Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 8/2008. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 29. júlí 2008

í máli nr. 8/2008:

Stoð ehf.

gegn

Ríkiskaupum

Með bréfi, dagsettu 22. júlí 2008, kærir Stoð ehf. ákvörðun Ríkiskaupa um val á tilboði Hraðra skrefa ehf. í útboði nr. 14437 – Spelkur fyrir Hjálpartækjamiðstöð Tryggingastofnunar ríkisins.

Í kæru kæranda voru kröfur orðaðar með eftirfarandi hætti:

,,Þess er krafist að samningsgerð við Hröð skref ehf. verði stöðvuð á meðan leyst er úr kæru þessari.

Aðalkrafa kæranda er að ákvörðun Ríkiskaupa um val á tilboði verði felld úr gildi.

Til vara er þess krafist að kærunefnd útboðsmála láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda.

Í öllum tilvikum er þess krafist að varnaraðili greiði kæranda kostnað við að hafa kæruna uppi.“

 

            Kærði krefst þess að kröfu Stoðar ehf. um bráðabirgðastöðvun verði hafnað. Jafnframt óskar kærði eftir viðbótarfresti til að skila athugasemdum og gögnum vegna annarra krafna til 14. ágúst næstkomandi.

Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd til skoðunar hvort rétt þyki að stöðva samningsgerð í tengslum við útboðið. Endanlega verður leyst úr efnisatriðum kærunnar síðar.

 

I.

Hinn 9. júní 2008 var þátttakendum í útboði Ríkiskaupa nr. 14437 – Spelkur fyrir Hjálpartækjamiðstöð Tryggingastofnunar ríkisins tilkynnt um niðurstöður útboðsins. Ákveðið var að velja tilboð Hraðra skrefa ehf. í brjóstkassa- og bolspelkur, ökklaspelkur og fótleggjaspelkur. Kæra, dags. 22. júlí 2008, barst nefndinni í kjölfarið eins og áður segir.

 

II.

Kærandi byggir kröfur sínar á því að fyrirtækið Hröð skref ehf. sé í eigu Arnar Ólafssonar og mun hann ennfremur uppfylla samninginn fyrir hönd félagsins. Samkvæmt samningi Arnar við Stoð ehf. má hann ekki fara í samkeppni við félagið, beint eða óbeint, næstu sex mánuðina eftir að hann lætur af störfum. Örn hefur nýlega látið af störfum hjá Stoð ehf. og telur kærandi að honum hafi því verið óheimilt að gera tilboð í umræddu útboði.

            Samkvæmt skilmálum útboðs nr. 14437 sé ætlunin að gera samning til þriggja ára frá og með 1. júní 2008. Örn Ólafsson geti hins vegar ekki byrjað að uppfylla samninginn fyrr en 1. janúar 2009 samkvæmt fyrrgreindum samningi hans við Stoð ehf. Kærandi bendir á að kærða hafi verið kunnugt um þetta enda hafi það verið tekið fram í tilboði Hraðra skrefa ehf. Kærði hafi engu að síður tekið tilboði Hraðra skrefa ehf. og hyggist semja við félagið um framleiðslu á spelkum frá og með 1. janúar 2009.

            Telur kærandi að Örn Ólafsson hafi ekki verið hæfur til að gera tilboð í útboði nr. 14437 enda hafi honum verið óheimilt að uppfylla skyldur sínar á hluta samningstímans sem gert var ráð fyrir útboðinu. Þannig uppfylli bjóðandinn ekki tæknilega getu á þeim hluta samningstímans. Þá sé það ennfremur í ósamræmi við þá útboðsskilmála, sem kváðu á um að upphaf samningstíma væri 1. júní 2008, að semja við bjóðanda frá og með 1. janúar 2009.

            Loks telur kærandi að einnig megi líta svo á að með því að gera tilboð með þessum hætti hafi í raun verið gert frávikstilboð enda um að ræða frávik frá útboðsskilmálum. Frávikstilboð hafi ekki verið heimil samkvæmt útboðsskilmálum en slíkt þurfi að taka sérstaklega fram samkvæmt 41. gr., sbr. o-lið 1. mgr. 38. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup.

 

 

III.

Kærði krefst þess að kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar verði hafnað. Bendir kærði á að niðurstaða útboðsins hafi verið tilkynnt kæranda 9. júní síðastliðinn í samræmi við 1. mgr. 76. gr. laga um opinber innkaup. Að liðnum 10 daga biðtíma hafi samningur verið undirritaður við Hörð skref ehf. þann 21. júní síðastliðinn. Þar með hafi verið kominn á bindandi samningur sem ekki verði felldur úr gildi eða honum breytt samkvæmt 1. mgr. 100. gr. laga um opinber innkaup.

 

IV.

Samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup, getur kærunefnd útboðsmála stöðvað gerð samnings þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru. Eftir að bindandi samningur skv. 76. gr. er kominn á verður hann þó ekki felldur úr gildi eða honum breytt þótt ákvörðun kaupanda um framkvæmd útboðs eða gerð samnings hafi verið ólögmæt, sbr. 1. mgr. 100. gr. laganna. Frá því að ákvörðun um val tilboðs var tilkynnt og þangað til tilboð var endanlega samþykkt liðu tíu dagar. Í þeim innkaupum sem mál þetta lýtur að hefur þannig komist á bindandi samningur samkvæmt 76. gr. laganna og þegar af þeirri ástæður er ekki heimilt, lögum samkvæmt, að stöðva samningsgerðina.

 

Ákvörðunarorð:

Kröfu Stoðar ehf. um stöðvun samningsgerðar vegna útboðs nr. 14437 – Spelkur fyrir Hjálpartækjamiðstöð Tryggingastofnunar ríkisins er hafnað.

 

Reykjavík, 29. júlí 2008.

                                                               Páll Sigurðsson

                                                               Sigfús Jónsson

                                                               Stanley Pálsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta