Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 45/2007

Fimmtudaginn, 6. desember 2007

A

gegn

Vinnumálastofnun

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 1. október 2007 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 25. september 2007.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 12. september 2007 um að synja kæranda um greiðslu til foreldra langveikra og alvarlegra fatlaðra barna.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Óskað er eftir að ákvörðun nefndar Vinnumálastofnunar dags. 12.09.07 um að synja umsókn minni um greiðslur til foreldra langveikra barna frá 24. júlí 2007 skv. lögum nr. 22/2006 verði hnekkt í ljósi aðstæðna.

Sonur minn, B greindist með eitilfrumukrabbamein (bráðahvítblæði) í mars 2006. í framhaldi fór hann í þunga lyfjameðferð og í sept. 2006 fór hann til D-lands í beinmergskipti..

Núna í júlí 2007 greinist B aftur með sama sjúkdóm. Hóf strax aftur erfiða meðferð sem stendur enn yfir og til stendur að hann fari í októbermánuði og áfram á 6 vikna fresti til E-sjúkrahúss til að fá stofnfrumugjöf.

Vegna þess hve stutt er á milli þess að B lýkur meðferð og þar til hann greinist aftur hef ég ekki haft tök á því að vinna. Ég hef ekkert getað unnið frá því að B greinist fyrst þ.e. mars 2006 og hef verið tekjulaus þann tíma fyrir utan þær greiðslur sem ég fékk frá Vinnumálastofnun. Vegna alvarleika málsins og aðstæðna þá óska ég eftir endurmati.“

 

Með bréfi, dagsettu 3. október 2007, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar er dagsett 17. október 2007. Í greinargerðinni segir:

„Vinnumálastofnun vísar til bréfs Úrskurðarnefndar í fæðingar- og foreldraorlofsmálum dags. 3. október 2007 þar sem óskað er umsagnar um kæru A, vegna afgreiðslu stofnunarinnar á umsókn kæranda um greiðslu vegna veikinda sonar hennar B, þann 12. september 2007.

Málavextir eru þeir að í september 2006 samþykkti Vinnumálastofnun greiðslur til kæranda í samræmi við lög um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna nr. 22/2006 vegna veikinda sonar hennar. Samþykktar voru greiðslur til eins mánaðar með tveggja mánaða framlengingu skv. 2. mgr. 19. gr. laganna. Þann 26. júlí 2007 barst ný umsókn frá kæranda um greiðslur vegna sonar hennar þar sem veikindi hans höfðu blossað upp aftur skv. læknisvottorði F sérfræðings dags. 24. júlí 2007. Þeirri umsókn var synjað með bréfi dags. 12. september 2007 með vísan til 15. gr. laga nr. 22/2006 og 19. gr. reglugerðar nr. 543/2006.

Í rökstuðningi fyrir kærunni kemur fram að vegna þess hve stutt leið á milli þess að sonur kæranda lauk meðferð og þar til hann greindist aftur hafi hún ekkert getað unnið frá því í mars 2006 er hann greindist fyrst. Bendir hún á að hún hafi verð alveg tekjulaus þann tíma fyrir utan nefndar greiðslur frá Vinnumálastofnun og í ljósi alvarleika málsins og aðstæðna, óskar hún eftir endurmati á ákvörðun stofnunarinnar með stjórnsýslukæru til Úrskurðarnefndar í fæðingar- og foreldraorlofsmálum, dags. 25. september 2007 sbr. 7. gr. laga nr. 22/2006.

Umsókn kæranda var tekin fyrir á fundi starfshóps um afgreiðslur umsókna um greiðslur skv. lögum nr. 22/2006 í Vinnumálastofnun þann 22. ágúst 2007. Eftir vandlega yfirferð yfir lög nr. 22/2006 og reglugerð nr. 543/2006 var niðurstaða starfshópsins sú að ekki væri unnt að verða við nefndri umsókn kæranda. Ákvörðunin var byggð á eftirfarandi ákvæði nefndra laga og reglugerðar:

Í 15. gr. laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna nr. 22/2006 er kveðið á um rétt foreldris til greiðslna ef barn þess greinist aftur með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eftir að hafa áður náð bata. Þar segir :

„Foreldri barns sem greinist aftur með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eftir að hafa náð bata getur átt sameiginlegan rétt á greiðslum samkvæmt þessum kafla með hinu foreldri barnsins enda hafi foreldri verið samfellt á vinnumarkaði í tólf mánuði eða stundað nám í jafnlangan tíma. Hið sama getur átt við þegar ástand barns versnar vegna sjúkdóms eða fötlunar.“

Ákvæðið er afdráttarlaust um að foreldri skuli hafa verið a.m.k. tólf mánuði samfellt á vinnumarkaði til að öðlast rétt á greiðslum á ný skv. lögunum. Hvorki er heimild til undanþágu frá þessu skilyrði í lagaákvæðinu né í greinargerðinni sem fylgdi því.

Í 1. og 2. mgr. 19. gr. reglugerðar nr. 543/2006 um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna segir:

„Foreldri barns sem greinist aftur með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm, sbr. 15. gr., eftir að hafa náð bata getur átt sameiginlegan rétt á greiðslum samkvæmt lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna og reglugerðar þessarar með hinu foreldri barnsins. Hið sama getur átt við þegar ástand barns versnar vegna sjúkdóms eða fötlunar. Foreldri, sbr. d- og e-lið 2. gr., skal hafa verið samfellt á vinnumarkaði, sbr. 6. gr., í a.m.k. tólf mánuði áður en barnið greindist aftur með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða ástand þess versnaði samkvæmt vottorði sérfræðings þeirrar sérhæfðu greiningar- og meðferðarstofnunar sem veitir barninu þjónustu. Vottorði sérfræðings skal koma fram hvenær barnið greindist aftur með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða ástand þess versnaði en miða skal við þá dagsetningu við ákvörðun um tólf mánaða tímabil skv. 1. málsl. Að öðru leyti þarf foreldri að uppfylla skilyrði fyrir greiðslum skv. III. og V. kafla.“

Hér er enn áréttað það skilyrði að foreldri skuli hafa verið samfellt á vinnumarkaði í 12 mánuði. Það er sérstaklega tekið fram í greininni auk þess sem leiðbeint er um, við hvaða dagsetningu skuli miða við ákvörðun á því hvenær skilyrðinu um tólf mánaða vinnuþátttöku er fullnægt. Jafnframt er vísað til 6. gr. reglugerðarinnar þar sem kveðið er á um hvað geti talist samfellt starf í skilningi laganna, en það er a.m.k. 25% starf í hverjum mánuði yfir tiltekið tímabil. Að lokum er vísað er til a-d liðar 3. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar um hvernig skilgreina skuli þátttöku á vinnumarkaði. Engar heimildir til undanþágu frá þessum ákvæðum er að finna í reglugerðinni.

Að öllu þessu virtu má ráða, að ætlan og vilji löggjafans sé að skilyrði um samfellda tólf mánaða atvinnuþátttöku foreldris, fyrir rétti til greiðslu að nýju ef barn greinist aftur með alvarlegan sjúkdóm, skuli vera fortakslaust og án undanþágu. Samkvæmt því hefur Vinnumálastofnun ekki heimildir að lögum til að verða við umsókn kæranda, sem barst henni 26. júlí 2007, um greiðslur skv. lögum nr. 22/2006.

Af því sem að framan er rakið er það því niðurstaða Vinnumálastofnunar að hin kærða ákvörðun skuli standa.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 24. október 2007, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja kæranda um greiðslu vegna áframhaldandi alvarlegra veikinda sonar hennar.

Í 2. mgr. 19. gr. laga nr. 22/2006, um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna segir að þrátt fyrir efni III. kafla skuli sameiginlegur réttur foreldra til greiðslna þegar börn þeirra greinast með alvarlega og langvinna sjúkdóma eða alvarlega fötlun á árinu 2006 vera allt að einn mánuður. Heimilt er að framlengja sameiginlegan rétt foreldra til greiðslna um allt að tvo mánuði þegar skilyrði fyrir framlengingu á rétti til foreldra til greiðslna eiga við vegna sömu barna.

Foreldri barns sem greinist aftur með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm, sbr. 15. gr. laga nr. 22/2006, eftir að hafa náð bata getur átt sameiginlegan rétt á greiðslum samkvæmt framangreindum lögum og reglugerð nr. 543/2006, um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, með hinu foreldri barnsins enda hafi foreldri

verið samfellt á vinnumarkaði í tólf mánuði eða stundað nám í jafnlangan tíma. Hið sama getur átt við þegar ástand barns versnar vegna sjúkdóms eða fötlunar sbr. 1. mgr. 19. gr. reglugerðar nr. 543/2006. Í 2. mgr. 19. gr. reglugerðarinnar segir að foreldri sbr. d- og e-lið 2. gr., skuli hafa verið samfellt á vinnumarkaði, sbr. 6. gr., í a.m.k. tólf mánuði áður en barnið greindist aftur með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða ástand þess versnaði samkvæmt vottorði sérfræðings þeirrar sérhæfðu greiningar- og meðferðarstofnunar sem veitir barninu þjónustu. Í vottorði sérfræðings skuli koma fram hvenær barnið greindist aftur með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða ástand þess versnaði en miða skuli við þá dagsetningu við ákvörðun um tólf mánaða tímabil skv. 1. málsl. Að öðru leyti þurfi foreldri að uppfylla skilyrði fyrir greiðslum skv. III. og V. kafla.

Í gögnum málsins kemur fram að sonur kæranda greindist með bráða eitilfrumuhvítblæði í mars 2006. Í samræmi við 2. mgr. 19. gr. laga nr. 22/2006 samþykkti Vinnumálastofnun greiðslur til eins mánaðar með tveggja mánaða framlengingu. Í júlí 2007 greindist sonur kæranda síðan aftur með sama sjúkdóm. Kærandi hafði þá ekki verið á vinnumarkaði eftir að sonur hennar veiktist fyrst í mars 2006. Framangreind ákvæði laga nr. 22/2006 um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna og reglugerðar nr. 543/2006, gera að ófrávíkjanlegu skilyrði að viðkomandi hafi verið samfellt í tólf mánuði á vinnumarkaði áður en barn greinist aftur með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða ástand þess versnar. Með hliðsjón af framangreindu verður ekki hjá því komist að staðfesta ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja kæranda um greiðslu vegna áframhaldandi alvarlegra veikinda sonar hennar.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja A um greiðslu til foreldis langveiks barns er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta