Hoppa yfir valmynd

Nr. 15/2024 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 9. janúar 2024 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 15/2024

í stjórnsýslumáli nr. KNU23060065

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 7. júní 2023 kærði […], fd. […] (hér eftir kærandi), ríkisborgari Venesúela, ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 24. maí 2023, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.        Málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi 26. september 2022. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. 10. nóvember 2022 ásamt löglærðum talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 24. maí 2023, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Kæranda var jafnframt brottvísað frá landinu og honum ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála hinn 7. júní 2023. Kærunefnd barst greinargerð kæranda 21. júní 2023.

III.      Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu þar sem hann sé á móti ríkisstjórninni og hafi borist líflátshótanir vegna þess. Þá hafi hann upplýst um spillingu yfirmanns síns innan fyrirtækisins […] sem hafi tengsl við stjórnvöld og óttist kærandi að sæta fangelsisvist í heimaríki.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og honum skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var brottvísað frá landinu og honum ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Kæranda var veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið. Fram kom að yfirgæfi kærandi landið sjálfviljugur innan frestsins yrði endurkomubannið fellt niður.

Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.      Málsástæður og rök kæranda

Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd sem flóttamaður hér á landi samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Verði ekki fallist á aðalkröfu málsins krefst kærandi þess til vara að honum verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Kærandi gerir ýmsar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar og telur m.a. að stofnunin hafi brotið gegn réttmætisreglu stjórnsýsluréttar, málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og jafnræðisreglu 11. gr. sömu laga.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Í 40. gr. laga um útlendinga kemur fram að flóttamaður samkvæmt 37. gr. sömu laga sem er hér á landi eða kemur hér að landi, hefur samkvæmt umsókn rétt á að fá hér alþjóðlega vernd. Þá kemur fram í 1. mgr. 74. gr. laganna að heimilt sé að veita útlendingi sem staddur sé hér á landi dvalarleyfi á grundvelli ákvæðisins. Af athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga verður jafnframt ráðið að rétturinn til alþjóðlegrar verndar nái ekki til flóttamanna sem eru utan marka landsins. Verða ákvæðin ekki skilin öðruvísi en svo að réttur umsækjenda til alþjóðlegrar verndar og dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða sé háður því ófrávíkjanlega skilyrði að umsækjandi sé utan heimaríkis og staddur hér á landi eða komi hér að landi.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda kom fram að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar. Ljóst er því að kæranda var heimilt að dvelja á landinu á meðan mál hans var til meðferðar hjá kærunefnd. Hinn 10. ágúst 2023 barst kærunefnd tölvubréf frá fulltrúa Útlendingastofnunar þar sem rakin voru samskipti stofnunarinnar við talsmann kæranda. Þar kom fram af hálfu fulltrúa Útlendingastofnunar að kærandi hefði óskað eftir aðstoð við sjálfviljuga heimför og fengið aðstoð frá Alþjóðlegu fólksflutningastofnuninni (IOM) við að fara aftur til heimaríkis. Kærandi væri því kominn til Venesúela. Fram kom í samskiptum af hálfu talsmanns að hann hefði ekki heyrt frá kæranda og því myndi hann halda kærunni áfram.

Líkt og að framan er rakið nær rétturinn til alþjóðlegrar verndar ekki til umsækjanda sem er utan marka landsins. Samkvæmt gögnum málsins var brottför kæranda af landinu sjálfviljug. Það er því niðurstaða kærunefndar að vísa beri kæru kæranda frá nefndinni þar sem hann hefur yfirgefið landið og er samkvæmt gögnum málsins staddur utan marka landsins.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er kæru kæranda vísað frá.

 

Úrskurðarorð:

Kæru kæranda er vísað frá.

The applicant’s appeal is dismissed.

Þorsteinn Gunnarsson

Þorbjörg I. Jónsdóttir                                                Valgerður María Sigurðardóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta