Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 7/2008. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 25. júlí 2008

í máli nr. 7/2008:

Íslenska gámafélagið ehf. og

A.K. flutningar ehf.

gegn

Sorpstöð Suðurlands bs.          

Með bréfi, dags. 16. júlí 2008, sem barst kærunefnd útboðsmála 17. júlí s.á., kærðu Íslenska gámafélagið ehf. og A.K. flutningar ehf. útboðið „Losun á grenndargámum og flokkunartunnum“. Í kæru voru kröfur kærenda orðaðar með eftirfarandi hætti:

„Kærendur krefjast þess með vísan til 1. mgr. 96. gr. laga nr. 84/2007 að kærunefnd útboðsmála stöðvi þegar gerð samnings eða samninga á grundvelli útboðs Sorpstöðvar Suðurlands á verkinu: „Grenndargámar og flokkunar­tunnur.“ þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru kærenda.

           

Þá krefjast kærendur þess með vísan til 1. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007, að kærunefnd útboðsmála felli úr gildi útboð Sorpstöðvar Suðurlands á verkinu: „Grenndargámar og flokkunartunnur.“ Til vara er þess krafist að kærunefnd útboðsmála felli úr gildi útboð Sorpstöðvar Suðurlands á fyrrgreindu verki hvað varðar sorphirðu í Sveitarfélaginu Árborg og Sveitarfélaginu Ölfusi. Verði ekki fallist á kröfu um að felld verði úr gildi ákvörðun um útboð verksins, að hluta eða öllu leyti, er þess krafist að kærunefnd útboðsmála felli úr gildi útboðsskilmála kærða, Sorpsstöðvar Suðurlands, vegna fyrrgreinds útboðs, að hluta eða öllu leyti.

 

Þá krefjast kærendur þess, með vísan til 2. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007, að kærunefnd útboðsmála láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu Sorpstöðvar Suðurlands gagnvart kærendum.

 

Þá krefjast kærendur þess, með vísan til 3. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007, að kærunefnd útboðsmála ákveði að Sorpstöð Suðurlands greiði kærendum kostnað við að hafa kæruna uppi.“

 

Kærða var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir útboðinu. Sérstaklega var óskað eftir athugasemdum kærða vegna kröfu kærenda um stöðvun á gerð samnings. Með bréfi kærða, dags. 23. júlí 2008, krafðist kærði þess að öllum kröfum kærenda yrði hafnað.

 

Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála til skoðunar hvort rétt þyki að stöðva gerð samnings.Endanlega verður leyst úr öðrum kröfum kærunnar síðar.

 

I.

Hinn 22. júní 2008 auglýsti kærði útboðið „Losun á grenndargámum og flokkunartunnum”. Í útboðsgögnum segir að „verkið [felist] í að útvega og þjónusta grenndargámakerfi í Árnes- og Rangárvallasýslu.“ Þar kemur einnig fram að samningstímabil sé frá 1. september 2008 til 1. september 2013.

 

II.

Kærendur telja að útboð á sorphirðu í Árnes- og Rangárvallasýslu brjóti gegn gildandi samningum við kærendur. Þeir samningar kveði á um að kærendur sjái um sorphirðu í sveitarfélaginu Árborg a.m.k. út árið 2009 og í sveitarfélaginu Ölfusi til 1. mars 2012. Kærendur segja að útboðið brjóti með þessu gegn lögum nr. 84/2007 og reglum verktaka- og samningaréttar enda sé verið að leita tilboða í hluta þeirrar sorphirðu sem kærendur hafi þegar samið um. Kærendur segja að útboðið sé því ólögmætt og beri að fella úr gildi að hluta eða öllu leyti. Þá telja kærendur að útboðsskilmálar og útboðsgögn brjóti gegn ákvæðum laga nr. 84/2007 þar sem magntölur í útboðinu séu óvissar og ekki verði ráðið af útboðsgögnum hversu margar tunnur verktaki skuli hafa til ráðstöfunar, hvort tunnum skuli dreift í dreifbýli o.s.frv. Þetta segja kærendur leiða til þess að örðugt sé að bjóða í verkið og skilmálarnir brjóti gegn a-lið 38. gr. laga nr. 84/2007.

 

III.

Kærði telur röksemdir kærenda rangar. Af gögnum sem kærði sendi með athugasemdum sínum kemur fram að á stjórnarfundi Sorpstöðvar Suðurlands hinn 23. júlí 2008 hafi verið samþykkt að hafna öllum tilboðum sem bárust í hinu kærða útboði.

 

IV.

Samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup, getur kærunefnd útboðsmála stöðvað gerð samnings þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru. Kærði hefur ákveðið að hafna öllum tilboðum og ætlar því ekki að gera samning á grundvelli útboðsins. Þegar af þeirri ástæðu er ekki ástæða til að stöðva samningsgerð.

 

Ákvörðunarorð:

Kröfu kærenda, Íslenska gámafélagsins ehf. og A.K. flutninga ehf., um stöðvun samningsgerðar í kjölfar útboðsins „ Losun á grenndargámum og flokkunartunnum“, er hafnað.

 

Reykjavík, 25. júlí 2008.

                                                               Páll Sigurðsson

                                                               Sigfús Jónsson

                                                               Stanley Pálsson

 

 

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík, 25. júlí 2008.




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta