Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 694/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 694/2021

Fimmtudaginn 31. mars 2022

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 27. desember 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 3. ágúst 2020 og var umsóknin samþykkt 3. september 2020. Kærandi fékk greiddar atvinnuleysisbætur til X október 2021 en þann dag varð hún 70 ára.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 27. desember 2021. Með bréfi, dags. 4. janúar 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 11. febrúar 2022 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 15. febrúar 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að Vinnumálastofnun hafi hætt að greiða henni áunnar atvinnuleysisbætur án þess að láta hana formlega vita af því og þvert á ákvörðun stofnunarinnar frá 3. september 2020. Með því hafi Vinnumálastofnun brotið lög og stjórnarskrá. Stofnunin hafi ekki tilkynnt henni að til stæði að skerða framfærslu hennar við 70 ára aldur eins og henni beri að gera að, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þann 3. september 2020 hafi kæranda verið tilkynnt um 30 mánaða bótarétt líkt og lög geri ráð fyrir. Hins vegar hafi stofnunin ekki tilkynnt að til stæði að skerða þann rétt. Að mati kæranda hafi ekki verið gætt jafnræðis, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga, þar sem innheimt hafi verið tryggingagjald af launum hennar sem hafi verið grundvöllur bótaréttar hennar. Kærandi hafi ekki fengið tækifæri til að nýta þann rétt eins og aðrir til fulls eða þar til nýtt starf fyndist. Þá hafi Vinnumálastofnun ekki veitt henni andmælarétt eins og komi fram í 13. gr. stjórnsýslulaga. Enn fremur ákveði Vinnumálastofnun að skerða áunnar atvinnuleysisbætur á grundvelli þess að kærandi hafi náð tilsettum aldri en það sé í andstöðu við jafnræðisreglu 65 gr. stjórnarskrárinnar.

Kærandi fari því fram á að fá greiðslur áunninna atvinnuleysisbóta, ásamt dráttarvöxtum, sökum ólögmætrar stöðvunar á greiðslum líkt og fram komi í ákvörðun stofnunarinnar, dags. 3. september 2020, varðandi rétt hennar til atvinnuleysisbóta.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslur atvinnuleysistrygginga með umsókn, dags. 3. ágúst 2020. Með erindi, dags. 3. september 2020, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hennar væri samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 100%. Þann X október 2021 hafi kærandi orðið 70 ára. Með greiðsluseðli, útgefnum 29. október 2021, hafi kæranda verið tjáð að hún fengi aðeins greiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið X til X október 2021. Engin ástæða hafi verið tilgreind á greiðsluseðlinum og þá hafi engin tilkynning verið send til kæranda um ástæðu þess að greiðslur til hennar hefðu verið skertar með þessum hætti.

Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála komi fram að kærandi telji að Vinnumálastofnun hafi gerst brotleg við bæði lög og stjórnarskrá. Kærandi vísi til leiðbeiningarskyldu stjórnvalda, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og að hún hafi ekki fengið tilkynningu frá stofnuninni þess efnis að greiðslur til hennar kæmu til með að skerðast. Þá vísi kærandi til 13. gr. stjórnsýslulaga þar sem hún hafi ekki fengið tækifæri til að koma að andmælum. Að lokum telji kærandi að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt hennar til greiðslu atvinnuleysistrygginga vegna þess að hún hafi náð 70 ára aldri standast ekki jafnræðisreglu stjórnsýslulaga, sbr. 11. gr., og jafnræðisreglu stjórnarskrár, sbr. 65. gr. Kærandi fari fram á að ákvörðun Vinnumálastofnunar verði felld úr gildi og að henni verði greiddar áunnar atvinnuleysistryggingar ásamt dráttarvöxtum.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Í 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Í b-lið 1. mgr. 13. gr. segi að launamaður teljist tryggður samkvæmt lögunum ef hann sé orðinn 18 ára að aldri en yngri en 70 ára. Í lögum um atvinnuleysistryggingar sé engin heimild til að víkja frá framangreindum aldursskilyrðum og því sé um fortakslaust skilyrði að ræða. Eins og áður hafi verið rakið hafi kærandi náð 70 ára aldri þann X október 2021. Frá og með X október hafi kærandi því ekki uppfyllt framangreint skilyrði.

Kærandi vísi til þess að henni hafi ekki verið veittur andmælaréttur, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, áður en Vinnumálastofnun hafi tekið ákvörðun um að fella niður rétt hennar til atvinnuleysistrygginga. Í 13. gr. stjórnsýslulaga segir að aðili máls skuli eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvöld taki ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni, eða slíkt sé augljóslega óþarft. Skilyrði b-liðar 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé hlutlægt, þ.e. Vinnumálastofnun framkvæmi ekki huglægt mat á umræddu skilyrði. Það sé mat Vinnumálastofnunar að það hafi verið augljóslega óþarft að veita kæranda andmælarétt, enda gætu engin gögn né afstaða kæranda breytt þeirri staðreynd að hún hafi náð 70 ára aldri þann X október 2021.

Þá greini kærandi frá því að henni hafi ekki verið tilkynnt um að til stæði að fella niður rétt hennar til atvinnuleysistrygginga. Engin sérstök tilkynning hafi verið send til kæranda þegar hún hafði náð 70 ára aldri en með greiðsluseðli, útgefnum 29. október 2021, hafi þó komið fram að kærandi fengi aðeins greiddar atvinnuleysistryggingar fyrir tímabilið X til X október. Vinnumálastofnun vísi þó í þessu samhengi til þess að við upphaf umsóknar sé öllum atvinnuleitendum vísað á upplýsingar um réttindi þeirra og skyldur á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Þar sé skýrlega fjallað um skilyrði b-liðar 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Forsenda þess að umsókn atvinnuleitanda um greiðslur atvinnuleysistrygginga verði samþykkt sé sú að viðkomandi hafi kynnt sér réttindi sín og skyldur. Það sé því mat Vinnumálastofnunar að kærandi geti ekki borið fyrir sig að henni hafi ekki verið kunnugt um að greiðslur atvinnuleysistrygginga til hennar kæmu til með að falla niður við 70 ára aldur.

Kærandi telji að málsmeðferð Vinnumálastofnunar hafi falið í sér brot gegn leiðbeiningarskyldu stjórnvalda, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga. Sú regla taki þó almennt til þeirra tilvika þegar einstaklingur leiti sjálfur eftir aðstoð eða upplýsingum en þó kunni að hvíla skyldur á stjórnvaldinu að veita leiðbeiningar að eigin frumkvæði. Ef stjórnvald verði þannig þess áskynja að aðili máls geri sér ekki grein fyrir réttindum sínum, hafi ekki skilað inn nauðsynlegum gögnum eða hafi að öðru leyti bersýnlega þörf fyrir leiðbeiningar beri stjórnvaldi að veita viðkomandi viðeigandi leiðbeiningar. Framangreind atriði eigi ekki við í máli kæranda að mati Vinnumálastofnunar og því þyki stofnuninni óljóst hvenær og í hvaða samhengi kærandi telji að stofnuninni hafi borið að veita henni leiðbeiningar, umfram það sem fyrr greini um almenn aldursskilyrði laganna.

Að lokum telji kærandi að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt hennar til atvinnuleysistrygginga standist ekki jafnræðisreglu stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og stjórnsýslulög nr. 37/1993. Að mati Vinnumálastofnunar sé stofnunin ekki bær til að meta hvort ákvæði laga um atvinnuleysistryggingar samræmist ákvæðum stjórnarskrár. Það falli ekki í hlut Vinnumálastofnunar að taka ákvörðun um það hvort lagareglur fari í bága við einstök ákvæði stjórnarskrárinnar. Samkvæmt fastmótaðri stjórnskipunarvenju verði að ætla löggjafanum og dómstólum úrlausn þess hvort lög samrýmist ákvæðum stjórnarskrárinnar.

Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi eigi ekki rétt til greiðslu atvinnuleysistrygginga frá og með X október 2021, enda uppfylli hún ekki skilyrði b-liðar 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda á þeirri forsendu að hún hefði náð 70 ára aldri.

Í 1. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um gildissvið laganna, en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Í 2. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt.

Í 1. mgr. 13. gr. laganna er fjallað um almenn skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögunum. Eitt að þeim skilyrðum er að vera orðinn 18 ára að aldri en yngri en 70 ára, sbr. b-lið 1. mgr. 13. gr. Óumdeilt er að kærandi varð 70 ára þann X október 2021 og var því ekki tryggð samkvæmt lögum nr. 54/2006 eftir þann tíma.

Kærandi hefur meðal annars gert athugasemd við að Vinnumálastofnun hafi ekki tilkynnt henni sérstaklega að greiðslur til hennar yrðu stöðvaðar. Þann 26. ágúst 2020 var kæranda tilkynnt að Vinnumálastofnun hefði móttekið umsókn hennar um atvinnuleysisbætur. Kærandi var beðin um að skoða frekari upplýsingar fyrir atvinnuleitendur um réttindi og skyldur á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Þar kemur fram undir liðnum „Hvað þarftu að vita“ að launþegar á aldrinum 18-70 ára með búsetu og lögheimili á Íslandi eigi rétt á atvinnuleysisbótum. Með vísan til þess telur úrskurðarnefndin að kærandi hafi mátt vita að hún fengi ekki greiddar atvinnuleysisbætur eftir 70 ára aldur.

Kærandi hefur einnig vísað til þess að hin kærða ákvörðun brjóti gegn jafnræðisreglu. Samkvæmt jafnræðisreglu 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 skulu allir vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Þá skulu stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti við úrlausn mála, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ljóst er að ákvæði b-liðar 13. gr. laga nr. 54/2006 á við um alla umsækjendur um atvinnuleysisbætur og því bendir ekkert til annars en að jafnræðis hafi verið gætt. Því er ekki fallist á að hin kærða ákvörðun feli í sér brot á jafnræði.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta