Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 178/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 178/2016

Mánudaginn 29. ágúst 2016

A

gegn

barnaverndarnefnd Reykjavíkur


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Guðfinna Eydal sálfræðingur og Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur.

Með tölvubréfi 13. maí 2016 kærði B hdl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð barnaverndarnefndar Reykjavíkur vegna umgengni við son hans, C.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Drengurinn C er fæddur árið X og lýtur forsjá barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Móðir hans, D, fór ein með forsjá drengsins en hún afsalaði forsjá hans til barnaverndarnefndar Reykjavíkur með dómsátt þann X. C dvaldi hjá kæranda, sem er faðir hans, frá X, fyrst í tímabundnu fóstri, en frá X í varanlegu fóstri samkvæmt fóstursamningi.

Drengurinn fór úr umsjón kæranda þann X og dvaldi hjá föðursystur sinni og eiginmanni hennar frá þeim tíma til X. Þann dag var hann vistaður á E og stóð sú vistun til X þegar drengurinn var settur í varanlegt fóstur hjá fósturforeldrum.

Fóstursamningur við kæranda var felldur úr gildi með ákvörðun barnaverndarnefndar Reykjavíkur 27. október 2015. Úrskurðarnefnd velferðarmála staðfesti ákvörðun barnverndarnefndarinnar með úrskurði 15. mars 2016.

Í kjölfar niðurstöðu úrskurðarnefndar velferðarmála óskaði kærandi eftir að fá eins mikla umgengni og hægt væri við drenginn, eða aðra hverja helgi, um jól og í sumarfríum. Ekki náðist samkomulag um fyrirkomulag umgengni kæranda við drenginn. 

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur tók málið fyrir á fundi nefndarinnar 13. maí 2016 og var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður auk þess sem bent var á kæruheimild:

„Barnaverndarnefnd Reykjavíkur ákveður að C hafi umgengni við föður sinn A, þrisvar sinnum á ári í tvo tíma í senn, undir eftirliti starfsmanns Barnaverndar Reykjavíkur, í húsnæði á vegum Barnaverndar Reykjavíkur í X, Xog X ár hvert. Skilyrði er að faðir sé edrú og undirgangist vímuefnapróf fyrir umgengni ef þurfa þykir.

Föður er heimilt að taka X syni sína með í umgengnina. Föður er heimilt að gefa drengnum afmælis- og jólagjafir. Gjöfum umfram afmælis- og jólagjafir skal stillt í hóf“

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærður sé úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 13. maí 2016 þess efnis að C hafi umgengni við kæranda eins og tilgreint sé í úrskurðinum. Kærandi ítrekar þá kröfu sem lögð var fram skriflega í greinargerð á fundi nefndarinnar 10. maí 2016.  

Í greinargerð kæranda frá 10. maí 2016 sem vísað var til í kæru kemur fram að hann hafi verið með drenginn hjá sér frá C mánaða aldri. Kærandi hafi fengið brjósklos í hálsi árið C og hafi því verið settur á lyfin Lyrica og Tramol, en á þessum tíma hafi hann verið edrú í C ár. Í framhaldinu hafi kærandi lent í erfiðleikum með þessi lyf og því farið í vímuefnameðferð á Vogi og Staðarfelli. Kærandi kveðst hafa verið í samstafi við barnaverndina og heimilað fullt eftirlit. Kærandi hafi aftur verið settur á lyfið Tramol vegna verkja og hafi það mælst í þvagi. Drengurinn hafi því verðið tekinn af honum. Eftir það hafi kærandi fallið í neyslu vímuefna, en leitað aðstoðar í E þar sem hann hefur verið í meðferð.

Kærandi hyggist fá drenginn aftur í sína umsjá og vill viðhalda þeim tengslum sem myndast hafa milli þeirra feðga. Sú umgengni sem lögð hafi verið til myndi skaða þau tengsl verulega og einnig tengsl drengsins við bræður hans og aðra fjölskyldumeðlimi sem hann hafi haft góð og mikil tengsl við í umsjá kæranda. Kærandi vilji fá sem mesta umgengni við drenginn, helst einu sinni til tvisvar í mánuði og hún aukin þar til hann fær drenginn til sín aftur. Kærandi leggur áherslu á að drengurinn eigi X bræður og afa og ömmu sem hann hafi góð tengsl við sem mikilvægt sé að rækta og viðhalda.

III. Sjónarmið C

Sökum ungs aldurs drengsins var honum ekki skipaður talsmaður. Í úrskurði barnaverndarnefndinnar kemur fram að drengurinn hafi lítið rætt um kæranda við fósturforeldra en umgengni hafi gengið vel og sýndi drengurinn ekki merki um vanlíðan að henni lokinni. Í viðtali á fósturheimili drengsins í X hafi starfsmaður greint drengnum frá beiðni kæranda um umgengni við hann. Drengurinn kvaðst vita til þess að faðir hans væri hjá lækni og sagðist vilja hitta hann.

IV.  Sjónarmið barnaverndarnefndar Reykjavíkur

Í greinargerð barnaverndarnefndar Reykavíkur 31. maí 2016 kemur fram að þess sé krafist að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Samkvæmt 74. gr. bvl. á barn rétt á umgengni við kynforeldra sína og aðra sem eru því nákomnir. Þar sé kveðið á um rétt kynforeldra til umgengni við barn í fóstri, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með ráðstöfun þess í fóstur.

Í 3. gr. reglugerðar um fóstur nr. 804 frá 2004 sé greint frá því að markmið með fóstri sé að tryggja til frambúðar umönnun, öryggi og stöðugleika í lífi barns innan fósturfjölskyldu. Í 4. gr. reglugerðarinnar komi fram að við ráðstöfun barns í fóstur skuli barnaverndarnefnd ávallt hafa hagsmuni barns í fyrirrúmi og taka tillit til sjónarmiða og óska barns eftir því sem aldur þess og þroski gefi tilefni til. Í 25. gr. reglugerðarinnar komi fram að við ákvörðun um umgengni við barn í fóstri skuli tekið mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best með það fyrir augum að ná því markmiði sem stefnt sé að.

Drengurinn sé vistaður í varanlegu fóstri og sé ekki annað fyrirséð en að hann verði vistaður utan heimilis til 18 ára aldurs. Þegar barni sé ráðstafað í fóstur, sem ætlað sé að vara þar til það verður lögráða, sé yfirleitt mjög takmörkuð umgengni. Markmið fóstursins sé þá að jafnaði að barn aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldunni sem taki að sér uppeldi þess. Við slíkar aðstæður sé viðurkennt að hagsmunir barnsins kunni að krefjast þess að umgegni verði takmörkuð allverulega en meta þurfi hagsmuni barnsins í hverju tilviki.

Í ljósi forsögu málsins og með hagsmuni drengsins að leiðarljósi, sem upplifað hafi mikla erfiðleika og óstöðugleika á sinni stuttu ævi, hafi það verið mat barnaverndarnefndar Reykjavíkur að hæfilegt væri að umgengni færi fram þrisvar sinnum á ári, tvo tíma í senn undir eftirliti starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur. Mikilvægt væri að skapa drengnum stöðugleika og öryggi, slíkt væri nauðsynlegt til að hann fengi að dafna og þroskast sem best í þeim aðstæðum sem hann búi núna við. Reynslan sýni að umgengni barna við kynforeldra og aðra nákomna raski í flestum tilfellum ró barna í fóstri jafnvel þótt ekki sé ágreiningur um hana.

V. Sjónarmið fósturforeldra

Úrskurðarnefnd velferðarmála óskaði eftir afstöðu fósturforeldra sem barst nefndinni með tölvubréfi 5. ágúst 2016. Í svari þeirra kemur fram að drengurinn hafi tekið ástfóstri við þau og minnist ekki á kynforeldra sína né óski eftir að hitta þau. Að þeirra mati sé umgengni drengsins nú við kynforeldra, við föður þrisvar sinnum og móður tvisvar sinnum, hin mesta svo að tilgangi varanlegs fóstur sé þjónað. Fósturforeldrar vilja að drengurinn þekki uppruna sinn en ekki að tengslum sé viðhaldið með aukinni umgengni. Það sé því álit fósturforeldra að umgengni við C verði ekki meiri en úrskurðað hafi verið.

VI.  Niðurstaða

Drengurinn C er fæddur árið X11 og hefur verið hjá fósturforeldrum sínum, F og G, frá því í X. Drengurinn er í varanlegu fóstri hjá þeim. Kærandi er faðir drengsins og var drengurinn áður vistaður hjá honum í varanlegu fóstri eins og að framan er rakið. Barnaverndarnefnd Reykjavíkur úrskurðaði um fósturrof X í kjölfar þess að kærandi féll á vímuefnabindindi. Úrskurðarnefnd velferðarmála staðfesti ákvörðun barnverndarnefndarinnar með úrskurði 15. mars 2016.

Með hinum kærða úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 13. maí 2016 var umgengni drengsins við kæranda ákveðin þrisvar sinnum á ári í tvo tíma í senn, undir eftirliti barnaverndarstarfsmanns.  Kærandi óskar eftir aukinni umgengni og leggur til að hún verði einu sinni til tvisvar í mánuði og að hún verði aukin þar til hann fái drenginn til sín aftur. Kærandi vill viðhalda þeim tengslum sem myndast hafi við drenginn. Hinn kærði úrskurður myndi skaða þau tengsl verulega og tengsl drengsins við bræður hans sem og aðra fjölskyldumeðlimi.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengniréttarins eða framkvæmd. Samkvæmt meginreglu 1. mgr. 4. gr. sömu laga skal í barnaverndarstarfi beita þeim ráðstöfunum sem ætla má að barni séu fyrir bestu. Hagsmunir barna skulu ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda.

Við úrlausn þessa máls ber því að líta til þeirrar stöðu sem drengurinn er í. Það er gert til að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni hans við kæranda á þann hátt að hún fari ekki bersýnilega gegn hagsmunum og þörfum drengsins og sé ekki ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt var að með ráðstöfun hans í fóstur. Hagsmunir drengsins eru að öryggi hans verði sem best tryggt og að hann njóti verndar. Drengurinn hefur aðlagast fósturforeldrum sínum eins og fram kemur í gögnum málsins. Krafa kæranda um aukna umgengni er studd þeim rökum að hann vilji viðhalda tengslum þeirra feðga, en sú takmarkaða umgengni sem ákveðin hafi verið með hinum kærða úrskurði telur hann að myndi skaða þau tengsl verulega. Eins og málið liggur fyrir verður að telja að tengslamyndun drengsins við fósturforeldrana þurfi að fara fram ótrufluð eftir því sem framast er unnt. Af þeim sökum er mikilvægt að umgengni drengsins við kæranda, í þeirri stöðu sem drengurinn er í núna, verði verulega takmörkuð þannig að sem minnst truflun verði á tenglsamyndun hans við fósturforeldrana.  

Úrskurðarnefndin telur að með því að takmarka umgengni kæranda við drenginn, eins og gert var með hinum kærða úrskurði, sé stefnt að því að markmið varanlegs fósturs nái fram að ganga eins og hér að framan hefur verið lýst. Markmiðið er að tryggja hagsmuni drengsins, öryggi hans og þroskamöguleika sem meðal annars verður betur náð en ella með því að tengslamyndun hans við fósturfjölskylduna geti farið fram ótrufluð. Verður að telja með hliðsjón af þessu að umgengnin hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem leggja ber til grundvallar samkvæmt 2., 3. og 4. mgr. 74. gr. bvl. þegar umgengni barns í fóstri við foreldra er ákveðin og að gætt hafi verið meðalhófs við úrlausn málsins. Kærunefndin telur að umgengni kæranda við drenginn hafi verið hæfilega ákveðin með hinum kærða úrskurði og að nauðsynlegt sé að hún verði undir eftirliti eins og kveðið er á um í úrskurðinum. Verður því að hafna kröfum kæranda um meiri umgengni en metin var hæfileg í hinum kærða úrskurði.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur, með vísan til þess sem að framan greinir, að umgengni kæranda við C hafi verið hæfilega ákveðin með hinum kærða úrskurði og að þar hafi einnig verið réttilega mælt fyrir um framkvæmd umgengninnar.

Með vísan til þessa ber að staðfesta hinn kærða úrskurð.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 13. maí 2016 varðandi umgengni A við son hans, C, er staðfestur.

Kári Gunndórsson

Guðfinna Eydal

Sigríður Ingvarsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta