Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 10/2008

Þriðjudaginn, 20. maí 2008

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 22. febrúar 2008 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 20. febrúar 2008.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 17. janúar 2008 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Ég hér með kæri þann úrskurð um að vera neitað um fæðingarstyrk. Vegna þess að ég sótti um nám rétt eftir að lögheimilið var flutt til D-lands en var búin að kynna mér hvaða nám var í boði.

Við fluttum út gagngert til að fara í nám, þar sem við vorum í þeirri aðstöðu eins og svo margir Íslendingar sem flytja erlendis í nám að eiga barn. Sonur okkar var að verða 2 ára þegar við flytjum til D-lands og vegna þess ákváðum við sem ábyrgir foreldrar að flytja lögheimili og koma okkur fyrir í íbúðinni áður en nám hæfist og vegna þess að okkur var sagt að það tæki tíma fyrir barnið að komast inn hjá dagmömmu, þess vegna vildum við ekki taka neinar áhættur um að þurfa að bíða í langan tíma eftir plássi Við flytjum út 26 september og þá er haust önn byrjuð (haust önn byrjar í byrjun ágúst) þá var auðvitað ekki hægt að sækja um og byrja á miðri önn svo ég sótti um í nóvember og þá 2 mánuðir í skólann (skólinn byrjar oft í enda janúar eða í byrjun febrúar) það eitt finnst mér sanna það að ég sé að flytja út í nám.

Við erum aðeins með lögheimili tímabundið erlendis vegna náms. Sagði upp vinnu til að fara út í nám. (var að vinna hjá B) Það sem ég á erfitt með að skilja er að sem íslenskur ríkisborgari og námsmaður erlendis sem á eftir að koma til með að flytja aftur heim, að manni sé hafnað að fá fæðingarstyrk vegna þess að maður getur ekki sýnt fram á að maður flytur erlendis til að fara í nám.“

 

Með bréfi, dagsettu 27. mars 2008, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 1. apríl 2008. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er synjun á greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi.

Með umsókn, dags. 27. nóvember 2007, sótti kærandi um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í fullu námi í 6 mánuði vegna væntanlegrar barnsfæðingar, 3. janúar 2008.

Með umsókn kæranda fylgdi vottorð vegna barnsfæðingar, ódagsett. Staðfesting frá E-háskóla um að kæranda hafi verið veitt námsvist við skólann, dags. 15. janúar 2008. Staðfesting frá E-háskóla um að kærandi hafi verið skráð í nám frá 24. janúar–15. nóvember 2006, dags. 21. desember 2007. Staðfesting frá F-skóla um að kærandi sé skráð í G nám, dags. 4. september 2007 og staðfesting á námsframvindu frá sama skóla, dags. 4. janúar 2008. Auk þess lágu fyrir upplýsingar úr Þjóðskrá.

Með bréfi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs, dags. 17. janúar 2008, var kæranda synjað um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmaður þar sem hún hefði ekki verið með lögheimili á Íslandi við fæðingu barns og ekki væri séð að hún hefði flutt lögheimili sitt tímabundið erlendis vegna náms.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2004, eiga foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, rétt á fæðingarstyrk. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Þar kemur fram að fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Enn fremur kemur fram að heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 16. gr. eða undanþáguákvæði 17. gr. reglugerðarinnar. Í 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að heimilt sé á grundvelli umsóknar að greiða fæðingarstyrk til foreldris sem hefur flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning.

Samkvæmt gögnum málsins kemur fram að kærandi hafi flutt lögheimili sitt til D-lands 26. september 2005. Með bréfi E-háskóla til kæranda, dags. 15. janúar 2008, staðfestir skólinn að kærandi hafi sótt um námsvist þann 23. nóvember 2005. Samkvæmt framangreindu virðist kærandi ekki hafa sótt um námsvist fyrr en tveimur mánuðum eftir flutning lögheimilis frá Íslandi til D-lands og ekki verður séð að kærandi hafi haft nein samskipti við skólann fyrir flutninginn. Því verður ekki séð að undanþáguákvæði 1. mgr. 17. gr. rgl. nr. 1056/2004 eigi við í tilviki kæranda, sbr. m.a. úrskurður úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála í máli nr. 6/2007. Hefur Vinnumálastofnun–Fæðingarorlofssjóður ekki skoðað sérstaklega hvort kærandi uppfylli skilyrði um fullt nám að öðru leyti.

Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, sbr. 1. mgr. 14. gr. rgl. nr. 1056/2004 eiga foreldrar sem eru utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi rétt á greiðslu fæðingarstyrks að því tilskyldu að foreldrið hafi átt lögheimili á Íslandi við fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og síðustu 12 mánuði þar á undan. Kærandi átti lögheimili erlendis við fæðingu barnsins og verður því ekki annað séð en að hún eigi ekki rétt á greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar.

Með vísan til framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi og greiðslu fæðingarstyrks foreldris utan vinnumarkaðar hafi réttilega verið synjað.“

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 14. apríl 2008, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eiga foreldrar sem verið hafa í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns rétt til fæðingarstyrks. Samkvæmt 11. mgr. 19. gr. ffl. er ráðherra heimilt að kveða í reglugerð nánar á um framkvæmd ákvæðisins og í 35. gr. ffl. er kveðið á um heimild félagsmálaráðherra að setja reglugerð um nánari framkvæmd laganna. Í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er kveðið á um að fullt nám teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Þá sé heimilt að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 16. gr. eða undanþáguákvæði 17. gr. reglugerðarinnar. Einstök námskeið teljast ekki til fulls náms.

Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. ffl. skal foreldri að jafnaði eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns, ættleiðingu eða varanlegt fóstur og hafa átt lögheimili hér landi síðustu 12 mánuði fyrir þann tíma. Heimilt er þó að veita undanþágu frá lögheimilisskilyrði hafi foreldri flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning.

Samkvæmt gögnum málsins flutti kærandi lögheimili sitt til D-lands 26. september 2005. Staðfest er af E-háskóla að kærandi hafi sótt um nám við skólann þann 23. nóvember 2005. Hún hóf nám við skólann í janúar 2006.

Með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum þykir ekki staðfest að tilgangurinn með flutningi lögheimilis kæranda til D-lands hafi verið nám hennar í E-háskóla. Hún uppfyllir því ekki skilyrði 2. mgr. 19. gr. ffl. um undanþágu frá lögheimilisskilyrði, sbr. og 1. mgr. 17. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Samkvæmt því skapaði námið henni þegar af þeirri ástæðu eigi rétt til fæðingarstyrks sem námsmanni.

Foreldrar utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi eiga sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks í allt að þrjá mánuði hvort um sig vegna fæðingar sbr., 1. mgr. 18. gr. ffl. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. ffl. skulu foreldrar eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns. Samkvæmt gögnum málsins átti kærandi ekki lögheimili á Íslandi við fæðingu barns. Greiðsla fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi kemur því ekki til álita.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um synjun á greiðslu fæðingarstyrks til kæranda staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta