Mál nr. 1/2014
Kærunefnd barnaverndarmála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík
Á fundi kærunefndar barnaverndarmála 14. maí 2014 var tekið fyrir mál nr. 1/2014, A og B gegn velferðarnefnd C.
Óskað er eftir því að kærunefnd barnaverndarmála hlutist til um það að kærendum verði afhent gögn vegna skýrslutöku yfir dætrum þeirra, D og E, í Barnahúsi.
Kveðinn var upp svohljóðandi
Ú R S K U R Ð U R
I. Málavextir og kröfugerð
Kæra þessi varðar barnaverndarmál A og B vegna tveggja dætra þeirra, D, og E. Stúlkurnar voru kallaðar til skýrslutöku í Barnahúsi 14. mars 2013 vegna gruns um kynferðislegt ofbeldi gegn þeim. Kærendur hafa óskað eftir því að fá skýrslur sem teknar voru af börnunum afhentar en velferðarnefnd C kveðst ekki hafa þær undir höndum. Kærendur hafa farið fram á það að kærunefnd barnaverndarmála hlutist til um að þau fái aðgang að umræddum gögnum. Kærendur óska enn fremur upplýsinga um réttarstöðu foreldra þegar þeim er skipað að mæta með börn sín til skýrslutöku í Barnahúsi þvert gegn vilja sínum.
Fram kemur í gögnum málsins að 18. febrúar 2013 hafi verið tilkynnt til velferðarnefndar C um meint kynferðisbrot gagnvart dætrum kærenda. Starfsmaður Velferðarþjónustu C ákvað í kjölfarið að hefja könnun máls, sbr. 21. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, og einnig að óska eftir lögreglurannsókn þar sem um meint kynferðisbrot var að ræða. Starfsmaður velferðarþjónustu hringdi í kærendur 25. febrúar 2013 vegna þessa og 27. febrúar 2013 tilkynnti starfsmaður kærendum að búið væri að kæra málið til lögreglu, að skipa skuli stúlkunum réttargæslumann og að skýrslutaka skuli fara fram í Barnahúsi. Skýrslutakan fór síðan fram í Barnahúsi 14. mars 2013. Málið var sent frá lögreglu 23. júlí 2013 til ríkissaksóknara.
Kærendur óskuðu eftir gögnum í lögreglumáli vegna dætra sinna hjá ríkissaksóknara. Í bréfi ríkissaksóknara til kærenda 2. september 2013 kemur fram að samkvæmt 1.‒3. mgr. 47. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, eigi réttargæslumaður brotaþola rétt á að fá aðgang að þeim gögnum sem varða þátt skjólstæðings hans í málinu og honum séu nauðsynleg til að gæta hagsmuna skjólstæðings síns. Sé brotaþoli ekki með réttargæslumann geti hann sjálfur fengið aðgang að gögnum sem um ræði. Þá eigi verjendur og sakborningar rétt á aðgangi að gögnum eins og nánar greini í ákvæðum 1.‒5. mgr. 37. gr. sömu laga. Skipaður réttargæslumaður kærenda hefði þegar fengið aðgang að umræddum gögnum og skilað bótakröfum. Í bréfi ríkissaksóknara kemur síðan fram að eins og ákvæðum sakamálalaga sé háttað sé ekki til staðar lagaheimild umfram það sem frá hafi verið greint til frekari aðgangs að umræddum gögnum meðan mál sé enn til rannsóknar. Beiðni kærenda um afhendingu gagna hjá ríkissaksóknara var því synjað.
Kærendur óskuðu eftir gögnum málsins hjá velferðarnefnd C, en sérstaklega óskuðu þau upplýsinga/gagna sem viðkomu skýrslutöku yfir börnunum í Barnahúsi. Í tölvupósti kærenda til félagsmálastjóra velferðarnefndar C 28. maí 2013 kemur fram að félagsmálastjórinn hafi sent þeim gögn í málinu en ekki öll gögn þess þar sem ekki hafi verið þar skýrslur sem teknar hafi verið af börnunum í Barnahúsi. Þess var farið á leit að úr þessu yrði bætt hið snarasta. Í svari félagsmálastjórans 29. maí 2013 segir að hún hafi þegar afhent kærendum öll þau gögn sem séu í vörslu velferðarnefndar C í málum dætranna. Skýrslur sem teknar hafi verið af börnunum í Barnahúsi séu rannsóknargögn hjá lögreglu og séu ekki í vörslu velferðarnefndar. Starfsmenn velferðarnefndarinnar muni óska eftir gögnum þegar rannsókn ljúki og muni þá senda kærendum þau gögn.
Í bréfi Barnaverndarstofu 16. janúar 2014, sem kærendum barst í kjölfar kvörtunar þeirra yfir vinnubrögðum velferðarnefndar C, kemur fram að stofan hafi ekki talið ástæðu til þess að gera athugasemdir við afgreiðslu velferðarnefndar C á beiðni kærenda um afhendingu á gögnum málsins í ljósi þess að þegar slík beiðni sé sett fram taki hún eingöngu til gagna sem séu fyrirliggjandi í viðkomandi máli á þeim tímapunkti sem beiðnin sé sett fram og geri því ekki þá kröfu til nefndarinnar að afla frekari gagna frá öðrum stofnunum. Af gögnum málsins megi sjá að starfsmaður nefndarinnar hafi afgreitt beiðni kærenda um afhendingu gagna í samræmi við ákvæði barnaverndarlaga. Loks benti Barnaverndarstofa kærendum á að hafi nefndin takmarkað aðgang þeirra að einhverju leyti að gögnum málsins eða synjað um aðgang sé slík ákvörðun barnaverndarnefndar kæranleg til kærunefndar barnaverndarmála, sbr. 2. mgr. 19. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og kæmi því ekki til skoðunar hjá Barnaverndarstofu.
II. Sjónarmið kærenda
Í kæru til kærunefndar barnaverndarmála 4. febrúar 2014 kemur fram að kærendur hafi langað að vita hvað hafi komið út úr skýrslutöku yfir börnum þeirra í Barnahúsi og enn fremur hvernig sérfræðingar Barnahúss mætu alvarleika málsins. Þau hafi því snúið sér til Barnaverndarstofu og óskað eftir slíkum upplýsingum. Barnaverndarstofa hafi tjáð þeim 13. maí 2013 að þau væru aðilar málsins samkvæmt 1. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga og að þau ættu að biðja barnaverndarnefnd viðkomandi sveitarfélags um þessar upplýsingar. Það hafi þau síðan gert. Þau hafi snúið sér til F, forstöðumanns Velferðarsviðs C, og beðið um gögnin. Þeim hafi verið svarað með því að skýrslur sem teknar hafi verið af dætrum þeirra í Barnahúsi séu rannsóknargögn lögreglu og séu ekki í vörslu velferðarnefndar. Kærendur hafi þá snúið sér til Barnaverndarstofu og spurst fyrir um það hvort þau gætu fengið umrædd gögn beint frá Barnahúsi, sem sé deild/undirstofnun Barnaverndarstofu. Þeim hafi verið tjáð að ekki væri hefð fyrir slíku.
Fram kemur hjá kærendum að þeim þyki mjög ótrúlegt að barnaverndarnefnd hafi ekki vitað hvað fór fram í Barnahúsi þar sem fulltrúi barnaverndarnefndar hafi verið viðstaddur skýrslutökuna þar. Hafi hann ekki fengið afrit af skýrslutöku Barnahúss, þá sé rétt að benda á að samkvæmt gögnum málsins hafi þessi fulltrúi skrifað minnispunkta um öll samtöl og samskipti barnaverndarnefndar við foreldra þótt þeir minnispunktar séu vel færðir í stílinn. Þannig að minnispunktar viðkomandi fulltrúa um skýrslutökuna í Barnahúsi ættu að vera til. Kærendur benda einnig á að þau hafi ekki fengið að hlýða á skýrslutökuna þótt þau hafi verið á staðnum. Þau viti ekki til þess að slíkt bann eigi sér lagastoð. Kærendur hafi heyrt það sjónarmið að skýrslutaka í Barnahúsi sé lokað réttarhald í skilningi 10. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, en í þeim lögum sé ekki ákvæði um að það megi útiloka foreldra frá því að vera viðstadda skýrslutökur af börnum sínum. Kærendur taka fram að samkvæmt 37. gr. sakamálalaga megi sakborningur og verjandi hans fá aðgang að gögnum máls 3‒5 vikum eftir að þau verði til. Telji kærendur að umrædd gögn séu nú þegar í höndum sakbornings og hans lögfræðings. Sambærilegt ákvæði sé í 47. gr. sakamálalaga, en þar segi að réttargæslumaður brotaþola eigi rétt á því að fá þessi gögn og afhenda þau brotaþolum og þeirra fjölskyldu. Réttargæslumaður dætra þeirra hafi virt þau gersamlega að vettugi og ekki talað við þau síðan 10. apríl 2013 þegar hann hafi sagt að ekkert væri að frétta af málinu en myndi láta þau vita ef svo væri. Þau vilji losna við réttargæslumanninn fyrst og fremst vegna þess að samkvæmt niðurlagi 47. gr. sakamálalaga eigi brotaþoli sem ekki njóti aðstoðar réttargæslumanns rétt á aðgangi að gögnum máls.
Kærendur taka fram að í fyrirmælum ríkissaksóknara nr. 5 frá 2009 standi að rannsóknartími hjá lögreglu eigi að vera 60 dagar og ferlið hjá ríkissaksóknara eigi að taka 30‒45 daga, þ.e. í hæsta lagi 105 daga. Þegar 160 dagar hafi verið liðnir 9. ágúst 2013 hafi þau sent tölvupóst til ríkissaksóknara og beðið um upplýsingar um gögn málsins. Því erindi hafi verið svarað með bréfi 2. september 2013 og sé þar vísað til 47. gr. laga nr. 88/2008 og því algjörlega hafnað að þau geti fengið beinan aðgang að nokkrum gögnum eða upplýsingum um þetta mál. Þannig standi málið nú þegar það sé að verða ársgamalt.
III. Sjónarmið velferðarnefndar C
Með bréfi Skóla- og velferðarþjónustu C til kærunefndar barnaverndarmála 25. febrúar 2014 voru kærunefndinni send öll gögn málsins. Gögnin eru tilgreind þar sem fylgiskjöl og eru þessi: Barnaverndartilkynning, beiðni um lögreglurannsókn 27. febrúar 2013, dagálsnótur 25. febrúar til 14. mars 2013, svar við bréfi Barnaverndarstofu vegna kvartana frá foreldrum 15. apríl 2013, svar við tölvupósti frá föður 29. maí 2013, tölvupóstsamskipti starfsmanns Velferðarþjónustu C við réttargæslumann 8. apríl til 27. maí 2013, bréf frá Barnaverndarstofu 16. janúar 2014 og afrit af bréfi Barnaverndarstofu til föður 16. janúar 2014. Í bréfinu er tekið fram að starfsmenn velferðarnefndar C kannist ekki við að hafa synjað um afhendingu gagna sem velferðarnefndin hafi verið með í sinni vörslu.
IV. Forsendur og niðurstaða
Kærendur vísa til bréfs Barnaverndarstofu frá 16. janúar 2014 en þar sé óljóst hvað átt sé við með orðalagi um kæruheimild til kærunefndar barnaverndarmála þegar um sé að ræða ákvörðun barnaverndarnefndar um að takmarka aðgang kærenda að gögnum en slík ákvörðun komi ekki til skoðunar hjá Barnaverndarstofu. Í kærunni er því síðan lýst að tilkynnt hafi verið símleiðis til barnaverndarnefndar 18. febrúar 2013 um meint kynferðisbrot gagnvart dætrum kærenda. Kærendum hafi verið tilkynnt að málið hefði verið kært til lögreglu, skipa skyldi réttargæslumann og skýrslutaka skyldi fara fram í Barnahúsi. Mæti kærendur ekki með börnin á þeim tíma sem barnaverndarnefndin hefði ákveðið yrðu börnin sótt í skólann (væntanlega með lögregluvaldi). Kærendur hafi upplifað þetta sem óformlega forræðissviptingu á dætrum þeirra og vilji bera lögmæti þessara vinnubragða undir kærunefnd barnaverndarmála. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. barnaverndarlaga, sbr. 2. gr. laga nr. 80/2011, er heimilt að skjóta til kærunefndar barnaverndarmála úrskurðum og stjórnsýsluákvörðunum barnaverndarnefnda eftir því sem nánar er kveðið á um í lögunum. Engin lagaákvæði mæla fyrir um að kærendur geti borið lögmæti þess sem þau lýsa undir kærunefndina. Kemur það atriði því ekki til frekari úrlausnar við meðferð málsins fyrir kærunefndinni.
Í kærunni er því síðan lýst að skýrslutaka skyldi fara fram í Barnahúsi 14. mars 2013 og málið hafi farið frá lögreglu til ríkissaksóknara 23. júlí sama ár. Kærendur hafi fengið takmarkaðar upplýsingar af málinu og meðal þess sem þau töldu óljóst væri hvað af málinu væri barnaverndarmál og hvað lögreglumál. Kærendur lýsa því að þau vilji vita hvað hafi komið út úr skýrslutöku í Barnahúsi, fá afrit af framburði dætra þeirra og hvernig sérfræðingar mætu alvarleika málsins. Kærendur segjast hafa beðið barnaverndarnefndina um þessar upplýsingar og gögn. Þau hafi fengið það svar að skýrslurnar, sem teknar voru af dætrum þeirra í Barnahúsi, séu rannsóknargögn lögreglu og ekki í vörslu barnaverndarnefndar. Þá lýsa kærendur því að þau hafi reynt að fá umrædd gögn frá Barnahúsi sem ekki hafi tekist. Þau hafi sent ríkissaksóknara erindi sem hafi verið svarað 2. september s.á. og því hafnað að þau fengju aðgang að nokkrum gögnum eða upplýsingum um málið. Kærendur spyrja hvort kærunefnd barnaverndarmála geti hlutast til um það að kærendur fái aðgang að þessum gögnum úr Barnahúsi.
Eins og mál þetta liggur fyrir verður ekki af gögnum málsins ráðið að velferðarnefnd C, sem fer með hlutverk barnaverndarnefndar í sveitarfélaginu, hafi tekið ákvörðun með rökstuddum úrskurði um að takmarka aðgang kærenda að gögnum eins og gert er ráð fyrir að heimilt sé að gera að uppfylltum skilyrðum sem lýst er í 2. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að afrit af skýrslum, sem kærendur vísa til og teknar voru af dætrum þeirra í Barnahúsi, verði ekki talin til gagna málsins sem velferðarnefndin fer með enda liggur ekki annað fyrir en að skýrslutökurnar hafi farið fram samkvæmt VII., VIII. og XV. kafla laga um meðferð sakamála. Gögn sem verða til við slíka rannsókn verða ekki sjálfkrafa gögn í barnaverndarmáli. Í tölvupósti félagsmálastjóra 29. maí 2013 til kæranda A er vísað til þess að hún hefði afhent kærendum öll gögn í vörslu velferðarnefndar Árnesþings í málum dætra kærenda. Skýrslur sem teknar hefðu verið af dætrum kærenda í Barnahúsi séu rannsóknargögn hjá lögreglu og ekki í vörslu nefndarinnar. Starfsmenn muni óska eftir gögnum frá lögreglu þegar rannsókn ljúki og verði kærendum send þau gögn þegar velferðarnefndin fái þau í hendur.
Með vísan til þessa er ljóst að ekki liggur fyrir rökstuddur úrskurður velferðarnefndar C þar sem takmarkaður er aðgangur kærenda að tilteknum gögnum samkvæmt 2. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga sem kæranlegur væri samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga, sbr. 2. gr. laga nr. 80/2011, til kærunefndar barnaverndarmála. Engin kæruheimild er því fyrir hendi. Málinu ber af þeim sökum að vísa frá kærunefnd barnaverndarmála.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Kæru A og B á ákvörðun velferðarverndarnefndar C um að afhenda þeim ekki gögn vegna skýrslutöku í Barnahúsi yfir dætrum þeirra, þar sem ekki sé um gögn í barnaverndarmáli að ræða, er vísað frá kærunefnd barnaverndarmála.
Sigríður Ingvarsdóttir, formaður
Guðfinna Eydal
Jón R. Kristinsson