó að hún hafi beðið um að þurfa ekki að borga til baka heldur fá skertar bætur, þ.e. um 15.000 kr. á mánuði. Nú sé kærandi að borga Tryggingastofnun mánaðarlega um 40.000 kr. fram á haust. Kærandi spyr hvort þessar greiðslur hafi komið til lækkunar á skuld hennar við stofnunina.

Þetta sé mjög óréttlátt þar sem í sumum tilvikum sé verið að gefa sömu fjárhæðina tvisvar upp til skatts. Kærandi reiknist með hærri tekjur og geti því hvorki fengið lækkun á fasteignagjöldum né endurgreiðslu frá Skattinum. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi í fyrirliggjandi reikningsyfirlit.

Kærandi vilji fá þessar 231.863 kr. greiddar, án þess að þær reiknist eina ferðina enn henni til tekna. Farið sé fram á að lög um lágmarksgreiðslur frá Tryggingastofnun verði endurskoðuð þannig að einstaklingar geti ráðið því hvort þeir fái minni greiðslur eða borgi til baka. Að greiða til baka rugli allar upplýsingar um tekjur einstaklinga gagnvart Skattinum og öllu öðru. Á skattskýrslu kæranda komi ekki fram endurgreiðslur hennar til Tryggingastofnunar.

Kærandi voni að úrskurðarnefndin geti hjálpað henni í þessu máli.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kæran sé frekar óljós en svo virðist sem kærandi sé ósátt við launamiðann sem Tryggingastofnun hafi sent Skattinum 23. febrúar 2022 vegna ársins 2021.

Tryggingastofnun leggi það í hendur úrskurðarnefndar að meta hvort um sé að ræða kæranlega stjórnvaldsákvörðun í skilningi 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum. Sé einhverju kæruefni ósvarað að mati nefndarinnar muni stofnunin að sjálfsögðu bregðast við, komi beiðni um frekari upplýsingar.

Í 92. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt segi að allir, sem hafi menn í þjónustu sinni og greiði þeim endurgjald fyrir starfa, þar með talið ágóðaþóknun, ökutækjastyrk, húsaleigustyrk og hvers konar önnur fríðindi og hlunnindi, eftirlaun, biðlaun og lífeyri, skuli ótilkvaddir afhenda Ríkisskattstjóra skýrslu um greiðslur þessar ókeypis og í því formi sem Ríkisskattstjóri ákveði.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins sé vísað til laga um tekjuskatt varðandi hvað skuli teljast til tekna. Til tekna samkvæmt III. kafla laga um almannatryggingar teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað teljist ekki til tekna og frádráttarliða samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum.

Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Bótaþegi beri ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur og beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki, sbr. 1. mgr. 39. gr. sömu laga og 3. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, en þar komi fram að bótaþega sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi sé bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á greiðslur.

Í 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009. Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem fram komi í skattframtölum.

Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafi verið ofgreiddar fari um það samkvæmt 55. gr. laganna. Þar komi fram sú skylda Tryggingastofnunar að innheimta ofgreiddar bætur. Sú meginregla sé ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Þann 23. febrúar 2022 hafi Tryggingastofnun sent skattyfirvöldum launamiða vegna ársins 2021, byggðan á þeim upphæðum sem kærandi hafi fengið greiddar frá stofnuninni á árinu. Þar komi fram að greiðslur ársins hefðu numið 1.581.987 kr.

Kærandi hafi ekki nýtt persónuafslátt með greiðslum Tryggingastofnunar og hafi því verið dregið frá greiðslum hennar 600.362 kr. í staðgreiðslu skatta. Eftir hafi því staðið 981.625 kr.

Af þeirri fjárhæð, sem eftir hafi staðið, hafi verið dregið frá mánaðarlega upp í kröfur sem hafi myndast vegna eldri ára. Þannig hafi verið dregnar 108.146 kr. frá greiðslum janúar til ágúst 2021 upp í kröfu sem hafi myndast í kjölfar uppgjörs ársins 2019, sjá bréf, dags. 22. maí 2020. Þá hafi verið dregnar 123.717 kr. frá greiðslum september til desember 2021 upp í kröfu sem hafi myndast í kjölfar uppgjörs ársins 2020, sbr. bréf, dags. 20. maí 2021. Alls hafi því verið dregnar 231.863 kr. af mánaðarlegum greiðslum ársins 2021 vegna eldri krafna.

Kærandi hafi því fengið greitt til sín frá Tryggingastofnun 749.762 kr. Þá hafi kærandi greitt 162.756 kr. til stofnunarinnar að auki vegna uppgjörskröfu ársins 2020.

IV.  Niðurstaða

Af kæru verður ráðið að kærandi sé ósátt við þær upplýsingar sem koma fram í launamiða Tryggingastofnunar til Skattsins, dags. 23. febrúar 2022, um greiðslur til kæranda á árinu 2021.

Í 1. málsl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar segir að rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða fjárhæð bóta eða greiðslna samkvæmt þeim lögum kveði úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, upp úrskurð í málinu. Sama gildir um ágreining um endurkröfurétt, ofgreiðslur og innheimtu þeirra, sbr. 55. gr. laga um almanntryggingar.

Samkvæmt framangreindu ákvæði getur úrskurðarnefnd velferðarmála einungis fjallað um ágreining samkvæmt lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar, svo og þeim reglugerðum sem settar eru með stoð í lögunum, sem varðar annaðhvort grundvöll, skilyrði eða fjárhæð bóta eða greiðslna, eða endurkröfurétt, ofgreiðslur og innheimtu þeirra. Ákvörðun um þær upplýsingar, sem fram koma í launamiða til Skattsins, er ekki tekin á grundvelli laga um almannatryggingar heldur laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, sbr. 92. gr. þeirra. Það ágreiningsefni á því ekki undir úrskurðarnefnd velferðarmála. Með hliðsjón af framangreindu er kæru vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

Kæranda er bent á að ef hún er ósátt við fjárhæð greiðslna til sín, endurkröfurétt Tryggingastofnunar eða annað sem fjallað er um í fyrrgreindri 13. gr. laga um almannatryggingar getur hún kært slíka ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar innan þriggja mánaða frá því að henni var tilkynnt um ákvörðun.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta