Hoppa yfir valmynd

Nr. 317/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 20. júní 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 317/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19050035

 

Beiðni […] um endurupptöku

 

I.             Málsatvik

Þann 11. október 2018 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar frá 26. júní 2018 um að synja […], fd. […], ríkisborgara Kólumbíu (hér eftir nefnd kærandi) um dvalarleyfi á grundvelli sambúðar, sbr. 70. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Þann 27. mars 2019 barst Útlendingastofnun bréf frá kæranda. Bréfið var framsent til kærunefndar útlendingamála þann 20. maí 2019. Í bréfinu óskar kærandi eftir endurupptöku málsins.

II.            Málsástæður og rök kæranda

Í bréfi kæranda kemur fram að hún hafi gengið í hjúskap með íslenskum ríkisborgara hér á landi þann 14. febrúar 2019. Óskar kærandi eftir því að mál hennar verði endurupptekið og að fyrri ákvörðun um að hún eigi að yfirgefa landið verði felld úr gildi.

III.           Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölul. ákvæðisins, eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin, sbr. 2. tölul.

Með úrskurði í máli kæranda, dags. 11. október 2018, komst kærunefnd útlendingamála að þeirri niðurstöðu að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli sambúðar, sbr. 70. gr. laga um útlendinga, enda uppfyllti hún ekki skilyrði ákvæðisins um lengd sambúðar. Kærandi hefur nú lagt fram hjónavígsluvottorð, útgefið af sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, þar sem fram kemur að hún hafi gengið í hjúskap með íslenskum ríkisborgara þann 14. febrúar 2019. Hafa atvik málsins breyst verulega að þessu leyti frá því að kærunefnd kvað upp úrskurð í málinu, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Að mati kærunefndar eru upplýsingarnar þess eðlis, í ljósi lagagrundvallar málsins, að tilefni sé til að mál kæranda sé tekið upp á ný hjá kærunefnd.

Kærunefnd fellst því á að mál kæranda verði endurupptekið hjá nefndinni á grundvelli 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Í VIII. kafla laga um útlendinga er fjallað um dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar. Í 1. mgr. 69. gr. laganna er m.a. kveðið á um að nánasti aðstandandi íslensks ríkisborgara geti með umsókn fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar að fullnægðum skilyrðum 55. gr. og VIII. kafla. Telst maki vera meðal nánustu aðstandenda.

Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. laganna er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi hér á landi hyggist hann flytjast hingað til lands til að búa með maka sínum eða sambúðarmaka. Skilyrði þess er að makinn hafi rétt til fjölskyldusameiningar samkvæmt VIII. kafla laga um útlendinga og að hann sé annaðhvort í hjúskap eða sambúð, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 70. gr. laganna. Þá segir í sama ákvæði að sambúð skuli hafa varað lengur en eitt ár og hvor aðili um sig verði að hafa verið eldri en 18 ára þegar stofnað var til hjúskaparins eða sambúðarinnar og að hjúskapur eða sambúð þurfi að uppfylla skilyrði til skráningar samkvæmt lögheimilislögum. Heimilt sé að krefja aðila um að leggja fram gögn til sönnunar á hjúskap eða sambúð erlendis.

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála þann 11. október 2018 var staðfest sú ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli sambúðar við íslenskan ríkisborgara. Eins og áður greinir hefur kærandi nú lagt fram vottorð um að hún hafi gengið í hjúskap með sambúðarmaka sínum. Hefur grundvöllur umsóknar kæranda um dvalarleyfi skv. 70. gr. laga um útlendinga samkvæmt framansögðu breyst. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 26. júní 2018, því felld úr gildi. Er málinu vísað til nýrrar meðferðar hjá Útlendingastofnunar.

 

 

 

Úrskurðarorð

 

Fallist er á beiðni kæranda um endurupptöku á máli hennar.

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

 

The appellant´s request for re-examination of the case is granted.

 

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellant’s case.

 

Anna Tryggvadóttir

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                 Anna Valbjörg Ólafsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta