1170/2024. Úrskurður frá 18. janúar 2024
Hinn 18. janúar 2024 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1170/2024 í máli ÚNU 23110005.
Kæra, málsatvik og málsmeðferð
Með erindi, dags. 20. nóvember 2023, kærði A synjun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur á beiðni hans um aðgang að kæru eftirlitsins til lögreglu í máli Vy-Þrifa ehf. Kærandi óskaði hinn 17. nóvember 2023 eftir aðgangi að kærunni. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur synjaði honum um aðgang að kærunni hinn 20. nóvember sama ár, þar sem hún væri undanþegin gildissviði upplýsingalaga á þeim grundvelli að hún væri hluti af rannsókn sakamáls, sbr. 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012. Í kæru til úrskurðarnefndarinnar byggir kærandi á því að ákvæðið eigi ekki við í málinu.
Kæran var kynnt Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur með erindi, dags. 23. nóvember 2023, og eftirlitinu veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um kæruna. Jafnframt var þess óskað að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur léti úrskurðarnefnd um upplýsingamál í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.
Umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur ásamt umbeðnu gagni bárust úrskurðarnefndinni hinn 1. desember 2023. Í henni kemur fram að leitað hafi verið ráðgjafar ráðgjafa um upplýsingarétt almennings um það hvaða gögn málsins bæri að afhenda. Ráðgjafinn hafi tjáð eftirlitinu að úrskurðarframkvæmd úrskurðarnefndar um upplýsingamál væri misvísandi um túlkun á inntaki 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga en að hafa mætti hliðsjón af 6. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, sem mælti fyrir um sambærilega takmörkun á upplýsingarétti aðila að stjórnsýslumáli. Umboðsmaður Alþingis hafi meðal annars túlkað ákvæðið á þann veg að frá þeim tíma sem eftirlitsstjórnvald, sem að lögum hefði ekki það verkefni með höndum að rannsaka hvort framin hefði verið refsiverð háttsemi, hæfi athugun á málefnum eftirlitsskylds aðila og þar til það tæki ákvörðun um að rétt væri að vísa máli til lögreglu, gæti málið ekki fallið undir takmörkunarákvæðið, sbr. álit umboðsmanns í máli nr. 3309/2001.
Í samræmi við framangreint hafi Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur ákveðið að veittur skyldi aðgangur að þeim hluta gagna málsins sem hafi orðið til fram að þeim tíma sem tekin var ákvörðun um að vísa málinu til lögreglu. Heilbrigðiseftirlitið telji að kæran sé gagn sem hafi orðið til eftir að tekin var ákvörðun um að vísa málinu til lögreglu, og að hún sé þannig undanskilin gildissviði upplýsingalaga, sbr. 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga.
Umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur var kynnt kæranda með bréfi, dags. 5. desember 2023, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Kærandi brást við erindi nefndarinnar samdægurs og kvaðst ítreka fyrri kröfu um aðgang að kærunni. Hinn 14. desember 2023 bárust nefndinni frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur afrit af eftirlitsskýrslum í málinu auk bréflegra samskipta milli eftirlitsins og Vy-Þrifa.
Niðurstaða
Mál þetta varðar ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur að synja beiðni kæranda um aðgang að kæru eftirlitsins til lögreglu í máli Vy-Þrifa ehf. Fyrir liggur að eftirlitið taldi fyrirtækið hafa brotið fjölmörg ákvæði laga um matvæli, nr. 93/1995, og reglugerða sem settar hafa verið með stoð í þeim. Um væri að ræða alvarleg brot sem gætu hafa ógnað öryggi neytenda og valdið þeim heilsutjóni ef matvælin hefðu ratað til neytenda með beinum eða óbeinum hætti. Ákvað eftirlitið með vísan til 4. mgr. 31. gr. laga nr. 93/1995 að kæra meint brot Vy-Þrifa á matvælalögum til lögreglu.
Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur starfar í umboði heilbrigðisnefndar Reykjavíkurborgar og sér m.a. um að framfylgja lögum um matvæli og sinnir samkvæmt 1. mgr. 22. gr. laganna opinberu eftirliti undir yfirstjórn Matvælastofnunar með framleiðslu og dreifingu matvæla. Heilbrigðisnefnd hefur heimildir til að beita þvingunarúrræðum samkvæmt 30. gr. til 30. gr. c laganna, og skal við meðferð slíkra mála fara eftir ákvæðum stjórnsýslulaga og öðrum reglum stjórnsýsluréttar, sbr. 30. gr. d laganna. Í 1. mgr. 31. gr. laganna kemur fram að brot gegn ákvæðum laganna og stjórnvaldsreglum settum samkvæmt þeim varði sektum hvort sem þau eru framin af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Sé um stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot að ræða skulu þau að auki varða fangelsi allt að fjórum árum. Í 4. mgr. sömu greinar segir að mál út af brotum samkvæmt greininni skuli sæta meðferð samkvæmt lögum um meðferð sakamála.
Ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur að synja kæranda um aðgang að kæru til lögreglu er byggð á 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, þar sem mælt er fyrir um að lögin gildi ekki um rannsókn sakamáls eða saksókn. Í athugasemdum við 4. gr. í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum er tilgreint að um aðgang að gögnum í slíkum málum fari að sérákvæðum laga um meðferð sakamála. Þær reglur sem mæla fyrir um aðgang að rannsóknargögnum sakamáls tryggja almenningi ekki rétt til aðgangs að gögnunum. Þar sem 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga þrengir gildissvið laganna og rétt almennings til aðgangs að gögnum mála sem þar er mælt fyrir um verður að leggja til grundvallar að ákvæðið skuli túlkað þröngri lögskýringu. Þannig teljist það að meginstefnu aðeins til rannsóknar sakamáls þegar mál er rannsakað með það að markmiði að komast að raun um hvort refsiverð háttsemi hafi verið viðhöfð og skapa viðhlítandi grundvöll undir ákvörðun um hvort ákæra verði gefin út. Ljóst er samkvæmt ákvæðum laga um matvæli að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur ekki það hlutverk með höndum.
Úrskurðarnefndin telur að sú kæra sem óskað hefur verið aðgangs að í málinu beri ekki annað með sér en að hafa orðið til eftir að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur ákvað að vísa málinu til lögreglu. Því verður að líta svo á að aðgangur að kærunni verði ekki byggður á ákvæðum upplýsingalaga, sbr. 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga, og synjun um aðgang að henni þannig ekki kærð til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, sbr. 1. mgr. 20. gr. laganna. Verður kærunni því vísað frá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð
Kæru A, dags. 20. nóvember 2023, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson
Sigríður Árnadóttir