Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 11/2014.  Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 18. júní 2014

í máli nr. 11/2014:

Á. Óskarsson ehf.

gegn

Reykjanesbæ

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 28. maí 2014 kærir Á. Óskarsson ehf. innkaup Reykjanesbæjar á nýjum hreinsikerfum fyrir sundlaugar í Reykjanesbæ samkvæmt svonefndri verðkönnun. Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála afstöðu til þess hvort rétt sé að verða við kröfu kæranda um að stöðva innkaupaferlið um stundarsakir. Varnaraðila hefur verið gefinn kostur á að tjá sig um stöðvunarkröfu kæranda.

Af gögnum málsins verður ráðið að hinn 11. apríl 2014 hafi varnaraðili óskað tilboða frá tilgreindum aðilum, þ.á m. kæranda, í sandsíur og skiptiloka, dælur og klór- og CO2-kerfi fyrir sundlaugar í Reykjanesbæ, án þess að um hafi verið að ræða opinber auglýsingu. Voru kröfur varnaraðila settar fram í bréfi auðkennt „Sundlaugar Reykjanesbæ, verðkönnun tækjabúnaðar“. Þar kom meðal annars fram að varnaraðili áskildi sér allan rétt til að velja saman búnað frá bjóðendum eða hafna þeim eins og hentaði aðstæðum á hverjum stað. Bjóðendum var gefin frestur til 16. apríl 2014 til að skila inn tilboðum, en sá frestur var síðan framlengdur til 25. apríl 2014. Gögn málsins bera með sér að tilboð hafi borist frá þremur aðilum, þ.á m. kæranda. Hinn 5. maí 2014 var kæranda tilkynnt að varnaraðili hygðist ganga að tilboði kæranda í klór- og CO2-búnað en gengið yrði að tilboði annars bjóðanda í sandsíur og skiptilokur.

Kæra kæranda byggir að meginstefnu á því að varnaraðila hafi borið að bjóða út innkaup á þeim vörum sem að framan eru greindar, í samræmi við lög nr. 84/2007 um opinber innkaup. Það hafi varnaraðili ekki gert og breyti engu þótt hann hafi kosið að setja innkaup sín í búning verðkönnunar. Innkaupaferli varnaraðila hafi ekki verið í samræmi við þau innkaupaferli og þær reglur sem lög um opinber innkaup áskilja og varnaraðili hafi því brotið ákvæði laga um opinber innkaup.

Niðurstaða

Í máli þessu liggur fyrir að 11. apríl sl. óskaði varnaraðili eftir tilboðum frá tilgreindum aðilum, þ.á m. kæranda, í tengslum við kaup á nýjum hreinsikerfum fyrir sundlaugar í Reykjanesbæ. Þá var kæranda tilkynnt 5. maí sl. að varnaraðili hygðist ganga að tilboði kæranda í klór- og CO2-búnað en ekki yrði gengið að tilboði hans í sandsíur og skiptilokur. Var þá einnig upplýst um fjárhæð kostnaðaráætlunar varnaraðila. Að mati kærunefndar útboðsmála var eigi síðar en 5. maí sl. tilefni fyrir kæranda að bera lögmæti innkaupferlis varnaraðila undir kærunefnd samkvæmt XIV. kafla laga nr. 84/2007 um opinber innkaup. Kæra kæranda var hins vegar móttekin hjá kærunefnd útboðsmála 28. sama mánaðar. Samkvæmt þessu var liðinn frestur samkvæmt 1. mgr. 94. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup, sbr. 11. gr. laga nr. 58/2013, til að bera undir nefndina lögmæti innkaupaferlis varnaraðila þegar kæra barst kærunefnd. Eru því ekki fyrir hendi skilyrði til að stöðva hið kærða innkaupaferli um stundarsakir samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laganna, sbr. 15. gr. laga nr. 58/2013. Endanleg úrlausn kærunnar bíður úrskurðar kærunefndar.

Ákvörðunarorð:

Kröfu kæranda, Á. Óskarsson ehf., þess efnis að innkaupaferli varnaraðila, Reykjanesbæjar, vegna kaupa á hreinsikerfum fyrir sundlaugar í Reykjanesbæ samkvæmt verðkönnun 11. apríl 2014, verði stöðvað um stundarsakir, er hafnað.  

                                                                                       Reykjavík, 18. júní 2014  

                                                                                       Skúli Magnússon       

                                                                                       Stanley Pálsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta