Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 13/2018

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 13/2018

Miðvikudaginn 14. mars 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 17. janúar 2018, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 4. desember 2017 um að líta á „tilleggspenjson“ greiðslur hans frá NAV í Noregi sem lífeyrissjóðstekjur við endurreikning á tekjutengdum bótagreiðslum hans á árinu 2017.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 4. desember 2017, var kæranda tilkynnt um að bótaréttur hans hefði verið endurreiknaður á grundvelli upplýsinga frá NAV í Noregi. Í ákvörðuninni kemur fram að fyrir liggi ofgreiðsla að fjárhæð X sem verði ekki innheimt fyrr en að loknu uppgjöri bóta ársins sem áætlað sé að fari fram haustið 2018.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 17. janúar 2018. Með bréfi, dags. 18. janúar 2018, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 30. janúar 2018, og var hún send kæranda til kynningar með tölvupósti úrskurðarnefndar, dags. 31. janúar 2018. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki formlegar kröfur í málinu en ráða má af kæru að hann óski endurskoðunar á ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að líta á „tilleggspensjon“ greiðslur hans frá NAV í Noregi sem lífeyrissjóðstekjur við endurreikning á tekjutengdum bótagreiðslum hans á árinu 2017.

Í kæru segir að í bréfi Tryggingastofnunar ríkisins frá 4. desember 2017 hafi kæranda verið tilkynnt að X norskar krónur séu lífeyrissjóðsgreiðslur og að stofnunin hafi endurreiknað íslenskan lífeyri með kröfu um endurgreiðslu haustið 2018.

Að mati kæranda séu forsendur sem lagðar séu til grundvallar áætlaðri breytingu alrangar. Hann hafi aldrei verið tengdur neinum lífeyrissjóði. Hann hafi haft samband við erlend mál hjá Tryggingastofnun og þar hafi honum verið tjáð munnlega að stofnunin álíti „tilleggspensjon“ í Noregi vera lífeyrissjóðstekjur eða því tengt. Hann hafi því haft samband við NAV pensjon og þeir vísi því algjörlega frá. NAV hafi bent kæranda á að Tryggingastofnun eigi að vita að NAV pensjon hafi aðeins með ellilífeyri að gera en ekki lífeyrissjóði. „Tilleggspensjon“ sé aðeins verkfæri til útreiknings á uppsöfnuðum réttindum ellilífeyris. Kærandi vísi til ákvæða 3-8 norsku almannatryggingalaganna (n. lov om folketrygd). Túlkun Tryggingastofnunar um tengsl við lífeyrissjóðstekjur sé því röng og mótmæli kærandi því áætlun stofnunarinnar um að líta á „tilleggspensjon“ sem lífeyrissjóðstekjur.

Að lokum vilji kærandi koma því á framfæri að hann, sem ellilífeyrisþegi og veikur hjartasjúklingur, finnist það hvimleitt að vera ár eftir ár í stanslausum bréfaskriftum við Tryggingastofnun vegna alls konar áætlana um breytingar, sem hafi það að markmiði að reita af kæranda þær fáu krónur sem hann fái frá Íslandi sem ellilífeyri. Tryggingastofnun hafi misskilið hans mál og sýnt óþolinmæði vegna seinagangs norskra yfirvalda. Ef nefndin vilji huga að velferðarmálum kæranda þá hvetji hann nefndina til að kalla inn langan hala af þessum skrifum og koma á framfæri við Tryggingastofnun að beina dýrmætum tíma stofnunarinnar til alvöru mála.

Í athugasemdum kæranda segir að í greinargerð Tryggingastofnunar séu staðhæfulausar fullyrðingar um að kærandi tengist einhverjum lífeyrissjóði í Noregi. Þá sé ekki rétt að hann taki við tekjum tengdum „uføretrygd“. Hann vísi í athugasemdir við ákvæði §3-8 í norsku almannatryggingalögunum um „tilleggspensjon“:

„Bestemmelsene om tilleggspensjon står i folketrygdloven § 3-8 til § 3-23. Tilleggspensjon er folketrygdens standardsikring og utmåles i forhold til det inntektsnivået man hadde som yrkesaktiv.

Tilleggspensjonen beregnes på grunnlag av tidligere pensjonsgivende inntekt uttrykt ved sluttpoengtallet.

Rett til tilleggspensjon krever at vedkommende har opparbeidet minst tre poengår. Full opptjeningstid er 40 år.“

Kærandi telji að starfsmenn Tryggingastofnunar hafi ekki lögfræðimenntun í norskum almannatryggingalögum og hafi gripið orðatiltæki úr lausu lofti. Þá hafi stofnunin brotið á varnarrétti hans með því að framkvæma skyndilega breytingu á greiðslum með nýrri greiðsluáætlun, dags. 4. desember 2017, án nokkurra skýringa.

Í Noregi sé lífeyrissjóður ekki tengdur föstum samningi við launþegasamtök og lífeyrissjóði. Hver og einn verði að velja sér sjálfur sinn lífeyrissjóð. Kærandi hafi aldrei verið tengdur neinum þessara lífeyrissjóða í Noregi og liggi því sönnunarbyrði á stofnuninni að sanna hið gagnstæða.

Kærandi mótmæli þeim rökum Tryggingastofnunar að „tilleggspensjon“ sé sambærilegt við greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum. Hann óski eftir því að stofnunin hafi samband við lögmenn hjá NAV í Noregi sem geti gefið þeim sömu svör og kærandi hafi fengið varðandi ákvæði §3-8 um „tilleggspensjon“.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að samkvæmt 17. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar miðist réttur til ellilífeyris við þá sem hafi náð 67 ára aldri og hafi verið búsettir hér á landi, að minnsta kosti þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Líkt og fram komi í 17. gr. teljist fullur ellilífeyrir einstaklings sem hafi verið búsettur hér á landi að minnsta kosti 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Sé um skemmri búsetutíma að ræða þá greiðist ellilífeyrir/örorkulífeyrir í hlutfalli við búsetutíma.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar, með síðari breytingum, sé kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun skuli standa að útreikningi bóta. Til tekna samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laganna teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Eftirlaun og lífeyrir séu þar á meðal, sbr. A-lið 7. gr. laganna.

Samkvæmt lögum um almannatryggingar sé meginreglan sú að allar skattskyldar tekjur hafi áhrif á útreikning bóta, sbr. 2. mgr. 16. gr. laganna, en í 3. og 4. mgr. séu taldar upp ívilnandi undanþágur frá þeirri meginreglu þar sem tilgreint sé hvaða tekjur skuli ekki teljast til tekna lífeyrisþega þrátt fyrir 2. mgr.

Ákvæði 3. og 4. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar séu svohljóðandi:

,,Þegar um er að ræða örorkulífeyri skv. 18. gr. teljast ekki til tekna þrátt fyrir 2. mgr. bætur samkvæmt lögum þessum, lögum um slysatryggingar almannatrygginga og lögum um félagslega aðstoð, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum, séreignarlífeyrissparnaði og viðbótartryggingavernd samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Sama á við um sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við skv. 68. gr.

Þegar um er að ræða ellilífeyri skv. 17. gr., tekjutryggingu skv. 22. gr. og ráðstöfunarfé skv. 48. og 56. gr. teljast ekki til tekna þrátt fyrir 2. mgr. bætur samkvæmt lögum þessum, lögum um slysatryggingar almannatrygginga og lögum um félagslega aðstoð, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, greiðslur úr séreignarlífeyrissparnaði og viðbótartryggingavernd samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Sama á við um sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við skv. 68. gr.“

Samkvæmt 1. gr. 68. gr. laganna sé ríkisstjórninni heimilt að semja við erlend ríki um gagnkvæm réttindi og skyldur samkvæmt lögunum og ráðherra að semja við erlendar tryggingastofnanir í samningsríkjum um nánari framkvæmd slíkra samninga.

Samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlag skulu tekjur, sem aflað sé erlendis og ekki séu taldar fram hér á landi, sæta sömu meðferð gagnvart bótaútreikningi og væri þeirra aflað hér á landi. Um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta sé nánar fjallað um í fyrrgreindri reglugerð.

Með reglugerð nr. 442/2012 um gildistöku reglugerða Evrópusambandsins um almannatryggingar hafi reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 frá 29. apríl 2004 öðlast gildi hér á landi.

Í a-lið 5. gr. Evrópureglugerðar nr. 883/2004 segi: ,,ef almannatryggingabætur og aðrar tekjur hafa tiltekin réttaráhrif samkvæmt löggjöf í lögbæru aðildarríki skulu viðeigandi ákvæði þeirrar löggjafar einnig gilda um jafngildar bætur sem fást samkvæmt löggjöf annars aðildarríkis eða um tekjur sem aflað er í öðru aðildarríki“.

Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 4. desember 2017, hafi kæranda verið tilkynnt um að bótaréttur kæranda hafi verið endurreiknaður á grundvelli ákvörðunar NAV í Noregi. Kæranda hafi verið send greiðsluáætlun fyrir árið 2017 og hafi jafnframt verið upplýstur um ofgreiðslu að fjárhæð X kr. sem yrði innheimt árið 2018. Tryggingastofnun óski eftir að leiðrétta umrætt bréf. Með bréfi Tryggingastofnunar hafi átt að fylgja upplýsingar um greiðslur fyrir árið 2017. Greiðslur hafi verið áætlaðar að meðaltali X kr. fyrir árið 2017 en eftir að greiðslur hafi verið endurreiknaðar hafi þær fær farið niður í X kr. að meðaltali. Umræddar greiðslur séu gerðar með fyrirvara um gengisbreytingu eða breytingar á tekjum kæranda. Þess beri að geta að uppgjör fyrir árið 2017 fari fram haustið 2018.

Kærandi sé að fá ellilífeyrisgreiðslur frá NAV í Noregi og skiptast greiðslur hans í ,,grunnpensjon“, ,,pensjonstillegg“, ,,skjermingstillegg til uføre“ og ,,tilleggspensjon“. Síðastnefnda greiðslutegundin hafi áhrif á greiðslur kæranda frá Tryggingastofnun en hinar fyrrnefndu flokkist undir grunnlífeyri sem sé sambærilegur greiðslum frá Tryggingastofnun. Réttur lífeyrisþega til ,,tilleggspensjon“ miðist við áunnin lífeyrisstig sem reiknast að meginstefnu til út frá tekjum bótaþega á vinnumarkaði og fjölda ára á vinnumarkaði, sbr. norsku almannatryggingalögin nr. 5/1997. Greiðslur kæranda miðast því meðal annars við þær tekjur sem hann hafi aflað á vinnumarkaði. Ellilífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar taki aftur á móti ekki mið af tekjum bótaþega á vinnumarkaði heldur búsetulengd hér á landi, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar. Af þeim sökum líti stofnunin svo á að ,,tilleggspensjon“ samsvari greiðslum úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum. Úrskurðarnefnd almannatrygginga hafi staðfest slíka nálgun, sbr. úrskurð nefndarinnar í máli nr. 32/2012 frá 3. október 2012. Í úrskurði þessum hafi úrskurðarnefndin fallist á það mat Tryggingastofnunar að ,,tilleggspensjon“ væri sambærilegt við greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum og skyldi skerða bótaréttindi frá stofnuninni lögum samkvæmt.

Til að öðlast full réttindi til elli- og/eða örorkulífeyris þurfi einstaklingur að hafa haft búsetu hér á landi í að minnsta kosti 40 almanaksár frá 16-67 ára aldurs, sbr. 17. gr. laga um almannatryggingar. Sé um skemmri tíma að ræða reiknist réttur til elli- og/eða örorkulífeyris í hlutfalli við búsetutímann. Rétturinn sé óháður starfstíma eða atvinnutekjum viðkomandi. Við búsetu sé átt við skráningu á lögheimili hjá Þjóðskrá Íslands. Kærandi sé með hlutfallslegar greiðslur hér á landi sökum búsetu erlendis.

Réttur lífeyrisþega til ,,tilleggspensjon“ frá NAV í Noregi miðist við áunnin lífeyrisstig sem reiknist að meginstefnu til út frá tekjum bótaþega á vinnumarkaði og fjölda ára á vinnumarkaði. Greiðslur kæranda miðast því meðal annars við þær tekjur sem hann hafi aflað á vinnumarkaði. Ellilífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar taki aftur á móti ekki mið af tekjum bótaþega á vinnumarkaði heldur búsetulengd hér á landi. Af þeim sökum líti stofnunin svo á að ,,tilleggspensjon“ samsvari greiðslum úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 4. desember 2017 um að líta á „tilleggspenjson“ greiðslur kæranda frá NAV í Noregi sem lífeyrissjóðstekjur við endurreikning á tekjutengdum bótagreiðslum hans á árinu 2017. Í ákvörðun Tryggingastofnunar var kæranda tilkynnt um að bótaréttur hans á árinu 2017 hafi verið endurreiknaður á grundvelli upplýsinga frá NAV í Noregi. Í bréfi frá NAV, dags. 24. október 2017, kemur fram að kærandi fái „grunnpensjon“, „tilleggspensjon“, „pensjonstillegg“ og „skjermingstillegg til uføre“ greiðslur á árinu 2017.

Í 23. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er kveðið á um fjárhæð ellilífeyris. Þar segir í 2. málsl. 1. mgr. að ellilífeyrir skuli lækka um 45% af tekjum lífeyrisþegans, sbr. 16. gr., uns lífeyririnn falli niður. Í 16. gr. laganna er kveðið á um tekjutengingu bótagreiðslna og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi þeirra. Í 2. mgr. 16. gr. laganna kemur fram að til tekna skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Sé litið til þeirra laga kemur fram að til tekna skuli telja eftirlaun og lífeyri, sbr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laganna. Þá hljóðar 4. mgr. 16. gr. laganna svo:

„Þegar um er að ræða ellilífeyri skv. 17. gr., tekjutryggingu skv. 22. gr. og ráðstöfunarfé skv. 48. og 56. gr. teljast ekki til tekna þrátt fyrir 2. mgr. bætur samkvæmt lögum þessum, lögum um slysatryggingar almannatrygginga og lögum um félagslega aðstoð, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, greiðslur úr séreignarlífeyrissparnaði og viðbótartryggingavernd samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Sama á við um sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við skv. 68. gr.“

Samkvæmt 7. mgr. 16. gr. laganna ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum.

Af fyrrgreindum ákvæðum 16. og 23. gr. laga um almannatryggingar má ráða að greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum geta skert ellilífeyri og aðrar tekjutengdar bótagreiðslur en aftur á móti skerða bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar ekki ellilífeyri. Sama gildir um sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við samkvæmt 68. gr. laganna, sbr. 4. mgr. 16. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 68. gr. laganna er ríkisstjórninni heimilt að semja við erlend ríki um gagnkvæm réttindi og skyldur samkvæmt lögunum og ráðherra að semja við erlendar tryggingastofnanir í samningsríkjum um nánari framkvæmd slíkra samninga. Noregur er eitt af aðildarríkjum EES-samningsins og því skerða bætur frá Noregi, sem eru sambærilegar bótum samkvæmt lögum um almannatryggingar, ekki ellilífeyri. Tryggingastofnun telur að tekjur kæranda frá NAV vegna „tilleggspensjon“ séu sambærilegar greiðslum úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum og hafi áhrif á rétt kæranda til ellilífeyris. Stofnunin telur að aðrar greiðslur frá NAV hafi aftur á móti ekki áhrif á ellilífeyri.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur rétt að taka til skoðunar hvort Tryggingastofnun ríkisins hafi verið heimilt að líta á „tilleggspensjon“ greiðslur kæranda frá NAV í Noregi sem lífeyrissjóðstekjur við endurreikning á tekjutengdum bótagreiðslum hans á árinu 2017. Nánar tiltekið snýst ágreiningur málsins um hvort „tilleggspensjon“ greiðslur kæranda falli undir undantekningarreglu 4. mgr. 16. gr. laganna og komi því ekki til skerðingar á tekjutengdum bótagreiðslum. Aftur á móti telur úrskurðarnefnd sér ekki fært að fjalla um endurreikning stofnunarinnar þar sem ekki er um endanlega ákvörðun að ræða, sbr. 7. mgr. 16. gr. laganna.

Við mat á því hvort „tilleggspensjon“ sé sambærilegt við bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar, sbr. 4. mgr. 16. gr. laganna, lítur úrskurðarnefnd velferðarmála til þess að réttur lífeyrisþega til „tilleggspensjon“ miðast við áunnin lífeyrisstig sem reiknast að meginstefnu til út frá tekjum bótaþega á vinnumarkaði og fjölda ára á vinnumarkaði, sbr. greinar 3-8 til 3-16 í norsku almannatryggingalögunum nr. 5/1997 (n. lov om folketrygd). Því miðast greiðslurnar meðal annars við þær tekjur sem bótaþegi hefur aflað á vinnumarkaði. Ellilífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar taka aftur á móti ekki mið af tekjum bótaþega á vinnumarkaði heldur búsetulengd, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar.

Úrskurðarnefnd velferðarmála horfir einnig til þess að samkvæmt 1. mgr. 53. gr. og 1. mgr. 54. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa, sem innleidd var í íslenskan rétt með reglugerð nr. 442/2012, er aðildarríki ekki heimilt að beita skerðingarákvæðum í sinni eigin löggjöf þegar um ræðir skörun hlutfallslegra bóta sömu tegundar. Evrópudómstóllinn hefur komist að þeirri niðurstöðu í forúrskurðum sínum að um bætur sömu tegundar sé að ræða þegar tilgangur þeirra, grundvöllur útreiknings og skilyrði bótanna sé sá sami, sbr. efnisgrein 24 í forúrskurði dómstólsins í máli nr. C-107/00. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að þar sem grundvöllur útreiknings „tilleggspensjon“ og ellilífeyris er mjög ólíkur teljist bæturnar ekki vera sömu tegundar í skilningi EB reglugerðar nr. 883/2004.

Með hliðsjón af öllu framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að „tilleggspensjon“ sé ekki alveg sambærilegt við bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar í skilningi 4. mgr. 16. gr. laganna. Aftur á móti telur úrskurðarnefndin „tilleggspensjon“ ekki heldur vera alveg sambærilegt við greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum. Lífeyrissjóðirnir eru fjármagnaðir með iðgjaldagreiðslum og greiðendur iðgjalda ávinna sér þannig rétt til lífeyrisgreiðslna. Í Noregi er greiddur skattur af tekjum sem er kallaður „trygdeavgift“ og er hann notaður til að fjármagna almannatryggingakerfið, sbr. 23. kafla norsku almannatryggingalaganna. Skatturinn stendur á hinn bóginn ekki undir kostnaði NAV og norska ríkið fjármagnar almannatryggingakerfið að öðru leyti, sbr. ákvæði 23-10.

Af lögum um almannatryggingar má ráða að nauðsynlegt er að greina þær tekjur sem bótaþegar afla og flokka þær, enda er að öðrum kosti ekki hægt að kveða á um hvaða skerðingaráhrif tekjurnar hafa samkvæmt lögunum. Þannig geta til dæmis atvinnutekjur og lífeyrissjóðstekjur haft ólík skerðingaráhrif á mismunandi bótaflokka. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst að þrátt fyrir að framangreindar tekjur kæranda frá NAV séu hvorki alveg sambærilegar við örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar né greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum þá hafi tekjurnar mest líkindi við framangreinda tekjuflokka. Úrskurðarnefndin telur því að ekki verði komist hjá því að jafna tekjum kæranda við annan hvorn flokkinn, enda sé að öðrum kosti ekki hægt að kveða á um bótagreiðslur til kæranda. Úrskurðarnefnd almannatrygginga hefur þegar tekið afstöðu til framangreinds álitaefnis. Í úrskurði nefndarinnar nr. 32/2012 frá 3. október 2012 féllst úrskurðarnefndin á það mat Tryggingastofnunar ríkisins að „tilleggspensjon“ væri sambærilegt við greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum og skyldi skerða bótaréttindi frá stofnuninni lögum samkvæmt. Með vísan til þess og í ljósi þess að meginreglan er sú að skattskyldar tekjur skerði bætur frá Tryggingastofnun ríkisins, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar, er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að „tilleggspensjon“ kæranda frá NAV í Noregi falli ekki undir undantekningarreglu 4. mgr. 16. gr. laganna og skuli skerða tekjutengdar bótagreiðslur með sama hætti og greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að líta á „tilleggspenjson“ greiðslur kæranda frá NAV í Noregi sem lífeyrissjóðstekjur við endurreikning á tekjutengdum bótagreiðslum hans á árinu 2017 staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að líta á „tilleggspenjson“ greiðslur A, frá NAV í Noregi sem lífeyrissjóðstekjur við endurreikning á tekjutengdum bótagreiðslum hans á árinu 2017, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta