Mál nr. 10/2014. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:
Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 5. júní 2014
í máli nr. 10/2014:
Aflvélar ehf.
gegn
Ríkiskaupum og
Vegagerðinni
Með kæru 22. maí 2014 kæra Aflvélar ehf. útboð Ríkiskaupa auðkennt nr. 15647 „Sand-, salt- og pækildreifarar (3-4) fyrir Vegagerðina“. Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála afstöðu til þess hvort rétt sé að verða við kröfu kæranda um stöðvun útboðsins. Varnaraðilum hefur verið gefin kostur á að tjá sig um stöðvunarkröfu kæranda.
Hinn 3. maí 2014 auglýsti Ríkiskaup f.h. Vegagerðarinnar útboð til kaupa á þremur sand-, salt- og pækildreifurum með möguleika á að kaupa annan dreifara fyrir 15. september 2014 fyrir sama verð. Gögn málsins bera með sér að kærandi hafi sótt útboðsgögn hinn 6. maí 2014 og gert athugasemdir við tiltekna skilmála útboðsins með bréfi 14. maí 2014, en svar við bréfi þessu hafi ekki borist áður en kærandi lagði fram kæru 22. maí 2014.
Kærandi byggir kæru sína að meginstefnu á því að sú krafa útboðsgagna að GPRS skráningarbúnaður í boðnum tækjum skuli skila notkunar- og afkastagögnum inn í tölvukerfi Vegagerðarinnar á DAU-sniði án leyfis- og áskriftargjalda, brjóti gegn ákvæðum 1., 14. og 40. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup. Umrædd krafa sé ekki í samræmi við evrópska staðalinn EN-15430-1, sem kveði á um það á hvaða tölvusniði framleiðendur vetrartækja beri að skila gögnum úr tækjum sínum. Þá leiði þessi krafa til ójafnrar stöðu bjóðenda og brjóti gegn jafnræðisreglu laganna.
Niðurstaða
Af tilboðsblaði 2 í útboðsgögnum verður ráðið að GPRS skráningarbúnaður í boðnum tækjum í hinu kærða útboði skuli skila notkunar- og afkastagögnum inn í tölvukerfi varnaraðila Vegagerðarinnar á svokölluðu DAU-sniði án leyfis- og áskriftargjalda. Þá kemur fram í útboðsgögnum að ekki sé heimilt að gera frávikstilboð auk þess sem varnaraðilar áskilji sér rétt til þess að vísa frá þeim tilboðum sem ekki séu sett fram samkvæmt tilboðsblöðum. Kærandi hefur hins vegar upplýst að þau tæki sem hann býður fram, svo og flestir aðrir framleiðendur, skili gögnum á EN-sniði í samræmi við staðalinn EN-15430-1 sem er evrópskur staðall sem innleiddur hefur verið á Íslandi. Mögulegt sé að breyta gögnum af EN-sniði yfir á DAU-snið, en við það myndist kostnaður vegna leyfisgjalda á hugbúnaði. Aðrir bjóðendur en þeir sem bjóði tæki sem skili gögnum á DAU-sniði standi því höllum fæti í útboðinu.
Samkvæmt 40. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup er kaupanda að meginstefnu heimilt að skilgreina tæknilegar kröfur til hins keypta með tækniforskriftum og/eða lýsingu á virkni eða kröfum til hagnýtingar. Tækniforskriftir skulu veita bjóðendum jöfn tækifæri og mega þær ekki leiða til ómálefnalegra hindrana á samkeppni við opinber innkaup, sbr. 2. mgr. greinarinnar. Samkvæmt 9. mgr. greinarinnar skulu tækniforskriftir í útboðsgögnum ekki vísa til sérstakrar gerðar, framleiðanda, sérstakrar vinnslu, vörumerkja, einkaleyfa, tegundar, uppruna eða framleiðslu með þeim afleiðingum að hlutur ákveðinna fyrirtækja sé gerður betri en annarra eða ákveðin fyrirtæki útilokuð frá þátttöku í opinberum innkaupum, enda helgist slík tilvísun ekki beinlínis af efni samnings. Í undantekningartilvikum er slík tilvísun þó heimil þegar lýsing á efni samnings er ekki möguleg samkvæmt 3. og 4. mgr. 40. gr. laganna, enda fylgi slíkri tilvísun orðalagið „eða jafngildur“ eða sambærilegt orðalag.
Leggja verður til grundvallar þær fullyrðingar kæranda, sem varnaraðilar hafa ekki mótmælt, að kröfur varnaraðila um skil á gögnum á DAU-sniði séu í ósamræmi við evrópska staðla sem innleiddir hafa verið hér á landi. Þá verður að skýra útboðsgögn þannig að bjóðendum hafi verið óheimilt að bjóða fram tæki þannig að gögn væru þýdd af EN-sniði yfir á DAU-snið. Jafnvel þótt þetta teldist heimilt er á það að líta að bjóðandi yrði sjálfur að bera kostnað af slíkri lausn með þeim afleiðingum að samkeppnisstaða hans væri skert. Eins og málið liggur fyrir telur nefndin að varnaraðilar hafi ekki rökstutt að svo viðurhlutamikil krafa til umræddra tækja sé nauðsynleg vegna efnis samnings eða geti að öðru leyti réttlætst af undantekningarheimild 9. mgr. 40. gr. laga um opinber innkaup. Það er því mat kærunefndar að kærandi hafi leitt nægilegar líkur að því að umrædd krafa brjóti gegn ákvæðum laga um opinber innkaup. Með vísan til 1. mgr. 96. gr., sbr. 15. gr. laga nr. 58/2013, verður því fallist á kröfu kæranda um stöðvun innkaupaferlis vegna fyrrgreinds útboðs, svo sem nánar greinir í ákvörðunarorðum. Að öðru leyti bíður efnisleg úrlausn kærunnar úrskurðar kærunefndar.
Ákvörðunarorð:
Innkaupaferli varnaraðila, Ríkiskaupa og Vegagerðarinnar, vegna útboðs nr. 15647 auðkennt „Sand-, salt- og pækildreifarar (3-4) fyrir Vegagerðina“, er stöðvað um stundarsakir.
Reykjavík, 5. júní 2014
Skúli Magnússon
Ásgerður Ragnarsdóttir
Stanley Pálsson