Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 64/2013

Miðvikudagurinn 26. júní 2013

 

A

gegn

skipuðum umsjónarmanni B hdl.

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Kristrún Heimisdóttir og Þórhildur Líndal.

Þann 12. maí 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, B hdl., sem tilkynnt var með bréfi, dags. 29. apríl 2013, þar sem umsjónarmaður mælir gegn nauðasamningi með vísan til 18. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.).

I. Málsatvik

Umboðsmaður skuldara samþykkti umsókn kæranda um greiðsluaðlögun 3. maí 2012. Þann 9. maí 2012 var umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum kæranda.

Frumvarp að greiðsluaðlögunarsamningi var sent kröfuhöfum 2. október 2012. Mótmæli bárust frá kröfuhöfum þar sem gerðar voru athugasemdir við að kærandi hefði ekki lagt til hliðar af tekjum sínum sem skyldi í greiðsluskjóli og að kærandi hefði nægar tekjur til að greiða af fasteignaveðkröfum sínum að fullu.

Þann 21. janúar 2013 sendi umsjónarmaður kæranda upplýsingar um framkomin mótmæli kröfuhafa. Óskaði umsjónarmaður jafnframt upplýsinga um sparnað kæranda og kaup á gjaldeyri á tímabili greiðsluskjóls.

Kærandi sendi umsjónarmanni umbeðnar upplýsingar þann 22. janúar 2013 um sparnað, utanlandsferðir vegna vinnu og ýmis útgjöld.

Þann 22. janúar 2013 sendi umsjónarmaður kæranda tölvupóst þar sem fram kemur að nauðsynlegt sé að gera nýtt frumvarp með tilliti til mótmæla kröfuhafa. Í því skyni óskaði umsjónarmaður eftir frekari upplýsingum um peningaeign í banka, skýringum á því að ekki hafi verið lagt meira til hliðar í greiðsluskjóli og staðfestingu vinnuveitanda á því utanlandsferðir hafi verið vinnutengdar.

Þann 5. febrúar 2013 og 11. febrúar 2013 sendi kærandi umsjónarmanni frekari upplýsingar.

Þann 24. apríl 2013 tilkynnti umsjónarmaður kæranda með tölvupósti að helstu kröfuhafar hafi hafnað niðurfellingu skulda í máli hans. Fram kemur að það sé mat umsjónarmanns að eftir að tekið hafi verið tillit til allra skýringa, gagna og greinargerða að kærandi hefði getað lagt til hliðar mun hærri fjárhæð en raunin hafi verið. Þá kemur fram að skilyrði greiðsluaðlögunar hafi ekki verið uppfyllt og muni umsjónarmaður senda málið til úrskurðar umboðsmanns skuldara í samræmi við 15. gr. lge. á þeim grundvelli að kærandi hafi brotið gegn skyldum sínum skv. 12. gr. lge., einkum samkvæmt a-lið 1. mgr. sem kveði á um skyldu hans til að leggja til hliðar fjármuni sem séu umfram framfærsluþörf. Umsjónarmaður veitti kæranda síðan færi á að senda sér afstöðu sína áður en málið yrði sent umboðsmanni skuldara til ákvörðunar.

Þann 26. apríl 2013 sendi umsjónarmaður kæranda tölvupóst þess efnis að það hafi verið mistök að beina málinu í farveg 15. gr. lge. Þar sem fyrir liggi frumvarp, sem kröfuhafar hafi þegar hafnað, beri að fara með málið samkvæmt 18. gr. lge. Þetta kveðst umsjónarmaður hafa gert samkvæmt ráðleggingum umboðsmanns skuldara.

Með tölvupósti 26. apríl 2013 óskaði kærandi álits umsjónarmanns á því hvort það væri rétta leiðin að leita nauðasamnings skv. 18. gr. lge. Umsjónarmaður svaraði kæranda samdægurs með tölvupósti þess efnis að eðlilegast væri að kærandi gerði það en umsjónarmaður þyrfti þá að fara yfir málið aftur og taka afstöðu til nauðasamningsumleitana. Þá kemur fram í tölvupósti umsjónarmanns að fyrir kæranda séu ekki aðrir kostir en að óska eftir nauðasamningi, eigi að viðhalda greiðsluskjóli. Umsjónarmaður óskaði þá eftir yfirlýsingu kæranda þess efnis að hann vildi leita nauðasamnings sem kærandi sendi með tölvupósti dags. 26. apríl 2013.

Umsjónarmaður tilkynnti kæranda með bréfi dags. 29. apríl 2013 ákvörðun sína um að mæla gegn nauðasamningnum.

II. Sjónarmið skipaðs umsjónarmanns

Í ákvörðun umsjónarmanns, dags. 29. apríl 2013, kemur fram að beiðni kæranda um að máli hans verði beint í nauðasamningsferli sé synjað. Ástæður séu einkum þær að kröfuhafar hafi mótmælt frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun og hafnað niðurfellingu skulda. Helstu rök kröfuhafa séu að kærandi hafi nægar tekjur til að greiða af fasteignaveðkröfum sínum að fullu. Í greiðsluskjóli, sem varað hafi um nokkurt skeið, hafi kærandi  látið hjá líða að leggja til hliðar fjármuni sem skyldi, auk þess sem umtalsverðar fjárhæðir hafi verið teknar út í gjaldeyri á tímabilinu.

Þá kemur fram að umsjónarmaður hafi veitt kæranda færi á að leggja fram skýringar og gögn vegna athugasemda kröfuhafa og umsjónarmanns. Tekið hafi verið tillit til allra framlagðra gagna ásamt almennum skýringum á framfærslukostnaði. Engin haldbær skýring liggi þó fyrir um hvers vegna skuldari hafi ekki lagt til hliðar hærri fjárhæð en raun ber vitni, auk þess sem nokkuð virðist skilja á milli afstöðu kæranda til æskilegra framfærsluviðmiða og þeirra viðmiða sem umboðsmaður skuldara leggur til grundvallar. Í ljósi afstöðu kröfuhafa og þess að kærandi hafi ekki framfylgt þeirri skyldu sem á hann hafi verið lögð í greiðsluskjóli, sbr. einkum a-lið 12. gr. lge, sé beiðni um nauðasamningsumleitanir hafnað.

III. Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að frá því að umsjónarmaður tilkynnti kæranda  með tölvupósti, dags. 14. maí 2012, að hún hafi verið skipuð umsjónarmaður hans og þar til 21. janúar 2013, hafi kærandi ekkert heyrt frá henni. Umsjónarmaður hafi sent kæranda tölvupóst 22. janúar 2013 þar sem hún leggi til að kærandi sendi sér ítarlegri upplýsingar um framfærslukostnað og hún muni í framhaldi af því gera nýtt frumvarp. Það virðist þó ekki hafa gerst því seint í apríl hafi kærandi fengið þær upplýsingar frá umsjónarmanni að umsókn um greiðsluaðlögun hafi verið hafnað, án þess að gert hefði verið nýtt frumvarp eins og umsjónarmaður hefði nefnt.

Í tölvupóstum frá umsjónarmanni í lok apríl 2013 hafi kæranda verið tilkynnt að málið væri komið í ákveðinn farveg, sem umsjónarmaður hafi síðar leiðrétt.

Frumvarpið sem umsjónarmaður hafi lagt fram til kröfuhafa virðist dagsett í lok október 2012, en það frumvarp hafi kærandi ekki séð fyrr en hann hafi spurt umsjónarmann um það þann 6. maí 2013. Í frumvarpinu séu útgjaldaliðir miklu lægri en fram komi í greinargerð kæranda sem send hafi verið umsjónarmanni í febrúar 2013. Þá sé í frumvarpinu gert ráð fyrir að kröfuhafar gefi eftir 75% af kröfum sínum í lok 36 mánaða greiðsluaðlögunartímabils. Kærandi telur ekki óeðlilegt að kröfuhafar hafni slíku, enda hafi hann ekki beiðið um svo mikla niðurfellingu á skuldum sínum. Að mati kæranda sé það undarlegt að frumvarp í  hans nafni sé sent kröfuhöfum án þess að hann hafi séð það eða haft áhrif á innihald þess.

Kærandi telji sig hafa farið eftir því sem fyrir hann var lagt í bréfi umboðsmanns skuldara frá 3. maí 2012. Þær utanlandsferðir sem virðast vega einna þyngst í ákvörðun umsjónarmanns hafi verið vegna vinnu kæranda og fjölskylduástæðna.

Þá óski kærandi eftir því, þar sem kröfuhafar telji hann borgunarmann fyrir skuldum sínum, að þeir taki á móti nýju frumvarpi eða komi með nýjar tillögur sem þeim væru þóknanlegar. Kærandi telji að sú lausn væri öllum fyrir bestu, enda líklegra að kröfuhafar fái þannig það sem þeim ber.

Kærandi álíti að umsjónarmaður hans hafi ekki verið í eðlilegu sambandi við sig í málinu. Þá virðist umsjónarmaður ekki hafa gert nýtt frumvarpi eins og hún sagðist mundu gera í tölvupósti til kæranda 22. janúar 2013.

Frumvarp umsjónarmanns, dagsett í lok október 2012, sé í litlu samhengi við raunveruleikann. Þar komi fram í 2. lið að lögð hafi verið sérstök áhersla á að kærandi hefði ávallt aðgang að umsjónarmanni vegna fyrirspurna  svo sem í gegnum tölvupóst og síma. Umsjónarmaður og kærandi hafi verið í síma- og tölvusambandi á meðan frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun var í vinnslu. Kærandi bendi á að þetta sé ekki sannleikanum samkvæmt því kærandi og umsjónarmaður hafi aðeins átt eitt símtal frá 13. maí 2012 og þar til hann hafi hringt í hana í apríl 2013. Umsjónarmaður hafi unnið frumvarpið að öllu leyti ein og án þess að hafa samband við kæranda.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns byggist á 18. gr. lge. Í 1. mgr. greinarinnar er kveðið á um að hafi samningur um greiðsluaðlögun samkvæmt ákvæðum IV. kafla lge. ekki tekist þá geti skuldari lýst yfir við umsjónarmann að hann vilji leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.

Kærandi mótmælir málsmeðferð umsjónarmanns þar sem kærandi hafi ekki haft neina aðkomu að gerð frumvarps til greiðsluaðlögunarsamnings og umsjónarmaður hafi látið hjá líða að útbúa nýtt frumvarp eins og hún hafði tilkynnt kæranda. Þá telur kærandi að hann hafi farið eftir þeim fyrirmælum umboðsmanns skuldara sem lögð voru fyrir hann þegar umsókn hans um greiðsluaðlögun var samþykkt.

Í 1. mgr. 16. gr. lge. er kveðið á um að umsjónarmaður skuli, að höfðu samráði við skuldara, gera frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun. Jafnframt kemur fram í 1. mgr. 17. gr. lge. að hafi lánardrottnar athugasemdir við frumvarp og komi ekki á þennan hátt fram upplýsingar sem valdið geta niðurfellingu umleitana til greiðsluaðlögunar, skuli umsjónarmaður leitast við að fá lánardrottna til að endurskoða afstöðu sína, eftir atvikum með því að gera í samráði við skuldara breytingar á frumvarpinu sem skal þá sent lánardrottnum á nýjan leik.

Samkvæmt gögnum málsins hefur áðurnefnt frumvarp ekki verið samið í samráði við kæranda eins og kveðið er á um í 1. mgr. 16. gr. lge., en eins og málið er vaxið koma einnig önnur sjónarmið til skoðunar við meðferð kæru þessarar. Af gögnum málsins er ljóst að við vinnslu þess hjá umsjónarmanni komu fram upplýsingar sem hann taldi koma í veg fyrir að greiðsluaðlögun væri heimil samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. sem kveður á um að skuldari skuli leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Telja verður að afstaða umsjónarmanns liggi þar með fyrir um það atriði. Í slíkum tilfellum skal umsjónarmaður mæla með niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana við umboðsmann skuldara samkvæmt 15. gr. lge. Í lagagreininni segir að komi fram upplýsingar sem ætla má að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil skuli umsjónarmaður tilkynna slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið tekur afstöðu með rökstuddri ákvörðun.

Samkvæmt því sem að framan er rakið hefur umsjónarmaður tekið afstöðu til þess að ekki séu skilyrði fyrir því að greiðsluaðlögun sé heimil á þeim grundvelli að kærandi hafi lagt til hliðar mun minna af launum sínum en hann gat. Bar umsjónarmanni að tilkynna það til umboðsmanns skuldara, en ákvörðun um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir við þessar aðstæður er í höndum umboðsmanns skuldara samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. Með vísan til þess sem að framan greinir ber því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og vísa málinu til meðferðar hjá umboðsmanni skuldara.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, B hdl., um að mæla gegn nauðasamningi A er felld úr gildi og málinu vísað til til lögmæltrar meðferðar hjá umboðsmanni skuldara.

 

Lára Sverrisdóttir

Þórhildur Líndal

Kristrún Heimisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta