Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 2/2020 - Úrskurður

KÆRUNEFND HÚSAMÁLA

ÚRSKURÐUR

uppkveðinn 16. mars 2020

í máli nr. 2/2020

 

A

gegn

B

 

Kærunefndina skipa í þessu máli Auður Björg Jónsdóttir hæstaréttarlögmaður, Valtýr Sigurðsson hæstaréttarlögmaður og Eyþór Rafn Þórhallsson verkfræðingur. 

Aðilar málsins eru:

Sóknaraðili: A

Varnaraðili: B

Krafa sóknaraðila er að viðurkennt verði að varnaraðila beri að greiða kostnað vegna tjóns á parketi í hinni leigðu íbúð og sjálfsábyrgð að fjárhæð 145.000 kr. vegna tjóns í íbúðinni fyrir neðan.

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað.

Með rafrænni kæru, dags. 9. janúar 2020, beindi sóknaraðili til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við varnaraðila. Með bréfi kærunefndar, dags. 17. janúar 2020, var varnaraðila gefinn kostur á að tjá sig um efni kærunnar. Greinargerð varnaraðila, dags. 23. janúar 2020, barst kærunefnd sama dag. Kærunefnd sendi sóknaraðila greinargerð varnaraðila með bréfi, dags. 24. janúar 2020, til upplýsingar og var sóknaraðila veittur frestur til að koma að athugasemdum. Athugasemdir sóknaraðila bárust kærunefnd með tölvupósti, sendum 3. febrúar 2020, og voru þær sendar varnaraðila með bréfi kærunefndar, dags. 4. febrúar 2020. Frekari athugasemdir bárust ekki.

I. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Aðilar gerðu tímabundinn leigusamning frá 1. ágúst 2019 til 1. ágúst 2020, um leigu varnaraðila á íbúð sóknaraðila að C. Leigutíma lauk í nóvember 2019 samkvæmt samkomulagi aðila. Ágreiningur er um hver beri ábyrgð á tjóni sem varð á parketi í hinni leigðu íbúð á leigutíma vegna leka frá þvottavél varnaraðila.

II. Sjónarmið sóknaraðila

Sóknaraðili segir að 8. nóvember 2019 hafi þvottavél varnaraðila dottið niður af innréttingunni og slanga sem hafi verið tengd við hana farið úr henni. Vatn hafi lekið um alla íbúðina í þrjá klukkutíma áður en hann hafi komið heim. Lekið hafi í íbúðina fyrir neðan og tjón orðið þar. Hvorugur aðila hafi verið tryggður fyrir þessu tjóni.

Varnaraðili hafi sagt að þvottavélin væri gömul og hefði verið að færast til áður. Hann hafi þá verið heima og getað lagað það með því að setja inniskó undir hana til að jafna hana þar sem þetta hafi verið það gömul vél að fæturnir hafi ekki virkað. Einnig hafi hann sagt að reimin í þvottavélinni hefði slitnað og þannig hefði hún verið á meiri hreyfingu. Mörg vitni geti staðfest að hann hafi sagt þetta.

Varnaraðili hafi kennt innréttingunni um atvikið þar sem það sé 1 cm halli á henni. Slíkur halli sé þó á öllum þvottavélainnréttingum til þess að koma í veg fyrir að vatn safnist þar sem rafmagn sé og það leki niður, þess vegna séu fætur á þvottavélum til að stilla þær.

Íbúðin sé ný og varnaraðili sá eini sem hafi búið í henni. Sóknaraðili hafi þurft að rífa allt parketið upp og leggja nýtt. Einnig hafi þurft að mála íbúðina. Hún hafi fengið verktaka til að leggja nýtt parket en íbúðin sé þó ekki komin í sitt upprunalega ástand og innréttingar og hurðarkarmar séu illa farnir.

Í leigusamningi segi að varnaraðili verði að skila íbúðinni í sama ástandi og við upphaf leigutíma. Hann hafi ekki gert það. Sóknaraðili hafi þurft að greiða sjálfsábyrgð vegna íbúðarinnar fyrir neðan að fjárhæð 145.000 kr. sem varnaraðili ætti að greiða.

III. Sjónarmið varnaraðila

Varnaraðili segir að hann hefði ekki getað fengið húseigndatryggingu, þar sem hann sé ekki eigandi íbúðarinnar. Þess vegna þyki honum erfitt að sætta sig við að þurfa að greiða kostnað vegna þess.

Íbúð í fjölbýli sem sé í útleigu ætti að vera með húseigendatryggingu en það hafi ekki verið raunin. Þar að auki hafi verið galli í þeirri innréttingu sem hafi verið sett upp fyrir þvottavélina en hún hafi verið með halla sem hafi fengið þvottavélina til að dansa fram af með umræddum afleiðingum.

Þá hafi varnaraðili verið vitni að því þegar faðir sóknaraðila hafi boðist til að þurrka parketið og undirlagið sem hafi blotnað í upphitaðri skemmu til að minnka tjónið en þá hafi þau sagt að þetta yrði greitt af tryggingum. Þetta hafi einnig komið fyrir áður í sömu íbúð rétt áður en þau hafi fengið hana afhenda.

IV. Athugasemdir sóknaraðila

Í athugasemdum sóknaraðila segir að það hafi ekki verið neinn galli í innréttingunni. Hún hafi rætt við marga smiði og spurt út í það og alltaf fengið sama svarið, þ.e. að innréttingin ætti að halla um 1 cm.

Þar sem þetta hafi verið þvottavél varnaraðila hafi hann átt að vera tryggður fyrir þessu.

Það séu um sjö vitni að því þegar varnaraðili hafi sagt að hann hafi einu sinni áður séð að þvottavélin væri að detta en hann rétt náð að bjarga henni. Hann hafi þá sett inniskó undir til að reyna gera hana stöðuga en það ekki virkað.

Sóknaraðili sé ekki með húseigendatryggingu en það sé ekki skylda. Engu máli skipti hvað faðir hennar hafi sagt en hann hafi einungis haldið að hún væri tryggð.

Lekinn sem hafi komið upp við byggingu íbúðarinnar sé ótengt þessu máli, þá hafi verið gerð misök í leiðslu og það verið lagað.

Í leigusamningi segi að það eigi að láta eigendur vita finni leigjandi að eitthvað sé að íbúðinni eða í ólagi. Varnaraðili hafi haft nægan tíma til að segja sóknaraðila að það væri galli í innréttingunni en hann aldrei á það minnst.

 

V. Niðurstaða              

Deilt er um hvorum aðila beri að greiða kostnað vegna tjóns sem varð á leigutíma á hinni leigðu íbúð og sjálfsábyrgð eiganda íbúðar neðri hæðar vegna tjóns sem varð við það að þvottavél varnaraðila féll úr innréttingu með þeim afleiðingum að frá henni lak vatn.

Í 4. mgr. 19. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, segir að tjón á hinu leigða, sem sé bótaskylt samkvæmt skilmálum venjulegrar húseigendatryggingar, þar á meðal sjálfsábyrgð vátryggingartaka samkvæmt skilmálum tryggingarinnar, skuli leigusali ætíð bera sé um íbúðarhúsnæði að ræða. Fyrir liggur að sóknaraðili var ekki með húseigendatryggingu á leigutíma.

Kærunefnd telur að þar sem um sé að ræða tjón sem sé bótaskylt samkvæmt skilmálum venjulegrar húseigendatryggingar breyti engu samkvæmt skýru orðalagi 4. mgr. 19. gr. laganna hvort sóknaraðili var með slíka tryggingu eða ekki. Kröfu sóknaraðila um að varnaraðila beri að greiða kostnað vegna tjónsins er því hafnað.

Ákvæði 5. mgr. 85. gr. húsaleigulaga, sbr. lög nr. 63/2016, kveður á um að úrskurðir kærunefndar séu bindandi gagnvart málsaðilum og sæti ekki kæru til æðra stjórnvalds. Málsaðilum er heimilt að bera úrskurði nefndarinnar undir dómstóla innan átta vikna frá því að úrskurður var kveðinn upp og frestast þá réttaráhrif hans uns dómur fellur.

ÚRSKURÐARORÐ:

Kröfu sóknaraðila er hafnað.

 

f.h. kærunefndar húsamála

 

Valtýr Sigurðsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta