Mál nr. 345/2015
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 345/2015
Mánudaginn 29. ágúst 2016
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.
Með kæru, dags. 26. nóvember 2015, kærði A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 16. nóvember 2015, um að vísa frá umsókn kæranda um heimilisuppbót.
Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd almannatrygginga, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 16. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 22. maí 2015, var kærandi upplýstur um að stofnuninni hefði borist ábending um að hann byggi ekki lengur á skráðu lögheimili sínu. Kæranda var gefinn kostur á að leggja fram gögn sem staðfestu búsetu hans þar en að öðrum kosti yrðu greiðslur heimilisuppbótar til hans stöðvaðar frá 1. júní 2015. Þar sem umbeðin gögn bárust ekki voru greiðslurnar stöðvaðar.
Með ódagsettri umsókn, móttekinni 14. október 2015 af Tryggingastofnun ríkisins, sótti kærandi um heimilisuppbót á nýjan leik og óskaði eftir afturvirkum greiðslum frá 1. júní 2015. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 16. nóvember 2015, var óskað eftir afriti af húsaleigusamningi frá kæranda til þess að unnt yrði að afgreiða umsókn hans. Í bréfinu var kæranda veittur tveggja vikna frestur frá móttöku bréfsins til þess að skila umbeðnum gögnum og honum tilkynnt um að að öðrum kosti yrði ekki unnt að afgreiða umsóknina og henni vísað frá.
Kæra barst úrskurðarnefnd almannatrygginga þann 3. desember 2015. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins barst með bréfi, dags. 17. desember 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 18. desember 2015, var greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi gerir ekki formlegar kröfur í málinu, en ráða má af gögnum málsins að hann óski eftir því að umsókn hans um heimilisuppbót verði samþykkt frá 1. júní 2015.
Í kæru kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu heimilisuppbótar þegar hann hafi verið með lögheimili í B. Hann hafi aðeins fengið greiddar í kringum 7.000 kr. frá Tryggingastofnun ríkisins þar sem stofnunin hafi talið hann vera svo tekjuháan. Þá hafi greiðslur heimilisuppbótar verið stöðvaðar á þeirri forsendu að hann hafi verið með skráð lögheimili í B en væri búsettur í C. Kærandi hafi verið með húsaleigusamning um húsnæði að D í C. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 16. nóvember 2015, hafi umsókn hans um heimilisuppbót verið synjað. Kærandi sé með lögheimili að E í C.
Þá segi að 8. gr. reglugerðar nr. 1052/2009 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri sé mjög skýr og að í ákvæðinu sé ekki gerð krafa um að húsaleigusamningur liggi fyrir. Umsókn kæranda um heimilisuppbót hafi því verið synjað á grundvelli innanhússreglna Tryggingastofnunar ríkisins en ekki samkvæmt lögum.
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins
Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé synjun um heimilisuppbót. Samkvæmt 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða heimilisuppbót til lífeyrisþega sem sé einhleypingur og einn um heimilisrekstur, án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.
Kærandi hafi verið með skráð lögheimili að F í B og fengið greidda heimilisuppbót. Með bréfi, dags. X, hafi honum hins vegar verið tilkynnt um stöðvun á greiðslum vegna upplýsinga um að hann byggi ekki lengur á skráðu lögheimili.
Stofnuninni hafi borist afrit af húsaleigusamningi um íbúðarhúsnæði að D í C fyrir tímabilið frá X til X en þar hafi kærandi ekki verið með skráð lögheimili. Hins vegar hafi kærandi verið með skráð lögheimili að E í C frá X. Samkvæmt Fasteignamatsskrá sé tiltekinn einstaklingur, sem sé að því er virðist sonur kæranda, skráður eigandi þess húsnæðis frá sama degi en hann sé skráður með lögheimili í G.
Þá hafi borist ódagsett umsókn frá kæranda þar sem óskað hafi verið eftir heimilisuppbót frá X. Í framhaldi af því hafi stofnunin óskað eftir afriti af húsaleigusamningi frá kæranda með bréfi, dags. 16. nóvember 2015. Honum hafi verið veittur tveggja vikna frestur til að skila þeim gögnum en að öðrum kosti yrði ekki hægt að afgreiða umsókn hans og henni vísað frá.
Loks segir að Tryggingastofnun telji að greiðslur heimilisuppbótar hafi réttilega verið stöðvaðar og ekki sé heimilt að greiða heimilisuppbót fyrir tímabilið frá X til X.
Að lokum segir að til þess að heimilt sé að hefja greiðslur heimilisuppbótar til kæranda á grundvelli búsetu hans að E í C sé nauðsynlegt að stofnuninni berist annaðhvort leigusamningur eða staðfesting eiganda á því að kærandi búi einn í íbúðinni og að hann greiði leigu eða annan rekstrarkostnað íbúðarinnar.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að vísa frá umsókn kæranda um heimilisuppbót en hann sótti um afturvirkar greiðslur frá X.
Í 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð segir að heimilt sé að greiða heimilisuppbót til einhleypings sem nýtur óskertrar tekjutryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar og sé einn um heimilisrekstur, án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.
Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi greidda heimilisuppbót frá Tryggingastofnun ríkisins til X. Frá þeim tíma voru greiðslur stöðvaðar þar sem stofnuninni hafði borist leigusamningur undirritaður af kæranda um annað húsnæði en skráð lögheimili hans. Um var að ræða tímabundinn leigusamning sem lauk X. Með bréfi, dags. 22. maí 2015, gaf stofnunin kæranda kost á að leggja fram gögn sem staðfestu búsetu hans á skráðu lögheimili, en slík gögn bárust ekki. Kærandi sótti um greiðslu heimilisuppbótar á nýjan leik með umsókn, móttekinni 14. október 2015, og óskaði eftir afturvirkum greiðslum frá X. Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun var umsókninni vísað frá þar sem húsaleigusamningur barst ekki frá kæranda, þrátt fyrir beiðni stofnunarinnar þar um.
Kærandi telur beiðni Tryggingastofnunar ríkisins um afrit af húsaleigusamningi ekki vera í samræmi við lög og ákvæði reglugerðar nr. 1052/2009 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri og segir að um sé að ræða reglu sem stofnunin hafi sjálf sett.
Í 2. gr. reglugerðar nr. 1052/2009 segir að umsækjanda sé skylt að veita Tryggingastofnun ríkisins allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um veitingu uppbóta. Í 2. mgr. sömu greinar segir að um umsóknir og framkvæmd að öðru leyti fari samkvæmt 52., 53. og 55. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sbr. 14. gr. laga um félagslega aðstoð.
Í 39. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um upplýsingaskyldu umsækjenda og greiðsluþega þar sem segir í 1. mgr. að umsækjanda eða greiðsluþega sé rétt og skylt að taka þátt í meðferð máls, meðal annars með því að koma til viðtals og veita Tryggingastofnun þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru svo að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Sambærilegt ákvæði var áður að finna í 2. mgr. 52. gr. laga um almannatryggingar.
Í máli þessu kemur til álita hvort þær upplýsingar, sem stofnunin hefur óskað eftir frá kæranda, séu nauðsynlegar til þess að unnt sé að taka ákvörðun um veitingu uppbótar. Í 8. gr. laga um félagslega aðstoð er að finna skilyrði um að umsækjandi heimilisuppbótar skuli vera einn um heimilisrekstur, án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.
Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum úr breytingaskrá Þjóðskrár var kærandi með skráð lögheimili að F í B frá X til X, en frá þeim tíma er lögheimili hans skráð að E í C. Samkvæmt Fasteignaskrá Íslands er kærandi ekki eigandi að húsnæðinu að E.
Þar sem kærandi er ekki eigandi að húsnæðinu sem hann býr í fellst úrskurðarnefnd velferðarmála á að tilefni sé til að afla frekari gagna til þess að kanna hvort kærandi sé í raun einn um heimilisrekstur. Í hinni kærðu ákvörðun er umsókn kæranda vísað frá þegar af þeirri ástæðu að stofnuninni barst ekki húsaleigusamningur frá kæranda.
Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ekki hafi verið heimilt að binda gagnaöflun í tilviki kæranda eingöngu við húsaleigusamning. Úrskurðarnefndin telur því að stofnunin hefði átt að gefa kæranda kost á að leggja fram önnur gögn sem sýndu fram á að kærandi væri einn um heimilisrekstur, t.d. staðfestingu eiganda þess húsnæðis sem hann sé búsettur í um að hann búi þar einn og greiði leigu eða annan rekstrarkostnað eins og nefnt er í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.
Þar sem stofnunin gerði ekki tilraun til að afla frekari gagna frá kæranda áður en hin kærða ákvörðun var tekin er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að Tryggingastofnun hafi ekki gætt að rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í ákvæðinu segir að stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því.
Með hliðsjón af framangreindu er hin kærða ákvörðun felld úr gildi og málinu vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að vísa frá umsókn A, um heimilisuppbót er felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir