Hoppa yfir valmynd

Nr. 562/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 5. desember 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 562/2019

í stjórnsýslumálum nr. KNU19090047 og KNU19090046

 

Kæra […],

[…]

og barns þeirra

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 23. september 2019 kærðu einstaklingar er kveðast heita […], vera fædd […] og vera ríkisborgari Írans (hér eftir K) og […], vera fæddur […] og vera ríkisborgari Írans (hér eftir M) ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 9. september 2019, um að taka ekki til efnismeðferðar umsóknir kærenda og barns þeirra, […], fd. […], ríkisborgara Írans (hér eftir A), um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa þeim frá landinu.

Af greinargerð kærenda má ráða að þau krefjist þess að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka umsóknir kærenda um alþjóðlega vernd á Íslandi til efnislegrar meðferðar, í fyrsta lagi á grundvelli 42. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, sbr. 3. mgr. 36. gr. sömu laga, og í öðru lagi á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og bárust kærurnar fyrir lok kærufrests.

II.            Málsmeðferð

Kærendur lögðu fram umsóknir um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 5. mars 2019. Þar sem kærendur höfðu fengið vegabréfsáritun útgefna af portúgölskum stjórnvöldum var þann 13. mars 2019 send beiðni um viðtöku kærenda og umsókna þeirra um alþjóðlega vernd til yfirvalda í Portúgal, sbr. 2. eða 3. mgr. 12. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá portúgölskum yfirvöldum, dags. 2. maí 2019, samþykktu þau viðtöku kærenda á grundvelli 2. eða 3. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 9. september 2019 að taka ekki umsóknir kærenda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að þeim skyldi vísað frá landinu. Ákvarðanirnar voru birtar fyrir kærendum þann 10. september 2019 og kærðu þau ákvarðanirnar þann 23. september 2019 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kærenda barst kærunefnd 7. október 2019 ásamt fylgigögnum. Þá bárust viðbótargögn frá kærendum 30. október og 25. nóvember 2019.

Kærendur óskuðu eftir því í greinargerð að fá að koma fyrir nefndina og tjá sig um efni málsins. Taldi kærunefnd ekki ástæðu til að gefa kærendum kost á að koma fyrir nefndina, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga.

III.           Ákvarðanir Útlendingastofnunar

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kom fram að portúgölsk stjórnvöld bæru ábyrgð á meðferð umsókna kærenda um alþjóðlega vernd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Umsóknirnar yrðu því ekki teknar til efnismeðferðar, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kærenda til Portúgals ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá hefðu kærendur ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að þau fengju hér vernd eða að sérstakar ástæður væru fyrir hendi þannig að taka bæri umsóknir þeirra til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærendum var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldu þau flutt til Portúgals.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli barnsins A kom fram að það væri niðurstaða stofnunarinnar, með vísan til niðurstöðu í málum foreldra A að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, útlendingalaga og barnaverndarlaga nr. 80/2002, að hagsmunum A væri ekki stefnt í hættu með því að fylgja foreldrum sínum til Portúgals.

IV.          Málsástæður og rök kærenda

Í sameiginlegri greinargerð kærenda kemur fram að í viðtölum hjá Útlendingastofnun hafi þau greint frá ástæðum þess að þau hafi flúið heimaríki sitt. Kærendur hafi þá greint frá því að á meðan þau hafi verið stödd í Portúgal hafi þau komist að því að þeirra væri leitað í heimaríki af tilgreindum hernaðarlegum samtökum, og að farið hafi verið heim til foreldra M í því skyni að hafa uppi á þeim. Foreldrar M hafi greint frá því að þau væru í Portúgal og hafi handtökuskipun verið gefin út á hendur M. Þar sem auðveldlega sé hægt að hafa uppi á þeim í Portúgal og líf þeirra allra hafi verið í verulegri hættu þar í landi, hafi fjölskyldan farið til Íslands.

Krafa kærenda er í fyrsta lagi byggð á því að taka skuli mál þeirra til efnislegrar meðferðar á grundvelli 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. mgr. 36. gr. sömu laga þar sem kveðið sé á um reglu þjóðaréttar um non-refoulement. Kærendur byggja á því að þau standi frammi fyrir raunverulegri hættu á að verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Annars vegar beinlínis (e. direct refoulement) þar sem hætta sé á að þau verði fyrir slíkri meðferð í Portúgal og hins vegar óbeint (e. indirect refoulement) vegna væntanlegrar endursendingar þeirra frá Portúgal til heimaríkis. Kærendur byggja á því að ekki sé tækt að senda þau til Portúgals þar sem þar í landi sé kerfisbundinn galli á aðbúnaði og meðferð umsækjenda um alþjóðlega vernd. Þau hafi því ástæðuríkan ótta um að þar muni þau ekki hljóta þá alþjóðlegu vernd sem þau þurfi svo nauðsynlega á að halda, heldur verði þau endursend til heimaríkis. Þá er í greinargerð kærenda, með vísan til heimilda, fjallað með almennum hætti um hugtakið kerfisbundinn galli.

Í öðru lagi byggja kærendur kröfu sína um efnismeðferð á því að sérstakar ástæður séu fyrir hendi í máli kærenda og því beri að taka umsóknir þeirra til efnislegrar meðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í greinargerð kærenda kemur fram að í viðtölum hafi þau lýst andlegum vandamálum eða veikindum sem þau glími við. Þá er greint frá því að K og M hafi ástæðuríkan ótta um að vera send til Portúgals og þaðan til heimaríkis. Sá ótti hafi haft veruleg áhrif á andlega líðan K og M. Þá þjáist A af þunglyndi, hafi verið í sálfræðimeðferð og telji sig vera dreng en ekki stúlku. Þá kveði kærendur hinar sérstöku ástæður vera trúar- og pólitískar ofsóknir í heimaríki þeirra. Í greinargerð kærenda er greint frá því að fjöldi flóttamanna hafi margfaldast í Evrópu undanfarin ár og að kærendur telji því óumdeilanlegt að álagið á hæliskerfið í Portúgal sé gríðarlega mikið og að gæði málsmeðferðar og þeirrar þjónustu sem umsækjendur geti búist við þar í landi séu ekki góð. Telja kærendur ljóst að umsækjendur um alþjóðlega vernd verði endurtekið fyrir vanvirðandi og ómannúðlegri meðferð í Portúgal. Þá kemur fram að stjórnvöld í Evrópu, þ.e. í þeim löndum sem skilgreind hafi verið sem öruggt þriðja ríki, hafi verið gagnrýnd af Amnesty International og Mannréttindadómstól Evrópu fyrir að brjóta gegn ákvæði 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Vísi kærendur til tiltekinna dóma Mannréttindadómstóls Evrópu því til stuðnings.

Kærendur telji sig ótvírætt vera flóttamenn í skilningi A-liðar 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna þar sem þau hafi ástæðuríkan ótta um að verða tekin af lífi eða beitt pyndingum, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð ef þeim verði ekki veitt vernd hér á landi. Til stuðnings málatilbúnaði sínum vísa kærendur til tiltekinna úrskurða kærunefndar í sambærilegum málum.

V.            Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Réttarstaða barns kærenda

Í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 segir að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með það sem því sé fyrir bestu að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og að tekið sé tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni. Í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga kemur m.a. fram að sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra skuli það almennt viðurkennt að hagsmunum barns sé best borgið með því að tryggja fjölskylduna sem heild og rétt hennar til að vera saman.

Kærunefnd hefur farið yfir gögn málsins, þ. á m. viðtöl við K og M hjá Útlendingastofnun og önnur gögn. Það er mat nefndarinnar að allt bendi til þess að hagsmunum A sé best borgið með því að tryggja rétt fjölskyldunnar til að vera saman og að réttarstaða A verði ákvörðuð í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar. Barnið A er í fylgd foreldra sinna og verður því tekin afstaða til mála fjölskyldunnar í einum úrskurði.

Ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef krefja má annað ríki, sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram hér á landi eða í einhverju samningsríkjanna, um að taka við umsækjanda. Í samræmi við samning ráðs Evrópusambandsins og Íslands og Noregs um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna samþykkti Ísland áðurnefnda Dyflinnarreglugerð, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 1/2014.

Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Ábyrgð Portúgals á umsóknum kærenda er byggð á 2. eða 3. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar þar sem kærendur hafi fengið útgefna vegabréfsáritun af þarlendum stjórnvöldum. Samkvæmt framansögðu er heimilt að krefja portúgölsk stjórnvöld um að taka við kærendum, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Einstaklingsbundnar aðstæður kærenda

Samkvæmt gögnum málanna eru M og K hjón á […] og komu þau hingað til lands ásamt […] ára gömlu barni sínu, A. Í viðtölum hjá Útlendingastofnun lýsti M því m.a. að reynsla hans í heimaríki hafi haft neikvæð áhrif á andlega heilsu hans. Í gögnum um heilsufar M kemur fram að hann sé almennt heilbrigður maður. Í viðtölum hjá Útlendingastofnun kvaðst K m.a. vera stressuð og kvíðin. Í gögnum um heilsufar K kemur fram að hún sé með astma og hafi fengið ávísað viðeigandi lyfjum vegna þess hér á landi. Þá kemur fram að hún hafi tekið lyf við bakflæði og ristilkrömpum.

Í bréfi rituðu af sálfræðingi, dags. 29. október 2019, kemur fram að niðurstöður spurningalista, sem lagður var fyrir A, hafi sýnt alvarleg einkenni þunglyndis og væg einkenni kvíða og streitu. Þá kemur fram að A upplifi sig í röngum líkama, sé drengur en ekki stúlka. Fyrirhuguð séu áframhaldandi viðtöl til að fara yfir leiðir til að takast á við vanlíðan A, auk þess sem styðja þurfi A og foreldra A.

Það er mat kærunefndar að gögn málsins, þ. á m. viðtöl kærenda hjá Útlendingastofnun auk framlagðra gagna um heilsufar þeirra, beri ekki með sér að kærendur og barn þeirra hafi sérþarfir í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga sem taka þurfi tillit til við meðferð málsins.

Aðstæður í Portúgal

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd í Portúgal, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

  •       2018 Country Reports on Human Rights Practices – Portugal (United States Department of State, 13. mars 2019);
  •        Amnesty International Report 2017/18 – Portugal (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  •        Annual Review of the Human Rights Situation of Lesbian, Gay, Bisexual, Trans and Intersex People 2019 (ILGA Europe, 26. febrúar 2019);
  •        Asylum Information Database, Country Report: Portugal (European Council on Refugees and Exiles, 24. apríl 2019);
  •        ECRI Report on Portugal (fifth monitoring cycle) (European Commission against Racism and Intolerance, 2. október 2018);
  •         Freedom in the World 2019 – Portugal (Freedom House, 4. febrúar 2019);
  •        ILGA Portugal Report on implementation of the Recommendation CM/Rec(2010)5 of the Committee of Ministers of the Council of Europe on measures to combat discrimination on grounds of sexual orientation or gender identity (The International Lesbian, Gay, Bisexual, Trans and Intersex Association, 2018);
  •         National report submitted in accordance with paragraph 5 of the annex to Human Rights Council resolution 16/21 – Portugal (United Nations General Assembly. Human Rights Council, Working Group on the Universal Periodic Review, 4. mars 2019);
  •            Stjórnarskrá lýðveldisins Portúgal (aðgengileg á vefsíðu portúgalska þingsins, www.en.parlamento.pt/Parliament/index.html);
  •           Upplýsingar af vefgátt um evrópsk réttarkerfi (e. European e-Justice Portal): https://e-justice.europa.eu. og
  •            Upplýsingar af heimasíðu flóttamannaráðs Portúgal (p. Conselho Português para os Refugiados) (www.cpr.pt).

Í skýrslu Asylum Information Database kemur m.a. fram að portúgalska útlendingastofnunin (p. Serviço de Estrangeiros e Fronteiras) og eftir atvikum innanríkisráðuneyti Portúgals (p. Secretaria de Estado da Administração Interna) taki ákvarðanir varðandi umsóknir um alþjóðlega vernd í Portúgal. Sé umsókn synjað eiga umsækjendur þess kost að bera synjunina undir stjórnsýsludómstóla (p. Tribunal Administrativo de Círculo de Lisboa eða Tribunais Administrativos e Fiscais) og er þá hægt að áfrýja niðurstöðu þeirra til æðri stjórnsýsludómstóla (p. Tribunais Centrais Administrativos eða Supremo Tribunal Administrativo) í samræmi við gildandi reglur. Þá geta umsækjendur lagt fram viðbótarumsókn séu nýjar ástæður eða breyttar aðstæður fyrir hendi í málum þeirra. Portúgal er aðildarríki Evrópusambandsins og hefur innleitt tilskipanir 2013/32/ESB og 2013/33/ESB vegna málsmeðferðar og móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd. Portúgal er jafnframt aðildarríki Evrópuráðsins og hefur fullgilt mannréttindasáttmála Evrópu. Eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd þess kost að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun, skv. 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins, telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á alþjóðlegri vernd og brottvísun til heimaríkis hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða meðferð sem muni brjóta í bága við ákvæði mannréttindasáttmálans.

Sé umsókn metin tæk til meðferðar skal almennt taka ákvörðun um umsókn um alþjóðlega vernd á fyrsta stjórnsýslustigi innan sex mánaða samkvæmt portúgölskum lögum. Allir umsækjendur um alþjóðlega vernd sem sæta hefðbundinni málsmeðferð í Portúgal eiga rétt á viðtali á fyrsta stjórnsýslustigi á sínu móðurmáli eða öðru máli sem umsækjandinn skilur og njóta þeir túlkaþjónustu við málsmeðferðina. Samkvæmt Asylum Information Database hefur túlkaþjónusta við umsækjendur í viðtölum sætt gagnrýni, einkum þar sem oft á tíðum sé ekki um sérþjálfaða túlka að ræða auk þess sem erfitt hafi reynst að finna túlka á tilteknum sjaldgæfum tungumálum. Umsækjendur eiga jafnframt rétt á endurgjaldslausri lögfræðiaðstoð, bæði á fyrsta stjórnsýslustigi og á kærustigi. Þá bera framangreind gögn með sér að einstaklingar sem endursendir eru til Portúgals á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar hafi ekki átt í erfiðleikum með aðgang að hæliskerfi landsins á nýjan leik.

Í Portúgal eru móttökumiðstöðvar sem umsækjendur um alþjóðlega vernd geta fengið gistipláss í. Hins vegar er reyndin sú að flestir umsækjendur eru hýstir í leiguhúsnæði, á hóteli eða álíka stöðum. Þá kemur fram í framangreindum skýrslum að fjölskyldur séu almennt ekki aðskildar í Portúgal og fái úthlutað gistirými saman. Umsækjendur fái þá mánaðarlegar greiðslur til þess að standa undir kaupum á nauðsynjum, s.s. vegna fatakaupa, fæðis og samgangna. Þá kemur fram í framangreindum gögnum að börn umsækjenda um alþjóðlega vernd í Portúgal eigi sama rétt til opinberrar menntunar og portúgalskir ríkisborgarar og aðrir sem dvelja löglega í landinu. Þá kveða portúgölsk lög á um að skólar skuli m.a. veita slíkum börnum sérstaka námsaðstoð, einkum hvað varðar tungumálakunnáttu þeirra.

Í portúgölsku útlendingalögunum kemur fram að umsækjendum um alþjóðlega vernd þar í landi og fjölskyldum þeirra skuli tryggður fullnægjandi aðgangur að heilbrigðisþjónustu (p. Serviço Nacional de Saúde) og er það nánar útfært í reglum sem ráðherra setur. Þar kemur m.a. fram að réttur umsækjenda til heilbrigðisþjónustu gildir allt frá því að umsókn er lögð fram og þar til að lokaákvörðun hefur verið tekin í máli umsækjenda. Þá skulu umsækjendur eiga sama rétt til heilbrigðisþjónustu og portúgalskir ríkisborgarar og auk þess skal grunnheilbrigðisþjónusta, þ. á m. greiningar, lyf og önnur meðferð, vera þeim að kostnaðarlausu. Umsækjendur eiga þá jafnframt rétt á nauðsynlegri geðheilbrigðisþjónustu. Tungumálaerfiðleikar geti þó gert umsækjendum erfitt að sækja sér viðeigandi heilbrigðisþjónustu.

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins um mannréttindi í Portúgal á árinu 2018 kemur m.a. fram að í almennri löggjöf og stjórnarskrá Portúgals sé lagt bann við mismunun á grundvelli kynhneigðar og kynvitundar. Aðgerðaráætlun í málefnum hinsegin fólks var samþykkt árið 2018 og er henni m.a. ætlað að koma í veg fyrir mismunun vegna kynvitundar. Þá hafi síðan árið 2017 verið starfræktur hjálparsími um kynferðismál en þangað sé t.a.m. unnt að leita með spurningar um kynhneigð. Í ofangreindri skýrslu um innleiðingu tilmæla Evrópuþingsins og ráðsins (2010)5 um aðgerðir til að vinna gegn mismunun á grundvelli kynhneigðar og kynvitundar, kemur m.a. fram að frá samþykkt tilmælanna árið 2010 hafi þau verið innleidd að hluta í Portúgal. Þó sé þjóðfélagsumræðan í Portúgal enn nokkuð afturhaldssöm þegar komi að málefnum hinsegin fólks. Þá hafi ekki farið fram mat á áhrifum löggjafar um réttindi hinsegin fólks og yfirvöld safni ekki kerfisbundið gögnum um reynslu þess, þ. á m. um hatursglæpi. Á síðastliðnum árum hafa portúgölsk stjórnvöld gripið til ýmissa aðgerða, t.d. lagasetninga, í því skyni að vekja athygli á og koma í veg fyrir hvers kyns hatursorðræðu og mismunun. Í framangreindum gögnum kemur þá fram að löggæsluyfirvöld heyri undir ráðuneyti innanríkis- og dómsmála og að einstaklingar geti leitað til lögreglu óttist þeir að brotið sé á þeim.

Ákvæði 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 3. mgr. 36. gr. laganna kemur fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því ríki sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr. Við túlkun á inntaki 42. gr. laga um útlendinga telur kærunefnd jafnframt að líta verði til þess að ákvörðun aðildarríkis um brottvísun eða frávísun sem setur einstakling í raunverulega hættu á að verða fyrir pyndingum, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu er í andstöðu við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sbr. jafnframt 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944.

Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið byggt á því að sú meðferð sem einstaklingur á von á við brottvísun eða frávísun verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til að ákvörðunin verði talin brot á 3. gr. mannréttindasáttmálans. Horfa verði til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar auk stöðu einstaklings hverju sinni, svo sem kyns, aldurs og heilsufars. Við mat á umræddu alvarleikastigi hefur dómstóllinn jafnframt litið til annarra þátta, t.d. hvort einstaklingurinn er í viðkvæmri stöðu, sbr. t.d. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Khlaifia o.fl. gegn Ítalíu (nr. 16483/12) frá 15. desember 2016. Í því sambandi hefur dómstóllinn lagt ákveðna áherslu á að umsækjendur um alþjóðlega vernd tilheyri jaðarsettum og viðkvæmum þjóðfélagshóp sem þurfi sérstaka vernd, sbr. t.d. dóm í máli Tarakhel gegn Sviss (nr. 29217/12) frá 4. nóvember 2012. Þrátt fyrir það verði 3. gr. mannréttindasáttmálans ekki túlkuð á þann hátt að í greininni felist skylda aðildarríkja til að sjá umsækjendum um alþjóðlega vernd fyrir húsnæði eða fjárhagsaðstoð sem geri þeim kleift að viðhalda ákveðnum lífskjörum, sbr. dóm í máli M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi (nr. 30696/09) frá 21. janúar 2011.

Að mati kærunefndar eru einstaklingsbundnar aðstæður kærenda ekki slíkar að vegna stöðu þeirra sem umsækjendur um alþjóðlega vernd í Portúgal verði endursending þeirra þangað talin ómannúðleg eða vanvirðandi meðferð. Þá er ekki fallist á með kærendum að aðstæður þeirra þar feli í sér ofsóknir í skilningi flóttamannahugtaksins gagnvart kærendum. Með vísan til umfjöllunar um aðstæður og móttökuskilyrði umsækjenda um alþjóðlega vernd í Portúgal er það niðurstaða kærunefndar að synjun á efnismeðferð umsókna kærenda um alþjóðlega vernd leiði ekki til brots gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Að mati kærunefndar bera gögn málsins jafnframt með sér að í Portúgal sé veitt raunhæf vernd gegn því að einstaklingum sé vísað brott eða þeir endursendir til ríkja þar sem þeir eiga á hættu að verða fyrir ofsóknum eða þar sem lífi þeirra og frelsi er ógnað. Í því sambandi hefur kærunefnd einkum litið til þess að gögnin benda til þess að meðferð portúgalskra stjórnvalda á umsóknum um alþjóðlega vernd sé með þeim hætti að lagt sé einstaklingsbundið mat á aðstæður þeirra. Þá benda öll gögn til þess að kærendur hafi raunhæf úrræði í Portúgal, bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. jafnframt 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem tryggja að þau verði ekki send áfram til annars ríkis þar sem líf þeirra eða frelsi kann að vera í hættu, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.

Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Í 32. gr. a og 32. gr. b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sbr. 4. mgr. 36. gr. laganna, koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því. Þá segir í 2. mgr. 36. gr. laganna að ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Aðstæðum K, M og barns þeirra hefur þegar verið lýst og telur kærunefnd að þær séu ekki þess eðlis að viðmið sem talin eru upp í dæmaskyni í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga eigi við í málinu. Í því sambandi hefur nefndin m.a. litið til þess að heilsufar kærenda sé ekki með þeim hætti að þau teljist glíma við mikil og alvarleg veikindi eða að aðstæður þeirra að því leyti séu svo einstaklingsbundnar og sérstakar að ekki verði framhjá þeim litið. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður og aðbúnað umsækjenda um alþjóðlega vernd í Portúgal verður ráðið að umsækjendur hafi aðgang að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu þar í landi, þ. á m. geðheilbrigðisþjónustu.

Þá telur kærunefnd að gögn málsins beri ekki með sér að kærendur muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar eða að þau geti af sömu ástæðu vænst þess að staða þeirra verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki. Þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér benda m.a. til þess að telji kærendur sér mismunað eða óttist þau um öryggi sitt að einhverju leyti geti þau leitað aðstoðar hjá þar til bærum stjórnvöldum.

Í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga koma jafnframt fram sérviðmið er varða börn og ungmenni. Þar segir m.a. að við mat á því hvort taka skuli umsókn til efnismeðferðar vegna sérstakra ástæðna skuli hagsmunir barnsins hafðir að leiðarljósi. Þá segir að við mat á hagsmunum barns skuli meðal annars líta til þess hvort flutningur til viðtökuríkis hafi í för með sér hættu á að fjölskyldan aðskiljist eða muni aðskiljast. Sem fyrr segir eru fjölskyldur sem leggja fram umsókn um alþjóðlega vernd í Portúgal almennt vistaðar saman. Þá verður ráðið af ofangreindum gögnum að leyst sé úr umsóknum þeirra m.t.t. meginreglunnar um einingu fjölskyldunnar. Að öðru leyti og með vísan til niðurstöðu í málum kærenda, umfjöllunar um aðstæður barna sem sækja um alþjóðlega vernd í Portúgal og um aðstæður hinsegin fólks þar í landi er það mat kærunefndar að flutningur fjölskyldunnar til Portúgals samrýmist hagsmunum barnsins þegar litið er m.a. til öryggis þess, velferðar og félagslegs þroska, sbr. 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga.

Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn barns kærenda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda það til Portúgals með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga enda er það niðurstaða nefndarinnar að það sé ekki andstætt réttindum barns kærenda að umsókn þess verði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi.

Það er jafnframt mat kærunefndar að málsástæður kærenda að öðru leyti verði ekki taldar til sérstakra ástæðna í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Vegna tilvísunar í greinargerð kærenda til úrskurða kærunefndar í málum nr. 275/2018, 608/2017 og 609/2017 tekur kærunefnd fram að ekki sé hægt að jafna stöðu kærenda í þessu máli við stöðu kærenda í framangreindum úrskurðum enda ekki um sömu viðtökuríki að ræða og aðstæður þeirra hafi ekki verið sambærilegar að öðru því leyti sem hér er til skoðunar.

Að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kærenda er það mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál þeirra verði tekin til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. 

Kærendur kváðust í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 27. maí 2019 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málanna sem bendir til þess að þau hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi ekki við í málum kærenda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að þau sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi, en þau lögðu fram umsóknir sínar þann 5. mars 2019.

Frávísun

Kærendur komu hingað til lands þann 4. mars 2019. Þau sóttu um alþjóðlega vernd þann 5. mars 2019. Eins og að framan greinir hefur umsóknum þeirra um alþjóðlega vernd verið synjað um efnismeðferð og hafa þau því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga. Verður kærendum því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. gr. laganna, enda höfðu þau verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsókna þeirra hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærendur skulu flutt til Portúgals innan tilskilins frests nema ákveðið verði að fresta réttaráhrifum úrskurðar þessa að kröfu kærenda, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Í málum þessum hafa portúgölsk stjórnvöld fallist á að taka við kærendum og umsóknum þeirra um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsóknir kærenda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda þau til Portúgals með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru því staðfestar.

Athygli kærenda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

Kærendum er leiðbeint um að með úrskurði kærunefndar nr. 350/2019, dags. 28. ágúst 2019, ákvað nefndin að breyta framkvæmd varðandi afmörkun 12 mánaða tímabilsins sem vísað er til í 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Eins og fram kemur í úrskurðinum eru lok tímabilsins þegar fyrir liggur endanleg ákvörðun á stjórnsýslustigi vegna þess stjórnsýslumáls sem hófst með framlagningu umsóknar um alþjóðlega vernd. Þessi breytta stjórnsýsluframkvæmd leiðir til þess að þótt ekki komi til flutnings kærenda úr landi innan 12 mánaða frá upphafi málsins hefur það ekki þýðingu fyrir þann frest sem 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekur til.

 

 

Úrskurðarorð

 

Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru staðfestar.

The decisions of the Directorate of Immigration are affirmed.

 

Áslaug Magnúsdóttir

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                                                       Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta