Hoppa yfir valmynd

Nr. 261/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 23. júlí 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 261/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20020053

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 25. febrúar 2020 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Suður-Afríku (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 5. febrúar 2020, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt alþjóðlega vernd hér á landi á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að honum verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 19. ágúst 2019. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun, m.a. þann 27. nóvember 2019, ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 5. febrúar 2020, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 25. febrúar 2020. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 12. mars 2020 ásamt fylgigögnum. Þá bárust kærunefnd frekari gögn frá kæranda þann 12. og 20. maí 2020 og 21. júlí s.á. Í greinargerð óskaði kærandi eftir að fá að koma fyrir nefndina og tjá sig um efni málsins. Kærunefnd taldi ekki ástæðu til að gefa kæranda kost á að koma fyrir nefndina, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki vegna þjóðernis. Þá fái hann ekki viðeigandi heilbrigðisaðstoð í heimaríki af sömu ástæðu.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og vegna sérstakra tengsla við landið skv. 74. gr. og 78. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er vísað til framburðar hans í viðtölum hjá Útlendingastofnun. Þar hafi kærandi greint frá því að hann sé af [...] þjóðarbrotinu. Hann sé fæddur og uppalinn í borginni [...] en hafi flutt til Suður-Afríku árið 2001 vegna persónulegra vandamála og almenns ástands í [...]. Kærandi hafi öðlast suður-afrískan ríkisborgararétt árið 2005 og hafi hann þá þurft að afsala sér [...] ríkisborgararétti sínum. Um ástæður flótta frá Suður-Afríku hafi kærandi greint frá því að hann hafi ítrekað orðið fyrir fordómum, mismunun, ofbeldi og vopnuðum ránum þar í landi vegna uppruna síns og húðlitar. Kærandi hafi margsinnis leitað til lögreglu og lagt fram kvartanir en lögreglan hafi, að undanskildu einu skipti, ekkert aðhafst eða aðstoðað hann. Þá hafi lögreglan rænt eina af verslunum kæranda árið 2009, handtekið fjóra starfsmenn og sett plastpoka yfir höfuð kæranda svo hann hafi næstum því kafnað. Raunir kæranda í Suður-Afríku hafi haft mikil áhrif á andlega og líkamlega heilsu hans og hafi hann verið greindur með áfallastreituröskun og sykursýki. Þá hafi hann fengið hjartaáfall árið 2016 í [...] og gengist undir hjartaþræðingu þar í landi. Þrátt fyrir að kærandi sé ríkisborgari Suður-Afríku hafi hann ekki haft aðgang að opinbera heilbrigðiskerfinu í heimaríki og verið meinað um læknisaðstoð vegna uppruna síns. Þá hafi kærandi greint frá því að bróðir hans sé búsettur hér á landi ásamt fjölskyldu sinni. Hafi hann því komið hingað til lands til að fá stuðning þeirra vegna veikinda sinna.

Í greinargerð kæranda koma fram fjölmargar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar, þá einkum við umfjöllun stofnunarinnar um aðstæður og stöðu einstaklinga af erlendum uppruna í Suður-Afríku. Þrátt fyrir að glæpatíðni sé há í Suður-Afríku telur kærandi ljóst að það ofbeldi sem hann hafi orðið fyrir þar í landi hafi verið vegna þjóðernis hans. Þá mótmælir kærandi harðlega mati stofnunarinnar að hann geti leitað réttar síns vegna framangreindra atburða og fengið viðeigandi vernd í heimaríki. Í því sambandi vísar kærandi í alþjóðlegar skýrslur, þ. á m. skýrslu Human Rights Watch frá árinu 2020. Komi þar m.a. fram að yfirvöldum í Suður-Afríku hafi, þrátt fyrir skýr fyrirheit þar um, ekki tekist að vernda einstaklinga af erlendum uppruna gegn útbreiddu útlendingahatri, mismunun og lögregluofbeldi. Fyrirhugaðar aðgerðaráætlanir er kveði m.a. á um eflingu löggæslu í landinu til þess að sporna við öldu ofbeldis á grundvelli útlendingahaturs hafi ekki tekið gildi. Hafi þær því ekki leitt til raunverulegra breytinga sem geri það að verkum að þolendur ofbeldisglæpa njóti verndar í raun. Auk þess vísar kærandi til árangurslausra tilrauna sinna til að leita aðstoðar lögreglu í landinu og viðkvæmrar stöðu sinnar sem einstaklingur af erlendum uppruna er glími við alvarlega andlega og líkamlega kvilla.

Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi heldur því fram að hann uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir yfirvalda og almennings í heimaríki, annars vegar vegna þjóðernis síns, sbr. c-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, þar sem kærandi sé upprunalega frá [...], og hins vegar vegna aðildar sinnar að tilteknum þjóðfélagshópi, skv. skilgreiningu d-liðar 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, þar sem uppruni kæranda og staða í heimaríki sé frábrugðin öðrum í suður-afrísku samfélagi og feli í sér einkenni og bakgrunn sem verði ekki breytt. Kærandi hafi upplifað ólögmæta mismunun og ofbeldi af hendi almennings og lögreglu í heimaríki vegna uppruna síns og stöðu. Þá hafi hann búið við ótryggt öryggisástand af þeim sökum. Þegar aðstæður kæranda í heimaríki eru teknar saman telur hann að þær nái því marki að teljast ofsóknir í skilningi 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga á þeim grundvelli að um samansafn athafna sé að ræða.

Verði ekki fallist á aðalkröfu kæranda er til vara gerð sú krafa að kæranda verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Með hliðsjón af því sem rakið hafi verið í tengslum við aðalkröfu kæranda sé ljóst að hann eigi á hættu að sæta ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í heimaríki vegna uppruna síns. Verði kæranda gert að snúa aftur til [...] telji hann jafnframt að það brjóti gegn grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki myndi slík ákvörðun brjóta í bága við 33. gr. Flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.

Til þrautavara gerir kærandi kröfu um að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Krafa kæranda er, með vísan til framangreinds, byggð á því að mál hans uppfylli skilyrði ákvæðisins um félagslegar aðstæður og erfiðar almennar aðstæður í heimaríki. Þá er krafa kæranda byggð á því að hann hafi ríka þörf fyrir vernd af heilbrigðisástæðum. Kærandi kveði að hann hafi þróað með sér áfallastreituröskun í kjölfar áralangs ofbeldis sem hann hafi orðið fyrir í heimaríki. Þá hafi hann, af sömu ástæðu, fengið hjartaáfall árið 2016 og glími hann enn við eftirköst þess. Jafnframt sé hann með sykursýki. Kærandi hafi fengið lyf vegna framangreinds hér á landi og þá sé hann í sálfræðimeðferð vegna áfallastreituröskunar sem hann telji óforsvaranlegt að rjúfa. Kæranda hafi hins vegar verið synjað um aðgang að heilbrigðiskerfinu í heimaríki og hafi hann því ekki fengið læknismeðferð vegna framangreinds þar í landi. Að því virtu og að teknu tilliti til heimilda um þá mismunun sem ríkisborgarar af erlendum uppruna verði fyrir í heilbrigðiskerfinu í Suður-Afríku telur kærandi að honum muni ekki standa til boða nauðsynleg heilbrigðisþjónusta í heimaríki. Í ljósi framangreinds telur kærandi að skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga séu uppfyllt og beri því að veita honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað suður-afrísku vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé suður-afrískur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Suður-Afríku, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • 2019 Country Reports on Human Rights Practices: South Africa (U.S. Department of State, 11. mars 2020);
  • 2019 Report on International Religious Freedom: South Africa (U.S. Department of State, 10. júní 2020);
  • Access to health care in post-apartheid South Africa: availability, affordability, acceptability. (Health, Economics, Policy and Law, 12. júlí 2018);
  • Country Policy and Information Note. South Africa: Background Information, including actors of protection and internal relocation. Version 1.0. (UK Home Office, desember 2017);
  • Freedom in the World 2020 – South Africa (Freedom House, 4. mars 2020);
  • Medical Xenophobia: Zimbabwean Access to Health Services in South Africa (The Southern African Migration Programme, 2011);
  • Mental health system costs, resources and constraints in South Africa: a national survey (Oxford Academic. Health Policy and Planning, nóvember 2019);
  • Minimum data sets for human resources for health and the surgical workforce in South Africa’s health system: A rapid analysis of stock and migration (World Health Organization, September 2015);
  • National Action Plan (NAP) to combat Racism, Racial Discrimination, Xenophobia and Related Intolerance (Department of Justice and Constitutional Development, Republic of South Africa, 25. mars 2019);
  • The World Factbook: South Africa (Central Intelligence Agency, 17. júní 2020);
  • World Report 2020 – South Africa. Events of 2019 (Human Rights Watch, 14. janúar 2020);
  • South Africa 2020 Crime & Safety Report (OSAC, 3. mars 2020);
  • South Africa: Treatment by society and authorities of black Africans of foreign origin who are citizens or permanent residents; state protection available (2017-April 2018) (Immigration and Refugee Board of Canada, 30. apríl 2018);
  • Covid-19 vefsíða heilbrigðisyfirvalda Suður Afríku (https://sacoronavirus.co.za/)
  • Heilbrigðislög Suður-Afríku nr. 61/2003 (https://www.gov.za/sites/default/files/gcis_document/201409/a61-03.pdf) og
  • Stjórnarskrá Suður-Afríku(www.justice.gov.za/legislation/constitution/SAConstitution-web-eng.pdf).

Samkvæmt skýrslum bandaríska utanríkisráðuneytisins og CIA frá árinu 2020 er Suður-Afríka þingbundið lýðveldi með rúmlega 56 milljónir íbúa. Suður-Afríka fullgilti bæði alþjóðasamning um afnám allrar mismununar gagnvart konum og alþjóðasamning um réttindi barnsins árið 1995. Þá fullgilti ríkið mannréttindasáttmála Afríku árið 1996. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um afnám alls kynþáttamisréttis, alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og alþjóðsamning gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 1998. Þá fullgilti ríkið valfrjálsa viðbótarbókun við síðastnefndan samning árið 2019. Suður-Afríka fullgilti jafnframt alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 2015.

Fram kemur í skýrslu Freedom House frá árinu 2020 að frá lokum aðskilnaðarstefnunnar árið 1994 hafi Suður-Afríka verið álitin brautryðjandi á sviði mannréttinda í Afríku. Grundvallarréttindi og mannfrelsi einstaklinga hafi almennt verið virt og hafi lýðræðisleg þátttaka almennings verið virk. Þá hafi kosningar í landinu verið frjálsar og trúverðugar. Undanfarin ár hafi stjórnarflokkurinn African National Congress (ANC) hins vegar sætt ásökunum um að grafa undan ríkisstofnunum í því skyni að varðveita vald sitt og vernda spillta embættismenn. Hafi útbreidd spilling innan stjórnkerfisins og afskipti aðila sem hafi ekki verið kosnir til valda takmarkað eðlilega starfsemi yfirvalda.

Samkvæmt skýrslum Freedom House og Human Rights Watch frá 2020 hafi útlendingahatur og glæpir sem beinast að einstaklingum af erlendum uppruna verið vandamál í Suður-Afríku undanfarin ár. Frá 25. mars til 2. apríl 2019 hafi ofbeldis- og glæpaalda gengið yfir borgina Durban og aðliggjandi bæjarfélög. Einstaklingar af erlendum uppruna og verslanir þeirra hafi verið skotmörk árása og hafi a.m.k. þrír látið lífið og aðrir hlotið alvarleg meiðsl. Lögregla hafi ekki framkvæmt neinar handtökur vegna framangreinds. Hins vegar hafi yfirvöld sett á fót fimm ára aðgerðaráætlun til að berjast gegn kynþáttafordómum, kynþáttamisrétti og útlendingahatri sama dag og aldan braust út. Í september 2019 hafi önnur ofbeldis- og glæpaalda brotist út, þ. á m. í Durban, Johannesborg og Pretoria. Árásir, sem beinst hafi að innflytjendum frá öðrum Afríkuríkjum, hafi leitt til dauða 12 einstaklinga, þar af tveggja einstaklinga af erlendum uppruna. Þá hafi verslanir og eigur einstaklinga af erlendum uppruna verið eyðilagðar. Fleiri en 600 einstaklingar hafi verið handteknir og kærðir vegna framangreinds. Þá hafi forseti Suður-Afríku, Cyril Ramaphosa, fordæmt árásirnar og kallað eftir að þeim væri tafarlaust hætt.

Samkvæmt ofangreindum skýrslum bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 2020 og breska innanríkisráðuneytisins frá 2017 sé löggæsla í landinu í höndum ríkislögreglu Suður-Afríku, South African Police Service (SAPS). Hersveitir á vegum yfirvalda, South African National Defence Force (SANDF), fari þó einnig með löggæsluvald, t.a.m. annist þær eftirlit með landamærum ríkisins. Skortur á fjármagni, starfsfólki og búnaði hafi haft áhrif á skilvirkni og starfsemi SAPS. Þá sé spilling og refsileysi meðal lögregluþjóna og hermanna vandamál. Yfirvöld hafi brugðist við ofbeldisatvikum sem beinst hafi að einstaklingum af erlendum uppruna, t.a.m. með því að senda lögreglu og hermenn á vettvang, en viðbrögð þeirra hafi verið óregluleg og stundum ófullnægjandi. Innflytjendur og hælisleitendur hafi þurft að þola handahófskenndar handtökur, m.a. vegna þess að lögregluþjónum hafi ekki verið kunnugt um skilríki sem hælisleitendur framvísi til staðfestingar á stöðu sinni í landinu. Þá séu dæmi um að innflytjendum hafi verið hótað töfum á málum þeirra, eða varðhaldi, greiði þeir ekki mútur til lögreglu. Fram kemur að viðeigandi úrræði séu til staðar til að rannsaka brot lögregluþjóna í starfi og hafi þeir verið ákærðir fyrir slík brot. Yfirvöld virði almennt stjórnarskrárbundinn rétt borgaranna til að bera lögmæti handtöku eða gæsluvarðhalds undir dómstóla. Dómskerfið í Suður-Afríku sé sjálfstætt og hafi, þrátt fyrir skort á fjármagni og starfsfólki, afgreitt mikinn fjölda dómsmála á fljótan og skilvirkan hátt. Þá kemur fram að yfirvöld fari með skilvirka stjórn yfir löggæslu í landinu og hafi sýnt vilja og getu til að framfylgja lögunum og vernda borgara fyrir glæpum. Geti einstaklingar, er óttist aðila sem tilheyri ekki yfirvöldum, því almennt séð fengið skilvirka vernd yfirvalda, þurfi þeir á henni að halda.

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 2020 um trúfrelsi kemur fram að um 84% íbúa landsins séu kristinnar trúar. Um 15% íbúa séu trúlausir eða hafi neitað að gefa upp trú sína. Þá séu tæplega 2% íbúa múslimar, þ. á m. einstaklingar af [...] uppruna, og myndi þeir einn stærsta trúarlega minnihlutahópinn í Suður-Afríku. Trúarleiðtogar hafi tilkynnt um atvik árið 2019 sem beinst hafi gegn múslimum, þ. á m. skemmdarverk á moskum og vanhelgun á múslimskum gröfum. Þá hafi þeir lýst yfir áhyggjum af fyrirhuguðum lagabreytingum sem eigi annars vegar að gera trúfélögum skylt að skrá starfsemi sína og hins vegar að rýmka heimildir lögreglumanna og dómstóla til að handtaka og dæma gerendur fyrir hatursglæpi og hatursorðræðu, þ. á m. á grundvelli trúarskoðana. Nánar tiltekið telji þeir að óljósar skilgreiningar á hugtökunum hatursglæpur og hatursorðræða kunni að skerða trúfrelsi minnihlutahópa í landinu.

Fram kemur í skýrslunni að trúfrelsi sé lögfest í stjórnarskrá Suður-Afríku. Þá sé lagt bann við mismunun á grundvelli trúarbragða. Sé hverjum einstaklingi því heimilt að iðka trú sína svo lengi sem hann virði allsherjarreglu og lög landsins. Þá kemur fram að einstaklingar sem telji að sér hafi verið mismunað á grundvelli þjóðernis, kynþáttar, kynhneigðar, menningar, stjórnmálaskoðana eða trúarskoðana geti leitað réttar síns hjá dómstólum landsins, þ. á m. sérstökum jafnréttisdómstólum (e. equality courts) og Mannréttindanefnd Suður-Afríku (e. South African Human Rights Commission, SAHRC). SAHRC hafi það hlutverk að hafa eftirlit með því að mannréttinda sé gætt á öllum sviðum samfélagsins. Þá hafi nefndin heimild til að rannsaka möguleg mannréttindabrot og höfða mál fyrir hönd þolenda. Þá starfi óháð mannréttindaráð skv. stjórnarskrá (e. The Commission for the Promotion and Protection of the Rights of Cultural, Religious and Linguistic Communities) sem hafi það m.a. að markmiði að samfélög geti viðhaldið tungu sinni og menningu og að trúarfélög geti iðkað trú sína án takmarkana.

Samkvæmt skýrslu alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (World Health Organization, WHO) frá 2015 sé heilbrigðiskerfinu í Suður-Afríku skipt í fyrsta, annað og þriðja stig. Borgir og sveitarfélög starfræki og sjái um rekstur heilbrigðisstofnana á öllum stigum en heilbrigðisráðuneytið beri ábyrgð á samræmingu og þróun löggjafar og stefnumála. Heilbrigðiskerfi landsins sé bæði ríkis- og einkarekið og hafi allir íbúar landsins aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt framangreindri grein Health Economics, Policy and Law frá 2018 sé algengt að þeir sem eigi fjármagn til þess greiði fyrir heilbrigðisþjónustu hjá einkareknum sjúkrahúsum þar sem gæði þjónustunnar séu almennt talin betri. Frá því að aðskilnaðarstefnan hafi liðið undir lok hafi yfirvöld hins vegar náð góðum árangri við umbætur á hinu opinbera heilbrigðiskerfi. Fjárframlög til kerfisins hafi aukist til muna og hafi meira en 1600 heilsugæslustöðvar verið byggðar eða uppfærðar síðan 1994. Hafi það, auk annarra þátta, leitt til þess að árangri hafi verið náð við að auka aðgengi að hinu opinbera heilbrigðiskerfi og stytta biðtíma. Þá kemur fram í framangreindri grein Health Policy and Planning frá 2019 að yfirvöld hafi tekið nauðsynleg skref til að bæta geðheilbrigðiskerfi landsins. Til að mynda hafi verið ráðist í endurbætur á lögum um geðheilbrigði frá 2002 (e. The Mental Health Care Act 17 of 2002). Þá hafi yfirvöld innleitt ríkisrekið tryggingarkerfi 2017 (e. National Health Insurance, NHI) sem tryggja eigi jafnt aðgengi allra að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, þ. á m. geðheilbrigðisþjónustu.

Í framangreindri skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins kemur fram að frjáls félagasamtök hafi tilkynnt um atvik þar sem umsækjendum um alþjóðlega vernd, flóttamönnum og innflytjendum hafi verið mismunað í heilbrigðiskerfinu. Samkvæmt framangreindri skýrslu Southern African Migration Programme (SAMP) séu fordómar heilbrigðisstarfsmanna í Suður-Afríku í garð einstaklinga af erlendum uppruna vandamál. Þrátt fyrir að það gangi í berhögg við stjórnarskrá og heilbrigðislög landsins hafi einstaklingum, sem geti ekki framvísað skilríkjum sem sýni fram á búsetustað í landinu, verið synjað um heilbrigðisaðstoð. Þá séu dæmi um að heilbrigðisstarfsmenn hafi neitað að eiga samskipti við sjúklinga á þeirra eigin tungumáli með aðstoð túlka.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á með heildstæðri og trúverðugri frásögn af atburðum, og eftir atvikum með trúverðugum gögnum, sem eru í samræmi við áreiðanlegar og hlutlægar upplýsingar um almennt ástand í heimaríki hans, að hann hafi orðið fyrir ofsóknum í skilningi laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis. Í þeim tilvikum hvílir það á stjórnvöldum að eyða öllum vafa um slíka hættu, t.d. með vísan til þess að aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi byggir umsókn sína m.a. á því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í heimaríki vegna þjóðernis og aðildar hans að tilteknum þjóðfélagshópi. Byggir kærandi á því að hann hafi upplifað mismunun og ofbeldi af hendi almennings og lögreglu í heimaríki vegna [...] uppruna síns og stöðu. Af þeim ástæðum eigi hann jafnframt erfiðara um vik með að fá vernd yfirvalda og heilbrigðisþjónustu vegna líkamlegra og andlegra veikinda sinna. Telur kærandi að þegar aðstæður hans í heimaríki séu teknar saman nái þær því marki að teljast ofsóknir í skilningi 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga á þeim grundvelli að um samansafn athafna sé að ræða.

Að mati Útlendingastofnunar var kærandi almennt trúverðugur og skýr í frásögn sinni. Sá stofnunin því ekki ástæðu til að draga það í efa að hann hafi orðið fyrir fordómum af hálfu samfélagsins í heimaríki á grundvelli [...] uppruna síns. Þá taldi stofnunin að ekki væri unnt að útiloka að kærandi hafi orðið fyrir ofbeldi í heimaríki. Annars vegar af hálfu lögreglu árið 2009 og hins vegar af hálfu þjófa og ræningja í verslunum hans. Hins vegar var það mat stofnunarinnar að kæranda standi til boða virk úrræði í heimaríki þar sem hann geti leitað réttar síns og lagt fram kærur vegna framangreinds.

Til stuðnings frásögn sinni hefur kærandi m.a. lagt fram eiðsvarna yfirlýsingu (e. affidavit) sem hann kveðst hafa fyllt út hjá lögreglunni í Suður-Afríku í desember 2017 vegna vopnaðs ráns í einum af verslunum hans. Að sögn kæranda hafi ekkert verið aðhafst í málinu, líkt og í önnur skipti þegar hann hafi leitað til lögreglu, og telji hann að það hafi verið vegna uppruna síns. Að mati kærunefndar hefur umrædd yfirlýsing takmarkað sönnunargildi um aðgerðaleysi lögreglu, en skjalið hefur að geyma sjálfstæða frásögn kæranda af atburðum í heimaríki. Hins vegar telur kærunefnd ekkert hafa komið fram í málinu sem gefi tilefni til að draga í efa mat Útlendingastofnunar á trúverðugleika frásagnar kæranda. Við það mat hefur kærunefnd m.a. litið til þess að frásögn kæranda af ástæðum flótta frá heimaríki hafi, að mesti leyti, verið skýr og trúverðug.

Kærandi hefur borið því við að ótti hans byggist á samsafni athafna í skilningi 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga en þær ofsóknir, áreiti og mismunun sem hann hafi orðið fyrir í heimaríki stafi af uppruna hans. Líkt og fram hefur komið gefa þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér til kynna að einstaklingar geti orðið fyrir mismunun og jafnvel ofbeldi á grundvelli uppruna í heimaríki kæranda. Þrátt fyrir það bendir heildarmat á gögnum málsins og aðstöðu kæranda í heimaríki ekki til þess að kærandi eigi á hættu að verða fyrir meðferð sem nái því marki að teljast ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. sömu laga.

Kærandi hefur ekki borið fyrir sig að hafa sætt ofsóknum eða að hann óttist ofsóknir af hálfu suður-afrískra yfirvalda sem hafa eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Þá benda önnur gögn málsins ekki til þess að slíkar ofsóknir hafi átt sér stað eða að kærandi eigi þær á hættu. Af framburði kæranda má þó ráða að hann telji sig ekki geta fengið aðstoð hjá yfirvöldum vegna áreitis, hótana og ofbeldis af hálfu almennings og lögregluyfirvalda. Af gögnum málsins, þ. á m. framburði kæranda í viðtölum hjá Útlendingastofnun, og þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér er það mat nefndarinnar að kærandi, líkt og aðrir ríkisborgarar Suður-Afríku, geti leitað aðstoðar og verndar yfirvalda þar í landi og fengið lausn mála sinna. Þá bera gögn um heimaríki kæranda með sér að til staðar sé kerfi sem kærandi geti leitað til telji hann að lögregla bregðist ekki rétt við leiti hann til þeirra og ef hann telji sig hafa verið beittan órétti af lögreglu. Þó svo að kærandi kunni að verða fyrir einhverri mismunun í heimaríki vegna uppruna síns og stöðu og kunni af sömu ástæðu að eiga að einhverju leyti meira á hættu að verða fyrir ofbeldi þá telur kærunefnd að aðgengi hans að viðeigandi vernd stjórnvalda sé ekki takmarkað af þeim sökum að því marki að slík vernd stjórnvalda teljist ekki vera fyrir hendi. Að mati kærunefndar hefur því ekki verið sýnt fram á að stjórnvöld í heimaríki kæranda geti ekki eða vilji ekki veita kæranda vernd, m.a. með því að ákæra eða refsa fyrir þær athafnir sem feli í sér ofsóknir, sbr. 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna. Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling. Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunni að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væri ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.

Við meðferð máls hans hjá Útlendingastofnun lagði kærandi m.a. fram komunótur frá Göngudeild sóttvarna, dags. 29. ágúst 2019 til 2. desember 2019, þar sem fram kemur m.a. að kærandi hafi verið greindur með sykursýki af tegund 2, [...]. Þá kemur fram að kærandi hafi mætt í viðtöl til sálfræðings á Göngudeild sóttvarna sem hafi greint kæranda með áfallastreituröskun (e. post-traumatic stress disorder). Samkvæmt gögnunum liggur fyrir að kæranda hafi verið ávísað lyfjum við veikindum sínum. Kærandi lagði einnig fram afrit af bæklingi, dags. 10. janúar 2017, sem ber með sér að vera útgefin af hjartadeild spítala í [...].

Þann 11. maí 2020 óskaði kærunefnd eftir upplýsingum um hvort að kærandi væri enn í meðferð hjá sálfræðingi og eins hvort að það lægju fyrir einhver nýlegri heilsufarsgögn sem kærandi hefði í huga að framvísa. Degi síðar barst nefndinni bréf, dags. 1. apríl 2020, sem kærandi kveður að sé frá lækni hans í [...], sem telur að andlegri og líkamlegri heilsu kæranda sé stefnt í hættu búi hann áfram í Suður-Afríku. Þá bárust uppfærðar komunótur frá Göngudeild sóttvarna þann 20. maí og 21. júlí 2020 . Samkvæmt gögnunum hafi kærandi mætt í nokkur viðtöl til sálfræðings. Hafi hann m.a. fengið ráðleggingar um að hreyfa sig reglulega og hafi það haft góð áhrif á heilsu hans. Hann hafi síðast mætt til sálfræðings þann 7. apríl 2020 og hafi hann þá komið vel fyrir. Farið hafi verið yfir stöðu hans á Íslandi og hvað hann gæti gert til að komast í gegnum það ástand sem hafi skapast sökum Covid-19 faraldursins. Þá kemur jafnframt fram í gögnunum að læknar hafi átt í erfiðleikum með að stjórna blóðsykri kæranda og að hugsanlega þurfi að reyna aðrar lyfjablöndur.

Kærandi byggir á því að honum hafi verið synjað um aðgang að heilbrigðiskerfinu í Suður-Afríku vegna [...] uppruna síns. Hafi hann því ekki fengið læknismeðferð vegna framangreindra veikinda í heimaríki. Fullyrðing kæranda fær nokkurn stuðning frá gögnum sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar en þar kemur fram að einstaklingum af erlendum uppruna hafi verið mismunað í heilbrigðiskerfinu og að fordómar heilbrigðisstarfsmanna í garð þeirra sé vandamál.

Kærandi ber einnig fyrir sig að hann standi frammi fyrir erfiðum félagslegum aðstæðum í heimaríki vegna uppruna hans og þeirrar hættu og mismununar sem einstaklingar af erlendum uppruna verði fyrir þar í landi. Í því sambandi fjallar kærandi m.a. um skert aðgengi einstaklinga af erlendum uppruna í Suður-Afríku að almennri þjónustu, s.s. að heilbrigðis-, mennta-, lögreglu- og dómskerfi. Þá vísar kærandi til þess að hann geti ekki fengið þann stuðning sem hann þurfi á að halda í heimaríki vegna veikinda sinna. Hafi hann því mikla þörf fyrir stuðningi bróður hans sem búi hér á landi. Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga er fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli. Þá segir í athugasemdunum að með erfiðum almennum aðstæðum að öðru leyti sé einnig vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum.

Samkvæmt upplýsingasíðu Johns Hopkins háskólans í Bandaríkjunum og vefsíðu suður-afrískra heilbrigðisyfirvalda breiðist Covid-19 faraldurinn nú hratt út í heimaríki kæranda. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að kærandi, sem þjáist af sykursýki og glímir við hjartasjúkdóma, sé í sérstökum áhættuhópi sýkist hann af SARS-CoV-2 veirunni. Þá telur kærunefnd að kærandi eigi á hættu að verða fyrir mismunum í heilbrigðiskerfinu vegna uppruna síns og að erfiðleikar heimaríkis vegna Covid-19 faraldursins skapi hættu á að sú mismunum verði almennari. Þegar þessi atriði, upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi sýnt fram að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Við þetta mat hefur kærunefnd einnig litið til þess að kærandi á bróður hér á landi.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndarinnar að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til þess sem að framan er rakið þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar hvað varðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda dvalarleyfi skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

 

Úrskurðarorð

Lagt er fyrir stofnunina að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga. Ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda varðandi umsókn hans um alþjóðlega vernd eru staðfestar.

The Directorate is instructed to issue residence permit for the appellant based on Article 74 of the Act on Foreigners. The decisions of the Directorate of Immigration in the case of the appellant related to his application for international protection is affirmed.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                                          Bjarnveig Eiríksdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta