Mál nr. 26/2015
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 3. september 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 26/2015.
1. Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 3. febrúar 2015, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum 27. janúar 2015 fjallað um rétt hennar til greiðslu atvinnuleysisbóta. Tekin hafi verið sú ákvörðun að fella niður greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar frá og með 27. janúar 2015 í tvo mánuði, sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir með vísan til 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kæranda var jafnframt í sama bréfi tilkynnt að hún hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur, samtals 38.782 krónur, sem yrðu innheimtar samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Mál kæranda var tekið fyrir að nýju hjá Vinnumálastofnun í kjölfar erindis sem barst stofnuninni þann 11. febrúar 2015. Með bréfi, dags. 26. febrúar 2015, tilkynnti Vinnumálstofnun kæranda að það hafi verið mat stofnunarinnar að staðfesta bæri fyrri ákvörðun, enda hafi sú ákvörðun að geyma efnislega rétta niðurstöðu þrátt fyrir að ný gögn í málinu hafi borist. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 3. mars 2015. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að rétt hafi verið staðið að ákvörðun í máli kæranda.
Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 5. maí 2014 og reiknaðist með 69% bótarétt. Með bréfi, dags. 8. janúar 2015, var kæranda tilkynnt að við samkeyrslu gagnagrunna Vinnumálastofnunar og Ríkisskattstjóra hafi komið fram upplýsingar um ótilkynntar tekjur kæranda í október 2014 frá Greiðslustofu lífeyrissjóðsa og Lífeyrissjóðum Bankastræti 7. Óskað var skriflegra skýringa á þessum ótilkynntu tekjum frá kæranda. Skýringar kæranda bárust stofnuninni með tölvupósti þann 14. janúar 2015 þar sem hún greindi frá að hún hafi ekki gert sér grein fyrir því að hún þyrfti að láta stofnunina vita um svo lágar greiðslur.
Með bréfi, dags. 3. febrúar 2015, var kæranda tilkynnt um viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar. Í kjölfarið barst stofnuninni bréf, dags. 11. febrúar 2015, sem starfsmaður Vinnumálastofnunar ritaði fyrir hönd kæranda þar sem farið var fram á niðurfellingu biðtímans. Mál kæranda var tekið fyrir að nýju með tilliti til nýrra gagna og með bréfi, dags. 26. febrúar 2015, var kæranda tilkynnt um að fyrri ákvörðun stofnunarinnar vær staðfest.
Af hálfu kæranda kemur fram í kæru að þegar að hún hafi sótt um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun hafi hún spurt starfsmann á upplýsingaborði hvort henni væri heimilt að taka út lífeyri. Starfsmaðurinn hafi svarað henni játandi og í kjölfarið hafi hún sótt um lífeyristöku og hafi hún fengið fyrstu greiðslur í haust. Þá hafi komið í ljós að hún hafi átt að tilkynna það sérstaklega en starfsmaðurinn sem hún hafi talað við á upplýsingaborðinu hafi ekki minnst einu orði á tilkynningarkyldu svo að það hafi komið henni í opna skjöldu. Kærandi sé ósátt við þessa upplýsingagjöf og eins tveggja mánaða biðtímann sem komi henni mjög illa. Hún hafi enga sjóði að hlaupa í og sé aðeins með 69% bótahlutfall.
Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 20. apríl 2015, vísar Vinnumálastofnun til þess að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir.
Bent er á að ákvörðun um að fella niður rétt til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, sé tekin á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Á þeim sem fái atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun hvíli rík skylda til að sjá til þess að stofnunin hafi réttar upplýsingar um hagi viðkomandi, sér í lagi þær upplýsingar sem geti ákvarðað rétt aðila til atvinnuleysisbóta. Í lögum um atvinnuleysistryggingar sé að finna ákvæði þar sem þessi skylda sé ítrekuð. Í 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé skýrt tekið fram að sá sem teljist tryggður á grundvelli laganna skuli upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunni að verða á högum hans á þeim tíma er hann fái greiddar atvinnuleysisbætur eða annað það sem kunni að hafa áhrif á rétt hans.
Í 2. mgr. 14. gr. laganna sé einnig mælt fyrir um þessa upplýsingaskyldu umsækjenda um atvinnuleysisbætur. Þar komi fram að atvinnuleitanda beri án ástæðulauss dráttar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 37/2009 segi meðal annars að „láti atvinnuleitandi hjá líða að veita Vinnumálastofnun þessar upplýsingar sem og í þeim tilvikum þegar rangar upplýsingar eru gefnar kemur til álita að beita viðurlögum skv. 59. gr. laganna“.
Af þessum ákvæðum sé ljóst að hinum tryggða beri að tilkynna fyrirfram um tekjur til stofnunarinnar. Á heimasíðu Vinnumálastofnunar sé að finna greinargóðar leiðbeiningar um tilkynningu um tekjur og að auki sé farið ítarlega yfir þær reglur á svokölluðum starfsleitarfundum stofnunarinnar, en kærandi hafi mætt á slíkan fund þann 13. maí 2015.
Þar sem kærandi hafi látið hjá líða að tilkynna stofnuninni fyrirfram um tekjur sínar beri henni að sæta viðurlögum skv. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þá beri kæranda að endurgreiða stofnuninni ógreiddar atvinnuleysisbætur sem hún hafi fengið sökum þess að ekki hafi legið fyrir tekjuáætlun hjá stofnuninni. Greiðslur atvinnuleysisbóta til handa kæranda hafi verið skertar afturvirkt í samræmi við 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Kæranda beri í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Samkvæmt ákvæðinu sé Vinnumálastofnnun skylt að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta. Í athugaemdum við 39. gr. frumvarps er varð að lögum nr. 54/2006 sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum tilvikum sem kunna að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur.
Í máli þessu liggi fyrir að kærandi hafi fengið greiddar lífeyrissjóðsgreiðslur samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta. Tekjur sem þessar skuli koma til frádráttar á greiðslum atvinnuleysisbóta samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Greiðslur atvinnuleysisbóta til handa kæranda hafi verið skertar afturvirkt og af þeim sökum hafi myndast skuld, samtals að fjárhæð 38.872 krónur sem henni beri að endurgreiða stofnuninni í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 29. apríl 2015, send greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.
2. Niðurstaða
Óumdeilt er að kærandi tilkynnti Vinnumálastofnun ekki um tekjur sem hún fékk greiddar frá Greiðslustofu lífeyrissjóða og Lífeyrissjóðum Bankastræti 7. Kærandi byggir hins vegar á því að hún hafi ekki vitað að hún þyrfti að tilkynna um svo lágar tekjur. Fram kemur í kæru að hún hafi fengið þau svör frá starfsmanni Vinnumálastofnunar, þegar hún sótti um atvinnuleysisbætur, að henni væri heimilt að taka út lífeyri en henni hafi ekki verið leiðbeint um að hún þyrfti að tilkynna um slíkar tekjur.
Erfitt er að segja til um hvað fór nákvæmlega á milli kæranda og starfsmanns Vinnumálastofnunar þegar hún sótti um bætur. Af samskiptasögu kæranda hjá Vinnumálastofnun má hins vegar ráða að viðkomandi starfsmaður hafi farið yfir bækling um réttindi og skyldur umsækjanda um atvinnuleysisbætur með kæranda. Í þeim bæklingi er lögð áhersla á að atvinnuleitendur láti vita af öllum breytingum. Þá kemur fram í samskiptasögunni að kærandi hafi farið á kynningarfund hjá stofnuninni þann 13. maí 2014. Á þeim fundum er einnig farið yfir réttindi og skyldur atvinnuleitenda. Auk þess eru víðtækar upplýsingar um réttindi og skyldur atvinnuleitenda, meðal annars tilkynningaskyldu, á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndarinnar að viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar verði ekki hnekkt á þeim grundvelli að stofnunin hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni.
Þar sem kærandi tilkynnti Vinnumálastofnun ekki um lífeyrisgreiðslur sínar er það mat úrskurðarnefndarinnar að háttsemi hennar falli undir framangreint ákvæði 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um tilkynningarskyldu á breytingu á högum sem hefur áhrif á rétt samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.
Í 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um leiðréttingar á atvinnuleysisbótum og hljóðar 2. mgr. lagagreinarinnar svo:
„Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.“
Lífeyrissjóðstekjur koma til frádráttar á greiðslum atvinnuleysisbóta skv. 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þar sem kærandi tilkynnti ekki um lífeyrissjóðstekjur sínar fékk hún ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 38.782 kr. Kæranda ber því að endurgreiða ofgreiddar bætur skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.
Úrskurðarorð
Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 26. febrúar 2015 í máli A, þess efnis að staðfesta fyrri ákvörðun um viðurlög og endurgreiðslu ofgreiddra bóta, er staðfest.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson