Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 86/2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 86/2020

Mánudaginn 8. júní 2020

A

gegn

Barnaverndarnefnd D

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Guðfinna Eydal sálfræðingur og Björn Jóhannesson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 12. febrúar 2020, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar D frá 15. janúar 2020 um að takmarka aðgang kæranda að gögnum er varða dóttur hans, sbr. 2. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.)

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Stúlkan C er X ára gömul og lýtur forsjá Barnaverndarnefndar D. Kærandi er kynfaðir stúlkunnar. Mál þetta varðar aðgang kæranda að gögnum máls vegna stúlkunnar sem var lagt fyrir Barnaverndarnefnd D þann 15. janúar 2020.

Í hinum kærða úrskurði kemur meðal annars fram að það sé mat nefndarinnar að það geti skaðað hagsmuni barnsins verði kæranda og/eða lögmanni hans veittur aðgangur að gögnum málsins. Nefndin telji ekki unnt að tryggja rétt barnsins til einkalífs með öðrum hætti en að kæranda og lögmanni hans verði gert að kynna sér gögn málsins á skrifstofu barnaverndar undir eftirliti starfsmanna og að óheimilt verði að afhenda þeim ljósrit gagnanna. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi:

„A kynföður C sem vistuð er í varanlegu fóstri á vegum barnaverndarnefndar D og lögmönnum hans, er aðeins heimilt að kynna sér skjöl og önnur gögn sem varða C án þess að þau eða ljósrit þeirra séu afhent, sbr. 2. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Skal þeim gert kleift að kynna sér gögnin í húsnæði barnaverndar D og undir eftirliti starfsmanns nefndarinnar.

Gildir takmörkun þessi á afhendingu gagna um þau skjöl og önnur gögn sem eru til í vörslu barnaverndar D sem hafa orðið til frá síðustu fyrirlögn máls stúlkunnar 23. janúar 2019.

Úrskurði þessum má skjóta til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. 1. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, innan fjögurra vikna frá því að aðilum er kunnugt um úrskurðinn.“

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 12. febrúar 2020. Með bréfi, dags. 25. febrúar 2020, var óskað eftir umboði frá lögmanni kæranda sem barst úrskurðarnefndinni í tölvupósti þann 3. mars 2020. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. mars 2020, var óskað eftir greinargerð Barnaverndarnefndar D ásamt gögnum málsins. Greinargerð Barnaverndarnefndar D barst nefndinni þann 27. mars 2020 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 2. apríl 2020, var hún send lögmanni kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá lögmanni kæranda þann 21. apríl 2020 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 28. apríl 2020, voru þær sendar barnaverndarnefnd til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að hann eða lögmaður hans fái afhent öll gögn og skjöl sem varði dóttur kæranda. Til vara krefst kærandi þess að gögn verði afhent án persónugreinanlegra einkenna. Til þrautavara krefst kærandi að úrskurðurinn verði felldur úr gildi eða honum breytt þannig að lögmaður kæranda fái afhent öll gögn og skjöl sem varði mál dóttur hans. Að lokum til þrautaþrautavara krefst kærandi að lögmaður hans fái gögnin afhent gegn undirritun trúnaðaryfirlýsingar. Þá sé þess óskað að málið fái flýtimeðferð hjá úrskurðarnefndinni og að lögmaður kæranda fái að hitta nefndina til þess að fara yfir málið munnlega.

Varðandi lýsingu málsatvika er vísað til fyrri greinargerða til úrskurðarnefndarinnar svo og til fyrri úrskurða nefndarinnar vegna sömu einstaklinga. Sérstaklega sé vísað til úrskurðar nefndarinnar í máli nr. 202/2018. Tekið sé undir alvarlegar athugasemdir úrskurðarnefndarinnar um að rannsókn málsins hafi verið verulega ábótavant og að barnaverndarnefnd hafi gengið á svig við rannsóknarreglu 41. gr. bvl, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, við meðferð málsins. Jafnframt sé tekið undir alvarlegar athugasemdir Barnaverndarstofu vegna málsins sem hafi verið sendar úrskurðarnefndinni.

Á fyrri stigum hafi verið gerðar athugasemdir af hálfu kynföður og fósturforeldra við afhendingu gagna og undirbúning fyrir umgengni ásamt undirbúningi fyrir fundi Barnaverndarnefndar D. Vísað sé til fyrirliggjandi athugasemda lögmanns kæranda en þar segi meðal annars að ekki sé lagaheimild til að fallast á kröfu Barnaverndar D sem barnaverndarnefnd hafi síðan samþykkt. Það sé mat lögmanns kæranda að krafan njóti ekki verndar samkvæmt 45. gr. bvl., auk þess sem hún sé of víðtæk og óljós. Auk 45. gr. bvl. byggi kærandi á lögmætisreglu stjórnsýslulaga, rannsóknarreglu, reglunni um meðalhóf og jafnræði ásamt 15. gr. laganna um rétt aðila stjórnsýslumáls til aðgangs að gögnum og upplýsingum.

Hinn almenni réttur aðila máls til afhendingar gagna sé í 1. mgr. 45. gr. bvl. og 15. gr. stjórnsýslulaga. Allar undantekningar sem þrengi þennan rétt beri samkvæmt almennri lögskýringu að túlka þröngt og mikið þurfi að koma til svo að réttur aðila barnaverndarmáls sé takmarkaður. Á fyrri stigum málsins hafi starfsmenn Barnaverndar D reynt að takmarka rétt kæranda til aðgangs að gögnum og þurft hafi aðkomu dómstóla til að fá rétt kæranda viðurkenndan um að hann væri aðili máls, þrátt fyrir skýran lagabókstaf þar um. Þessar tilraunir til áframhaldandi lögbrota komi kynföður því ekkert á óvart en valdi honum þó verulegum vonbrigðum.

Ákvæði 2. mgr. 45. gr. bvl. heimili ekki svo víðtæka takmörkun á afhendingu gagna líkt og starfsmenn Barnaverndar D fari fram á og úrskurðurinn kveði á um. Í einstaka undantekningartilfellum sé heimilt með rökstuddum úrskurði að takmarka aðgang aðila að tilteknum gögnum og þá þurfi að sýna fram á að slíkt sé nauðsynlegt svo að það skaði ekki hagsmuni barns og samband þess við foreldra og aðra. Ekki verði séð hvernig afhending þessara gagna geti haft skaðleg áhrif á samband foreldra og barns, nema þá helst að fósturforeldrar taki reiði sína gagnvart kynföður út á barninu.

Hér sé um að ræða tvö lykilatriði, annars vegar tiltekin gögn og hins vegar að afhending þessara nánar tilteknu gagna skaði hagsmuni barnsins og samband þess við foreldra og aðra. Tilefni tillögu starfsmanna Barnaverndar D hafi verið krafa kæranda um að fá annars vegar afhent vottorð um sáttameðferð sem barnaverndarnefnd hafi sjálf lagt til að aflað yrði og kærandi hafi tekið þátt í og hins vegar skýrslu um umgengni föður við dóttur sína. Þetta hafi verið þess háttar gögn sem tillagan hafi getað tekið til þegar krafan hafi verið sett fram nema starfsmenn Barnaverndar D hafi undir höndum önnur gögn sem ekki sé búið að upplýsa um. Í ljós hafi meðal annars komið skýrsla nýs talsmanns dóttur kæranda sem staðfesti þann kærleika sem ríki á milli þeirra feðginanna. Nú eftir uppkvaðningu úrskurðarins þann 15. janúar síðastliðinn sé auk þess um að ræða úrskurð um áframhaldandi umgengni sem hafi verið kveðinn upp 22. janúar. Í þessu sambandi sé vísað til fylgiskjals með kærunni þar sem fjallað sé meðal annars um samantekt J sálfræðings, greinargerð fósturforeldra og skýrslu nýs talsmanns en ekkert af þessum gögnum hafi lögmaður kæranda fengið afhent.

Ekki verði séð hvernig afhending þessara gagna geti talist skaða hagsmuni barnsins og hvað þá samband barnsins við foreldra eða aðra. Frumskilyrði 2. mgr. 45. gr. laganna sé því ekki uppfyllt og því beri að hafna tillögunni.

Málsmeðferð í barnaverndarmálum verði alltaf að vera innan ramma laganna, burtséð frá vilja einstakra starfsmanna eða nefndarmanna og hugsanlegrar óvildar í garð kæranda. Sýna verði fagmennsku í öllum störfum þessara aðila. Tillaga sú sem liggi fyrir í málinu, nái til ótiltekinna gagna og jafnframt gagna sem hafi nú þegar ekki orðið til og ekki sé gerð tilraun til að sýna fram á hvaða hagsmuni sé verið að skaða með afhendingu þeirra. Þá taki tillagan til allra gagna og skjala eftir 23. janúar 2019 og gildi því ár aftur í tímann. Skrif kæranda og athugasemdir sem vísað sé til í greinargerð með tillögunni, snúi öll að háttsemi starfsmanna Barnaverndar D og Barnaverndarnefndar D. Um sé að ræða meðal annars athugasemdir sem nú hafi verið staðfestar sem lögbrot. Virðist sú tillaga sem liggi fyrir vera enn ein tilraunin til að þagga niður í kæranda sem hafi það eina markmið að efla og bæta samskipti sín og umgengni við dóttur sína sem hann og dóttir hans eigi rétt á lögum samkvæmt. Því fyrr sem starfsmenn Barnaverndar D og starfsmenn barnaverndarnefndar átti sig á þessu, því betra sé það fyrir alla aðila.

Ekki verði séð hvernig hægt sé að samþykkja tillögu starfsmanna barnaverndar og ekki verði betur séð en að tillaga þessi byggi á misskilningi, viljandi eða óviljandi, á túlkun 2. mgr. 45. gr. bvl. Kærandi fari fram á að honum sé sýnd sú virðing og nærgætni sem hann eigi rétt á lögum samkvæmt. Tekið sé tillit til athugasemda hans og kröfugerðar. Jafnframt fari hann fram á að Barnavernd D og Barnaverndarnefnd D skoði og íhugi alvarlega hvort þessum aðilum sé stætt á því, lagalega og siðferðilega, að fjalla um mál dóttur hans á þann hátt að sómi sé af því og í samræmi við þær reglur sem um mál þessi gilda, meðal annars að mál sé nægjanlega rannsakað og upplýst, að gætt sé meðalhófs og hlutleysis í ákvörðunartöku og við framkvæmd ákvarðananna.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð Barnaverndarnefndar D kemur fram að stjórnvöldum beri ávallt að líta til meðalhófsreglunnar þegar þau standi frammi fyrir því að taka íþyngjandi ákvörðun. Þá þurfi að gæta jafnræðis aðila, ákvörðun skuli byggð á viðhlítandi lagaheimild og vera innan ramma laganna. Það sé mat lögmanns kæranda að svo sé ekki í máli þessu.

Í greinargerð Barnaverndarnefndar D sé meðal annars vísað til úrskurðar nefndarinnar frá 23. janúar 2019 og umfjöllunar þar um málefni dóttur kæranda og birtingu gagna og upplýsinga. Í greinargerð Barnaverndar D, dags. 8. janúar 2020, sem hafi verið lögð fram fyrir Barnaverndarnefnd D þann 15. janúar sama ár, séu lögð fram afrit af umfjöllunum á samfélagsmiðlum eftir úrskurðinn frá 23. janúar sama ár. Í þessum umfjöllunum sé hvergi minnst á eða birt gögn sem trúnaður eigi að gilda um samkvæmt 45. gr. bvl. Ekki sé fjallað um viðkvæmar persónuupplýsingar eða birt gögn sem séu andstæð hagsmunum stúlkunnar. Því sé ótækt að bera fyrir sig ákvæði 45. gr. bvl. á þann hátt sem gert sé.

Þá leggi lögmaður kæranda til tillögur sem gangi mun skemur en hinn kærði úrskurður nefndarinnar, þó svo að aðalkrafa kæranda sé sú að úrskurðurinn í heild sinni verði felldur úr gildi og öllum takmörkunum á afhendingu gagna verði aflétt. Meðal annars sé unnt að hylja nöfn og aðrar persónugreinanlegar upplýsingar að öllu leyti eða að hluta en vísað sé til upphaflegrar kröfugerðar hvað þetta varðar.

Að mati kæranda sé freklega brotið á rétti hans til aðgangs að gögnum, andmælarétti og til réttlátrar málsmeðferðar sem tryggður sé í stjórnarskrá og Mannréttindasáttmála Evrópu. Það sjáist meðal annars í úrskurði Barnaverndarnefndar D sem hafi verið kveðinn upp 22. janúar síðastliðinn. Kærandi og lögmanni hans sé ómögulegt að byggja undir kröfur sínar og andmæla úrskurði nefndarinnar svo vel sé. Réttur aðila til upplýsinga og aðgangs að gögnum máls samkvæmt 1. mgr. 45. gr. bvl. og 15. gr. stjórnsýslulaga sé meginregla í stjórnsýslurétti og skýra beri allar undantekningar frá reglunni þröngt. Reglan sé byggð á því sjónarmiði að almennur aðgangur að upplýsingum og umráð skjala málsins sé nauðsynlegur liður í því að aðili geti gætt andmælaréttar síns og þannig gætt réttinda sinna og dóttur sinnar.

Því sé alfarið hafnað að tilgreindur úrskurður nr. 28/2012 hafi fordæmisgildi í máli þessu en þar hafi legið fyrir að birtar hafi verið viðkvæmar persónuupplýsingar, meðal annars gögn úr sjúkraskrá og læknabréfi. 

III.  Sjónarmið Barnaverndarnefndar D

Í greinargerð barnaverndarnefndar kemur fram að Barnaverndarnefnd D geri þá kröfu að úrskurður nefndarinnar frá 15. janúar 2020 verði staðfestur. Skoða beri kröfugerð kæranda í því ljósi að samkvæmt 51. gr. bvl. nái heimild úrskurðarnefndar velferðarmála til þess að staðfesta, hrinda úrskurði barnaverndarnefndar eða vísa máli aftur til efnislegrar meðferðar. Úrskurðarnefnd geti því ekki tekið aðra efnisákvörðun í málum sem til hennar sé skotið.

Barnaverndarnefnd D hafi tekið mál kæranda og dóttur hans margoft fyrir, aðallega vegna ágreinings um umgengnisrétt kæranda. Nefndin hafi í úrskurðum sínum ítrekað áminnt kæranda um að virða rétt stúlkunnar til friðhelgi einkalífs. Í síðasta úrskurði nefndarinnar frá 23. janúar 2019 hafi því sérstaklega verið beint til kæranda að hann virði friðhelgi einkalífs stúlkunnar og fósturforeldra hennar og birti ekki opinberlega myndir eða myndbönd af stúlkunni. Þá hafi kærandi verið áminntur um að þeir sem hafi undir höndum gögn er varði vinnslu barnaverndarmála beri að tryggja trúnað þeirra, sbr. 45. gr. bvl. Afstaða kæranda, eins og hann hafi lýst henni á fundi nefndarinnar, sé sú að hann finni sig knúinn til að tjá sig opinberlega um málefni sín og samskipti við Barnavernd D þar sem hann hafi ávallt talað fyrir daufum eyrum. Hann sé með birtingu upplýsinga og gagna að afhjúpa lögbrot og valdníðslu Barnaverndar D.

Kærandi hafi virt að vettugi öll tilmæli nefndarinnar og starfsmanna hennar um að láta af birtingu gagna, mynda og annarra persónuupplýsinga og virðist ekki gera sér grein fyrir að hann sé með því að skaða hagsmuni dóttur sinnar. Nefndin sjái sér ekki annað fært en að grípa til þessa úrræðis samkvæmt 2. mgr. 45. gr. bvl. sem sé eina úrræðið sem nefndin hafi til þess að koma í veg fyrir að frekari trúnaðargögn er varði vinnslu málsins, sé dreift opinberlega. Kærandi hafi einnig útbúið myndband þar sem skjöl barnaverndar hafi komið fyrir. Myndband þetta sé eitt þeirra gagna sem lögmaður kæranda vísi til máli sínu til stuðnings, eins þversagnarkennt og það kunni að vera.

Í lögskýringargögnum sé vísað til þess að meta verði hagsmuni hvors aðila um sig af því að fá afhent gögn og aðeins ríkir einkahagsmunir réttlæti þau frávik sem 2. mgr. 45. gr. bvl. mæli fyrir um. Hagsmunir kæranda og dóttur hans fari ekki saman í þessu máli. Kærandi hafi þá afstöðu að hans hagsmunir kalli á birtingu gagnanna opinberlega. Dóttir hans hafi hins vegar þá hagsmuni að einkamálefni hennar verði ekki borin á borð almennings og á meðan hún sé enn á barnsaldri og forsjá hennar sé hjá Barnaverndarnefnd D sé það hlutverk nefndarinnar að vernda þá hagsmuni.

Birting gagna er hafi að geyma viðkvæmar upplýsingar um börn, svo sem afskipti barnaverndar, séu til þess fallin að skaða hagsmuni þeirra og geti haft skaðleg áhrif á samband barns við foreldri og aðra. Birting gagna með þeim hætti sem kærandi hafi gert, þrátt fyrir ítrekuð tilmæli um að gera ekki slíkt, sé að mati nefndarinnar gróft brot á friðhelgi einkalífs stúlkunnar og gangi gegn persónuverndarsjónarmiðum. Með því að virða ekki þennan rétt barnsins og birta opinberlega viðkvæmar persónupplýsingar og myndir, sé barninu sýnd vanvirðing. Mat nefndarinnar sé að um alvarlegan trúnaðarbrest kæranda sé að ræða gagnvart barninu og að kærandi hafi sýnt dómgreindarbrest sem skaði hagsmuni barnsins.

Máli sínu til stuðnings vísi nefndin til úrskurðar kærunefndar barnaverndarmála sem hafi verið kveðinn upp 10. apríl 2013 í máli nr. 28/2012.

Með vísan til alls ofangreinds sé það mat Barnaverndarnefndar D að allir aðrir kostir séu tæmdir og að grípa verði til svo íþyngjandi aðgerða til að tryggja og vernda einkalíf stúlkunnar.

IV.  Niðurstaða

Með hinum kærða úrskurði frá 15. janúar 2020 takmarkaði Barnaverndarnefnd D aðgang kæranda og lögmanns hans að gögnum varðandi dóttur kæranda á grundvelli heimildar 2. mgr. 45. gr. bvl., þannig að þeim væri aðeins heimilt að kynna sér gögn málsins í húsakynnum barnaverndar og undir eftirliti starfsmanns nefndarinnar, án þess að þau eða ljósrit þeirra væru afhent. Gildir takmörkunin á afhendingu gagna um þau skjöl og önnur gögn sem séu í vörslu Barnaverndar D og hafi orðið til frá síðustu fyrirlögn máls stúlkunnar þann 23. janúar 2019.

Kærandi hefur óskað eftir því að lögmaður hans fái að hitta úrskurðarnefndina til að fara yfir málið munnlega. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal málsmeðferð fyrir úrskurðarnefndinni að jafnaði vera skrifleg. Nefndin getur þó ákveðið að kalla málsaðila eða fulltrúa þeirra á sinn fund en telja verður að það eigi einkum við þegar mál hefur ekki verið upplýst nægilega með þeim skriflegum gögnum sem fyrir liggja. Í því tilviki sem hér um ræðir er það mat úrskurðarnefndarinnar að þau gögn sem liggi fyrir upplýsi málið með fullnægjandi hætti.

Kærandi krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að hann eða lögmaður hans fái afhent öll gögn og skjöl sem varði dóttur kæranda. Til vara krefst kærandi að gögn verði afhent án persónugreinanlegra einkenna. Til þrautavara krefst kærandi að úrskurðurinn verði felldur úr gildi eða honum breytt þannig að lögmaður kæranda fái afhent öll gögn og skjöl sem varði mál dóttur hans. Að lokum til þrautaþrautavara krefst kærandi þess að lögmaður hans fái gögn afhent gegn undirritun trúnaðaryfirlýsingar. Barnaverndarnefnd D gerir þá kröfu að úrskurður nefndarinnar frá 15. janúar 2020 verði staðfestur.

Í 2. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga er kveðið á um upplýsingarétt og aðgang að gögnum máls. Í 2. mgr. lagagreinarinnar segir að barnaverndarnefnd geti með rökstuddum úrskurði takmarkað aðgang aðila að tilteknum gögnum ef hún telur að það geti skaðað hagsmuni barns og samband þess við foreldra eða aðra. Nefndin getur einnig úrskurðað að aðilar og lögmenn þeirra geti kynnt sér skjöl og önnur gögn, án þess að þau eða ljósrit af þeim séu afhent. Í athugasemdum við það lagafrumvarp sem varð að barnaverndarlögum segir meðal annars að meginsjónarmiðið sé að stjórnsýslulögin mæli fyrir um lágmarkskröfur til málsmeðferðar fyrir stjórnvöldum. Takmarkanir þær sem gert sé ráð fyrir í 2. mgr. séu aftur á móti í samræmi við það sem fram komi í 17. gr. stjórnsýslulaga. Byggt sé á því sjónarmiði að ríkir einkahagsmunir réttlæti þau frávik sem 2. mgr. 45. gr. frumvarpsins mæli fyrir um. Í 17. gr. stjórnsýslulaga segir að þegar sérstaklega standi á sé stjórnvaldi heimilt að takmarka aðgang aðila máls að gögnum ef hagsmunir hans af því að notfæra sér vitneskju úr þeim þyki eiga að víkja fyrir mun ríkari almanna- eða einkahagsmunum.

Barnaverndarnefnd D hefur alloft í úrskurðum sínum áminnt kynföður um að virða friðhelgi dóttur sinnar svo og fósturfjölskyldu hennar. Í úrskurði barnaverndarnefndarinnar kemur fram að þrátt fyrir þetta hefur kynfaðir ekki látið af birtingu persónuupplýsinga eða gagna þannig að kærandi virtist ekki ætla að virða einkalíf dóttur sinnar, þrátt fyrir úrskurði nefndarinnar. Barnaverndarnefndin taldi því ekki annað fært en að grípa til úrræðis samkvæmt 2. mgr. 45. gr. bvl. Í úrskurði nefndarinnar kemur fram að birting gagnanna með þeim hætti sem kærandi hafi gert kröfu um, gangi gegn persónuverndarsjónarmiðum. Með því að virða ekki fyrrgreindan rétt barnsins og birta opinberlega viðkvæmar persónuupplýsingar og myndir sé barninu sýnd vanvirðing. Það sé mat barnaverndarnefndarinnar að um sé að ræða alvarlegan trúnaðarbrest kæranda gagnvart barninu og að kærandi hafi sýnt dómgreindarbrest sem skaði hagsmuni barnsins. Nefndin telji ekki unnt að tryggja rétt barnsins til einkalífs með öðrum hætti en að kæranda og lögmanni hans verði gert að kynna sér gögn málsins á skrifstofu barnaverndar undir eftirliti starfsmanns og óheimilt verði að afhenda þeim ljósrit gagna.

Eins og að framan greinir ber að túlka þær takmarkanir sem fram koma í 2. mgr. 45. gr. bvl. í samræmi við það sem fram kemur í 17. gr. stjórnsýslulaga. Ákvæði 17. gr. stjórnsýslulaga er byggt á því að stjórnvald meti sérstaklega í hverju tilviki þau andstæðu sjónarmið um sérhvert skjal sem til greina kemur að takmarka aðgang að. Stjórnvald getur því ekki synjað aðila um aðgang að gögnum máls á þeim grundvelli að aðgangur að tiltekinni tegund upplýsinga eða gögn í heild sinni séu almennt til þess fallin að valda tjóni. Sérstakt mat verður ávallt að fara fram á aðstæðum öllum í því máli sem til úrlausnar er og meta verður sérstaklega sérhvert skjal sem aðgangur aðila er takmarkaður að. Samkvæmt framansögðu verður að telja að Barnaverndarnefnd D hafi ekki með fullnægjandi hætti lagt mat á það hvort þau gögn sem hér um ræðir, hafi að öllu leyti fallið undir undanþáguákvæði 2. mgr. 45. gr. bvl., sbr. 17. gr. stjórnsýslulaga.

Verður því ekki fallist á að Barnaverndarnefnd D hafi verið heimilt að takmarka aðgang kæranda að öllum skjölum og öðrum gögnum sem eru í vörslu Barnaverndar D sem hafa orðið til frá síðustu fyrirlögn máls stúlkunnar þann 23. janúar 2019 og varða dóttur hans þar sem sérstakt mat þarf að fara fram um sérhvert skjal með hliðsjón af framangreindu.

Með vísan til framangreinds er úrskurður Barnaverndarnefndar D um að takmarka aðgang kæranda að gögnum er varða dóttur hans felldur úr gildi. Málinu er því vísað aftur til Barnaverndarnefndar D til nýrrar meðferðar.

 


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar D frá 15. janúar 2020 varðandi aðgang A, að skjölum og öðrum gögnum, sem varða mál dóttur hans fyrir Barnaverndarnefnd D, er felldur úr gildi. Málinu er vísað aftur til Barnaverndarnefndar D til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

_______________________________________

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta