Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 224/2022 - Úrskurður

 

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 224/2022

Miðvikudaginn 19. október 2022

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 19. apríl 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 25. mars 2022 um að synja beiðni hans um endurupptöku bótauppgjöra áranna 2017, 2018 og 2019.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk tekjutengdar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins á árunum 2017, 2018 og 2019. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 23. ágúst 2018, var kæranda tilkynnt að niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna fyrir árið 2017 hafi verið sú að honum hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 3.250 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 22. maí 2019, var kæranda tilkynnt að niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna fyrir árið 2018 hafi verið sú að honum hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 650.415 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 22. maí 2020, var kæranda tilkynnt að niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna fyrir árið 2019 hafi verið sú að honum hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 1.841.417 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kærandi gerði ítrekað athugasemdir við framangreinda endurreikninga. Með bréfum Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 29. nóvember 2021 og 25. mars 2022, var beiðni kæranda synjað á þeim forsendum að ekki hefðu komið fram gögn sem gæfu ástæðu til endurupptöku þar sem forsendur væru óbreyttar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 19. apríl 2022. Með bréfi, dags. 4. maí 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 15. júní 2022, barst greinargerð frá stofnuninni og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. júní 2022. Athugasemdir bárust frá kæranda í tölvupóstum 26., 27. og 28. júní 2022 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfum úrskurðarnefndar, dags. 28. og 30 júní 2022. Með bréfi, dags. 30. júní 2022, barst viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Með tölvupóstum 17. og 18. júlí 2022 bárust athugasemdir frá kæranda og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. júlí 2022. Með tölvupósti 27. júlí 2022 bárust frekari athugasemdir frá kæranda og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 28. júlí 2022. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru er greint frá því að kærð sé frávísun Tryggingastofnunar ríkisins frá 24. janúar 2022 á beiðni kæranda um endurupptöku bótaútreikninga stofnunarinnar fyrir árin 2017, 2018 og 2019. Farið sé fram á að úrskurðað verði um eftirfarandi atriði.

Í fyrsta lagi sé farið fram á það að Tryggingastofnun beri að endurreikna bætur áranna 2017, 2018 og 2019 og leiðrétta þær í ljósi þess að bætur hafi verið ofskertar. Meðal annars hafi frítekjumark á fjármagnstekjur aldrei verið virt. Auk þess hafi uppbætur ranglega verið skertar og þá hafi Skatturinn verið látinn ákvarða bótarétt og fleira. Það að færa óheimilar skerðingar vegna fjármagnstekna undir frítekjumarki í skuldsetningu hafi langvarandi og íþyngjandi áhrif á getu til endurgreiðslu.

Í öðru lagi sé farið fram á að Tryggingastofnun verði gert að endurreikna bætur umræddra ára og sýna fram á það með tilvísun til laga nr. 97/2019 um breytingu á lögum um félagslega aðstoð og lögum um almannatryggingar að farið hafi verið eftir þeim. Líklega komi einnig fram í lögum nr. 100/2007 að hafa skuli hagsmuni bótaþega að leiðarljósi með því að birta útreikninga samkvæmt báðum reglum.

Í þriðja lagi sé farið fram á að Tryggingastofnun gefi upp nafn, starfsheiti og starfstitil þess sem hafi skrifað hina kærðu ákvörðun í samræmi við álit umboðsmanns Alþingis og stjórnsýslulög. Auk þess sé farið fram á upplýsingar um nafn og starfsheiti næsta yfirmanns viðkomandi starfsmanns.

Í fjórða lagi sé farið fram á að Tryggingastofnun gefi upp nafn, starfsheiti og starfstitil þess sem hafi skrifað og gert endurreikninga bóta og kynningarblað vegna endurreiknings bóta, dags. 22. maí 2020, í samræmi við álit umboðsmanns Alþingis og stjórnsýslulög. Enn fremur sé spurt hvort heimilt hafi verið að nota mánaðaregluna með tilvísun til laga nr. 97/2019 eða eldri laga við endurreikninga örorkubóta árin 2017, 2018 og 2019.

Í fimmta lagi hafi við skoðun Tryggingastofnunar á staðgreiðsluskrá komið í ljós að kærandi hafi verið undir framfærsluviðmiði. Brugðist hafi verið við með því að bjóða kæranda betri kjör á endurgreiðslu á ofgreiðslukröfu í stað þess að kynna honum rétt til niðurfellingar. Í ljósi þess sé farið fram á það við úrskurðarnefndina að Tryggingastofnun svari eftirfarandi spurningum og einnig erindi hans frá 11. nóvember 2021. Kærandi spyr hvort upplýsingar hafi verið sóttar í staðgreiðsluskrá varðandi þetta tilboð og þá í hvaða tilgangi og til hvers þær hafi verið notaðar.

Tryggingastofnun haldi því fram að réttur kæranda hafi verið virtur, bæði varðandi notkun frítekjumarka og með vali á þeirri reglu sem bótagreiðslur hafi verið reiknaðar eftir. Hið rétta sé líklega að það sem hafi ráðið gerðum stofnunarinnar hafi verið ágirnd í rekstrarfé með því að búa til endurkröfur í stað lögvarðra réttinda og hagsmuna kæranda. Kærandi hafi ævinlega haldið því fram að hin svokallaða mánaðaregla sé hagkvæmari fyrir hann og að ákvæði skattalaga banni Tryggingastofnun að nota aðra reglu þar sem hin svokallaða „almenna regla“ samræmist hvorki skattalögum né bókhaldslögum. Væri sú regla notuð ætti útkoman að vera mun hagstæðari fyrir kæranda og engin álitamál væru vegna lögmætis. Samkvæmt staðgreiðsluskrá Skattsins ættu tekjur hans að hafa verið vera um það bil 13.000 kr. hærri en þær hafi verið samkvæmt tekjuáætlun Tryggingastofnunar og þá væru ofgreiddar bætur um það bil 4.500 kr. á mánuði. Samanlagt muni endurkrafan vera um 300.000 kr. Endurkrafa með hinni „almennu ofsköttunarreglu“ sé hins vegar um það bil 1.900.000 kr. Það sé rangt að Tryggingastofnun hafi starfað í samræmi við lög nr. 97/2019.

Auk þess sé æskilegt að jafnræðis sé gætt, þrátt fyrir að bótaþegi hafi framfærslu af blandaðri kennitölu. Það ættu að vera einhverjar hömlur eins og séu hjá Skattinum að skattleggja rekstur í þrot. Engar slíkar hömlur eða sjónarmið séu hjá Tryggingastofnun, enda leggi stofnunin blátt bann við atvinnuþátttöku bótaþega sem sjáist best á því að nú sé Vinnumálastofnun látin hafa hlutverk Tryggingastofnunar.

Í gögnum vegna fyrri kæru, varðandi upplýsingaóreiðu og óreiðu með vörslufé, komi fram að kærandi hafi farið fram á að Tryggingastofnun gæfi út launaseðla svo að bótaþegar gætu fylgst með meðferð fjármuna sinna með sama hætti og launþegar. Ofgreiðslukrafa að fjárhæð 130.110 kr. hafi gengið upp í ofgreiðslukröfu, þó svo að það sé óheimilt umfram 20%. Til að haga hlutunum með eðlilegum hætti og ef vilji sé til þess að gæta hófs í lagasetningum, í samræmi við nýlegan úrskurð Hæstaréttar um sjálfstæðar lagasetningar Tryggingastofnunar, hefði verið eðlilegast að bakfæra alla skuldina. Það geti ekki verið löglegt að gera endurkröfu á upphæð sem ekki hafi mátt taka. Það geti líka þjónað einhverjum tilgangi að falsa bótaréttinn eða búa til fölsun. Endurkröfurétturinn samkvæmt „almennu ofsköttunarreglunni” hafi með réttu verið rúmlega tvær miljónir og ofstækismennirnir sem hafi gert útreikningana hafi ekki getað innheimt skattinn sem beri á milli. Þeir hafi því búið til skatt með aftekinni endurgreiðslu og áætlaðri leiðréttingu til að minnka skattatapið.

Á árinu 2019 (2018) hafi kærandi fengið uppbætur á framfærslu sem eigi að hækka bótarétt þess mánaðar sem þær komi til greiðslu í og eigi síðan að framreiknast og koma inn í bótarétt sem hækkun á framfærslurétti við endurútreikninga. Samkvæmt skilningi kæranda gætu þessar greiðslur flokkast sem laun en Tryggingastofnun kalli þetta bótarétt. Stofnunin hafi látið hækkaðan bótarétt mánaðarins ekki telja, enda ætti stofnunin þá að taka mið af þessu sem hækkuðum rétti til ráðstöfunarfjár og ekki gera endurkröfu samkvæmt því við endurútreikninga sína. Tryggingastofnun hafi lagt annan skilning í endurreikningana og hafi skert á einhvern hátt skerðingarheimild á grunnbótaréttinn og skert svo því til viðbótar með einhverjum hætti. Síðan hafi stofnunin skert aftur við endurreikningana og hafi tekið sér rekstrarfé. Þannig að skerðingar reiknast með einhverjum hætti sem skattlagningarheimild til næsta bótaárs. Framfærsluuppbæturnar séu því uppbætur á rekstrarfé stofnunarinnar um meira en sem nemi allri þeirri upphæð sem hafi átt að fara til velferðar bótaþegans. Þannig virðist Tryggingastofnun koma til móts við velferðarskyldur sínar með því að taka alla fjármuni af bótaþegum til eigin rekstrar og gott betur með því að krefja bótaþega um hlut úr eingreiðslum til lengri tíma til tryggingar á uppbót á rekstrarfé sitt til lengri tíma.

Í gögnum vegna bótaútreikninga ársins 2019 sjáist sú árátta Tryggingastofnunar að afla sér rekstrarfjár með endurkröfum. Þar sé bótaréttur ársins 2019 ekki skertur með fjármagnstekjum að upphæð 138 kr. á mánuði. Hins vegar sé ekki tekið tillit til fjármagnstekna að upphæð 260 kr. við endurreikning bóta. Með því að virða frítekjumark á fjármagnstekjur við ákvörðun bótagreiðslna en gera svo endurkröfu þar sem frítekjumark á fjármagnstekjur sé ekki virt, sé búinn til skattur sem sé innheimtur sem endurkrafa. Lokaniðurstaðan sé því sú að Tryggingastofnun afli sér rekstrartekna með því að virða ekki frítekjumörk við endurútreikninga. Sú iðja að skipta um aðferð eða skipta um bótarétt þjóni þeim tilgangi að taka óréttmæta skatta af bótaþegum sem njóti annara greiðslna en hreinna bótagreiðslna til rekstrar stofnunarinnar. Sama muni gilda fyrir þau ár sem ágreiningur hafi ekki enn risið um ef að líkum láti. Reynt sé að hafa bótagreiðslur sem mestar við frumútreikning bótaréttar en síðan séu búnar til tekjur fyrir rekstur stofnunarinnar við endurútreikninga með því að virða ekki frítekjumörkin. Þetta verklag valdi því að allir sem hafi einhverjar fjármagnstekjur þurfi að greiða Tryggingastofnun skatt sem gangi til rekstrar stofnunarinnar.

Endurgreiðslukrafa á hendur kæranda hafi myndast vegna margvíslegra vandamála sem tengist Covid. Ásælni Tryggingastofnunar í rekstrarfé hafi leitt til þess að endurgreiðslukrafan hafi verið tekin upp í þá ólögmætu og óréttmætu skuldsetningu í stað þess að taka einvörðungu 20% eins og reglur um endurgreiðslur heimila. Ef að líkum láti muni þessi rekstrarfjárþörf stofnunarinnar valda því að kærandi lendi einhverja mánuði undir stjórnarskrár- og lögvörðu lágmarksframfærsluviðmiði að upphæð um 150.000 kr. (líklega sama upphæð og frítekjumarkið á tekjuskatt) á mánuði. Það muni þá sýna að rekstrarfjárþörf Tryggingastofnunar sé öllu velsæmi yfirsterkari og yfirkeyri lög- og stjórnarskrárvarið hlutverk stofnunarinnar.

Með hliðsjón af framansögðu sé skorað á nefndina að úrskurða að Tryggingastofnun beri að endurskoða umrædda bótareikning og leiðrétta bótagreiðslur til kæranda. Það megi glöggt sjá á gögnum málsins að ofstæki og óréttmæt sjónarmið hafi ráðið för við endurútreikninga bóta árið 2019.

Kærð ákvörðun ætti að vera gerð undir nafni og vera birt undir nafni þess sem kunngeri hana. Enn fremur ætti að þykja ástæða til að fela hæfum aðila verkefnin sem hafi sannanlega hæfi og kunnáttu til þeirra verka sem vinna eigi. Kærandi fari því fram á það við úrskurðarnefndina að benda Tryggingastofnun á að fylgja upplýsingalögum og áliti umboðsmanns Alþingis og upplýsa hver felldi þennan úrskurð svo og hver skrifaði svarbréfið fyrir hönd stofnunarinnar.

Skilningur Tryggingastofnunar sé sá að þar sem bótaréttur ákvarðist af skattskyldum tekjum, til dæmis árið 2018, þá skuli gengið út frá skattskyldum tekjum árið eftir við endurreikninga til að nota sömu regluna. Því skuli endurreikna bótarétt vegna ársins 2018 með skattskyldum tekjum ársins 2018 og nota hann við endurreikningana.

Í svarbréfi Tryggingastofnunar, dags. 24. janúar 2022, vegna fyrirspurnar frá 29. nóvember 2021 þar sem farið hafi verið fram á endurskoðun bótaútreikninga áranna 2017, 2018 og 2019 hafi verið vísað til ósanninda en stofnunin hafi ekki séð sér fært að svara því erindi. Athygli sé vakin á því að reiknivélin á vef stofnunarinnar skerði með fjármagnstekjum undir frítekjumarki og endurreikni bótarétt ársins með tekjuáætlun sé tekjuáætlun breytt fyrir einn mánuð. Þó svo að tekjur rétt yfir frítekjumarki lækki undir frítekjumark þá taki reiknivélin ekki mið af því og skerði, þrátt fyrir frítekjumark á launatekjur. Í tengslum við þetta geti það verið lagaskylda úrskurðarnefndarinnar að fá skýringar á því hvers vegna reiknivélin virði ekki frítekjumörk og hvers vegna ekki standi til boða að reikna bætur eftir mánaðareglunni.

Markmið Tryggingastofnunar sé að tryggja bótaþegum fé til framfærslu og möguleika til mannsæmandi lífs. Hluti af því sé að bæta mönnum upp það sem á vanti, ef þeir afli ekki nægra tekna sér til framfærslu.

Undirstrikað sé að lög nr. 97/2019 hafi verið í gildi þegar endurreiknað hafi verið vegna ársins 2018. Því hafi endurreikningur fyrir bótaárið 2018 átt að vera reiknaður með þeirri reglu árið 2019 en það hafi ekki verið gert. Tryggingastofnun beri að taka það ár með þar sem lögin taki til endurreikninga sem gerðir hafi verið eftir gildistöku laganna.

Í athugasemdum kæranda frá 26. júní 2022 kemur fram að það sem hann hafi lesið út úr svari stofnunarinnar sé að sóttar hafi verið réttar upplýsingar til Skattsins og að það eitt og sér sé fullnægjandi. Talað sé um bótagreiðslur og bótarétt í reglugerð nr. 598/2009 en í svarbréfi sé aldrei talað um bótagreiðslur heldur einvörðungu réttindi. Líta megi þannig á að séu „réttindi“ á mánaðargrunni minni en núll, þá sé um skattheimtu að ræða og misbeitingu á heimildum til að skerða. Frítekjumörk séu réttindi sem Tryggingastofnun beri að taka mið af. Rétt hugsun og réttar skilgreiningar séu þannig að bótaþegi eigi aldrei að hafa minna en fullan bótarétt, þrátt fyrir atvinnutekjur þá mánuði sem hann njóti atvinnutekna. Tryggingastofnun noti staðgreiðsluskrá þegar stofnuninni henti. Í svarbréfi sé því líka neitað að stofnuninni beri að gera bótaþegum aðvart ef réttur myndist. Þeir eigi sjálfir að gæta réttar síns gagnvart stofnuninni og eigi engan rétt ef þeir geri ekki kröfur um hann eða viti ekki af honum.

Vandinn virðist liggja í því að samkvæmt lögum um almannatryggingar að geti menn orðið heilbrigðir geti þeir séð fyrir sér um lengri eða skemmri tíma. Engu að síður sé ljóst að Tryggingastofnun hafi aldrei virt frítekjumark á fjármagnstekjur og svari því ekki hvort henni sé það heimilt. Þá svari stofnunin því aldrei hvort henni sé skylt að nota mánaðaregluna. Í ljósi þess sjái kærandi engan tilgang í því að senda úrskurðarnefnd öll þau gögn sem Tryggingastofnun hafi sent, nema í trausti þess að gögnin fái aukið vægi.

Það sé áréttað að kærandi hafi ævinlega haldið því fram að skuldsetning Tryggingastofnunar sé ólögmæt. Það eitt að frítekjumark á fjármagnstekjur hafi aldrei verið virt geri skuldsetninguna ólögmæta. Það sé með ólíkindum að Tryggingastofnun skuli vísa til laga sem geri það lögmætt að hafa frítekjumörk að engu. Auk þess sé það með ólíkindum að lög um almannatryggingar skuli gera 109. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt merkingarlausa í stað þess að líta svo á að hún geti ekki heimilað Tryggingastofnun að nota aðra reglu við bótaútreikninga kæranda en mánaðaregluna þar sem rekstrarfé á kennitölu bótaþega sé ekki framfærsla hans.

Í athugasemdum kæranda frá 27. júní 2022 komi fram að Tryggingastofnun ætli að senda nefndinni útreikninga vegna ársins 2019 sem séu ekki þau gögn sem ætti að senda. Rétt væri að senda greiðslukvittanir fyrir greiðslum stofnunarinnar á bankareikning kæranda. Eingöngu slík gögn geti skorið úr um hvort stofnunin sé raunverulega sek um ofsköttun eða bótasvik.

Í athugasemdum kæranda frá 28. júní 2022 komi fram að málsheiti kærunnar sé villandi, þ.e. ofgreiddar bætur. Málið varði ofskertar bætur en ekki ofgreiddar. Bætur kæranda hafi verið ofskertar með því að krefja hann um endurgreiðslu á 104% af raunverulegum bótagreiðslum. Það ætti að teljast skattheimta. Farið sé fram á að málsheitinu verði breytt.

Kærandi hafi farið fram á framvísun greiðslukvittana fyrir umrætt tímabil. Skattagögn vegna ársins 2019 hafi hugsanlega afgerandi þýðingu í málinu þar sem villa ætti að sjást í keyrslu prófjöfnuða í tengslum við endurkröfu og álagningu skatta. Úrskurðarnefndin ætti að geta sótt þessar upplýsingar hjá Skattinum, fengið þær hjá Tryggingastofnun eða kærandi komið þeim til nefndarinnar. Málið snúist um það hvort skattaupplýsingarnar séu réttar með hliðsjón af því sem Tryggingastofnun haldi fram.

Í athugasemdum kæranda frá 27. júlí 2022 komi fram að Tryggingastofnun haldi því fram að bótaútreikningar séu réttir og í samræmi við lög, en svo sé ekki og séu þau rök vitleysa. Lög um almannatryggingar taki af allan vafa um að fjármagnstekjur undir 90.000 kr. skuli ekki teljast til tekna. Samhliða þessu banni reglugerð nr. 598/2009 að fjármagnstekjur undir frítekjumarki séu notaðar við bótaútreikninga. Stofnunin fari hvorki eftir lögum né reglugerðum. Samkvæmt 28. gr. laga um tekjuskatt sé óheimilt að telja vaxtatekjur sem stofnunin noti til að afla tekna og að óheimilt sé með öllu að nota þær við bótaútreikninga. Það geti aldrei verið annað en skattheimta eða fjárdráttur að skerða bætur um meira en 100% með fjárhæðum sem óheimilt sé að nota.

Tryggingastofnun standi við þá kröfu um skattheimtuheimildir að reikna ekki mánaðaregluna árið 2019 vegna uppgjörs ársins 2018 og stundi því skattheimtu í trássi við lög nr. 97/2019, en þau eigi að taka til endurreikninga sem fram fari eftir 1. janúar 2019. Sé litið til þess að í framhaldinu hafi kærandi farið undir lágmarksframfærsluviðmið og hafi stofnunin átt verða þess vör með eftirliti sínu. Þá hafi kæranda verið boðinn lengdur greiðslusamningur þegar rétt hefði verið að fella endurkröfur niður. Brotið sem um sé að ræða gæti varðað 6., 130., 262. og 292. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 109. gr. laga um tekjuskatt. Þetta framferði ætti að varða refsiábyrgð stjórnvalds í samræmi við 19. gr. b. og 19. gr. c. almennra hegningarlaga. Kærandi fari fram á að úrskurðarnefndin úrskurði samkvæmt 6. og 19. gr. d. í almennum hegningarlögum og svipti stofnunina og ríkissjóð skerðingarréttinum vegna misbeitingar til óréttmætrar tekjuöflunar og ólögmæts ávinnings.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kærð sé synjun stofnunarinnar á að endurupptaka bótauppgjör áranna 2017, 2018 og 2019.

Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins sé vísað til laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, varðandi hvað skuli teljast til tekna. Til tekna samkvæmt III. kafla laga um almannatryggingar teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki teljist til tekna og frádráttarliða samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum.

Í a-lið 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar sé fjallað um fjármagnstekjur og þá segi: „Tekjur umfram 90.000 kr. á ári skv. C-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skulu teljast til tekna við útreikning á … örorkulífeyri, örorkustyrk, aldurstengdri örorkuuppbót og tekjutryggingu skv. 18.–19. gr. og 21.–22. gr. þessara laga.“

Í 5. mgr. 18. laga um almannatryggingar sé kveðið á um áhrif tekna á örorkulífeyri samkvæmt 16. gr. laga um almannatryggingar.

Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Bótaþegi beri ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur og beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki, sbr. 1. mgr. 39. gr. sömu laga og 3. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, en þar komi fram að bótaþega sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi sé bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á greiðslur.

Í 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags. Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem fram koma í skattframtölum.

Í 11. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar komi fram að þrátt fyrir ákvæði 5. mgr. sé við útreikning á greiðslum samkvæmt 17.–19. gr. og 21.–23. gr. laga þessara, sbr. einnig 13. gr. laga um félagslega aðstoð, heimilt að telja atvinnutekjur til tekna bótaþega einungis í þeim mánuði þegar þeirra sé aflað. Tryggingastofnun ríkisins skuli við endurreikning bótafjárhæða, sbr. 7. mgr., gera samanburð á útreikningi heildargreiðslna hvers mánaðar, annars vegar miðað við 1/12 af atvinnutekjum ársins og hins vegar miðað við atvinnutekjur í þeim mánuðum sem þeirra sé aflað. Beita skuli þeirri reglu sem leiði til hærri greiðslna.

Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafi verið ofgreiddar fari um það samkvæmt 55. gr. laganna. Þar komi fram sú skylda Tryggingastofnunar til að innheimta ofgreiddar bætur. Sú meginregla sé ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Á umræddu tímabili hafi kærandi verið með örorkumat í gildi hjá Tryggingastofnun og hafi notið þeirra réttinda sem hann hafi átt á grundvelli þess mats.

Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 23. ágúst 2018, hafi niðurstöður uppgjörs ársins 2017 verið kynntar. Þar komi fram að heildargreiðslur kæranda hafi verið 2.170.621 kr. en réttindi endurreiknuð í samræmi við skattframtal hafi hins vegar verið 2.165.467 kr. Um mismun að upphæð 5.154 kr. hafi verið að ræða og að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta hafi staðið eftir krafa til innheimtu að fjárhæð 3.250 kr.

Orsök þessa mismunar á réttindum hafi verið misræmi í tekjuáætlun og endanlegum tekjum samkvæmt skattframtali. Í tekjuáætluninni hafi verið gert ráð fyrir 1.991.664 kr. launatekjum og frádrætti í iðgjald í lífeyrissjóð að upphæð 79.656 kr. og 1.236 kr. í fjármagnstekjur.

Endanlegar tekjur samkvæmt skattframtali hafi hins vegar verið 541.155 kr. í launatekjur, 1.200.000 kr. í reiknað endurgjald, 254.089 kr. í hagnað af atvinnustarfsemi, 69.646 kr. iðgjald í lífeyrissjóð til frádráttar og 757 kr. í fjármagnstekjur.

Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 22. maí 2019, hafi niðurstöður uppgjörs ársins 2018 verið kynntar. Komi þar fram að heildargreiðslur kæranda frá stofnuninni hafi verið 2.495.417 kr. en endurreiknuð réttindi í samræmi við skattframtal hafi hins vegar verið 1.463.995 kr. Um mismun að upphæð 1.031.422 kr. hafi verið að ræða og að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta hafi staðið eftir krafa til innheimtu að fjárhæð 650.415 kr.

Orsök þessa mismunar á greiddum réttindum og endanlegum réttindum samkvæmt uppgjöri hafi verið misræmi í tekjuáætlun sem greiðslur stofnunarinnar hafi tekið mið af og endanlegum tekjum kæranda á skattframtali.

Í upphafi ársins hafi Tryggingastofnun gert tillögu að tekjuáætlun sem gert hafi ráð fyrir 3.634.196 kr. í atvinnutekjur og 1.656 kr. í fjármagnstekjur og fram til 16. maí hafi greiðslur tekið mið af þessum tekjuforsendum, eða þar til réttindi kæranda hafi tekið breytingum í kjölfar breytinga á tekjuáætlun sem kærandi hafi gert þann 15. maí. Þar hafi kærandi lækkað atvinnutekjur niður í 800.000 kr. og hafi greiðslur ársins þá tekið mið af þeim tekjuforsendum.

Þann 23. nóvember hafi kærandi breytt tekjuáætlun aftur og hækkað áætlaðar launatekjur upp í 2.000.000 kr. fyrir árið 2018 sem og að fjármagnstekjur yrðu 1.656 kr. og hafi réttindi kæranda verið reiknuð á þeim forsendum frá sama degi.

Uppgjör ársins 2018 hafi verið reiknað á grundvelli skattframtals vorið 2019 og hafi þá komið fram að tekjur kæranda hafi verið 1.900.000 kr. í reiknað endurgjald, 1.922.451 kr. í hagnað af atvinnurekstri, 76.002 kr. iðgjald í lífeyrissjóð til frádráttar og 941 kr. í fjármagnstekjur.

Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 22. maí 2020, hafi niðurstöður uppgjörs ársins 2019 verið kynntar. Hafi þar komið fram að heildargreiðslur kæranda frá stofnuninni hafi verið 1.912.138 kr. en réttindi endurreiknuð í samræmi við skattframtal hafi hins vegar verið 9.038 kr. Um mismun að upphæð 1.903.100 kr. hafi verið að ræða og að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta hafi staðið eftir krafa til innheimtu að fjárhæð 1.874.117 kr.

Orsök þessa mismunar hafi verið misræmi í tekjuáætlun og endanlegum tekjum samkvæmt skattframtali. Á tekjuáætluninni hafi verið gert ráð fyrir 3.120.000 kr. í launatekjur og 124.800 kr. frádrætti frá launatekjum í iðgjald í lífeyrissjóð og 1.656 kr. í fjármagnstekjur.

Endanlegar tekjur samkvæmt skattframtali hafi hins vegar verið 2.550.000 kr. í reiknað endurgjald, 3.196.426 kr. í hagnað af atvinnustarfsemi, 102.000 kr. iðgjald í lífeyrissjóð til frádráttar og 3.121 kr. í fjármagnstekjur.

Í kæru komi fram nokkrar athugasemdir sem rétt sé að fara yfir.

Í fyrsta lagi hafi Tryggingastofnun farið ítarlega yfir þau ár sem kærandi vilji láta taka upp á nýjan leik og endurreikna. Ekki sé ástæða til þess að taka upp uppgjör á nýjan leik þar sem útreikningar séu réttir. Kærandi hafi notið þeirra réttinda sem hann hafi átt að njóta.

Í öðru lagi hafi kærandi vísað til laga nr. 97/2019. Með þeim hafi verið bætt við 16. gr. laga um almannatryggingar nýrri 11. mgr. en þar segi að þrátt fyrir ákvæði 5. mgr. sé við útreikning á greiðslum samkvæmt 17.–19. gr. og 21.–23. gr. laganna, sbr. einnig 13. gr. laga um félagslega aðstoð, heimilt að telja atvinnutekjur til tekna bótaþega einungis í þeim mánuði þegar þeirra sé aflað. Skuli Tryggingastofnun ríkisins við endurreikning bótafjárhæða, sbr. 7. mgr., gera samanburð á útreikningi heildargreiðslna hvers mánaðar, annars vegar miðað við 1/12 af atvinnutekjum ársins og hins vegar miðað við atvinnutekjur í þeim mánuðum sem þeirra sé aflað. Beita skuli þeirri reglu sem leiði til hærri greiðslna.

Ákvæðið hafi tekið gildi þann 1. janúar 2019 og eigi því ekki við um árin 2017 og 2018. Á árinu 2019 hafi kærandi verið með reiknað endurgjald sem sé jafndreift yfir árið og tekjur af atvinnurekstri sem birtist ekki á staðgreiðsluskrá. Ákvæði laganna eigi því ekki við í tilviki kæranda.

Í þriðja lagi óski kærandi eftir upplýsingum um nafn, starfsheiti og starfstitil þess starfsmanns sem hafi sent honum bréf, dags. 25. mars 2022, og hans næsta yfirmanns. Rétt sé að taka fram að kærandi hafi ekki óskað eftir þessum upplýsingum frá Tryggingastofnun, en viðkomandi starfsmaður sé B verkefnastjóri og hans næsti yfirmaður sé C, settur aðstoðarframkvæmdastjóri.

Í fjórða lagi óski kærandi eftir upplýsingum um nafn, starfsheiti og starfstitil þess starfsmanns sem hafi gert endurreikning bóta og þess sem hafi gert kynningarblað vegna endurreiknings bóta, dags. 22. maí 2022. Um sé að ræða sjálfvirka tölvukeyrslu þar sem enginn starfsmaður komi að einstökum endurreikningi eða myndun einstakra bréfa og séu því ekki forsendur til að undirrita þau bréf. Hvað varði ábyrgð á þeirri framkvæmd vísist til 3. mgr. 12. gr. laga um almannatryggingar.

Í fimmta lagi komi kærandi með athugasemd er varði ákvörðun Tryggingastofnunar um að dreifa endurkröfu á hendur kæranda á lengra tímabil en gert hafi verið í upphafi. Kærandi hafi ekki óskað eftir neinum upplýsingum frá Tryggingastofnun varðandi ákvörðun stofnunarinnar, dags. 15. nóvember 2021.

Kærandi hafi sent tölvupóst þann 9. nóvember 2021 þar sem fram komi ósk hans um að ganga frá málum hans gagnvart stofnuninni. Í kjölfarið hafi verið ákveðið að dreifa endurkröfu á 48 mánuði í stað þeirra 12 sem venjulega sé miðað við, sbr. bréf Tryggingastofnunar, dags. 15. nóvember 2021, og tölvupóst, dagsettan sama dag. Erindi kæranda hafi ekki verið túlkað sem beiðni um niðurfellingu og hafi því ekkert mat þess eðlis farið fram á aðstæðum kæranda. Kærandi geti alltaf sótt um niðurfellingu eða lækkun á ofgreiðslukröfu á grundvelli 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

Tryggingastofnun hafi farið ítarlega yfir mál kæranda og telji ekki ástæðu til þess að breyta fyrri ákvörðun sinni um að synja kæranda um endurupptöku.

Að lokum sé rétt að taka fram að telji úrskurðarnefnd að einhverjum atriðum í kæru sé ósvarað muni Tryggingastofnun svara þeim atriðum, óski nefndin eftir því.

IV.  Niðurstaða

Kærð er synjun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 25. mars 2022, á beiðni um endurupptöku bótauppgjöra áranna 2017, 2018 og 2019.

Í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé kveðið á um rétt aðila máls til þess að fá mál sitt tekið til meðferðar á ný. Ákvæði 1. mgr. 24. gr. sé svohljóðandi:

„Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:

1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölul. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tölul. 1. mgr. var byggð á, verður beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verður þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.“

Eins og áður hefur komið fram lýtur endurupptökubeiðni kæranda að synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 25. mars 2022 um endurupptöku uppgjörs vegna tekjuársins 2017, dags. 23. ágúst 2018, vegna tekjuársins 2018, dags. 22. maí 2019, og vegna tekjuársins 2019, dags. 22. maí 2020. Beiðni kæranda um endurupptöku barst Tryggingastofnun 29. nóvember 2021.

Af beiðni kæranda um endurupptöku má ráða að hún sé byggð á því að endurreikningar og uppgjör Tryggingastofnunar vegna framangreindra tekjuára hafi verið röng. Í því sambandi tilgreinir kærandi meðal annars að frítekjumark á fjármagnstekjur hafi ekki verið virt og að stofnunin hafi ekki beitt ákvæði 11. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar, sbr. lög nr. 97/2017, þar sem komi fram að heimilt sé að telja atvinnutekjur til tekna bótaþega einungis í þeim mánuði þegar þeirra sé aflað.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ekki verði ráðið af gögnum málsins að ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör áranna 2017, 2018 og 2019 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða að íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hafi byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun var tekin, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá verður ekki séð að kærandi eigi rétt á endurupptöku málsins á grundvelli ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar. Að mati úrskurðarnefndar er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að umræddir endurreikningar hafi verið rangir. Auk þess verður ekki ráðið af gögnum málsins að veigamiklar ástæður mæli með endurupptöku, sbr. 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Með hliðsjón af framangreindu er synjun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 25. mars 2022, um endurupptöku ákvarðana um endurreikning og uppgjör áranna 2017, 2018 og 2019, staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Synjun Tryggingastofnunar ríkisins um endurupptöku endurreikninga og uppgjöra áranna 2017, 2018 og 2019 í máli A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta