Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 225/2012

Miðvikudagurinn 26. júní 2013

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Kristrún Heimisdóttir og Þórhildur Líndal.

Þann 29. nóvember 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 8. október 2012, þar sem umsókn þeirra um heimild til greiðsluaðlögunar einstaklinga var hafnað.

Með bréfi, dags. 7. desember 2012, óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara, sem barst með bréfi, dags. 22. janúar 2013.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi, dags. 1. febrúar 2013, og var kærendum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá kærendum með tölvupóstum dags. 28. febrúar og 8. mars 2013. Voru athugasemdir kærenda sendar umboðsmanni skuldara með bréfum dags. 4. og 8. mars 2013. Umboðsmaður skuldara skilaði inn framhaldsgreinargerð með bréfi, dags. 10. maí 2013.

I.  Málsatvik

Kærendur eru 37 og 38 ára gömul. Þau eru í óvígðri sambúð og búa ásamt sonum sínum 3 og 13 ára í eigin einbýlishúsi að C götu nr. 3 í sveitarfélaginu D.

Kærendur starfa við umsýslu fasteigna. B hjá fyrirtækinu E ehf. og A hjá F ehf. Mánaðarlegar nettótekjur þeirra eru að meðaltali 399.608 krónur að meðtöldum barnabótum.

Að sögn kærenda má helst rekja fjárhagserfiðleika þeirra til efnahagshrunsins haustið 2008, tekjulækkunar, ábyrgðaskuldbindinga og hækkunar á afborgunum lána. Þau hafi keypt íbúð sína á árinu 2005, að hluta til með gengistryggðu láni sem hafi hækkað mikið í kjölfar efnahagshrunsins. Einnig hafi þau keypt bifreið með sama hætti. Fljótlega eftir að fjármálakreppan skall á hafi tekjur þeirra lækkað og þau hafi hætt að geta greitt af lánum sínum. Þau geti ekki lengur staðið undir fjárhagslegum skuldbindingum sínum og við þeim blasir gjaldþrot ef ekkert verður að gert.

Heildarskuldir kærenda nema 67.023.952 krónum samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara og falla þær allar innan samnings, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.). Að auki hafa kærendur gengist í talsverðar ábyrgðarskuldbindingar fyrir félög sem þau hafa verið í forsvari fyrir. Fjárhæð þeirra skuldbindinga nemur nú samtals 32.688.886 krónum.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 8. október 2012, var umsókn kærenda um greiðsluaðlögun hafnað með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

II. Sjónarmið kærenda

Að mati kærenda byggir synjun umboðsmanns skuldara á misskilningi um fjármagnstekjur vegna sölu hlutabréfa. Á skattframtali ársins 2008 vegna tekna 2007 hafi kærendur gert grein fyrir fjármagnstekjum að fjárhæð 19.750.000 krónur. Umboðsmaður hafi óskað eftir upplýsingum um hvernig þessum fjármunum hafi verið ráðstafað og kærendur hafi staðið í þeirri trú að þau hefðu veitt umboðsmanni umbeðnar upplýsingar.

Að sögn kærenda notuðu þau 6.000.000 króna af þessu fé til endurbóta á húsnæði sínu að C götu nr. 3, en eignin hafi verið keypt tilbúin til innréttinga árið 2005. Það sem eftir standi, 13.750.000 krónur, hafi þau aldrei fengið greiddar þar sem kaupandinn, sem var félag, hafi orðið ógjaldfær áður en kom að greiðslu. Þegar umboðsmaður skuldara hafi óskað skýringa á ráðstöfun fjárins hafi kærendur ávallt talið að verið væri að biðja um sönnun fyrir því að fjármunum hefði verið varið til endurbóta á C götu nr. 3. Umboðsmanni hafi því verið send gögn um fasteignina til skýringar. Kærendur hafi ekki áttað sig á því að í fyrirspurninni fælist beiðni um að þau útskýrðu hvað hafi orðið um þá fjármuni sem þau fengu ekki greidda það er framangreindar 13.750.000 krónur. Kærendur hefðu áður komið því á framfæri að þau hefðu aldrei fengið þessar fjármuni en þau töldu að umboðsmaður skuldara hefði heimild til að skoða bankareikninga þeirra og fá allar upplýsingar sem málið varðaði. Þá hafi kærendur ekki gert sér grein fyrir því að hægt væri að leiðrétta skattframtöl aftur í tímann að þessu leyti.

Kærendur bendi á að erindi frá umboðsmanni skuldara hafi eingöngu verið send á kærandann A. Þau viti ekki til þess að kærandinn B hafi fengið fyrirspurn frá embættinu. Kærendur telji að það geti ekki talist eðlileg stjórnsýsla að synja B um greiðsluaðlögun á þeim grundvelli að A hafi ekki svarað erindi sem til hennar hafi verið beint. Þrátt fyrir að kærendur hafi sameiginlega sótt um greiðsluaðlögun þá séu þau engu að síður sitt hvor aðilinn og hafi bæði rétt á að fá send til sín erindi frá umboðsmanni skuldara sem varði svo mikla hagsmuni.

Einnig þurfi að líta til þess að á þeim tíma sem fyrirspurnir voru sendar frá umboðsmanni skuldara bjuggu kærendur ekki að C götu nr. 3 þar sem eignin var ekki íbúðarhæf. Allan þann tíma sem mál kærenda hafi verið til meðferðar hafi þau svarað erindum frá umboðsmanni skuldara án tafar. Jafnframt hafi þau ítrekað haft samband við umboðsmann skuldara til að fá upplýsingar um hvernig gengi að fara yfir málið og reynt að fá eðlilegar skýringar á því hvernig það gæti tekið 26 mánuði að vinna það.

Kærendur greini jafnframt frá því að B sé að ljúka námi sem löggiltur fasteignasali og fái þau réttindi í júní 2013. Verði ákvörðun umboðsmanns skuldara  staðfest sé ljóst að bú B muni verða tekið til gjaldþrotaskipta og þar með fái hann ekki réttindi í samræmi við menntun sína næstu 6-7 ár. Ekki verði séð að mikill þjóðfélagslegur ávinningur hljótist af þeirri ákvörðun. Einnig mótmæli kærendur því að þau hafi svarað umboðsmanni skuldara óeðlilega seint.

Kærendur kveðast ekki skilja þær forsendur sem liggi að baki ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja þeim um að leita greiðsluaðlögunar, sérstaklega þar sem kröfuhafar geti hafnað því að samþykkja samning um greiðsluaðlögun. Kærendur telji að ákvörðun um synjun á samningi til greiðsluaðlögunar eigi fyrst og fremst að vera hjá kröfuhöfum en ekki embætti umboðsmanns skuldara.

Kærendur vísi til markmiða laga nr. 101/2010 og almennra athugasemda löggjafans þar sem talað sé um knýjandi þörf á úrræðum til að takast á við vandann í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008. Í sömu athugasemdum segi að markmið laganna hafi verið að gera fólki í greiðsluvanda kleift að ná tökum á fjármálum sínum og fá til þess heimild til greiðsluaðlögunar, svo fremi sem hlutaðeigandi sé ófær um að standa í skilum eða verði það um ófyrirsjáanlega framtíð. Einnig segi í athugasemdum að þegar afstaða sé tekin til þess hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri að meta greiðslugetu skuldara og möguleika viðkomandi á að standa í skilum.

Kærendur bendi á að þau séu ólöglærð en dragi þá ályktun af hinni kærðu ákvörðun að umboðsmaður skuldara hafi með ákvörðun sinni fallist á þau sjónarmið að þau uppfylli skilyrði laga nr. 101/2010, það er að vera ófær um að standa í skilum við lánadrottna sína og að með heimild til greiðsluaðlögunar eigi kærendur raunhæfa möguleika á því að ráða bót á sínum vanda.

Í ljósi þessa telji kærendur að ekki sé hjá því komist að krefjast þess að kærunefndin samþykki beiðni þeirra um heimild til greiðsluaðlögunar, svo sem lög standi til, en felli ellegar hina umþrættu ákvörðun úr gildi og leggi fyrir umboðsmann skuldara að taka málið fyrir að nýju til löglegrar ákvörðunar í samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Ekkert í gögnum málsins bendi til þess að umboðsmanni skuldara hafi verið skylt að synja beiðni kærenda.

Að mati kærenda hafi leiðbeiningum frá umboðsmanni skuldara verið ábótavant og sé það helsta ástæðan fyrir þessu. Í tölvupósti þeirra 15. júlí 2012 til umboðsmanns skuldara komi skýrt fram hvernig þessum fjármunum hafi verið varið. Telji kærendur að skýringar þeirra hafi verið fullnægjandi en þó hafi láðst að leiðrétta skattframtal til samræmis. Það hafi verið gert um leið og starfsmaður umboðsmanns skuldara benti á það í símtali í janúar 2013 eða tveimur mánuðum eftir að umboðsmaður skuldara tók ákvörðun um synjun. Að mati kærenda virtist ekki vilji hjá umboðsmanni skuldara til að endurskoða ákvörðunina þó að ljóst væri hvernig málið væri vaxið.

Kærendur vilji árétta að af 19.750.000 krónum hafi þau aðeins fengið greiddar 6.000.000 króna. Því hafi ítrekað verið komið á framfæri við umboðsmann skuldara. Kærendur segja umboðsmann skuldara margsinnis hafa spurt hvort þau gætu sýnt fram á að þau hefðu ekki fengið greiðslu að fjárhæð 13.750.000 krónur. Kærendur hafi hreinlega ekki áttað sig á því með hvaða hætti hægt væri að sanna að þau hafi ekki fengið þessa fjármuni. Kærendur geti þess að mál þeirra hafi verið til meðferðar hjá embætti umboðsmanns skuldara frá 29. október 2010. Þau hafi gefið umboðsmanni heimild til að skoða alla bankareikninga, en jafnframt hafi umboðsmaður fengið umboð til að kalla eftir öllum gögnum sem hann taldi nauðsynleg. Kærendur telji að á umboðsmanni skuldara hvíli rannsóknarskylda og að honum hafi verið í lófa lagið að kanna meðferð fjármuna hjá kærendum.

Með símtali frá umboðsmanni skuldara í janúar 2013 hafi kærendur fyrst fengið upplýsingar um að þau þyrftu að leiðrétta skattframtal viðkomandi árs. Telji kærendur nokkuð sérstakt að á þeim 24 mánuðum sem mál þeirra var til meðferðar hjá umboðsmanni skuldara, hafi þeim ekki verið leiðbeint um hvað þyrfti að gera til að formsatriðum væri fullnægt. Umboðsmaður skuldara hafi leiðbeiningarskyldu og hefði, að mati kærenda, átt að aðstoða þau við að leiðrétta áðurnefnt skattframtal. Eftir símtalið við starfsmann umboðsmann skuldara í janúar 2013 hafi kærendur fengið aðstoð frá endurskoðanda við að leiðrétta framtalið.

Kærendur telji að synjun umboðsmanns skuldara byggi á því mati embættisins að kærendur hafi ekki lagt fram fullnægjandi gögn og svarað illa fyrirspurnum frá starfsmönnum umboðsmanns skuldara. Kærendur telji það hafið yfir allan vafa að ákvörðun umboðsmanns skuldara sé röng og bendi á að hann hafi ítrekað fengið svör, bæði með tölvupóstum og símtölum. Kærendur telji jafnframt að heimild umboðsmanns skuldara til að synja aðilum um greiðsluaðlögun eigi að túlka þröngt. Loks sé það mat kærenda að umboðsmaður hafi brotið gegn 12. gr. stjórnsýslulaga.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 8. október 2012, kemur fram að einstaklingur geti leitað greiðsluaðlögunar ef hann sýni fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Sé þá miðað við að hann geti ekki eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skuldanna, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna hans að öðru leyti.

Við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar ber umboðsmanni skuldara einkum að kanna hvort fyrir liggi ástæður sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge.

Í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. sé kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Í athugasemdum við frumvarp til laga um greiðsluaðlögun einstaklinga komi fram að ákvæðið sé samhljóða þágildandi 1. tölul. 1. mgr. 63. gr. d. X. kafla a laga um gjaldþrotaskipti o.fl. en þar sé þó gert ráð fyrir að ástæðan geti orðið til þess að héraðsdómari hafni beiðni um nauðasamning. Í frumvarpinu sé kveðið á um skyldu til að synja um heimild til greiðsluaðlögunar undir þessum kringumstæðum, enda mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um allt sem lýtur að fjárhagslegum málefnum hans. Hér er því einungis um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Er hér áréttað eins og víða annars staðar í lögunum að skuldari skuli taka virkan þátt og sýna viðeigandi viðleitni við að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.

Á umboðsmanni skuldara hvíli rannsóknarskylda sem felist meðal annars í því að ganga úr skugga um að í umsókn skuldara komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar auk þeirra upplýsinga sem hann telji skipta máli varðandi skuldir, eignir, tekjur og framferði skuldara, áður en tekin er ákvörðun um hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar.

Þann 18. júní 2012 hafi verið haft samband við kærendur símleiðis þar sem óskað var eftir að þau veittu upplýsingar um hvernig fjármagnstekjum að fjárhæð 19.750.000 krónur, sem komu fram á skattframtali 2008 vegna tekna 2007, hafi verið ráðstafað. Þessar fjármagnstekjur hafi verið tilkomnar vegna söluhagnaðar af hlutabréfum og kváðust kærendur myndu veita þessar upplýsingar innan skamms. Engin svör höfðu borist þann 9. júlí 2012 og var kærendum því sendur tölvupóstur þann dag þar sem óskað var eftir útskýringum á því hvernig fjármununum hafi verið ráðstafað og gögnum er styddu frásögn þeirra. Þann 15. júlí hafi kærendur svarað með tölvupósti þess efnis að kaupsamningur um hlutabréf hafi ekki verið efndur og þau hafi því einungis fengið greiddar 6.000.000 króna af 19.750.000 krónum sem þau hafi átt að fá. Þeir fjármunir hafi verið nýttir í einbýlishús þeirra sem þarfnast hafi viðhalds. Eftirstöðvar kröfunnar hafi verið afskrifaðar vegna stöðu félagsins sem keypti bréfin. Þann 18. júlí 2012 hafi kærendum á ný verið sendur tölvupóstur þar sem óskað var eftir gögnum er styddu framangreinda frásögn. Fyrir liggur að 1.975.000 krónur hafi verið greiddar í fjármagnstekjuskatt af söluhagnaði bréfanna. Kærendur hafi verið spurð að því hvort þau hafi farið fram á leiðréttingu skattframtalsins í ljósi vanefnda samnings. Engin svör hafi borist frá kærendum.

Þann 22. ágúst 2012 hafi ítrekuð beiðni um upplýsingar verið send á lögheimili kærenda með ábyrgðarpósti. Tilkynning frá pósthúsi hafi einnig verið skilin eftir. Kærendur höfðu ekki vitjað bréfsins á pósthúsinu þann 4. september 2012 og var þeim því sendur tölvupóstur þann dag til að upplýsa þau um tilvist bréfsins. Þann 11. september 2012 hafi kærendur sent tölvupóst til embættisins þar sem fram kom að einu gögnin sem þau gætu lagt fram vegna fjármagnsteknanna væri söluyfirlit fasteignar þeirra og fasteignaauglýsing af netinu frá árinu 2005 þegar þau keyptu húsnæðið.

Gögn þau sem umboðsmaður skuldara óskaði eftir séu nauðsynleg til að varpa skýrari mynd á fjárhagslega stöðu kærenda. Þau gögn sem kærendur hafi lagt til grundvallar útskýringum á því hvernig þau hafi varið 19.750.000 krónum séu að mati umboðsmanns skuldara ekki til þess fallin að skýra fjárhagslega stöðu þeirra. Umboðsmanni skuldara hafi því borið að synja umsókn kærenda um greiðsluaðlögun á grundvelli b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.

Í greinargerð umboðsmanns skuldara komi fram að ákvörðun í máli kærenda hafi verið  tekin tæpu ári eftir að þau skiluðu inn umsókn sinni og fjórum mánuðum eftir að gagna hafi verið óskað. Kærendur hafi því haft nægan tíma til að skila umbeðnum gögnum. Vísi umboðsmaður skuldara til úrskurðar kærunefndar greiðsluaðlögunarmála nr. 6/2011 þar sem nefndin taldi að kæranda hafi verið gefinn nægur tími til að skila gögnum. Í því máli hafi kærandi haft tæpa fjóra mánuði til að skila inn umbeðnum gögnum þegar umsókn var tekin til afgreiðslu og rúma tvo mánuði til að skila gögnum eftir að óskað var sérstaklega eftir þeim gögnum sem um ræddi. Umboðsmaður telji að um sé að ræða samskonar mál og hér er til umfjöllunar.

Umboðsmaður skuldara árétti að aðeins sé á færi kærenda að leggja fram þau gögn sem óskað var eftir við vinnslu málsins, en samkvæmt 4. mgr. 4. gr. lge. beri skuldara að útvega nauðsynleg gögn og koma þeim til umboðsmanns skuldara. Hafi þetta meðal annars verið staðfest í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála nr. 5/2011.

Í framhaldsgreinargerð sinni taki umboðsmaður skuldara afstöðu til greinargerðar með kæru. Bendi umboðsmaður á að hin kærða ákvörðun hafi byggst á þeim gögnum sem lágu fyrir þegar hún var tekin. Útskýringar kærenda á ráðstöfun fjarmagnstekna hafi ekki verið studdar neinum gögnum þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir umboðsmanns skuldara þess efnis. Þá árétti embættið að aðeins hafi verið á færi kærenda að leggja fram þau gögn sem óskað var eftir í þessu sambandi. Ósk kærenda um leiðréttingu á skattframtali sem sett var fram eftir að hin kærða ákvörðun var tekin nægi, að mati embættisins, ekki til að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi. Þessu til stuðnings vísi umboðsmaður skuldara aftur til úrskurðar kærunefndar greiðsluaðlögunarmála nr. 5/2011 þar sem ákvörðun umboðsmann  skuldara um að synja kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. var staðfest. Við meðferð þess máls hafði umboðsmaður skuldara óskað eftir upplýsingum og útskýringum frá kæranda um fjárhagsstöðu hans. Í úrskurðinum segi m.a.: „Upplýsingar þær og útskýringar sem umboðsmaður skuldara óskar eftir í framangreindu bréfi eru þess eðlis að það er ekki á færi annarra en kæranda sjálfs að leggja þær fram. Jafnframt er ljóst að þessi gögn eru nauðsynleg til að unnt sé að leggja mat á það að kærandi uppfylli skilyrði laga til að fá heimild til að leita greiðsluaðlögunar, sbr. meðal annars 4. gr.“

Í ljósi framangreinds fer umboðsmaður skuldara fram á að ákvörðun um að synja kærendum um heimild til að leita eftir greiðsluaðlögun verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggir á b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt ákvæðinu skal umsókn um greiðsluaðlögun hafnað ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Hér er fyrir hendi skylda umboðsmanns skuldara til að synja um heimild til greiðsluaðlögunar undir þessum kringumstæðum enda mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um allt sem lýtur að fjárhagslegum málefnum hans. Hér er því einungis um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Áréttað er eins og víða annars staðar í lögunum, að skuldari skuli taka virkan þátt og sýna viðeigandi viðleitni við að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.

Í máli þessu greinir aðila á um hvort kærendur hafi upplýst umboðsmann skuldara um afdrif fjármagnstekna vegna sölu hlutabréfa árið 2007 að fjárhæð 13.750.000 krónur. Kærendur halda því fram að þau hafi ekki fengið þessa fjárhæð greidda þar sem kaupandi bréfanna hafi orðið ógjaldfær áður en greiðsla átti að fara fram. Við málsmeðferð umboðsmanns skuldara var ítrekað óskað eftir því við kærendur að þau styddu þessa fullyrðingu gögnum en þau kváðust ekki geta sýnt fram á að hafa ekki fengið þessa fjármuni greidda. Að áliti kærunefndarinnar hefðu kærendur getað staðfest frásögn sína með ýmsum gögnum, svo sem kaupsamningi um hlutabréfakaupin, gögnum er sýndu fram á ógjaldfærni kaupandans á gjalddaga eða eftir atvikum með yfirlýsingu kaupanda. Það hafa þau ekki gert, en vísað til leiðbeiningarskyldu og rannsóknarskyldu umboðsmanns skuldara, sem og heimilda hans til gagnaöflunar. Kærunefndin telur að þessi gögn séu þess eðlis að ekki hafi verið á færi annarra en kærenda sjálfra að afla þeirra.

Hver sá sem leitar greiðsluaðlögunar skal veita umboðsmanni skuldara ítarlegar upplýsingar og gögn. Í þessu felst skylda til að veita allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að greina fjárhagsstöðu viðkomandi til fulls. Með öðru móti verður ekki lagt efnislegt mat á hvort heimilt eða hæfilegt sé veita skuldara greiðsluaðlögun. Rannsóknarskylda stjórnvalds leysir umsækjendur um greiðsluaðlögun ekki undan þeirri skyldu. Kærunefndin metur það svo að fyrrnefnd gögn hafi verið nauðsynleg til að umboðsmaður skuldara fengi skýra mynd af fjárhag kærenda. Umboðsmanni skuldara var því skylt að synja kærendum um heimild til greiðsluaðlögunar skv. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Verður ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kærendum um heimild til að leita greiðsluaðlögunar því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Lára Sverrisdóttir

Kristrún Heimisdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta