Hoppa yfir valmynd

Nr. 25/2022 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 26. janúar 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 25/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU21100055

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

I.         Málsatvik

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála þann 20. apríl 2021 var ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja umsókn einstaklings er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Miðbaugs Gíneu (hér eftir nefndur kærandi), um dvalarskírteini samkvæmt 90. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Þann 23. júlí 2021 barst kærunefnd beiðni frá kæranda um endurupptöku málsins, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en með beiðni kæranda fylgdi greinargerð og fylgigögn. Kærunefnd synjaði beiðni um endurupptöku með úrskurði hinn 16. september 2021. Kærandi óskaði að nýju um endurupptöku málsins hinn 21. október 2021.

II.        Málsástæður og rök kærenda

Í beiðni kæranda um endurupptöku málsins kemur fram að kæranda sé ekki ljóst hvaða ástæður hafi leitt til þess að ekki hafi verið fallist á umsókn hans um dvalarleyfi. Kærandi vísar til þess að vinur sinn hafi sótt um sams konar dvalarleyfi á sama degi og aðstæður viðkomandi séu þær sömu og kæranda. Kærandi hafi lagt fram frekari gögn umsókn sinni til stuðnings. Kærandi áréttar að eiginkona hans til tólf ára starfi hér á landi og hafi íslenska kennitölu.

III.      Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Með úrskurði nr. 171/2021 frá 20. apríl 2021 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja umsókn kæranda um dvalarskírteini á grundvelli 90. gr. laga um útlendinga. Með beiðni sinni um endurupptöku lagði kærandi fram ljósmyndir af ýmsum gögnum, m.a. af greiðslukortum sem bera með sér að vera í hans eigu, skólaskírteini frá Spáni og dvalarleyfisskírteini, útgefnu af spænskum yfirvöldum.

Í fyrrgreindum úrskurði komst nefndin að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 4. mgr. 83. gr. né 2. mgr. 90. gr. um að framvísa gildu vegabréfi, en við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun hafði kærandi framvísað vegabréfi sem reyndist breytifalsað en á þremur stöðum í því hefði handskrifuðum upplýsingum verið breytt, sbr. skjalarannsóknarskýrslu lögreglunnar á Suðurnesjum frá 9. nóvember 2020.

Líkt og við meðferð fyrra endurupptökumáls kæranda, hefur kærandi ekki lagt fram annað vegabréf, en ákvæði a-liðar 2. mgr. 90. gr. laga um útlendinga geri kröfu um að umsækjandi um dvalarskírteini hafi gilt vegabréf, og er það mat nefndarinnar að framlögð gögn og skýringar með endurupptökubeiðni séu ekki þess eðlis að tilefni sé til endurupptöku málsins á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga. Með vísan til þess er það niðurstaða kærunefndar að úrskurðar kærunefndar útlendingamála nr. 171/2021, hafi ekki byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik hafi breyst verulega frá töku ákvörðunar, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kæranda um endurupptöku málsins því hafnað.

 

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda er hafnað.

 

The request of the appellant is denied.

Þorsteinn Gunnarsson

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta