Mál nr. 221/2016
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 221/2016
Fimmtudaginn 18. ágúst 2016
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.
Með kæru, móttekinni þann 13. júní 2016, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 22. september 2015, um innheimtu ofgreiddra bóta að fjárhæð 170.560 kr. með 15% álagi.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með innheimtubréfi, dags. 22. september 2015, var kæranda tilkynnt um að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hjá Vinnumálastofnun hafi hún fengið ofgreiddar bætur fyrir tímabilið 1. apríl 2013 til 31. október 2013. Í bréfinu var þess farið á leit við kæranda að skuldin, samtals að fjárhæð 170.560 kr. með 15% álagi, yrði greidd innan 90 daga. Þá segir að berist greiðsla á framangreindri skuld ekki innan 90 daga frá dagsetningu bréfsins verði málið sent til Innheimtumiðstöðvarinnar á Blönduósi til frekari innheimtu.
Kærandi hafði samband við Vinnumálastofnun með símtali þann 9. október 2015 og fékk skýringar á ákvörðun stofnunarinnar. Þá óskaði dóttir kæranda eftir nánari upplýsingum um ákvörðunina með tölvupósti þann 27. október 2015. Henni var sendur rökstuðningur fyrir ákvörðun stofnunarinnar með tölvupósti þann 2. nóvember 2015. Þann 3. mars 2016 var krafan send til Sýslumannsins á B til frekari innheimtu. Með bréfi, dags. 23. maí 2015, ítrekaði Sýslumaðurinn á B innheimtu greiðslna vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 13. júní 2015. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 21. júní 2016, var kæranda tilkynnt um að kæra hefði borist að liðnum kærufresti og var henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum, teldi hún að skilyrði sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gætu átt við í máli hennar. Skýringar bárust frá kæranda með bréfi, dags. 29. júní 2016.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru til úrskurðarnefndar kemur fram að kærandi standi í þeirri trú að hún hafi ekki þegið bætur sem hún hafi ekki átt rétt á. Þá segir í skýringum kæranda að þar sem að hún hafi verið í þeirri góðu trú að hún ætti rétt á atvinnuleysisbótum eins og henni hafi verið sagt hjá Vinnumálastofnun þá hafi þetta bréf komið henni í opna skjöldu. Hún hafi látið dóttur sína fá bréfið sem hafi skrifað starfsmanni Vinnumálastofnunar tölvupóst. Hún hafi átt við mikið heilsuleysi að stríða og það að hafa þetta yfir höfði sér færi alveg með hana. Hún hafi heyrt í fréttunum að dómur hefði fallið í svona máli og að fólk ætti að athuga sinn gang. Henni finnist þetta alfarið vera mistök Vinnumálastofnunar og ekki vera henni að kenna.
III. Niðurstaða
Með kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála fylgdi ítrekun Sýslumannsins á B á innheimtum greiðslna vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta, dags. 23. maí 2016. Samkvæmt upplýsingum og gögnum frá Vinnumálastofnun er framangreind ítrekun byggð á ákvörðun stofnunarinnar um innheimtu ofgreiddra bóta samtals að fjárhæð 170.560 kr. með 15% álagi sem var kynnt kæranda með bréfi, dags. 22. september 2015. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að af kæru megi ráða að ágreiningur málsins lúti að því hvort kærandi hafi þegið atvinnuleysisbætur sem hún hafi ekki átt rétt til. Að mati nefndarinnar lýtur ágreiningurinn þannig að framangreindri ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 22. september 2015.
Samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal stjórnsýslukæra berast úrskurðarnefnd velferðarmála skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, nema á annan veg sé mælt í lögum sem hin kærða ákvörðun byggist á.
Samkvæmt gögnum málsins liðu rúmlega sjö mánuðir frá því að dóttur kæranda var sendur rökstuðningur fyrir ákvörðun Vinnumálastofnunar þann 2. nóvember 2015 þar til kæra barst úrskurðarnefndinni þann 13. júní 2016. Kærufrestur samkvæmt 5. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála var því liðinn þegar kæra barst nefndinni.
Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:
„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:
-
afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða
-
veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.
Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“
Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort fyrir hendi séu atriði sem hafa þýðingu við mat á því hvort afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.
Fyrir liggur að í hinni kærðu ákvörðun frá 22. september 2015 og í rökstuðningi Vinnumálastofnunar frá 2. nóvember 2015 var kæranda annars vegar og dóttur hennar hins vegar leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, nú úrskurðarnefnd velferðarmála, og um tímalengd kærufrests. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 21. júní 2016, var kæranda veittur kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum teldi hún að skilyrði sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga gætu átt við í máli hennar. Af skýringum kæranda má ráða að ástæða þess að kærandi kærði ákvörðun stofnunarinnar hafi verið sú að hún hafi heyrt í fréttunum að dómur hafi fallið í svona máli. Einnig kemur fram að hún hafi átt við mikið heilsuleysi að stríða en ekki verður ráðið af skýringunum að því verði um kennt að kæra hafi borist að liðnum kærufresti enda kemur fram, og liggur fyrir í gögnum málsins, að dóttir hennar hafi aðstoðað hana í samskiptum við Vinnumálastofnun.
Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að ekki sé afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr. Þá verður heldur ekki séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Með hliðsjón af framangreindu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 37/1993.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir