Mál nr. 11/2008
Fimmtudaginn, 5. júní 2008
A
gegn
Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.
Þann 26. febrúar 2008 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 31. janúar 2008.
Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 18. janúar 2008 um að synja kæranda um framlengingu fæðingarorlofs.
Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:
„Undirrituð sem fæddi dreng þ.06.09.07 sótti um framlengingu á fæðingarorlofi vegna veikinda í orlofinu. Fæðingarorlofssjóði var sent læknisvottorð fyrir þessum veikindum. Framlengingunni var synjað og óskaði ég eftir rökstuðningi fyrir synjuninni og var þá bent á lög um fæðingarorlof og á rétt minn til að kæra úrskurðinn. Þegar ég hugðist svo nýta mér kæruréttinn kom í ljós að mikilvægar upplýsingar vantaði í læknisvottorðið svo ég fékk útgefið nýtt læknisvottorð og sendi til fæðingarorlofssjóðs. Erindinu var aftur synjað og ítrekaður réttur minn til að kæra úrskurðinn.
Í bréfi frá Fæðingarorlofssjóði dagsettu þann 18 janúar segir:
Í 11. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks segir; „Heimilt er að framlengja fæðingarorlof móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu, enda sé hún að mati lækna ófær um að annast barn sitt.“
Undirrituð var í tvígang lögð inn á sjúkrahús vegna alvarlegrar sýkingar í tengslum við fæðingu barnsins. Fyrir því liggur læknisvottorð frá B lækni sem hér er hjálagt. Undirrituð var með öllu ófær um að sinna nýfæddu barni sínu í þessum sjúkrahúslegum vegna veikinda sinna. Fyrir því liggur staðfesting frá B lækni, hér einnig hjálagt.
Í hjálögðu læknisvottorði kemur fram að veikindi móður eru að rekja til fæðingar barnsins enda augljóst að brjóstagjöf er beintengd fæðingu barns. Því getur undirrituð ekki sætt sig við þann úrskurð að um veikindi móður tengist ekki fæðingu barnsins. Úrskurður fæðingarorlofssjóðs er mér því óskiljanlegur þar sem bent er á ofangreind lög honum til stuðnings og því hef ég kosið að nýta mér þann rétt að kæra þennan úrskurð Fæðingarorlofssjóðs til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála.“
Með bréfi, dagsettu 14. apríl 2008, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.
Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 28. apríl 2008. Í greinargerðinni segir:
„Með bréfi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 11. september 2007, var henni tilkynnt að umsókn hennar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hefði verið samþykkt frá 25. júlí 2007 og að mánaðarleg greiðsla næmi 80% af meðaltekjum hennar samkvæmt skrám skattyfirvalda tekjuárin 2005 og 2006.
Þann 29. október 2007 barst Fæðingarorlofssjóði læknisvottorð v/lengingar fæðingarorlofs skv. lögum nr. 95/2000 v/sjúkdóms móður, dags. 19. október 2007. Með bréfi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 1. nóvember 2007, var henni synjað um framlengingu fæðingarorlofs þar sem ekki var talið að veikindi móður væri að rekja til fæðingarinnar.
Með tölvupósti, dags. 13. nóvember 2007, óskaði kærandi eftir rökstuðningi fyrir synjuninni. Umbeðinn rökstuðningur var sendur kæranda með bréfi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs, dags. 23. nóvember 2007. Þann 16. janúar 2008 barst Fæðingarorlofssjóði annað læknisvottorð vegna kæranda, dags. 14. janúar 2008. Með bréfi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 18. janúar 2008, var tiltekið að viðbótargögn breyttu ekki fyrri niðurstöðu þar sem ekki væri séð að veikindi móður væri að rekja til fæðingarinnar. Hefur sú ákvörðun nú verið kærð til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála.
Í 3. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 13. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, kemur fram að heimilt sé að framlengja fæðingarorlof móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu, enda sé hún að mati lækna ófær um að annast barn sitt. Í 5. mgr. 17. gr. ffl. segir að þörf fyrir framlengingu á fæðingarorlofi skv. 1.–4. mgr. skuli rökstyðja með vottorði læknis. Enn fremur segir að Vinnumálastofnun sé heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum aðila um hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg. Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður óskaði umsagnar trúnaðarlæknis sjóðsins við ákvörðunina.
Í athugasemdum með 17. gr. frumvarps til framangreindra laga segir að komi til framlengingar fæðingarorlofs verði veikindi móður að vera rakin til fæðingarinnar og valda því að hún geti ekki annast barn sitt. Síðar í athugasemdunum segir að önnur veikindi foreldra eða barna lengi ekki fæðingarorlof.
Í samræmi við orðanna hljóðan og framangreindar athugasemdir er það skilningur Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs og trúnaðarlæknis sjóðsins að einungis sé átt við þau veikindi móður sem hægt er að rekja beint til fæðingarinnar sjálfrar. Önnur veikindi móður sem kunna að koma upp síðar og ekki er hægt að rekja til fæðingarinnar sjálfrar, s.s. veikindi vegna sýkinga í brjósti vegna brjóstagjafar, falla þá utan ákvæðisins.
Í læknisvottorðum, dags. 19. október 2007 og 14. janúar 2008, kemur fram að kærandi hafi fætt barn sitt þann 6. september og hafi fæðing verið eðlileg. Kærandi hafi fengið sýkingu í hægra brjóst nokkrum dögum eftir fæðingu og hafi vegna þessa þurft að fara í fimm ástungur á hægra brjóst en að auki hafi kærandi þurft að liggja inni á deild 22-A frá 25. september – 2. október 2007 og aftur 23.–27. október 2007. Með kæru kæranda fylgdi læknabréf, dags. 22. janúar 2008, þar sem fram kemur að kærandi hafi orðið veik eftir barnsburð vegna endurtekinna abscessa og mastitis einkenna frá brjósti og vegna þessa verið ófær um að sinna barni sínu á meðan á þeim veikindum stóð.
Samkvæmt framangreindum læknisvottorðum var um eðlilega fæðingu að ræða og ekkert sem bendir til að veikindi kæranda megi rekja til fæðingarinnar sjálfrar. Veikindin eru tilkomin síðar og þá sem sýking í hægra brjósti vegna brjóstagjafar eins og fram kemur í gögnum málsins.
Með vísan til alls framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að kæranda hafi réttilega verið synjað um lengingu fæðingarorlofs vegna veikinda móður í tengslum við fæðingu, sbr. synjunarbréf dags. 1. nóvember 2007 og 18. janúar 2008 og rökstuðningur, dags. 23. nóvember 2007, þar sem kærandi uppfyllir ekki skilyrði 3. mgr. 17. gr. ffl. að veikindi móður sé að rekja til fæðingarinnar.“
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 7. maí 2008, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dagsettu 19. maí 2008 þar sem hún ítrekar kröfur sínar og rökstuðning.
Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:
Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um framlengingu fæðingarorlofs vegna veikinda hennar eftir fæðingu barns.
Í 3. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) segir að heimilt sé að framlengja fæðingarorlof móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu. Í athugasemdum með 17. gr. í greinargerð frumvarps sem varð að lögum nr. 95/2000 er tekið fram að við það sé miðað að veikindi móður sem rekja megi til fæðingar valdi því að hún geti ekki annast barn sitt. Þá segir einnig í 1. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks að heimilt sé að framlengja fæðingarorlof móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu, enda sé hún að mati lækna ófær um að annast barn sitt. Samkvæmt 5. mgr. 17. gr. ffl. skal rökstyðja þörf fyrir framlengingu á fæðingarorlofi skv. 1.–4. mgr. með vottorði læknis. Kærandi ól barn 6. september 2007. Í læknisvottorði B dagsettu 14. janúar 2008 er heiti sjúkdóms hennar tilgreint sem „graftarkýli í brjósti tengd barnsburði“. Í lýsingu á sjúkdómnum í vottorðinu kemur fram að fæðing hafi verið eðlileg en kærandi hafi fengið sýkingu í hægra brjóst nokkrum dögum eftir fæðingu og þurft að fara í fimm ástungur á brjóstið. Þá kemur þar fram að kærandi hafi vegna sýkinganna þurft að liggja inni á deild 22-A frá 25. september til 2. október 2007 og síðan aftur frá 23. til 27. október 2007. Í vottorði sama læknis dagsettu 22. janúar 2008 segir: „Það staðfestist hér með að A sem varð veik eftir barnsburð vegna endurtekinna abscessa og mastitis einkenna frá brjósti var ófær um að sinna barni sínu á meðan á þeim veikindum stóð.“
Samkvæmt gögnum málsins var fæðing eðlileg en sýking í brjósti kom upp síðar og verður ekki rakin til fæðingarinnar sjálfrar, með hliðsjón af því verður ekki talið að uppfyllt séu skilyrði 3. mgr. 17. gr. ffl. sbr. og 1. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um rétt til lengingar fæðingarorlofs. Samkvæmt því ber að staðfesta ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.
ÚRSKURÐARORÐ:
Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um framlengingu fæðingarorlof, er staðfest.
Guðný Björnsdóttir
Heiða Gestsdóttir
Gunnlaugur Sigurjónsson