Mál nr. 21/2015
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 25. ágúst 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 21/2015.
1. Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 4. júlí 2014, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans sökum þess að hann hafi verið að vinna hjá B samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Var það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skyldi ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefði starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Þá var kæranda gert að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur, samtals að fjárhæð 309.604 kr. með 15% álagi, vegna tímabilsins frá 1. mars 2012 til 20. apríl 2012. Þann 10. desember 2014 var málið sent Innheimtumiðstöð sýslumannsins á Blönduósi til innheimtu. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 9. febrúar 2015. Kærandi krefst þess að endurgreiðslukrafan verði felld niður í heild eða að hluta. Vinnumálastofnun telur að vísa skuli frá þeim þætti kærunnar sem varðar ákvörðun stofnunarinnar um beitingu viðurlaga skv. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þá telur stofnunin að rétt hafi verið staðið að innheimtu skuldar kæranda við stofnunina.
Í kæru kæranda kemur fram að hann sé nú þegar í atvinnuleit en geti ekki skráð sig á atvinnuleysisskrá og þegið bætur vegna málsins. Skuldir við lánardrottna hlaðist því upp. Hann hafi fyrst fengið gögn í hendurnar um þetta mál á árinu 2015. Aldrei hafi verið hringt eða sendur tölvupóstur. Kærandi hafi ekki haft fasta búsetu um langa hríð og þar með ekki fengið póst um þetta mál.
Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða segir að ákvörðun stofnunarinnar um beitingu viðurlaga hafi verið tekin á fundi stofnunarinnar þann 1. júlí 2014 og bréf, dags. 4. júlí 2014, hafi verið sent bæði á lögheimili kæranda og annað heimilisfang samkvæmt póstfangaskrá. Bæði bréfin hafi verið endursend. Ljóst sé að þriggja mánaða kærufrestur skv. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé liðinn. Að mati stofnunarinnar beri kærandi hallann af því að hafa ekki móttekið bréf stofnunarinnar, sem hafi verið send eftir löglegum boðleiðum. Þá sé í 20. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, mælt fyrir um birtingu ákvörðunar. Ekki sé mælt fyrir um sérstakan birtingarhátt í lögunum en víða í sérlögum sé að finna ákvæði um birtingarhátt ákvarðana. Í athugasemdum með 4. gr. frumvarps er hafi orðið að lögum nr. 134/2009 sé sérstaklega tekið fram að bréf á lögheimili hlutaðeigandi teljist tilkynning með sannanlegum hætti.
Þann 10. desember 2014 hafi innheimta á skuld kæranda verið send til Innheimtumiðstöðvar sýslumannsins á Blönduósi. Þann þátt kærunnar telji stofnunin að taka eigi til efnislegrar meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 1. apríl 2015, sent afrit af bréfi Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.
2. Niðurstaða
Stjórnsýslukæra skal berast úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæra telst nægjanlega snemma fram komin ef bréf sem hefur hana að geyma hefur borist nefndinni eða verið afhent pósti áður en fresturinn er liðinn, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Kæra kæranda barst úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 9. febrúar 2015. Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda og að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram í bréfi stofnunarinnar, dags. 4. júlí 2014, tæplega sjö mánuðum áður en kæran barst úrskurðarnefndinni. Af kæru má ráða að ágreiningur málsins lýtur að framangreindri viðurlagaákvörðun stofnunarinnar en ekki þeirri ákvörðun að láta Innheimtumiðstöð sýslumannsins á Blönduósi sjá um innheimtuna. Þá var kæranda leiðbeint um þriggja mánaða kærufrest til úrskurðarnefndarinnar í viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunarf frá 4. júlí 2014. Ákvörðunin var meðal annars send á lögheimili kæranda og því telur úrskurðarnefndin að hún hafi verið birt með fullnægjandi hætti. Með vísan til framanritaðs er það mat úrskurðarnefndarinnar að kæran hafi borist að liðnum kærufresti.
Ekkert í gögnum málsins gefur til kynna að afsakanlegt hafi verið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti og engar veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Af þessum sökum verður að vísa máli þessu frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.
Úrskurðarorð
Kæru A til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða er vísað frá.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson