Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 90/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 90/2017

Miðvikudaginn 28. júní 2017

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, móttekinni 7. mars 2017, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 29. desember 2016, þar sem henni var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur en metinn örorkustyrkur tímabundið.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn, móttekinni 16. nóvember 2016. Með örorkumati, dags. 29. desember 2016, var umsókn kæranda synjað en hún var talin uppfylla skilyrði örorkustyrks frá 1. desember 2016 til 30. nóvember 2019. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni með tölvupósti 26. janúar 2017 og var umbeðinn rökstuðningur veittur með bréfi, dags. 6. febrúar 2017.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 7. mars 2017. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 16. mars 2017, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 27. mars 2017. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 29. mars 2017, var greinargerð Tryggingastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að örorkumat Tryggingastofnunar ríkisins verði endurskoðað og að henni verði metinn örorkulífeyrir og tengdar greiðslur.

Í kæru er greint frá alvarlegu bílslysi sem kærandi lenti í árið X og fram kemur að hún hafi síðan þá verið með miklar höfuðkvalir ásamt verkjum í hálshrygg og þar í kring. Hafi þetta leitt til óvinnufærni í X 2015. Það hafi komið í ljós í segulómskoðun að hún sé með töluverðar slitgigtarbreytingar á hálshrygg. Frá árinu 1994 hafi hún farið að þreytast mjög mikið, verið aum í líkamanum, verið með meltingartruflanir, magnleysi, höfuðverki, fótaverki, svima og minnið hafi ekki verið gott. Seinna hafi komið doði í hendur og verkir sem svipi til taugaverkja, hún fái krampa í vöðva við álag og allar vöðvafestur í líkamanum verði mjög aumar viðkomu. Þannig hafi það gengið í mörg ár og hafi farið versnandi þrátt fyrir að hún hafi leitað til lækna. Hún hafi sótt tíma hjá geðhjúkrunarfræðingi í nokkur ár. Í kringum árið 2003 hafi hún að lokum verið greind með vefjagigt. Frá árinu 2011 hafi hún byrjað að fá B12 vítamín sprautur þrisvar til fjórum sinnum á ári og hafi hún í kjölfarið endurheimt ¼ af heilsunni til baka.

Í dag sé hún engan veginn fær um að vinna, hún hafi hvorki líkamlega né andlega getu til þess. Hún geti illa horft niður, nætursvefn sé ekki góður, hún þurfi að vera mikið á hreyfingu, sé með eymsli í öllum vöðvafestum, vinstra hné sé bólgið með samgróningum upp á mitt læri og þá hafi komið upp góðkynja stöðusvimi. Einnig hafi komið í ljós kölkun í sinafestu undir hæl. Hún hafi verið í stanslausri sjúkraþjálfun síðan í X 2015 og göngugeta hennar sé um 20 mínútur.

Kærandi hafi verið með aukinn kvíða síðustu ár til allra verka vegna meira verkjaálags en það hafi dregið úr kvíða hjá henni vegna þess að nú ráði hún för sinni sjálf og geri hluti eftir getu og ástandi hverju sinni. Þetta ástand hafi farið hægt versnandi síðustu tíu árin, læknar virðist ekki vita hvað sé að en segi að vefjagigtin sé svona. Hún sé ekki sátt við þá skýringu.

Við upphaf endurhæfingar hafi kærandi verið algjörlega búin að á líkama og sál. Hún hafi farið á B í fimm vikur í X 2016 og hafi komið þaðan miklu verkjaðri en þegar endurhæfing hófst þar. Hún hafi ekki verið fær um að gera neitt annað en að stunda sína endurhæfingu síðan í X 2015 og sé búin að vera í stöðugri sjúkraþjálfun síðan í X 2015. Eftir að hún hætti að vinna hafi hún hvílst betur, blóðþrýstingur hafi lækkað en hún megi ekki við neinu sem heitið geti. Þá segir að kærandi sé búin að vera í mikilli endurhæfingu en það hafi ekki breytt ástandi hennar og það sé mat VIRK starfsendurhæfingar að hún sé ekki fær um að vinna.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kært sé örorkumat Tryggingastofnunar, dags. 29. desember 2016. Í örorkumatinu hafi kæranda verið synjað um örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar en hins vegar hafi kærandi verið talin uppfylla skilyrði örorkustyrks samkvæmt 19. gr. sömu laga.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkulífeyri. Heimilt sé að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. almannatryggingalaga þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar. Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat.

Kærandi hafi sótt um örorkumat með umsókn þess efnis þann 16. nóvember 2016. Örorkumat hafi farið fram þann 29. desember 2016. Niðurstaða örorkumatsins hafi verið að kæranda var synjað um örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. almannatryggingalaga en hún hafi hins vegar verið talin uppfylla skilyrði örorkustyrks samkvæmt 19. gr. laganna. Matið hafi gilt frá 1. desember 2016 til 30. nóvember 2019. Kærandi hafi óskað eftir rökstuðningi Tryggingastofnunar með bréfi, dags. [26. janúar 2017]. Með svarbréfi stofnunarinnar, dags. [6. febrúar 2017] 28. nóvember 2016, hafi verið farið yfir ástæður þess að synjað var um örorkulífeyri en örorkustyrkur hafi verið talinn rétt metinn í fyrri ákvörðun, með tilliti til staðals í reglugerð um örorkumat nr. 379/1999.

Við mat á örorku hafi tryggingalæknir stuðst við þau gögn sem liggi fyrir. Við örorkumat lífeyristrygginga þann 29. desember 2016 hafi legið fyrir starfsgetumat frá VIRK, dags. 15. október 2016, læknisvottorð C, dags. 7. nóvember 2016, svör við spurningalista Tryggingastofnunar vegna færnisskerðingar, dags. 16. nóvember 2016, umsókn kæranda, dags. 16. nóvember 2016, ásamt skoðunarskýrslu læknis, dags. 6. desember 2016.

Við matið hafi verið stuðst við staðal Tryggingastofnunar en honum sé skipt í tvo hluta, líkamlegan og andlegan. Til þess að standast efsta stig örorku samkvæmt staðli þurfi umsækjandi að fá fimmtán stig í líkamlega hlutanum eða tíu stig í þeim andlega, þó nægi að umsækjandi fái sex stig í hvorum hluta fyrir sig.

Í gögnum málsins hafi komið fram að kærandi hafi strítt við stoðkerfisvanda eftir bílslys og hafi verið greind með vefjagigt og slitgigt ásamt B12 vítamínskorti. Skilyrði staðals um hæsta örorkustig hafi ekki verið talin uppfyllt. Kærandi hafi fengið þrjú stig í líkamlega hlutanum og sex stig í þeim andlega, en færni kæranda til almennra starfa hafi áfram verið talin skert að hluta þ.e. 25 % og henni hafi því verið metinn örorkustyrkur (50% örorka) frá 1. desember 2016 til 30. nóvember 2019.

Ítarlega hafi verið farið yfir gögn málsins og viðbótargögn sem fylgdu kæru. Farið hafi verið sérstaklega yfir hvort niðurstaða skoðunarskýrslu læknis og örorkumats hafi verið í samræmi við gögn málsins. Að öllum þessum gögnum virtum telji stofnunin að ekki sé um ósamræmi að ræða eða að ný gögn um versnandi heilsufar kæranda hafi komið fram.

Rétt sé þó að hafa í huga að í skoðunarskýrslu séu svör kæranda og aðrar upplýsingar í málinu metnar af skoðunarlækninum. Í þessu tilfelli megi til dæmis benda á að það sé mat skoðunarlæknis að vegna stirðleika í liðum og vöðvum hafi kærandi hlotið þrjú stig í líkamlega þættinum og vegna kvíða, þunglyndis, streitu og síþreytu hafi kærandi hlotið sex stig í andlega þættinum.

Það sé því niðurstaða stofnunarinnar að afgreiðsla á umsókn kæranda, þ.e. að synja henni um örorkulífeyri en veita henni örorkustyrk, hafi verið rétt miðað við fyrirliggjandi gögn í málinu. Jafnframt skuli áréttað að ákvörðunin, sem kærð hafi verið í þessu máli, hafi verið byggð á faglegum sjónarmiðum og gildandi lögum og reglugerðum.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 29. desember 2016, þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur en henni veittur tímabundinn örorkustyrkur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. sömu laga skal Tryggingastofnun ríkisins að tilteknum skilyrðum uppfylltum veita einstaklingi örorkustyrk ef örorka hans er metin að minnsta kosti 50%.

Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat metur tryggingayfirlæknir örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt staðli sem byggður er á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun. Fyrri hluti örorkustaðalsins fjallar um líkamlega færni og þarf umsækjandi að fá fimmtán stig samanlagt til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Síðari hluti staðalsins lýtur að andlegri færni og þarf umsækjandi að fá tíu stig til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Nái umsækjandi ekki tilskildum stigafjölda í öðrum hluta staðalsins getur hann samt verið metinn að minnsta kosti 75% öryrki nái hann að minnsta kosti sex stigum í hvorum hluta staðalsins. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar skal Tryggingastofnun, þegar umsókn og læknisvottorð hafa borist, að jafnaði senda umsækjanda staðlaðan spurningalista. Örorkumat er síðan unnið á grundvelli svara umsækjanda, læknisvottorðs og ef þurfa þykir læknisskoðunar og annarra gagna sem tryggingayfirlæknir telur nauðsynlegt að afla.

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð C, dags. 7. nóvember 2016. Í vottorðinu kemur fram að sjúkdómsgreining kæranda sé vefjagigt (fibromyalgia). Þá segir í læknisvottorðinu:

„Verið hjá gigtarlækni síðustu árin. Greind með vefjagigt og slitgigt. B12 skortur, talinn vera orsök þreytu. Sett á lyfjameðferð. Þreytist fljótt og fær verki við allt álag. Hætti að vinna X 2015, var áður í 75% hlutfalli í [...]. Vinnan reyndi mikið á háls og herðar. Dofi handleggjum eftir vinnudag. Skárri eftir að hætti að vinna. Stöðugt í sjúkraþjálfun.

[…]

Kona með versnun mtt stoðkerfisverkja og kvíðaröskunar er með vefja og slitgigt. Kláraði VIRK nýlega. Ekki metin sem líkleg á vinnumarkaðin á næstunni. Líkamlegt álag ekki í boði. Starfsendurhæfing talin fullrent skv. VIRK.“

Fyrir lá við örorkumatið starfsgetumat VIRK, dags. 15. október 2016 þar segir að kærandi hafi verið greind samkvæmt læknaskýrslum með geðlægðarlotu og vefjagigt. Í sögu segir meðal annars svo:

„Staða gagnvart vinnu áframhaldandi mjög slæm og lítil breyting orðið gagnvart möguleikum hennar á vinnumarkaði þótt margt jákvætt hafi gerst. Verið áfram í sjúkraþjálfun og nuddi. Litlar breytingar orðið á einkennum hennar en e.t.v. orðið stöðugri. Má áfram við nánast engu álagi og versnar fljótt. Áfram verst í hálshrygg og vöðvunum þar í kring og handleggjum. Einnig höfuðverkur og verkir út í eyrað. Alltaf með verki sem versna við álag. Farið versnandi í vi. hné sem hefur verið að bólgna upp. Hefur haft neikvæð áhrif á göngugetu hennar og verið á mörkunum að hún treysti sér til að fara í göngutúra og þurft að stytta þá. Ekki eins þreytt og úthaldslaus og áður.

[...]

Andlega heilsan verið betri, ekki síst í sumar. Áfram þó kvíðin en farin að þekkja sjálfa sig betur og meira að biðja um hjálp en áður. Ekki verið í viðtalsmeðferð nýlega. Kvíðinn versnar hinsvegar ef fær tímabil með verri verkjaköstum. Ræður hinsvegar í heildina betur við en áður.“

Þá segir að starfsendurhæfing sé fullreynd og að starfsgeta sé 25%.

Við örorkumatið lá fyrir ódagsettur spurningalisti með svörum kæranda vegna færniskerðingar sem kærandi skilaði til Tryggingastofnunar ríkisins í tengslum við umsókn sína. Kærandi lýsir heilsuvanda sínum þannig að hún sé með gigt. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að sitja á stól þannig að það sé erfitt að sitja í meira en eina klukkustund, hún verði mjög stirð og einnig verkjuð í hálsi. Hún verði að hreyfa sig reglulega annars sé eins og hún stífni í öllum líkamanum. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að standa upp af stól þannig að það sé ekki mjög erfitt. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að beygja sig eða krjúpa og rétta sig upp aftur þannig að hún geti það en hún sé öll mjög stirð, stíf eins og vöðvarnir séu ekki nægjanlega teygjanlegir og hún sé með verki. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að standa með vísun í framangreind svör og að hún sé með verki í hné og þá sérstaklega í vinstra hné sem sé mjög aumt, bólgið og vöðvar í læri séu samangrónir. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að ganga þannig að vinstra hnéð sé aumt og bólgið og það taki verulega á við gang en hún geti að öðru leyti gengið. Kærandi svarar spurningu um það hvort erfitt sé að ganga upp og niður stiga þannig að það reyni á fætur, sérstaklega vinstra hnéð, mjaðmaliði og liði við fótinn og það sé eins og vöðvarnir séu stífir. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að nota hendur þannig að hún sé verkjuð í höndum og úlnliðum og að þeir séu stífir og stirðir. Þá séu hendurnar alltaf ískaldar og dofni stundum á nóttunni. Kærandi svarar spurningu um það hvort erfitt sé að teygja sig eftir hlutum þannig að hún sé stíf og stirð en að hún geti teygt sig. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að lyfta og bera þannig að hún beri ekki þunga hluti vegna háls og axla. Kærandi svarar spurningu um það hvort sjónin bagi hana þannig að hún sé með gleraugu. Kærandi svarar spurningu um það hvort heyrnin bagi hana þannig að hún heyri ekki illa en hún hafi stundum suð og sé mjög oft með einhvers konar þrýstingstilfinningu frá hálsi upp í eyrun. Þá svarar kærandi spurningu um það hvort hún eigi við geðræn vandamál að stríða játandi, hún hafi orðið mjög þung og kvíðin yfir þessu ástandi og hún hafi ekki treyst sér til nokkurra verka. Hún hafi lagast og sé aðeins léttari og ekki jafn kvíðin, nú geti hún gert hlutina á sínum hraða og það sé ótrúlegur léttir.

Skýrsla D skoðunarlæknis liggur fyrir í málinu en hún átti viðtal við kæranda og skoðaði hana að beiðni Tryggingastofnunar ríkisins þann 6. desember 2016. Samkvæmt skýrslunni mat skoðunarlæknir líkamlega færniskerðingu kæranda þannig að hún geti ekki setið nema í tvær klukkustundir án þess að neyðast til að standa upp. Þá geti kærandi ekki gengið upp og niður stiga milli hæða án þess að halda sér. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við líkamlega færniskerðingu. Hvað varðar andlega færniskerðingu kæranda telur skoðunarlæknir að svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf kæranda. Þá hafi andlegt álag átt þátt í að kærandi lagði niður starf. Kærandi forðist hversdagsleg verkefni á þeim forsendum að þau muni valda of mikilli þreytu eða álagi. Kærandi kvíði því að sjúkleiki hennar versni fari hún aftur að vinna. Þá kjósi kærandi að vera ein sex tíma á dag eða lengur. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við andlega færniskerðingu.

Skoðunarlæknir lýsir líkamsskoðun kæranda þannig í skýrslu sinni:

„X árs kona, útlit svarar til aldurs, litarháttur er eðlilegur. Hún er X cm, X kg, BMI X. Göngulag er eðlilegt. Fer með fingurgóma í gólf í frambeygju með bein hné. Er aum við þreyfingu á vöðvum og vöðvafestum í hálsi og herðum. Er með skertar hálshreyfingar til vi. og vantar líka 2 fingurbreiddir niður á við. Hreyfigeta og kraftar eru annars eðlileg skv. staðli TR.“

Geðheilsu kæranda er lýst svo í skoðunarskýrslu:

„Saga um þunglyndi, kvíða og síþreytu. Prófaði þunglyndislyf, sem ekki hjálpaði. Gat hvílt sig meira eftir að hún hætti að vinna og líður betur. Í viðtali er hún vel áttuð, er í andlegu jafnvægi, gefur góðan kontakt og góða sögu og kemur vel fyrir. Geðslag er eðlilegt. Engar ranghugmyndir.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, metur örorku kæranda á grundvelli fyrirliggjandi gagna sem nefndin telur nægjanleg. Er þá metin skerðing á getu vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Eins og áður hefur komið fram er staðallinn hluti af reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat sem sett er með skýrri lagastoð. Staðlinum er ætlað að mæla líkamlega og andlega færni á grundvelli staðlaðra spurninga og svara við þeim. Úrskurðarnefndin er bundin af staðlinum eins og hann hefur verið ákveðinn. Úrskurðarnefndin hefur lagt mat á skoðunarskýrslu matslæknis og virt hana í ljósi annarra læknisfræðilegra gagna sem liggja fyrir í málinu. Samkvæmt skoðunarskýrslu er líkamleg færniskerðing kæranda, svo sem hún er mæld samkvæmt örorkustaðli, sú að kærandi geti ekki setið nema í tvær klukkustundir án þess að neyðast til að standa upp. Slíkt gefur ekkert stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi geti ekki gengið upp og niður stiga á milli hæða án þess að halda sér. Slíkt gefur þrjú stig samkvæmt örorkustaðli. Á grundvelli skýrslu skoðunarlæknis er því líkamleg færniskerðing kæranda metin til þriggja stiga samtals. Að mati læknis er andleg færniskerðing kæranda sú að svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Þá hafi andlegt álag átt þátt í að kærandi lagði niður starf. Slíkt gefur tvö stig samkvæmt örorkustaðli. Kærandi forðist hversdagsleg verkefni á þeim forsendum að þau muni valda of mikilli þreytu eða álagi. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Þá kvíði kærandi því að sjúkleiki hennar versni fari hún aftur að vinna. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Kærandi kjósi að vera ein sex tíma á dag eða lengur. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Á grundvelli skýrslu skoðunarlæknis er því andleg færniskerðing kæranda metin til sex stiga samtals.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat er heimilt að meta umsækjanda að minnsta kosti 75% öryrkja án þess að byggja á staðli ef tryggingayfirlæknir telur sýnt af læknisvottorði eða öðrum gögnum að umsækjandi hafi hlotið örorku til langframa vegna læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eða muni sannanlega hljóta slíka örorku. Um undantekningarákvæði er að ræða sem skýra verður þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Ekki er í reglugerðinni sjálfri að finna leiðbeiningar um það hvenær ákvæðið á við, en þar sem 18. gr. almannatryggingalaga mælir fyrir um staðlað mat verður að gera mjög strangar kröfur við beitingu undantekningarákvæðisins. Slíkt er að mati úrskurðarnefndarinnar aðeins heimilt ef líkamleg og andleg færni er svo mikið skert að augljóst er að viðkomandi uppfylli skilyrði staðals eða fötlun hans verði jafnað til þess. Að mati nefndarinnar á það ekki við í tilviki kæranda.

Úrskurðarnefndin telur ekki tilefni til að gera athugasemdir við skoðunarskýrslu og leggur hana til grundvallar við mat á örorku kæranda samkvæmt örorkustaðli. Það er niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að þar sem kærandi fékk þrjú stig úr þeim hluta staðals sem varðar líkamlega færni og sex stig úr andlega hlutanum, þá uppfylli hún ekki skilyrði 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat. Þá er það niðurstaða úrskurðarnefndar að kærandi uppfylli ekki undanþáguákvæði 4. gr. reglugerðarinnar sem gerir ráð fyrir að örorka sé metin utan örorkustaðals. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkulífeyri og tengdar greiðslur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta