Nr. 447/2017 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 447/2017
Miðvikudaginn 2. maí 2018
A
gegn
Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.
Með kæru, dags. 30. nóvember 2017, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála greiðsluáætlun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 22. nóvember 2017.
I. Málavextir og málsmeðferð
Með umsókn, dags. 17. október 2017, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í sex mánuði vegna væntanlegrar barnsfæðingar X 2017. Umsókn kæranda var samþykkt og honum kynnt greiðsluáætlun með ákvörðun, dags. 22. nóvember 2017, þar sem fram kom að mánaðarleg greiðsla til hans sem sjálfstætt starfandi einstaklings yrði 310.000 kr. á mánuði miðað við 100% fæðingarorlof.
Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 30. nóvember 2017. Með bréfi, dags. 4. desember 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst með bréfi, dags. 5. desember 2017, og var send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. desember 2017. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi krefst þess að greiðslur til hans í fæðingarorlofi verði endurreiknaðar út frá viðmiðunartímabili starfsmanns fyrir félagið B ehf. í ljósi þess að hann sé í meirihluta vinnu sem starfsmaður miðað við sjálfstæðan rekstur kæranda.
Kærandi greinir frá því að hann vinni 100% vinnu alla virka daga hjá fyrirtækinu B ehf. sem hann eigi 33% hlut í. Hann sé einnig með [...] en það sé sjálfstæður rekstur. Sá tími sem hann verji í rekstur [...] sé aðeins brot af þeim tíma sem hann verji í vinnu hjá B ehf. Kærandi hafi fengið þær upplýsingar frá Fæðingarorlofssjóði að þar sem hann ætti hlut í fyrirtækinu væri hann skilgreindur sem sjálfstætt starfandi einstaklingur. Hann hafi þá haft samband við skattstjóra og óskað eftir upplýsingum um það og hvort hann bæri persónulega ábyrgð á skilum á tryggingagjaldi fyrir fyrirtækið. Þar hafi kærandi fengið þær upplýsingar að hann fengi greidd laun frá félaginu og fyrirtækið borgi tryggingagjaldið af laununum. Það sé fyrirtækisins að standa skil á tryggingagjaldinu og það hafi gert það alla tíð. Ef kærandi væri sjálfstætt starfandi væri gerð krafa um að hann myndi borga tryggingagjald af tekjum í þeim rekstri.
III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs
Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs er vísað til 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof þar sem kveðið sé á um að foreldri öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns eða þann tíma þegar barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur, sbr. 2. og 5. mgr. 8. gr. laganna. Óumdeilt sé að kærandi uppfylli skilyrði 1. mgr. 13. gr. laganna og eigi tilkall til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Ágreiningur málsins snúi að því hvort miða skuli útreikning á mánaðarlegri greiðslu til hans við að hann teljist sjálfstætt starfandi einstaklingur eða starfsmaður.
Í 2. mgr. 7. gr. laga nr. 95/2000 komi fram að starfsmaður sé hver sá sem vinni launuð störf í annarra þjónustu í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. er sjálfstætt starfandi einstaklingur sá sem starfar við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að honum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi. Í 4. gr. laga nr. 113/1990 um tryggingagjald sé kveðið á um það hvaða aðilar eru gjaldskyldir samkvæmt lögunum. Samkvæmt 2. málsl. 2. mgr. 4. gr. tekur gjaldskyldan til allra þeirra sem vinna við eigin atvinnurekstur eða stunda sjálfstæða starfsemi. Þá sé í 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 kveðið á um útreikning á mánaðarlegri greiðslu til starfsmanns, í 5. mgr. um útreikning á mánaðarlegri greiðslu til sjálfstætt starfandi einstaklings og í 6. mgr. um útreikning á mánaðarlegri greiðslu til foreldris sem sé bæði starfsmaður og sjálfstætt starfandi.
Fæðingarorlofssjóður tekur fram að væntanlegur fæðingardagur barns kæranda hafi verið X 2017. Ávinnslutímabil kæranda samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 sé því frá X 2017 og fram að fæðingu barnsins. Óumdeilt sé að á tímabilinu hafi kærandi einungis starfað hjá B ehf. sem sé í þriðjungs eigu hans sjálfs samkvæmt upplýsingum úr Hlutafélagaskrá. Auk þess hafi kærandi greitt tryggingagjald vegna eigin reksturs samkvæmt yfirliti um greiðslu tryggingagjalds, sbr. einnig upplýsingar úr skrám Ríkisskattstjóra. Kærandi hafi þannig einungis starfað við eigin rekstur á tímabilinu, án tillits til félagsforms, í því umfangi að honum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi, sbr. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 95/2000 og 2. málsl. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 113/1990. Í samræmi við það teljist kærandi sjálfstætt starfandi einstaklingur og fari því um útreikning á mánaðarlegri greiðslu til hans samkvæmt 5. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000.
Með vísan til framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að miða skuli útreikning á meðaltali heildarlauna kæranda við að hann teljist sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. greiðsluáætlun til hans, dags. 22. nóvember 2017.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi, dags. 22. nóvember 2017, um að mánaðarleg greiðsla til kæranda sem sjálfstætt starfandi einstaklings yrði 310.000 kr. á mánuði miðað við 100% fæðingarorlof. Kærandi telur að hann eigi rétt á greiðslum úr sjóðnum út frá viðmiðunartímabili sem starfsmaður en ekki sjálfstætt starfandi einstaklingur.
Í 1. gr. laga nr. 95/2000 er kveðið á um gildissvið laganna, en þar segir að lögin taki til réttinda foreldra á innlendum vinnumarkaði til fæðingar- og foreldraorlofs. Þau eigi við um foreldra sem séu starfsmenn eða sjálfstætt starfandi.
Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laganna öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns eða þann tíma þegar barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur, sbr. 2. og 5. mgr. 8. gr. laganna. Til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi foreldris skuli miða við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi fyrir sama tímabil.
Óumdeilt er að kærandi uppfyllir skilyrði 1. mgr. 13. gr. laganna um sex mánaða samfellt starf á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns og á tilkall til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort miða skuli útreikning á mánaðarlegri greiðslu til hans á þeim grundvelli að hann sé sjálfstætt starfandi einstaklingur eða starfsmaður. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 95/2000 er starfsmaður hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. er sjálfstætt starfandi einstaklingur sá sem starfar við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að honum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi. Í 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 er kveðið á um útreikning á mánaðarlegri greiðslu til starfsmanns, í 5. mgr. um útreikning á mánaðarlegri greiðslu til sjálfstætt starfandi einstaklings og í 6. mgr. um útreikning á mánaðarlegri greiðslu til foreldris sem er bæði starfsmaður og sjálfstætt starfandi.
Fæðingarorlofssjóður byggir á því að kærandi sé sjálfstætt starfandi einstaklingur þar sem hann hafi á ávinnslutímabili einungis starfað hjá B ehf. sem sé í þriðjungs eigu hans sjálfs auk þess að hafa greitt tryggingagjald vegna eigin reksturs samkvæmt yfirliti um greiðslu tryggingagjalds. Þá vísar Fæðingarorlofssjóður einnig til þess að þar sem kærandi hafi starfað við eigin rekstur hafi honum verið gert að standa skil á tryggingagjaldi, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 113/1990 um tryggingagjald. Kærandi hefur vísað til þess að hann fái greidd laun frá félaginu B ehf. og að fyrirtækið greiði tryggingagjald af launum hans. Þá sé vinna hans við rekstur [...] aðeins brot af þeim tíma sem hann verji í vinnu hjá B ehf.
Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laga nr. 95/2000 er sjálfstætt starfandi einstaklingur sá sem starfar við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að honum er gert að standa skil á tryggingargjaldi. Að mati úrskurðarnefndarinnar liggja hvorki fyrir fullnægjandi gögn um það hvernig staðið var að skilum tryggingagjalds vegna starfa kæranda hjá B ehf. á viðmiðunartímabili sbr. 5. mgr. 13. gr. laganna, né hvernig greiðslum til hans var háttað vegna starfa hans hjá fyrirtækinu. Að því virtu er hin kærða ákvörðun felld úr gildi og lagt fyrir Fæðingarorlofssjóð að taka málið til nýrrar meðferðar.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 22. nóvember 2017, um mánaðarlegar greiðslur til A, er felld úr gildi og málinu vísað til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson