Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 187/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 187/2016

Miðvikudaginn 14. september 2016

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Guðrún Agnes Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Jón Baldursson læknir og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Með kæru, dags. 18. maí 2016, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 11. apríl 2016, um synjun á umsókn hennar um lengingu á greiðslum í fæðingarorlofi vegna veikinda móður á meðgöngu.

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 18. febrúar 2016, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í sex mánuði vegna barns hennar sem fæddist þann X. Með læknisvottorðum, dags. 29. febrúar og 31. mars 2016, sótti kærandi um lengingu á greiðslum í fæðingarorlofi vegna veikinda hennar á meðgöngu. Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 11. apríl 2016, var umsókn kæranda synjað á þeirri forsendu að hún hefði ekki verið óvinnufær af meðgöngutengdum heilsufarsástæðum síðustu tvo mánuðina fyrir áætlaðan fæðingardag.

Kærandi kærði framangreinda ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs til úrskurðarnefndar velferðarmála með kæru, dags. 18. maí 2016. Með bréfi, dags. 23. maí 2016, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst með bréfi, dags. 6. júní 2016, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. júní 2016, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Málsástæður kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi unnið við [...] en vegna heilsufarsástæðna hafi hún þurft að leggja niður launuð störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag. Fæðingarorlofssjóður hafi synjað umsókn hennar um lengingu á fæðingarorlofi á þeirri forsendu að hún hafi ekki verið óvinnufær af meðgöngutengdum heilsufarsástæðum síðustu tvo mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag. Kærandi bendir á að afstaða Fæðingarorlofssjóðs eigi ekki við rök að styðjast þar sem hún hafi skilað inn þremur læknisvottorðum þess efnis að hún hafi verið óvinnufær.

Að mati kæranda túlki Fæðingarorlofssjóður skilyrði fyrir lengingu á fæðingarorlofi mjög þröngt, einkum í ljósi þess að um íþyngjandi ákvörðun sé að ræða. Ekki verði séð að sjóðurinn hafi gætt að meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og rannsóknarreglu 10. gr. laganna, en kærandi hafi verið í erfiðisvinnu við [...] og gengið með sitt fyrsta barn. Þá hafi Fæðingarorlofssjóður ekki gætt að andmælareglu 13. gr. stjórnsýslulaga þar sem kæranda hafi ekki verið gefið færi á að andmæla vottorði sem niðurstaða sjóðsins væri byggð á. Kærandi krefst þess að ákvörðun sjóðsins verði endurskoðuð þar sem hún uppfylli öll skilyrði fyrir lengingu á greiðslum í fæðingarorlofi vegna veikinda á meðgöngu sem staðfest sé með læknisvottorði frá 25. apríl 2016.   

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærandi hafi sótt um lengingu fæðingarorlofs vegna veikinda á meðgöngu með þremur læknisvottorðum, dags. 29. febrúar, 31. mars og 25. apríl 2016. Vísað er til þess að í 4. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof sé kveðið á um að ef þungaðri konu sé nauðsynlegt af heilsufarsástæðum að mati sérfræðilæknis að leggja niður launuð störf eða hætta þátttöku á vinnumakaði samkvæmt b-lið 2. mgr. 13. gr. a meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns skuli hún eiga rétt á greiðslum í fæðingarorlofi þann tíma en þó aldrei lengur en tvo mánuði. Beri fæðingu að fyrir áætlaðan fæðingardag barns falli heimild til lengingar samkvæmt ákvæðinu niður frá þeim tíma. Jafnframt komi fram í 5. mgr. 17. gr. að rökstyðja skuli þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi með vottorði sérfræðilæknis og að Vinnumálastofnun sé heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni um hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg samkvæmt ákvæðinu. Fæðingarorlofssjóður hafi óskað umsagnar B sérfræðilæknis við yfirferð hvers og eins framangreinds læknisvottorðs, sbr. skriflega umsögn hans frá 29. maí 2016. Enn fremur komi fram í 6. mgr. 17. gr. að með umsókn um lengingu fæðingarorlofs skuli fylgja staðfesting vinnuveitanda og/eða Vinnumálastofnunar eftir því sem við á. Í þeirri staðfestingu skuli koma fram hvenær greiðslur féllu niður. Loks tekur Fæðingarorlofssjóður fram að í 2. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 1218/2008 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks komi fram að með heilsufarsástæðum sé átt við sjúkdóma sem upp koma vegna meðgöngu og valda óvinnufærni, sjúkdóma, tímabundna eða langvarandi sem versna á meðgöngu og valda óvinnufærni, eða fyrirbyggjandi meðferð til að koma í veg fyrir fyrirburafæðingu eða til að vernda heilsu fósturs, enda valdi meðferðin óvinnufærni.

Fæðingarorlofssjóður tekur fram að áætlaður fæðingardagur barns kæranda hafi verið þann 21. apríl 2016 en það hafi fæðst þann X. Í læknisvottorði frá 29. febrúar 2016 komi fram að kærandi sé metin óvinnufær vegna meðgönguuppkasta. Kærandi hafi verið skoðuð þann 24. september 2015 og hætt störfum 4. september 2015 þegar sjúkdómseinkenna hafi fyrst orðið vart. Það hafi verið mat sérfræðilæknis Fæðingarorlofssjóðs að vottorðið væri ófullnægjandi þar sem langt væri frá síðustu skoðun að útgáfudegi vottorðs. Því hafi verið óskað eftir nýju læknisvottorði þar sem fram kæmi niðurstaða skoðunar og mat læknis á veikindum kæranda síðustu tvo mánuði fyrir væntanlega fæðingu barns. Þann 31. mars 2016 hafi borist nýtt læknisvottorð og í framhaldinu hafi kæranda verið synjað um lengingu fæðingarorlofs þar sem ekki væri ráðið af læknisvottorðum að hún væri óvinnufær af heilsufarsástæðum í skilningi 4. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 9. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, síðustu tvo mánuðina fyrir áætlaðan fæðingardag.

Fæðingarorlofssjóður vísar til þess að sérfræðilæknir sjóðsins hafi metið upplýsingar úr vottorðinu þannig að ógleði og uppköst hefðu að mestu verið gengin yfir 12. nóvember 2015  og að kærandi hafi fengið meðferð við því fram í október. Í dagál við 37 viku, sem ætti að vera í kringum mánaðamót mars/apríl 2016, væri talað um ógleði í upphafi meðgöngu en ekkert minnst á slíkt vandamál síðustu tvo mánuði meðgöngunnar. Því hafi verið ályktað að ekki kæmi fram í vottorðinu að kærandi hafi verið óvinnufær af heilsufarsástæðum í skilningi 4. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 9. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, síðustu tvo mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag. Í kjölfarið hafi borist læknisvottorð, dags. 25. apríl 2016, sem væri að öllu leyti samhljóða vottorði frá 29. febrúar 2016 nema í niðurstöðu skoðunar hafi verið bætt við setningunni: „Óvinnufær síðustu 2 mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag“. Kæranda hafi þá verið sent bréf, dags. 4. maí 2016, þar sem fram hafi komið að innsent vottorð breytti ekki fyrri ákvörðun, sbr. bréf frá 11. apríl 2016. Í umsögn sérfræðilæknis Fæðingarorlofssjóðs segi að ekki hafi komið fram nýjar rökstuddar upplýsingar og jafnframt komi ekki fram ný dagsetning á skoðun sem hafi verið sjö mánuðum fyrir ritun vottorðs og væntanlegan fæðingardag. Í umsögn sérfræðilæknisins komi einnig fram að hann leggi einungis mat á þær upplýsingar sem berist úr læknisvottorðum í hverju máli fyrir sig. Taka þurfi tillit til allra vottorða sem berist og leggja þurfi saman þær upplýsingar sem þar komi fram fyrir endanlegt læknisfræðilegt mat. Að samandregnum upplýsingum úr öllum framangreindum vottorðum hafi það verið niðurstaðan að synja bæri umsókninni á þeim forsendum að ekki væri sýnt fram á að kærandi hefði verið óvinnufær af heilsufarsástæðum í skilningi 4. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 9. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, síðustu tvo mánuðina fyrir áætlaðan fæðingardag.

Fæðingarorlofssjóður tekur fram að af læknisvottorðum frá 29. febrúar og 25. apríl 2016 verði ekki annað ráðið en að kærandi hafi verið skoðuð 24. september 2015 og hætt störfum 4. september 2015 þegar sjúkdómseinkenna hafi fyrst orðið vart eða um sjö mánuðum fyrir áætlaðan fæðingardag barnsins. Viðbótarsetning sem hafi verið bætt við í vottorð, dags. 25. apríl 2016, um að kærandi hafi verið óvinnufær síðustu tvo mánuðina fyrir áætlaðan fæðingardag virðist þannig hvorki styðjast við nýrri skoðun né vera rökstudd. Af læknisvottorði, dags. 31. mars 2016, megi ráða að ógleði og uppköst hafi að mestu verið gengin yfir 12. nóvember 2015 og að kærandi hafi fengið meðferð við því fram í október. Af dagál við 37 viku meðgöngu, sem ætti að vera í kringum mánaðamót mars/apríl 2016, megi jafnframt sjá að talað sé um ógleði í upphafi meðgöngu en ekkert minnst á slík vandamál síðustu tvo mánuði meðgöngunnar. Í samræmi við framangreint og umsögn sérfræðilæknis sé það mat Fæðingarorlofssjóðs að ekki hafi verið sýnt fram á þörf á lengingu fæðingarorlofs vegna heilsufarsástæðna í skilningi 4. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 9. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, síðustu tvo mánuðina fyrir áætlaðan fæðingardag. Fæðingarorlofssjóður telji því að kæranda hafi réttilega verið synjað um lengingu fæðingarorlofs vegna veikinda á meðgöngu.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja umsókn kæranda um lengingu á greiðslum í fæðingarorlofi vegna veikinda á meðgöngu.  

Í 4. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof segir að sé þungaðri konu nauðsynlegt af heilsufarsástæðum að mati sérfræðilæknis að leggja niður launuð störf eða hætta þátttöku á vinnumarkaði samkvæmt b-lið 2. mgr. 13. gr. a meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns skuli hún eiga rétt á greiðslum í fæðingarorlofi þann tíma en þó aldrei lengur en tvo mánuði. Beri fæðingu að fyrir áætlaðan fæðingardag barns fellur heimild til lengingar samkvæmt ákvæðinu niður frá þeim tíma. Samkvæmt 5. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000 skal rökstyðja þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi með vottorði sérfræðilæknis. Vinnumálastofnun er heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni um hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg.

Samkvæmt lokamálslið 4. mgr. 17. gr. laganna skal ráðherra setja í reglugerð nánari skilyrði um framkvæmd ákvæðisins. Í 2. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 1218/2008 um greiðslur úr Fæðingarorlofsjóði og greiðslu fæðingarstyrks segir að með heilsufarsástæðum sé átt við:

  1. sjúkdóma sem upp koma vegna meðgöngu og valda óvinnufærni,

  2. sjúkdóma, tímabundna eða langvarandi, sem versna á meðgöngu og valda óvinnufærni,

  3. fyrirbyggjandi meðferð til að koma í veg fyrir fyrirburafæðingu eða til að vernda heilsu fósturs, enda valdi meðferðin óvinnufærni.

Þá segir í 3. mgr. 9. gr. reglugerðarinnar að rökstyðja skuli þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi samkvæmt ákvæðinu með vottorði sérfræðilæknis. Vinnumálastofnun skuli meta hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg og stofnuninni sé heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni til ráðgjafar um það.

Samkvæmt læknisvottorði C fæðingar- og kvensjúkdómalæknis, dags. 29. febrúar 2016, var áætlaður fæðingardagur barns kæranda 21. apríl 2016. Í vottorðinu er sjúkdómi kæranda lýst á eftirfarandi hátt: „Ógleði á meðgöngu með blóðsaltabrenglun og lá inni snemma á meðgöngu. Haft viðvarandi ógleði á meðgöngu og verið algerlega óvinnufær af þeim sökum“. Í vottorðinu kemur fram að kærandi hafi verið skoðuð 24. september 2015 og hætt störfum 4. september 2015 þegar sjúkdómseinkenna varð fyrst vart. Niðurstaða skoðunar er sú að kærandi var metin óvinnufær vegna meðgönguuppkasta. Í umsögn C sérfræðilæknis Fæðingarorlofssjóðs, dags. 29. maí 2016, kemur fram að hann hafi metið það svo að læknisvottorðið væri ófullnægjandi þar sem langt hafi verið frá síðustu skoðun að útgáfudegi vottorðs. Því hafi verið óskað eftir nýju vottorði þar sem fram kæmi niðurstaða skoðunar og mat læknis á veikindum kæranda síðustu tvo mánuði fyrir væntanlega fæðingu barns. Fæðingarorlofssjóði barst þá læknisvottorð D heimilislæknis, dags. 31. mars 2016, þar sem vísað er til mæðraeftirlits þann 12. nóvember 2015 en þar segir meðal annars:

„Fyrsta meðganga. Gift. Oft kvíðin sem verið hefur síðan var barn. Var þung í lund í byrjun og andlega. Var mikið upp á F til að fá vökva æð vegna ógleði og uppkasta. Nú að mestu gengið yfir. Lagðist inn í tvígang á fæðingardeild vegna þessa. Lág síðast inni í 2 vikur fram í október. Grunur hefur verið um ADHD sem sálfræðingur nefndi við hana en endanlega greining ekki farið fram. Er ekki að taka lyf.“

Í dagál frá G er skráð: „Gengin 37 vikur. Verið hjá E sálfræðingi hér á G. Mikill kvíði og þunglyndi. Þessu fylgir mikil vanlíðan, grætur mikið í viðtali við ljósmóður. Ógleði í upphafi meðgöngu. Ekki unnið síðan í september 2015.“ Í umsögn sérfræðilæknis Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að hann hafi metið upplýsingar úr vottorðinu þannig að ógleði og uppköst hefðu að mestu verið gengin yfir 12. nóvember 2015 og að kærandi hafi fengið meðferð við því fram í október 2015. Vísað er til þess að í dagál við 37 viku, sem ætti að vera í kringum mánaðamót mars/apríl 2016, sé talað um ógleði í upphafi meðgöngu en ekki greint frá slíku vandamáli síðustu tvo mánuði meðgöngunnar. Því hafi það verið mat sérfræðilæknisins að ekki kæmi fram í vottorðinu að kærandi hafi verið óvinnufær af meðgöngutengdum heilsufarsástæðum síðustu tvo mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag.

Úrskurðarnefndin tekur undir það álit sérfræðilæknis Fæðingarorlofssjóðs að ógleði og vandamál tengd henni hafi verið ríkjandi á fyrri hluta meðgöngu en ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að þau vandamál hafi hindrað kæranda frá vinnu síðari hluta meðgöngunnar.

Í vottorði D, dags. 31. mars 2016, kemur hins vegar fram að kærandi eigi sögu um þunglyndi og kvíða og það hafi einnig átt við á meðan á meðgöngunni stóð. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður ekki séð að Fæðingarorlofssjóður hafi lagt mat á það hvort þau einkenni kæranda hefðu versnað á meðgöngunni og valdið henni óvinnufærni, sbr. b-lið 2. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 1218/2008. Að því virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að mál kæranda hafi ekki verið rannsakað nægjanlega, sbr. 10.  gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og lagt fyrir Fæðingarorlofssjóð að taka málið til nýrrar meðferðar.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð


Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 11. apríl 2016, um synjun á umsókn A, um lengingu á greiðslum í fæðingarorlofi vegna veikinda á meðgöngu er felld úr gildi og málinu vísað til sjóðsins til nýrrar meðferðar.


F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Guðrún A. Þorsteinsdóttir, formaður

 

 

 

 

                                                                    

                                                                    


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta